17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason) [Frh.]:

Herra forseti. Eins og ég sagði í dag gerðust þeir atburðir hér í gær að tveir ráðh. töfðu mjög framgang þessa máls.: Í fyrsta lagi hæstv. fjmrh. sem lýsti því yfir að hér væri aðeins um einfalda ábyrgð að ræða hvað snertir lántöku verðjöfnunarsjóðsins þvert ofan í það sem áður hefur verið rætt um. Það skrýtna átti sér stað, að þegar fulltrúar frá Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins mættu að beiðni okkar á fund fjh.- og viðskn. í morgun kemur fram að tregða fjmrh. hefur legið fyrir í alllangan tíma. Fram var lögð þar orðsending frá Verðjöfnunarsjóði til fjmrh., sem er dagsett 8. des., en fjh.- og viðskn. þessarar deildar er ekki skýrt frá því, hvernig þessum málum er varið. Það er ekki fyrr en kreist er yfirlýsing út úr fjmrh. í gær af hv. 3. þm. Vestf., Sighvati Björgvinssyni, að þessi yfirlýsing kemur. Það er því sjáanlegt að eins og þessi grein er núna í frv., eins og það liggur hér fyrir við 2. umr., getur engan veginn gengið. Þegar brbl. voru gefin út var upphæð þessi óþekkt og því ekki hægt að gagnrýna þó að hún hafi ekki verið nefnd í brbl., en vitaskuld er hægt að breyta brbl. í meðferð Alþingis. Um alllangt skeið hefur legið fyrir að hér er um 42 millj. kr. að ræða. Því átti að koma upphæðinni að þegar í meðferð nefndarinnar. En það var ekki gert. Því er sú breyting eðlileg núna. Hins vegar er einnig að fengnum yfirlýsingum fjmrh. nauðsynlegt að þessari grein verði breytt eftir að hann lýsti því yfir að hér er eingöngu um einfalda ábyrgð að ræða. Þess vegna er nauðsyn að breyta því orðalagi í sjálfskuldarábyrgð. Verðjöfnunarsjóður mun ekki taka þetta lán nema hér sé um sjálfskuldarábyrgð að ræða.

Það er undarlegt að eftir því sem á undan er gengið í þessum efnum eru þessi loforð sett. Þó að við séum á öndverðum meiði í sambandi við afstöðu og afgreiðslu þessa frv. ættum við ekki að vera á öndverðum meiði við það, að ríkisstj. beri að standa við orð sín. Það er skuldbinding sem ríkisstjórnin sem ríkisstjórn hefur gefið aðilum í Verðlagsráði sjávarútvegsins þegar verð var ákveðið, að ríkissjóður ábyrgðist lán, og afstaða og atkv. fulltrúa seljenda í Verðlagsráði byggðust á þessu ótvíræða loforði ríkisstj. Þetta loforð kemur á borð Verðlagsráðsins frá oddamanni Verðlagsráðsins. Hann gefur þessa yfirlýsingu fyrir hönd sjútvrh., sem Verðlagsráð heyrir undir og er fyrst og fremst tengiliður á milli yfirnefndar og ríkisstj. þegar um deilur verður að ræða. Mér finnst hæstv. fjmrh. koma heldur betur í bakið á hæstv. sjútvrh., sem nú er kominn til landsins að nýju, — og ég nota tækifærið og býð hann hjartanlega velkominn til að ræða frekar um málefni sjávarútvegsins, — því að hann gefur þessa yfirlýsingu vafalaust eftir samþykkt ríkisstj. Fjmrh. er ekki eingöngu að koma í bakið á sjútvrh., hann kemur einnig í bakið á forsrh. Það er forsrh. sem mælir fyrir brbl. þegar þau koma til umr. í Ed. Það segir tvímælalaust í brbl., og er endurprentað í því frv. sem liggur fyrir Alþingi, að hér sé um ábyrgð ríkissjóðs að ræða. Þar með hefur verið gengið frá þessu. Þetta er skjalfest loforð til þeirra aðila sem á grundvelli þessa loforðs greiða atkv. með verðlagningunni á s. l. hausti. Við þetta ber auðvitað að standa. Alþingi verður að taka af allan vafa um hvernig verður farið með þetta í sambandi við framkvæmd málsins. Það er ekki nóg hér eftir að hafa þessa grein í heimildarformi til fjmrh., heldur verður að vera í henni bein fyrirskipun til hans að fjmrh. skal o. s. frv. og jafnframt að hér sé um sjálfskuldarábyrgð að ræða, en ekki einfalda ábyrgð.

Eins og fjmrh. sagði í gær telur hann að það komi aldrei til greiðslu frá hendi ríkisins nema að gera verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins gjaldþrota. Ég skil ekki þá hugsun, hvernig hann hugsar sé að gera Verðjöfnunarsjóðinn gjaldþrota. Ég held að Verðjöfnunarsjóður geti aldrei greitt meira en hann á inni. Hins vegar getur hann komið honum í svipaða stöðu. Hann getur orðið greiðsluþrota þannig að hann geti ekki greitt meira þegar hann á ekki meira til. Er það þá ætlun fjmrh. að þennan sjóð sem á að taka á sig sveiflur sem verða á mörkuðum fiskafurða, eigi að leika þannig að hann verði greiðsluþrota? Það er ekki fyrr en sjóðurinn í heild, allur Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins, er orðinn greiðsluþrota að fjmrh. ætlar fyrst að greiða það lán, þegar það er fallið á ríkissjóð. Þetta sér auðvitað hver heilvita maður að getur ekki gengið og á sér enga stoð. Það er furðulegt frumhlaup þessa hæstv. ráðh. í gær við þessa umr. Og það er mikið langlundargeð sem hæstv. sjútvrh. er gefið ef hann lætur bjóða sér þetta. Vitaskuld er það hrein fjarstæða. Ef breyting verður gerð á þessari grein, sem verður að gera, verður að setja hér inn sjálfskuldarábyrgð, en ekki ábyrgð ríkissjóðs nema þá að fjmrh. lýsi því yfir að hann muni líta svo á að hér sé um sjálfskuldarábyrgð að ræða, en geri ekki kröfu til að Verðjöfnunarsjóður í heild verði greiðsluþrota.

Hæstv. forsrh. hélt hér dæmalausa ræðu í gær og hún var eðlilega mikill fréttamatur, enda lítið sagt frá öðru, því það hefur sennilega ekki þótt fréttamatur í ríkisfjölmiðlum eða einkum í hljóðvarpi, en þessari vitlausustu ræðu sem nokkur forsrh. hefur flutt. Annað, sem rætt var, var ekki fréttamatur. Það er því helst vitleysan sem hefur eitthvað að segja í fréttamati hljóðvarpsins.

Hæstv. forsrh. sagði að ég hefði í rauninni gert tvær till. Önnur væri sú, að gengi ísl. kr. yrði stórlækkað, sem þýðir náttúrlega mjög aukna seðlaprentun, og í öðru lagi yrði seðlaprentunin flutt inn í landið um leið. Þetta voru sem sagt mínar tillögur.

Ég hef enga kröfu gert um gengislækkun og það gerir enginn kröfu um gengislækkun. Þegar gengislækkanir hafa átt sér stað í þessu landi hefur það yfirleitt verið eftir að gengi krónunnar hefur fallið. Þá hafa flestar ríkisstj. játað staðreyndir og skráð krónuna þá í bili — sjaldan hefur það nú staðið lengi — því verði sem hún á að vera í. Þetta gerði ég að umræðuefni og ég spyr nú hæstv. forsrh.: Hvers vegna lét ríkisstj. gengið síga, sem kallað er, sem er auðvitað nákvæmlega sama og láta gengið falla, allt árið 1980 og þá ekki minnst dagana milli jóla og nýárs? Þá var sagt að það væri nauðsynlegt vegna útflutningsatvinnuveganna, að gengið væri fellt með þessum hætti allt árið 1980 vegna þess að tilkostnaðurinn við framleiðsluna hér innanlands væri meiri en hækkun á verði á erlendum mörkuðum, og þá var gripið til þess að láta gengið siga og þá ekki minnst alveg fram á gamlársdag. Þá þótti þetta eðlilegt og gerði enginn maður kröfu til að þetta gengissig eða gengisfall yrði með þeim hætti, heldur sá ríkisstj. sína sæng uppreidda. Hún réð ekki við verðbólguna betur en það að gengið varð að síga eða falla til þess að útflutningsatvinnuvegirnir gætu gengið.

Þetta var það sem gerðist.

Svo er tekin upp ný stefna á gamlárskvöld, sem er hálfgert áramótaskaup og eiginlega það eina sem þessi stjórn hefur gert sem allir skynsamir og hugsandi menn hafa getað hlegið að. Það var áramótaskaupið sem forsrh. lék á gamlárskvöld í útvarpinu og kynnti þar efnahagsáætlun ríkisstj. Þar segir hann um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins að honum skuli útvegað fjármagn til að tryggja eðlilega afkomu fiskvinnslunnar ef þörf krefur vegna stöðvunar gengissigs.

Á hliðstæðan hátt, segir líka í þessari efnahagsáætlun, verður útvegað fjármagn til að tryggja afkomu samkeppnisiðnaðar og útflutningsiðnaðar. Þetta hefur verið svikið allt árið. Samkeppnisiðnaðurinn er rjúkandi rústir. Enginn stjórnarliði hafði tíma eða gaf sér tíma til að sitja ráðstefnu Félags ísl. iðnrekenda þar sem rædd voru vandamál iðnaðarins. Ráðh. brá sér úr bænum og hélt á Alþb.-fund austur á fjörðum. Enginn kom í hans stað. Enginn kom frá Framsfl. Að vísu kom formaður þingflokks Alþb. á þessa ráðstefnu, en stóð stutt við. Þar komu greinilega fram ískyggilegar horfur samkeppnisiðnaðarins, sem er spegilmynd af því sem hefur gerst, að kostnaðurinn við framleiðsluna hefur verið miklu meiri, m. ö. o. verðbólgan innanlands hefur verið margföld á við verð sem hægt er að sel ja þessar vörur á til viðskiptalanda. Ég hygg að þegar litið sé á samkeppnisiðnaðinn í heild sé staða hans jafnvel lakari en heildarstaða sjávarútvegsins, þó að einstakar greinar í sjávarútvegi standi mjög höllum fæti af þessum ástæðum.

Nú segja menn: Er ástæða til þess að vera að fella gengið? — Gengið hefur í för með sér hækkun á innfluttum vörum, það er alveg rétt. Það má því segja að ef stjórnin hefur aðrar lausnir eigi hún auðvitað að koma með þær. Hún hefur svo sem haft tímann til að koma með aðrar lausnir. Hún hefði getað komið með þá lausn að lækka útgjöld á atvinnuvegunum. Þá er kannske ástæðulaust að lækka gengið. En hvað hefur verið gert? Það, sem hefur verið gert, er að velflest atvinnufyrirtæki í útflutningi hafa verið rekin með miklum halla á þessu ári. — Er nú forsrh. horfinn? (HBl: Það fer lítið fyrir honum upp á síðkastið.) Ég var að koma að ræðu hans og þá dugir ekki að hásetarnir séu einir. (Gripið fram í.) Það er svona að vera umsetinn.

Ég veit ekki af hverju hæstv. forsrh. var svona reiður þegar hann kom í ræðustólinn í gær. Ég held sannast að segja að hann hafi verið reiðastur fjmrh. fyrir að hann skyldi leyfa sér að lítillækka forsrh. og sjútvrh. með þeim hætti sem fjmrh. gerði.

Forsrh. sneri reiði sinni fyrst og fremst að mér og var afskaplega reiður yfir því, að ég skyldi hafa minnst á vandamát iðnaðarins. Hann hefur aldrei heyrt að ég hefði nokkrar áhyggjur af neinu öðru í atvinnumálum en í sjávarútvegi. Ég hélt að það væri skylda þm. að víkka sjónarsvið sitt og fylgjast yfirleitt með öllum hræringum í þjóðfélaginu, líta á hvað væri að gerast og hvað nauðsynlegt væri að gera. Ég sé því enga ástæðu til þess fyrir hann að vera reiðan við mig út at þessu atriði. Ég held að þeir hafi ekki staðið sig svo vel, hvorki hann né Hjörleifur Guttormsson, hæstv. iðnrh., að það sé ekki þörf á að fleiri fari að huga að málefnum iðnaðarins en þessir tveir menn, miðað við þá lýsingu sem við heyrum af málefnum iðnaðarins. — Og svo var forsrh. reiður að hann segir orðrétt: „Þess vegna er það náttúrlega órökstuddar staðhæfingar þegar talað er á þann veg, eins og stundum er gert, að útgerðin sé á heljarþröm, og m. a. kemur náttúrlega sú fáviska fram í hæðnishlátri ritara þessarar deildar.“ — Meira að segja sérstakur vinur forsrh. fer í taugarnar á honum.

Ég sagði í ræðu minni í gær að ég teldi að hluti útgerðarinnar, hluti bátaflotans, hefði staðið sig nokkuð vel á þessu ári. Þá átti ég við vertíðarflotann og þó einkum hér sunnanlands. Forsrh. greip auðvitað þetta strá eins og hver annar drukknandi maður hefði gert. Það er gripið í það sem hægt er að grípa í. Þetta var það eina sem hann gat gripið í og breitt sig yfir. Ég endurtek það: Hluti bátaflotans hafði það fjárhagslega gott á þessu ári, en ekki vegna aðgerða ríkisstj., heldur fyrst og fremst vegna stórfelldrar aflaaukningar sem átti sér stað hjá þessum sama flota. Á því byggðist það. En þessi sami bátafloti hefur víðast hvar orðið að búa við miklu minni afla á undanförnum árum og oft á mörgum undanförnum árum og undanförnum áratug. Loksins þegar góð veiði á sér stað á svo að ganga út frá því sem vísu og það á að vera punkturinn sem skal ganga út frá þegar talað er um fiskveiðar almennt. Þetta sýnir hvílíkt óskaplegt rugl getur átt sér stað í kolli hæstv. forsrh.

Hann viðurkenndi að það væri ljóst að togararnir og náttúrlega sumir nýrri bátarnir, eins og hann sagði, sem hafa mikinn fjármagnskostnað, en fyrst og fremst nýrri togararnir, sem þurfa að greiða miklar fúlgur í vexti og afborganir, stynja undir þungum fjármagnskostnaði. — Og hann fann eina lausn í sambandi við fiskverð: að mismuna mönnum eftir því, hvernig skip væru gerð út til veiða, að fiskverðið þyrfti að hækka til sumra þessara skipa og áhafna þeirra, en ekki til annarra, og það færi líka eftir því, hvort sá fiskur, sem væri fiskaður, færi í herslu, salt eða frystingu. M. ö. o.: það gætu auðveldlega orðið 70–100 fiskverð í gangi upp úr áramótunum ef forsrh. Íslands ætti að ráða ferðinni. Það yrði gaman fyrir sjútvrh. að standa frammi fyrir sjómönnunum, sem fiska á ódýru bátana og hafa haft góða afkomu, og horfa aftur á hina, sem eru á skuldugu skipunum, sem mega fá mun hærra fyrir fiskinn, horfa svo aftur á fiskvinnslustöðvarnar eftir því: Ert þú að leggja upp í frystingu? Þá getur þú ekki fengið mikið því að frystingin stendur svo illa. Það verður að lækka fiskverðið til þín. En ef þú ert að leggja upp til herslu og selja til Nígeríu færðu miklu hærra fiskverð. — Það er vit í þessum körlum! Ef annað fer eftir því í þessu þjóðfélagi, er þá við öðru að búast en þjóðarskútan sé farin að hallast, að það sé farið að koma á dekkið?

Hugsa sér ógæfu þessarar þjóðar! Hugsa sér hvað menn hafa á samviskunni sem komu þessum skapnaði á og gerðu þennan skapnað að veruleika, núv. hæstv. ríkisstj., því að þeir ættu einhvern tíma að liggja andvaka um nætur þegar þeir hugsa misgerðir sínar fyrir tæpum tveimur árum.

Hvað segir sjútvrh. um þessa merku tillögu forsrh. síns um mismunandi fiskverð eftir bátum og vinnslu? Líst honum ekki vel á að framkvæma þetta og fá aðra til þess? Forsrh. sagði að hann væri búinn að tala við marga menn og undirbúa mjög fiskverðsbreytinguna. Ef það er nokkur maður í þessu landi sem ég öfunda ekki er það hæstv. sjútvrh.: að sitja í svona ríkisstjórn og undir þessu forsæti. Guð minn góður!

Hæstv. sjútvrh. skipaði á s. l. sumri nefnd til athugunar á rekstri skuttogara. Í þessari nefnd voru ágætir menn frá bæði rn., lánasjóðum og útgerðarmönnum. Þeir gerðu úttekt á reikningum 19 togara, unnum úr ársreikningum þeirra frá árinu 1980. Þegar við lítum á þessa 19 úrtakstogara verður ekki hægt að segja annað en að rekstur þeirra hafi verið erfiður á árinu 1980. Heildartap þessara 19 úrtakstogara á ávinu 1980 nam 52.5 millj. kr. eða sem samsvarar 4.6 millj. kr. á hvern togara. Í hlutfalli við tekjur nemur þetta 30.9% tapi til jafnaðar. Þetta er útkoman á togurunum samkvæmt þessari úttekt.

Í rekstraryfirlitum, sem fylgdu frá þessari nefnd, kemur fram að hagnaður hinna einstöku togara er mismunandi. Er einn togarinn t. a. m. rekinn með hagnaði á árinu 1980. Í því tilfelli var eigið fé, eigið framlag viðkomandi útgerðar, mjög verulegt eða um 50% af kaupverði skipsins og útgerð skipsins hafði verulegar vaxtatekjur af ógreiddu hráefni. Samkvæmt þessu úrtaki hefur verið „konverterað“ lánum af þessum skipum um 10 millj. og 200 þús. kr. í Fiskveiðasjóði og 4.8 millj. í Byggðasjóði. Í fskj. 2 með þessari úttekt segir um rekstraryfirlit úrtakstogaranna 19, að miðað við að afskrifað sé 7.5% af vátryggingarverðmæti í stað skattalegra afskrifta samræmist slíkt endurmat afskrifta útkomu Þjóðhagsstofnunar á afkomuútreikningum. Samkvæmt því er útkoman þessi: 30.9% tap til jafnaðar, en í krónutali er tapið 5 milljarðar 233 millj. 570 þús. kr. Þetta er staða nýrri hluta togara okkar, 19 að tölu — togara sem eru skrásettir á árunum 1977 — 1980. Það er því risavaxið dæmi sem þarna á sér stað. Sama er að segja auðvitað um öll önnur skip sem eru nýleg, eru með áhvílandi miklar skuldir, þar með talin skip í loðnuflotanum.

Þegar forsrh. greip hálmstráið í ræðu minni í gær talaði hann jafnan um allan bátaflotann, en loðnuflotinn er allstór hluti af bátaflotanum eða liðlega 50 skip. Sá floti er rekinn með miklum halla vegna þess að grundvellinum hefur verið kippt undan þeirri útgerð vegna þeirra aðgerða sem hefur orðið að beita í sambandi við takmörkun veiða. Þessi skip verða því að fara á aðrar veiðar í ríkara mæli en áður, en það fullyrði ég að þar er um geigvænlegan taprekstur að ræða þegar við lítum á þau í heild.

Ég vil líka vekja athygli á því, að bátaflotinn, togaraflotinn og loðnuflotinn eru með gífurlegar lausaskuldir í sínum rekstri. Þegar vitnað er til útreikninga Þjóðhagsstofnunar, eins og forsrh. gerði, finnst mér að það beri vott um mikinn ókunnugleika og óvitaskap, nema það sé viljandi gert að vera að blekkja menn, að þessir útreikningar eru framreikningar frá árinu 1979. Það eru framreiknaðar tekjur, það eru framreiknuð gjöld, það er ekkert tillit tekið til taprekstrar sem orðið hefur á því tímabili, frá því að þessir útreikningar eiga sér stað. Vextir og dráttarvextir af því tapi eru hvergi teknir með.

Hér er ekki nema hálfsögð sagan frá hendi forsrh., þegar hann vitnar í þessa útreikninga Þjóðhagsstofnunar. Ég er ekki að gagnrýna Þjóðhagsstofnun út af fyrir sig, en þessi aðferð er ekki einhlít og það veit ég að hæstv. sjútvrh. skilur og viðurkennir. Það er langt frá því að hún sé einhlít. Það eru ekki litlar skuldir sem hvíla á útgerðinni og kaldar eru þær kveðjur sem útgerðin fær nú frá hverjum ráðh. á fætur öðrum, fyrst hæstv. félmrh., en síðan forsrh., að hún þurfi eiginlega ekki á neinum hækkunum að halda, og annar telur að eigi að leggja niður olíugjaldið og stofnfjársjóðinn. Forsrh. skellti sér auðvitað strax upp að hliðinni á félmrh. og tók mjög undir að það væri mjög til athugunar að breyta þessu formi. Ég er ekki á þeirri skoðun, að þetta svokallaða olíugjald eigi að vera um alla framtíð, og ef ríkisstj. vill benda á aðrar tekjur til útgerðarinnar er mér þetta olíugjald ekkert heilagt. En að ætla að svipta útgerðina olíugjaldinu og stofnfjársjóðsgjaldinu er um leið að kippa grundvellinum undan rekstri útgerðarinnar almennt. Þetta vita allir menn. Og hvað hefur svo gerst núna að undanförnu? Hvernig ætlar ríkisstj. að sannfæra sjómenn og útgerðarmenn? Síðast þegar olíugjaldinu var breytt á valdatíma hennar var það þrefaldað frá því sem áður var. Það var hækkað úr 2.5% í 7.5%. Frá því að þessi aðgerð er gerð hefur olían hækkað um 60%, en fiskverð um 42% — og ætla svo menn að koma og segja okkur alþm., við útgerðarmenn og sjómenn að við þessar breytingar einar hafi opnast möguleiki á að afnema olíugjaldið með öllu? Ég spyr: Hvers konar menn stjórna þessu landi? Geta þessir menn hugsað fyrir sjálfa sig? Það efast ég um, hvað þá heldur fyrir alla þjóðina. Ég trúi því ekki að sjútvrh. taki undir þessa vitleysu. En þetta bauð forsrh. okkur þm. upp á að hlusta í gær.

Það væri rétt að koma aðeins inn á fiskvinnsluna. Fiskvinnslan er á heljarþröm. Það er verið að gera ráðstafanir. Það er verið að segja hvað allt sé gott og slétt og fellt, eins og forsrh. sagði í stefnuræðu sinni fyrir ekki tveimur mánuðum, 22. okt. 1981. Þá lýsir hann afkomunni í fiskvinnslunni og hann lýsir henni með þessum orðum: „Verkun saltfisks og skreiðar er rekin með verulegum hagnaði. Afkoma frystingar er lakari“. — Ég hygg að það megi leita lengi að öðrum eins snillingi í blekkingum, að geta komið yfirliti og horfum í aðalatvinnuvegi okkar landsmanna fyrir í jafnfáum orðum og ljúga engu, en segja samt ekki neitt satt. Þetta er sennilega mikið rannsóknarefni og mætti gjarnan gefa út heila bók um það sem þarna er á bak við og hvernig menn geta leyft sé að blekkja þjóðfélag sitt. En þetta er flutt á ábyrgð ríkisstj. Þeir tóku undir þessa glansmynd, aðrir stjórnarsinnar, meðreiðarsveinar forsrh. báðir. Annar fór í spor Eiríks rauða, kom lítið inn á þessi mál, en Alþb. tók auðvitað undir þessa glansmynd.

Það mega þó framsóknarmenn eiga, að þeir lýstu því yfir að hér væri um alvarlegt vandamál að ræða, bæði hæstv. sjútvrh. og enn fremur hæstv. viðskrh. Þeir mega eiga það, en þeir eyðilögðu auðvitað að verulegu leyti ræður sínar þegar þeir fóru út í þá vitleysu að segja að niðurtalningin hefði tekist með ágætum. Þegar allt verðlag er að fara upp á við segjast þeir alltaf telja niður á við, Steingrímur og Tómas. Allur Framsóknarflokkurinn er farinn að hlæja, en þjóðin hristir höfuðið. Þar þurfa þeir að taka sig á. Það er engin niðurtalningarleið til. Hún er bara til á vörum örfárra manna, en allt heldur áfram í öfuga átt. Er kannske niðurtalningarleið á bensínverðinu alltaf eða almennu verðlagi, smjörinu, kjötinu o. fl.? Er furða þó að margir þjóðfélagsþegnar segi núna: Það þarf að koma á alvöruríkisstjórn og losa sig við þessar leikbrúður, gefa þeim frí. Það mundi margborga sig fyrir þjóðina að láta þá fá frí á fullu kaupi, bara ef þeir færu strax, því þeir geta ekki stjórnað. Þeir hafa sýnt það. Það er löngu búið að sjást. Og þeir ná engri samstöðu. Það sést hérna. Þegar stjfrv. eru lögð hér fram og eru til afgreiðslu á lokastigi standa þessir menn upp og gefa yfirlýsingar hver gegn öðrum.

Ég held að Eyjólfur Konráð sé búinn að nota forsrh. Ég sé að Eyjólfur er þarna. (Gripið fram í.) Já, mætti ég þá fá hann lánaðan. (Forseti: Hæstv. forsrh. veit að hans nærveru er óskað hér. Svo oft hefur þeim skilaboðum verið komið á framfæri við hann að ég sé ekki ástæðu til að ítreka það.) Er hann kannske hættur? Þá gæti ég nú lokið máli mínu ef ég væri viss um það. Jæja, mikið er nú sterk forustan í ríkisstj. (HBl: Hann er að hlusta á Þorvald Garðar.) Það var kastað hér fram fullyrðingum og vitleysu í gær. Það er búið að margóska eftir því við hann að vera viðstaddur þessar umr. Hann passar sig á því að flýja af hólmi hvað eftir annað. En ég ætla ekki að standa lengur í því að bíða eftir þeim sem ekki þorir að ræða málefnin eftir vitlausu ræðuna í gær.

Hann sagði, hæstv. forsrh.: „Nú hafa samtök þessara aðila, sjómanna, útvegsmanna, fiskvinnslufyrirtækja, a. m. k. ýmis þeirra, boðað stöðvun útgerðarinnar um áramót ef nýtt fiskverð verði ekki komið. Það vill nú svo til að þetta eru einmitt sömu aðilar sem velja fulltrúa í Verðlagsráðið sem á samkvæmt lögum að ákveða fiskverð.“ — Og hann bætir við: „Það er auðvitað ágætt að reka þannig á eftir sjálfum sér, það er gott að slá í hjá sjálfum sér og getur vafalaust verið gagnlegt.“ — Þetta fá nú fulltrúar sjávarútvegsins frá forsrh. Íslands, fulltrúar stærstu atvinnugreinar í landinu. Hann kemur fram í sjónvarpi og útvarpi hverju sinni og er spurður: Hvað verður nú gert í sambandi við fiskverð? Þá setur hann upp sama andlitið og birtist á skjánum í sambandi við nýju bókina, sakleysislega spariandlitið, og segir: Það varðar okkur ekkert um í ríkisstj. Það er í höndum yfirnefndar Verðlagsráðs. Yfirnefnd Verðlagsráðs hefur algjörlega lögum samkvæmt með fiskverð að gera. — Hann veit þó að um leið og máli er vísað til yfirnefndar er það komið í hendur ríkisstj. En að láta sér detta í hug að segja þjóðinni satt hvarflar ekki að honum. Málið er eingöngu á ábyrgð ríkisstj. eftir að hennar fulltrúi er kominn inn. Þar er sjútvrh. á hverjum tíma tengiliður á milli Verðlagsráðs og ríkisstj. Nú hefur yfirnefnd Verðlagsráðs lýst því yfir að sjómenn hafi verið afskiptir, eigi rétt á fiskverðshækkun. Það hefur verið gengið á rétt þeirra að undanförnu. Það er alltaf gengið mest á rétt þeirra sem minnst mega sín þegar kommarnir eru í stjórn með Framsókn. (Gripið fram í.) Ég skal tala við þig á eftir.

Það er líka þannig að Verðlagsráð sjávarútvegsins bíður eftir aðgerðum stjórnvalda vegna þess að útgerðin þarf fleiri krónur vegna þeirra verðbólgu sem er. Sjómenn og útgerðarmenn þurfa því hækkað fiskverð til þess að geta staðið undir rekstrinum. Þetta viðurkenna fiskkaupendur, fiskvinnslan. Söluaðilarnir, sjómenn og útgerðarmenn, segja: Okkur er ljóst að fiskvinnslan getur ekki tekið á sig meira. — Þannig standa málin. Báðir aðilar viðurkenna að þeir þurfi að fá hækkun og hinir að þeir geti ekki hækkað. Um þetta eitt er Verðlagsráðið sammála. Af hverju er þessi staða svona? Vegna þess að verðbólgan fer þannig með. Það er sífellt minna ráðstöfunarfé heimilanna og þá ekki síst sjómanna, sem hafa verið afskiptir umfram aðra launþega, og útgerðar í hækkuðum rekstrarkostnaði, í hækkuðum kauptryggingum. Allir fá sínar verðbætur á þriggja mánaða fresti. Það er hækkun á viðhaldi. Það er hækkun á öllum aðföngum til útgerðar, öllum innfluttum vörum. Fiskvinnslan verður að taka á sig hækkanirnar innanlands og hún fær ekki nema brot af þeim hækkunum í hækkuðu verði á erlendum mörkuðum.

Þetta er það sem hefur skapað þá stöðu sem er og Verðlagsráð stendur frammi fyrir. Annars vegar er það, að stjórnvöld ákveða verðbætur og það fyrirkomulag sem er á verðbótum á laun. Stjórnvöld hafa ákveðið að stöðva gengi að verulegu leyti. Stjórnvöld hafa tekið í sínar hendur þessa stjórn og stjórnvöld hafa skapað þennan vanda og bera alla ábyrgð á honum. Svo kemur þessi ábyrgðarlausi forsrh. og segir: Mér kemur þetta ekkert við. — Þetta þykir formanni Verkamannasambands Íslands bara gott því hann hlýðir hverju kalli sem kemur frá þessum körlum. Ja, nú er Bleik brugðið. (HBl: Hann hressir sig á Svartahafsströndinni á meðan.) Nú er ekki lengur umhyggjan fyrir hinum vinnandi manni. Hvað er nú orðið af ævistarfi formanns Verkamannasambands Íslands? Kastaði hann því einn góðan veðurdag út um gluggann og gerist svo allt í einu taglhnýtingur þessarar ríkisstj. sem er að ganga á rétt hins vinnandi manns hvað eftir annað? Nú þykir mér karli vera brugðið frá því að hann var útflutningsbannsstjóri á sínum tíma.

Hvernig getur ein ríkisstj. haldið áfram með slíkum vinnubrögðum og túlkað slíkan endemisþvætting sem forsrh. gerði hér í gær, að aðilar í sjávarútvegi séu á þennan hátt að reka á eftir sjálfum sér og það sé gott að slá í hjá sjálfum sér og geti vafalaust verið gagnlegt? Allt er botnfast hjá úrræðalausri ríkisstj., og svo segir forsrh.: Það er að vísu svolítið vandamál núna. — Það er mikil breyting frá stefnuræðunni 22. okt. Nú er viðurkennt. Hvað leið langur tími frá því að sú stefnuræða var flutt og þangað til neyðarópin komu frá fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækjum í landinu? Þá var fundið upp það „patent“ að Framkvæmdastofnunin ætti að afgreiða þessi lán. Voru það fyrirtækin, sem voru með þessa „blönduðu“ vinnslu, sem forsrh. var að tala um í gær, sem ættu að standa undir sér? Þau ættu að standa vel. Þau fyrirtæki, sem fyrst leituðu kreppulána, voru fyrirtæki með þessa „blönduðu“ vinnslu. Hún var ekki betri en þetta. Forsrh. segir 22. okt.: Það er allt slétt og fínt í þessu þjóðfélagi. — Með öðrum orðum gat hann alveg sagt: Hjá okkur er allt blúndulagt. — En litlu síðar tilkynna fyrirtækin hvert á fætur öðru: Við erum að stöðva. Við getum ekki borgað út vinnulaun á föstudaginn kemur nema fá aðstoð. — Hvað er verið að gera? Það er verið að taka núna um 40 millj. að láni og þarf að taka miklu meira. Meira að segja sjútvrh. orðaði það einu sinni að sennilega þyrfti að taka allt upp í 200 millj., en hann hafði auðvitað fyrirvara á vegna þess að dæmið lá ekki fyrir. Það er búið að taka 40 millj. að láni í Seðlabankanum. Það er búið að lána til þó nokkuð margra fyrirtækja með verðtryggðum lánum, — fyrirtækja sem eru að taka þessi lán til að greiða með halla. Það, sem er að gerast í þessu þjóðfélagi, fyrst og fremst vegna verðbólgunnar og vegna þess að gengi okkar gjaldmiðils er skráð röngu verði, er að það er verið að framleiða taprekstur og það er svo tekið lán til að borga þennan taprekstur, lán allt að 15 ár fram í tímann. Þetta er efnahagsstefna í lagi! Þetta er stefna sem þjóðin ætti að hrópa húrra fyrir!

Meira að segja þeir, sem hafa gengið harðast fram að verja aðgerðir þessarar ríkisstj. og hæla henni, hafa hægt verulega á sér núna síðustu daga, þeim er farið að verða um og ó. Eins og ég sagði í dag hefur nú verið skipt um hlutverk. Sá vígreifi og djarfi stuðningsmaður núv. ríkisstj., formaður þingflokks Alþb., gerist nú með hógværustu mönnum. Fjmrh. og forsrh. hafa nú tekið að sér forustuhlutverkið í kapphlaupinu um að etja öllum atvinnurekstri út í taprekstur þannig að formaður þingflokks Alþb. kemst ekki með tærnar þar sem þessir tveir hlaupagikkir eru með hælana.

Ég endurtek að nauðsynlegt er að afgreiða þetta mál. Það væri orðið að lögum fyrir rúmum sólarhring ef þeir hefðu kunnað að sitja á rassinum, þessir tveir ráðh., og ekki látið til sín heyra. En það er nú einhvern veginn þannig, að í því tímahraki sem Alþingi er í að afgreiða þau mál sem ríkisstj. óskaði eftir, eru einstakir ráðh. sjálfir að eyðileggja tímann og tefja fyrir eigin málum. Það er í samræmi við allt annað. Handarbakavinna er þeirra aðalsmerki frá því þeir vakna á morgnana og þangað til þeir sofna á kvöldin.