17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af því sem hæstv. forsrh. sagði. Það er öllum ljóst að þetta er vandamál á fleiri svæðum en bara á Vestfjörðum. Ekki hefur mér dottið í hug og okkur Vestfirðingum að þetta mál yrði bara leyst fyrir okkur. En þetta er svo stórt vandamál að ekki verður horft fram hjá því að það verður að leysa.

Hæstv. forsrh. sagði að það kostaði mikla fjármuni úr ríkissjóði ef þetta ætti að gerast. Það er þegar innheimt gjald til ríkissjóðs sem var ætlað til þess að jafna þennan mun. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1982 eru 192 millj. sem voru á sínum tíma lagðar á í skattformi til þess að jafna þennan mun. Og ég er alveg handviss um það, að lægi fyrir yfirlýsing af hálfu hæstv. forsrh. eða iðnrh., ég tala nú ekki um ríkisstj. í heild, um að þessum fjármunum yrði varið til þess að jafna þennan orkuverðsmun á næsta ári, sem fólk er skattlagt fyrir, þá mundi það greiða mjög fyrir og létta miklum byrðum af þessu fólki. En slíka yfirlýsingu virðist ekki vera hægt að fá fram. Ég sé ekki betur, bæði af orðum hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh., en að ekkert liggi fyrir um það, hvort eitthvað verður gert í þessum málum eða þá hvenær. En það er þessi yfirlýsing sem verður að fást. Það er lágmarkskrafa hjá því fólki, sem er skattlagt til þess að jafna svona verðmismun, að þeir fjármunir, sem teknir eru með slíkri skattheimtu, séu notaðir til þess sem á að verja þeim til. Það er lágmarkskrafa.

Þó að ekki hafi fengist svör frá hæstv. forsrh. eða hæstv. iðnrh. að því er varðar þetta mál, þá eru fleiri mál hér í þinginu sem koma inn á þetta, snerta það, og það verður haldið áfram að knýja út svör eða yfirlýsingar frá hæstv. ráðh. um það, hvað þeir ætli sér að gera til þess að jafna þann geigvænlega mun sem hér er um að ræða.