17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir viðhorfum mínum til þessarar gjaldheimtu. Ég tel að hún sé að vissu leyti réttlætanleg, þó að ég teldi að enn réttara væri að fara þá leið, sem hv. þm. Magnús H. Magnússon hefur hér gert að umræðuefni, og það kæmi réttlátlegar niður.

En ég tel nauðsynlegt að í hvert skipti sem mál sem þetta ber hér á góma á Alþingi sé vakin athygli á hinum stóra vanda sem enn er óleystur að því er varðar jöfnun á orkuverði í landinu. Menn geta ekki endalaust vikið sér undan að leysa það vandamál.

Ég sagði hér við 1. umr. að líklega þyrfti að flytja alla hæstv. ráðh. út á land og láta þá búa þar og borga það sem landslýður úti á landsbyggðinni þarf að borga fyrir upphitun á sínum híbýlum. Og þó að það munaði kannske ekki miklu af ráðherralaunum þá sæju þeir að minnsta kosti hver munurinn væri. Ég ítreka það, að ekki verður undan því vikist lengur að hér sé gerð bót á. Ég vil því spyrja hæstv. iðnrh. hvort uppi séu einhverjar hugmyndir og þá hverjar og hvenær um að jafna þennan kostnaðarmun. Og ég ítreka það enn einu sinni, að enn hefur heill landshluti ekki gert samninga á vinnumarkaðinum vegna þess að engin vitneskja fæst um það, engin fyrirheit einu sinni frá hæstv. ríkisstj. um að hún ætli sér að gera eitthvað í því að jafna þennan mun. En það er ein af meginkröfum þessara samtaka beggja, bæði Alþýðusambands Vestfjarða og Vinnuveitendafélags Vestfjarða, að þarna verði tekið til hendinni. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. forsrh. hefði líka verið hér til að hægt væri að spyrja hann um þetta mál, því að viðræður voru við hann af hálfu Alþýðusambands Vestfjarða og Vinnuveitendafélags Vestfjarða einmitt um þennan þátt mála. Það hefði verið æskilegt að hæstv. forsrh. hefði verið hér við og greint okkur frá því, hvaða hugmyndir hann hefði eða hæstv. ríkisstj. um þetta mál. En fyrst svo er ekki og ljúki umr. án þess að hæstv. forsrh. komi hér, þá vil ég beina þessari fsp. til hæstv. iðnrh.: Eru uppi einhverjar hugmyndir um það, og hverjar og hvenær, að jafna eigi þennan óréttláta skatt sem íbúar hinna ýmsu landshluta verða að borga og eru nú að kikna undir.