17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

150. mál, tollskrá o.fl.

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er auðvitað laukrétt, sem stendur í þessu frv., að tollskráin, framleiðslugjaldið og raunar gjaldeyrispólitíkin í heild eru þannig byggð upp að það verkar sem verndartollar eða tollmúr fyrir erlendar iðnaðarvörur. Innflutt hús eru þar engin undantekning. Það er m. a. ástæðan fyrir því, hversu illa iðnaðurinn stendur. Á hinn bóginn er náttúrlega erfitt að sætta sig við það, þegar verið er að rétta hlut íslensks iðnaðar, að það verði að tekjulind fyrir ríkissjóð. Ég vil þess vegna biðja þá nefnd, sem fær þetta frv. til athugunar, að athuga hvort ekki sé unnt að verja því fé, sem inn kemur, til iðnþróunar þannig að þetta jöfnunargjald verði til eflingar íslenskum iðnaði. Vitaskuld er það erfiður kostur að sæta því að óskynsamleg og tilviljanakennd tollalöggjöf verði til að hækka húsnæðiskostnaðinn að óþörfu.

Ég vil enn fremur benda á það, að þótt að sumu leyti sé kannske sanngjarnt eða óhjákvæmilegt að innflutningsgjöld séu á þeim vörum, sem til húsbygginga eru, get ég ekki fallist á að tollalöggjöfin sé réttlát að öðru leyti. Ég vil taka handlaugar sem dæmi. Ég sé ekki að það sé óhjákvæmilegt að handlaugar í baðherbergi til dæmis séu með 80% tolli eða klósettskál á sama tíma og eldhúsvaskar eru tollfrjálsir. Ég get nefnt fleiri dæmi að þessu leyti. Ég get ekki séð að það sé nauðsynlegt t. d. að eldhúsviftur séu með háum tolli og verði til þess m. a. að gera samkeppnisstöðu Rafha-eldavéla erfiðari en ella. Það nægir að eldhúsviftur séu tengdar við eldavél með einni skrúfu til þess að þær séu tollfrjálsar. (Gripið fram í: Er það lausa skrúfan?) Ætli það sé ekki lausa skrúfan í Alþfl. Ef þær eru ekki tengdar með þessari skrúfu Alþfl. er á þeim 80% tollur.

Ég get nefnt fleiri dæmi af þessu tagi, sem öll sýna okkur hversu fáránleg tollalöggjöfin er. Á bls. 2 í athugasemdum við lagafrv. þetta er t. d. talað um að kranar og þess háttar séu með 35% tolli. Það er nú undir ýmsu komið, og oft eru kranar tollfrjálsir þó þess sé ekki getið hér. Hér er talað um að tengibúnaður sé með 35% tolli. Oft og tíðum eru þeir líka tollfrjálsir þó þess sé ekki getið hér. Hér er talað um að tengibúnaður sé með 35% tolli. Oft og tíðum er hann líka tollfrjáls þó þess sé ekki getið hér. Fleira af þessu tagi er í tollalöggjöf okkar. Ég vil þess vegna beina því til þeirrar nefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, hvort ekki sé rétt og nauðsynlegt að fara ofan í tollalöggjöfina í þessu samhengi og gera þá nauðsynlegar breytingar með það m. a. að markmiði að lækka byggingarkostnaðinn og koma til móts við húsbyggjendur.

Ég vil svo að síðustu aðeins geta þess, að það mátti skilja svo af ræðu hæstv. fjmrh. sem m. a. ísskápar og sjónvarpstæki væru tollfrjáls ef þau væru flutt inn í þessum tilbúnu húsum. (Fjmrh.: Það sagði ég ekki.) Ég sagði að það mætti skilja það. Það var gefið í skyn. Ég skal lesa það til þess að lýður megi heyra. En það er góður siður hjá þessari ríkisstj. að gefa eitt og annað í skyn til að fegra málflutning sinn. Með leyfi hæstv. forseta hljómar þetta svo:

„Ég vissi ekki af þessu fyrr en í sumar, að á það var bent að hafinn var mikill innflutningur húsa og að það tíðkaðist að flytja inn með húsunum ekki bara mikilvægar vörur, eins og eldhúsinnréttingar og hreinlætistæki, og að þetta væri meira eða minna tollfrjálst ef það kæmi eftir þeirri leiðinni, heldur væru jafnframt dæmi þess að fluttir væru inn ísskápar, þvottavélar, sjónvarpstæki, innbyggð sjónvarpstæki, og ýmsar aðrar vörur í tengslum við þessi hús.“

Þetta er orðrétt. Þetta er að gefa eitt og annað í skyn. — Hæstv. fjmrh. heldur áfram:

„Við í fjmrn. töldum okkur hafa fulla heimild til þess að fyrirskipa að sá hluti húsa, sem ekki væri múr- og naglfastur, eins og t. d. þvottavélar eða sjónvarpstæki, yrðu tollaður sér á parti —“ (Gripið fram í.) Ég sagði að hæstv. fjmrh. hefði gefið í skyn. Hann er greindur maður og gegn og fer ekki með rangt mál viljandi. — Hann heldur áfram, með leyfi hæstv. forseta.: „Þó að keypt væru þannig hús í heilu lagi, og sú framkvæmd hefur verið á þessu nú í seinni tíð. Á hinn bóginn er ljóst að þegar svona hús eru flutt inn er margt fleira sem skapar þennan tollamismun, eins og þær vörur sem ég áðan nefndi.“

Hann nefndi þessar vörur og talar þarna um tollamun. Ég vil einnig benda á að hann talar þarna um að þessi hús hafi verið flutt inn og þessi tæki hafi verið flutt inn tollfrjáls. Ég gekk úr skugga um þetta í dag með því að hringja í tollstjóraskrifstofuna. Það eru alveg hreinar línur um það, að hvað sem framkvæmdinni hefur liðið fyrst í stað er eftirlitið með þessum innfluttu húsum orðið miklu harðara en það var áður. Og þó svo að hafi verið að sjónvarpstæki eða ísskápar hafi fyrst í stað verið tollfrjáls, sem hæstv. fjmrh. gefur í skyn, á það ekki að geta verið lengur.

Kjarni þessa máls er auðvitað sá, að þarna er boðið upp á hús sem hönnuð eru og framleidd í miklum og stórum verksmiðjum erlendis, þarna hefur mikilli framleiðni verið komið við. Á hinn bóginn hefur mikið á það skort að framleiðni íslenskra fyrirtækja hafi verið eins og best verður á kosið og er margt sem veldur því. Í fyrsta lagi veldur því náttúrlega sú tilviljanakennda gjaldeyrispólitík, sem hefur gert framleiðni iðnfyrirtækja að engu í einu vetfangi, með því að hlaðið er upp gjaldeyristollmúr fyrir erlendar iðnaðarvörur. Þegar verðbólgan er hér þetta 50 og 60% á ári verður lítið úr framleiðniaukningu, sem er kannske 2 eða 3% á ári, þegar fjármagnskostnaðurinn er eins mikill og hann er hér á landi, þegar vaxtapólitíkin er tilviljanakennd, þegar verðlagspólitíkin fer eftir því, hvernig liggur á þeim í stjórnarráðinu, þegar fyrirtæki verða að safna skuldum eitt misserið og þá kannske að greiða þær niður hið næsta, þegar atvinnupólitíkin er í raun og veru engin í landinu, þá er eðlilegt að smátt og smátt fari að halla á atvinnureksturinn. Erfiðleikar okkar núna í iðnaðinum eru einmitt af þessu sprottnir, að iðnfyrirtækin hafa ekki getað gert áætlanir fram í tímann. Þess vegna tel ég að við þurfum að leggja miklu meira fé í iðnþróun en við höfum gert og eigum að hjálpa þessum fyrirtækjum til að komast úr þeirri lægð sem þau eru núna í. Einungis ef þannig verður unnið að málunum er hægt að una því, að sú leið verði farin, sem hér er lagt til, að hækka verð þessara húsa.

Auðvitað væri hitt miklu viðkunnanlegra og skemmtilegra, ef við gætum farið þá leið að jafna samkeppnisaðstöðuna með því að lækka byggingarkostnaðinn hér innanlands, því byggingarkostnaðurinn er orðinn svo mikill á íbúðum að ungt fólk er farið að veigra sér við því að leggja í húsbyggingar við samsvarandi eigna og tekjustöðu og fyrir nokkrum árum. Ef maður vill vera hreinskilinn verður að viðurkenna þá staðreynd, að það er eins og hvítt og svart kjör þessa fólks, sem hafði náð efnahagslegu sjálfstæði áður en hávaxtastefna var tekin upp, og kjör þess fólks, sem er að reyna að koma undir sig fótunum eftir að hávaxtastefna varð að veruleika.

Þetta vitum við öll. Þess vegna vona ég að hæstv. fjmrh. muni nota það sem eftir lifir vetrarins til að hraða þeirri endurskoðun sem fram fer á tollskrá og innflutningsgjöldum yfirleitt og þess megi vænta síðar á þinginu, að ný tollskrá verði lögð fram hér á Alþingi, þar sem fyrir það verði girt að innlendar framleiðsluvörur þurfi eða geti átt það á hættu að verða að borga háa tolla fyrir hluta af sínu hráefni. Þetta hefur viðgengist. Skýringin á því, að húsin eru tekin hér undan, er auðvitað sú, að þetta sker mest í augu af því að húsin eru dýrust. Á hinn bóginn er eldavél t. d., svo ég taki það dæmi, miklu ódýrari og eldhúsviftan er tollfrjáls undir vissum kringumstæðum og hefur, — ég get nefnt dæmi þess — í vissum tilvikum komið í veg fyrir að Rafha-eldavélar hafi fengið markað.

Ég veit, að hæstv. fjmrh. hefur á þessu fullan skilning, og skal ekki hafa þessi orð fleiri, en vil biðja þá nefnd, sem fær þetta til meðferðar, að athuga í fyrsta lagi, hvort ekki sé nauðsynlegt að gera breytingar á tollskrá í samhengi við þetta frv., og í öðru lagi hvort ekki sé ástæða til að leggja drög að því, að auknu fé verði varið til iðnþróunar hér á landi í tengslum við þessi gjöld.