17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við þetta að bæta. Hæstv. ráðh. gaf nokkrar skýringar á fáeinum atriðum, en meginstefnumörkun og stefnuleysi frv. stendur jafnóhaggað eftir sem áður, nema þá að það hefur upplýstst enn betur af þeirri umr. sem hér hefur farið fram.

Það er ætlast til að hér séu afgreidd lög án þess að ákvarðanir séu teknar, að hv. þm. fari heim í sín kjördæmi með það veganesti, að málið hafi verið afgreitt án þess að afgreiðsla og ákvörðun hafi átt sér stað að því er mjög marga liði varðar.

Í annan stað hefur ekki komið neitt nýtt fram sem varðar t. d. þann þátt, sem ég gerði mjög að umtalsefni og reyndar aðrir fleiri hér, húsnæðismálin og það öngþveiti sem fram undan virðist vera að því er það varðar. En það stendur óhaggað, að hér er stefnt á feikilegar erlendar lántökur, langt umfram það sem nokkurn tíma hefur verið gert áður, ef valinn er raunhæfur mælikvarði á það og það sett í samband við aðrar þjóðhagsstærðir, hvort heldur er greiðslubyrði eða útflutningsframleiðslu eða heildarlán miðað við þjóðarframleiðslu eða nettólán, sem tekin eru, sem hlutfall af því sem lagt er í framkvæmdir í virkjunum, orkufrekum iðnaði og hitaveitu. Það var meira að segja svo, að ýmsir höfðu hér í umr. af því áhyggjur, að á því ári, sem nú er að líða, hefði reyndin verið sú, þegar innlend lánsfjáröflun brast, að auka erlendar lántökur og spurðu: Er það virkilega svo, að við eigum þetta enn á hættu? Þetta er eina spurningin af þeim meginspurningum, sem hér hafa verið bornar fram, sem hæstv. fjmrh. svaraði játandi. Hann tók það sérstaklega fram, að þegar brestur væri í innlendri fjáröflun, þá væri það svo, að það yrðu að koma erlendar lántökur.