17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1758 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

150. mál, tollskrá o.fl.

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð til að lengja þessar umr. ekki allt of mikið. Ég er hlynntur þessu frv. Ég tel efni þessa frv. gott og í rauninni alveg nauðsynlegt að fá frv. um þessi mál hér fram. Það er algerlega óviðunandi fyrir íslenskan iðnað að tollskrá geti á þann hátt, sem hér hefur komið fram, mismunað innlendum iðnaði og innfluttum. Það er algerlega óviðunandi að einstakir hlutar í slíkri heild sem þarna eru um að ræða, eins og heilum innfluttum húsum, geti komið þar inn tollfrjálsir, en gífurlega mikið tollaðir með vörugjaldi ef þeir eru fluttir inn sérstakir og innlendir húsaframleiðendur nota þá í sínum húsum og sinni vöru. Ég held þess vegna að það sé alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði hér í umr., að tollskráin er að þessu leyti ótrúlega vitlaus og það er enginn vafi á að hún verkar beinlínis sem tollvernd fyrir erlendan iðnað, fyrir innfluttar vörur. Þetta bendir til þess, að tollskráin þurfi víðar endurskoðunar við.

Ég vil sérstaklega taka það fram, að ég er hlynntur 4. málsgr. í 1. gr., þar sem tekið er fram að ráðh. sé heimilt að leggja jöfnunarálag á aðra innflutta vöruflokka, vegna þess að um er að ræða fleira en bara innflutt hús. Það má vel vera að þessi grein eða heimildarákvæði eigi að fela í sér samráð við viðskrn., en ég vil benda á að ýmsar iðnaðarvörur, sem fluttar eru inn, lúta sömu lögmálum og innflutt hús að þessu leyti. Ég vil sérstaklega benda á það, sem húsgagnaframleiðendur gera sér tíðrætt um að hjónarúm, sem seld eru með útvarpstæki eða — öðrum elektrónískum hlutum í, eru flutt inn með slíkum hlutum tollfrjálsum, en vilji inniendir aðilar keppa við slík húsgögn verða þeir að greiða há aðflutningsgjöld af slíkum hlutum ef þeir setja þá í sína framleiðslu.

En það, sem ég vildi segja, er að gott er að fá þetta frv. fram. Það er nauðsynlegt. Ég þakka fjmrh. hversu fljótt hann hefur brugðist við í þessu máli þegar ljóst var í hvert óefni stefndi hér. En þetta er ekki nóg. Það eru fleiri atriði sem þarna þurfa athugunar við en álagning þessa aðlögunargjalds. Ég vil í því sambandi alveg sérstaklega nefna gæðamat á innfluttum húsum. Við höfum heyrt iðnrh. lýsa því hér í þinginu, að ríkisstj. hafi samþ. að koma upp gæðamati á húsgögnum. Slíkt gæðamat tíðkast mjög í iðnríkjunum og mér er ekki grunlaust um að í mörgum löndum í kringum okkur sé slíkt gæðamat notað sem hömlur á innflutning eða nokkurs konar„ non-tariff barrier“. Það er a. m. k. alveg ljóst, að þau iðnfyrirtæki, sem hafa viljað flytja út innréttingar og húsgögn héðan, hafa margsinnis lent í því að vörur þeirra eru settar í gæðamat og síðan líða mánuðir ef ekki hálft ár eða lengri tími áður en nokkurt svar fæst. Þannig vernda löndin í kringum okkur sinn iðnað. Það er alveg nauðsynlegt líka fyrir okkur að koma upp slíku gæðamati þannig að innflutt séu ekki húsgögn og aðrar iðnaðarvörur sem eru af lakari gæðum en seljast í löndunum í kringum okkur.

Sérstaklega hefur þetta mikla þýðingu þegar um er að ræða innflutt hús, vegna þess að af ýmsum ástæðum þurfa byggingareglugerðir hjá okkur að vera nokkru strangari en í nágrannalöndunum. Ég vil nefna það alveg sérstaklega í þessu sambandi, að gæðamat á innfluttum húsum er beinlínis neytendavernd. Íslendingar þurfa að reikna með meiri vindstyrk en nágrannaþjóðirnar. Það þýðir það, að þak þarf að festa betur niður en gert er í löndunum í kringum okkur. Það þarf hér meiri festingar á húsunum niður á sökklana en aðrir hafa. Ef húsin eru flutt inn án þess að slíkt sé athugað getur af því hlotist mikið tjón og mikill skaði. Samhliða þessum mikla vindi, sem við höfum, og vindálagi getur fylgt mikið regn eða slagregn þannig að nánast rigni lárétt. Það þýðir aftur að allar samsetningar í þessum húsum þurfa að vera sérstaklega þéttar og öll vatnsvörn mjög góð. Það eru því miður allt of mörg dæmi um að einstaklingar hafi keypt hús af þessu tagi og lent síðan í gífurlegum lekavandamálum eftir á. Við þetta vil ég bæta sérstaklega því, að það er nokkuð séríslenskt fyrirbrigði þessi þurri fínkornaði íslenski snjór sem í fokvindi fýkur inn í allar smugur og leitar sérstaklega inn á þök þessara húsa. Snjógildrur þurfa því að vera mjög vel útfærðar og betur en í þessum framleiðslulöndum almennt til þess að ekki hljótist tjón af. Það er algengur galli í þessum innfluttu húsum að slíkur snjór fýkur við vissar veðuraðstæður inn á þökin og bráðnar þar og veldur síðan miklu tjóni í loftum. Við þetta bætist auðvitað það, að þegar hús með vatnshitakerfum eru flutt inn á hitaveitusvæði þurfa ofnar að vera stærri en eru í löndum í kringum okkur, þar sem einföld hitaveitukerfi eru, sérstaklega til að fá meiri kælingu á vatnið. Við höfum aðrar kröfur og yfirleitt strangari í rafmagnsmálum en löndin í kringum okkur og jafnframt erum við með lofthæð 2.45, sem er skylda hér á Íslandi, en sum Norðurlöndin samþykkja lofthæð 2.40. Þarna er því ýmislegt, sperrubil og fleira, sem þarf athugunar við.

Þegar innflutningur húsa er kominn á það stig sem hér er og hefur farið hraðvaxandi undanfarið er alveg ljóst að það er nauðsynlegt að komið sé upp neytendavernd, að komið sé upp gæðamati, þannig að þessi sérstöku álagsatriði vegna íslensks veðurfars þurfi einhverja samþykkt í landinu. Ég vil sérstaklega benda á þessi atriði, að það er ekki fullnægjandi að leggja á þetta gjald þó að nauðsynlegt sé. Þarna eru fleiri atriði sem þurfa að koma til og er nauðsynlegt að taka föstum tökum nú þegar.