17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. iðnn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli, meiri hlutanum fyrir stuðning við málið og minni hl. fyrir þann skilning sem hann sýnir, að málið fái hér afgreiðslu án þess að ganga gegn málinu. Þetta tel ég fulla ástæðu til að þakka.

Þetta mál er vel kunnugt af árlegri umræðu um það og ég ætla ekki að taka langan tíma til að ræða það frekar efnislega en gert hefur verið. En vegna fsp., sem hér hafa verið fram bornar, vil ég nefna tvennt: Í fyrsta lagi það, að á undanförnum árum hefur verið beitt öðrum aðferðum en verðjöfnunargjaldinu til þess að ná niður kostnaði hjá þeim fyrirtækjum tveimur sem verðjöfnunargjaldsins njóta og mest er á lagt varðandi félagslegar aðgerðir í sambandi við uppbyggingu raforkukerfis og dreifingu raforku. Þetta á sérstaklega við um Rafmagnsveitur ríkisins, sem hafa fengið samkv. fjárlögum á undanförnum árum bein framlög úr ríkissjóði, í fyrsta sinn á árinu 1979 6 millj. kr., á árinu 1980 10 millj. kr. og á árinu 1981 14.25 millj. kr. til að standa undir kostnaði við félagslegan þátt framkvæmda. Á árinu 1982 er fyrirhugað að yfirtaka lán sem nemur 7.75 millj. kr. vegna félagslegra framkvæmda á vegum fyrirtækisins. Er þetta þó til muna minna en ástæða væri talin til af stjórn fyrirtækisins og iðnrn., en kemur þó til móts við það sjónarmið, sem gert er ráð fyrir í stjórnarsamningi, að fylgja fram þeirri stefnu varðandi félagslegan þátt framkvæmda að þessu leyti.

Einnig hefur verið greitt fyrir því af hálfu ríkisvaldsins með tilstuðlan iðnrn. og fjmrn. að framlengja skuldabyrði Orkubús Vestfjarða vegna raforkuframkvæmda. Er það bæði skylt og nauðsynlegt, því að það fyrirtæki stendur undir verulega kostnaðarsömum þætti, sem er félagslegs eðlis og ekki skilar sér í markaði, nema þá með aldeilis óhóflegu orkuverði. Með samþykkt þessa frv. er í rauninni jafnað niður þeirri byrði, sem féll á raforkuiðnaðinn og raforkunotendur með olíukeyrslu á s. l. ári, og það sjónarmið viðurkennt sem þá voru gefin fyrirheit um.

Stuðning við þetta vil ég þakka.

Varðandi húshitunarþáttinn, sem hér hefur verið vikið að og hefur verið mikið ræddur í báðum deildum Alþingis að undanförnu, bæði í tengslum við þetta mál og í tengslum við sérstaka fsp. í Sþ. þar að lútandi, vísa ég til þess, sem þá kom fram hjá hæstv. viðskrh., að lögin um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, eða húshitunarkostnaðar eins og það mun heita, eru til endurskoðunar. Einn þáttur þeirra, þ. e. olíustyrkurinn eða niðurgreiðsla á olíu til húshitunar, hefur verið til meðferðar og er gengið út frá því, að hann verði hækkaður frá því sem verið hefur þannig að miðað við meðaltalstölur verði munurinn á rafhitunarkostnaði og kyndingarkostnaði með olíu ekki meiri en sem nemur 10%, sem olíukyndingarkostnaðurinn væri hærri. Ég geri ráð fyrir að ákvarðanir um þetta verði tilkynntar innan skamms. Ég hygg að allir hv. þm. séu á því, að ekki sé óeðlilegt að ákveðinn hvati sé til þess að breyta yfir á innienda orkugjafa, þannig að þarna sé ekki alveg farið í sömu mörk hvað snertir olíukyndinguna og rafhitunina.

En eins og ég hef oft vakið athygli á er þessi jöfnun á hitunarkostnaði ekki mjög einfalt mál viðfangs, vegna þess að það eru margir aðilar sem þarna eiga hluta að máli, þar sem eru sjálfstæðar hitaveitur sem gera sínar tillögur og taka sínar ákvarðanir, en þær eru vissulega háðar verðlagsákvörðunum stjórnvalda. Og það hefur verið orðið við hækkunarbeiðnum víða úti um landið. Hins vegar er vísitöluviðmiðunin einskorðuð við Hitaveitu Reykjavíkur, sem ég tal vera óeðlilega skipan og þátt í því, að verð á orku til húshitunar í Reykjavík og nágrenni, því svæði sem Hitaveita Reykjavíkur sér fyrir, er óeðlilega lágt að mati þeirra sem fyrir þeirri veitu standa. Ég tel að þarna þurfi að fást leiðrétting á til þess að leitast verði við að jafna þennan mun úr báðum áttum, ef svo má setja. Ég vek athygli á því, að það eru þó nokkrar hitaveitur í landinu, jarðvarmaveitur sem eru með sinn kostnað yfir rafhitunarverðinu og jafnvel yfir meðaltalskostnaði miðað við niðurgreidda olíu. Á þessu öllu þurfa menn að hafa gát. Ef menn eru að tala um að jafna út húshitunarkostnaðinn í landinu í heild held ég að það hljóti að vera til umhugsunar hvort ekki sé ástæða til að koma þar upp einu heildstæðu fyrirtæki sem fyrir slíku standi. Meðan við erum með þessi dreifðu fyrirtæki, sem vilja axla sína ábyrgð og vilja vera sjálfstæðir aðilar, hljótum við að ætla þeim ákveðið svigrúm til sjálfstæðra ákvarðana.

Ég tek undir það mjög eindregið að þarna þarf að nást árangur. Það er mjög langt frá því að náðst hafi fullnægjandi árangur í sambandi við húshitunarkostnað. Þar er um hróplegt misrétti að ræða milli manna eftir landshlutum. En hann er ekki eingöngu fólginn í mismunandi kostnaði við olíukyndingu og rafhitun. Einnig hitaveiturnar og ekki síst nýju veiturnar koma inn í það dæmi líka, og menn þurfa að gæta þess að draga ekki úr sókn að notkun innlendra orkugjafa í stað olíunnar.