17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

150. mál, tollskrá o.fl.

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna þeirrar athyglisverðu ræðu sem hv. síðasti ræðumaður var hér að flytja, hv. 12. þm. Reykv. Ég held að samkvæmt hans orðum komi í ljós að það sé ekki nema hálfsögð sagan með því frv. sem við erum að ræða hér. Ég vil heilshugar taka undir þau orð sem hann var að flytja okkur. Að öllum líkindum mundi slíkt eftirlit eiga heima hjá iðnrn. Ég vil leyfa mér að mælast til þess við hæstv. ráðh., sem voru fljótir til að leggja það frv. fram sem við erum að ræða hér nú. — Ég hef óljósan grun um að það sé jafnframt vegna þess að það eru nokkrar tekjur fyrir ríkissjóð samfara því að það verði samþ. og því hafi hæstv. fjmrh. brugðið svo skjótt við.

Hins vegar, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, skulum við líka hafa í huga vernd neytandans. Það, sem hér var bent á, er svo athyglisvert í sambandi við innflutning slíkra húsa að mér finnst næsta skylt fyrir hæstv. ráðh. að taka þær ábendingar til athugunar sem hér komu fram áðan.