17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. hefur gert nokkra grein fyrir því máli, sem hér er til umr., og vék sérstaklega að þeim ræðum sem fluttar voru hér í gær þegar 2. umr. um málið hófst. Það er vissulega rétt, að þær tvær ræður sem hæstv. ráðherrar, forsrh. og fjmrh., fluttu hér, voru furðulegar. Það var furðuleg yfirlýsing, sem hæstv. fjmrh. gaf varðandi þá ríkisábyrgð sem gert er ráð fyrir í frv., og fávíslegar voru hugleiðingar hæstv. forsrh. þegar hann fjallaði í ræðu sinni um stöðu mála í dag og hvernig mögulegt væri að hans dómi að koma til móts við atvinnuvegi þjóðarinnar, til móts við sjávarútveginn og með einum eða öðrum hætti að rétta þar hjálparhönd, sem vissulega þarf og enginn maður efast um.

Það er ekki úr vegi að hugleiða, þegar við ræðum þetta frv., sem er um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslensku krónunnar hinn 26. ágúst 1981, að þá hefur enn ein gengisfellingin átt sér stað. Alþingi hefur því ekki haft tækifæri til þess að fjalla um ráðstafanir vegna einnar gengisbreytingar þegar önnur hefur dunið yfir. Þannig hefur þetta verið allt frá upphafi valdatíma þessarar ríkisstj. Það er um að ræða að vísu samfelldar ráðstafanir, en samfelldar bráðabirgðaráðstafanir, og það hefur verið eins í þessu máli, þ. e. varðandi sjávarútveginn, og í öðrum málaflokkum.

Einn þátturinn í þessu frv. er að heimila tilfærslu á fjármagni frá einni verkunargrein í sjávarútveginum til annarrar með því að saltfisks- og skreiðarframleiðslan er látin greiða með frystingunni. Ef við virðum þessa hluti fyrir okkur aftur í tímann skulum við átta okkur á því, að við fiskverðsákvörðunina frá því um seinustu áramót, sem reyndar kom ekki fyrr en 14. febr., var gerð ákveðin breyting í sambandi við stærðarflokkun á fiski í því skyni að létta af frystingunni hráefnishækkuninni sem þá átti sér stað, en þyngja hana að sama skapi h já söltuninni sér í lagi. Jafnframt var verð á einstökum tegundum fisks hækkað meira en á öðrum. Þetta var líka gert til þess að létta á frystingunni, fyrst og fremst á kostnað skreiðarinnar. Og það var ekki látið þar við sitja hjá núv. hæstv. ríkisstj., heldur var lögunum um útflutningsgjald af sjávarafurðum breytt í marsmánuði á þann veg, að útflutningsgjald af skreið var hækkað úr 51/2% af fob-verðmæti í 10% , en jafnframt lækkað í 4% af frystingunni.

Af þessu má vera ljóst að ákveðnar greinar fiskvinnslunnar, þ. e. saltfisksvinnslan og skreiðarvinnslan, hafa axlað byrðar vegna frystingarinnar og sýnist ekki klyfjum þar á bætandi eins og hér er gert ráð fyrir. Það, sem hér hefur verið að gerast, er dæmigert fyrir ráðstafanir núv. hæstv. ríkisstj. í sambandi við efnahags- og atvinnumálin. Afkoma frystingarinnar, sem hefur verið slæm, hefur ekki verið tryggð með raunhæfum ráðstöfunum. Þar vegur að sjálfsögðu þyngst röng gengisskráning, sem ekki hefur verið miðuð við afkomu atvinnuveganna, heldur fyrst og fremst óljósar hugmyndir ríkisstj. til þess að koma fram svokallaðri niðurtalningu á verðbólgunni, þannig að hægt væri með einum eða öðrum hætti að sýna falska mynd og fá töluna 40–41 sem hækkun framfærsluvísitölu frá upphafi árs til loka.

Það liggur ljóst fyrir, að við slíkar aðstæður eiga stjórnendur fyrirtækja erfitt með að skipuleggja rekstur fyrirtækja sinna. Starfsskilyrðin, sem þeim eru ákveðin, eru nánast frá degi til dags. Þetta er stefnulaus ríkisstj. sem gerir ráðstafanir eins og ég sagði áðan, frá degi til dags. Það eru eingöngu bráðabirgðaráðstafanir.

Það er svo næsta furðulegt þegar hæstv. forsrh. kemur fram fyrir alþjóð og afgreiðir afkomu atvinnuveganna með einni setningu í stefnuræðu sinni, eins og hv. 1. þm. Vestf. benti á hér áðan. Hann sýnist annaðhvort ekki gera sér grein fyrir hvernig að málunum hefur verið staðið eða þá að um er að ræða vísvitandi blekkingu.

Það nákvæmlega sama er uppi á teningnum þegar hæstv. fjmrh. kemur fyrir Alþingi og fyrir alþjóð með fjárlagafrv. og víkur þar að stöðu mála og segir í athugasemdum við fjárlagafrv., með leyfi hæstv. forseta: „Um það verður ekki deilt, að efnahagsstefna ríkisstj. hefur skilað árangri á því ári sem nú er að líða.“ Þetta er prentað í septembermánuði. Nú er komið fram yfir miðjan desember. Allir sjá hvert stefnuleysi ríkisstj. er í efnahagsmálunum. Við stöndum frammi fyrir geysilegu vandamáli við fiskverðsákvörðun sem á að taka gildi 1. jan. Þeir aðilar, sem eiga að búa við fiskverðið, hafa gert grein fyrir sinni afkomu. Ég held því að ekki verði um það deilt, að efnahagsstefna ríkisstj. — eins og þeir kalla það, hæstv. ráðherrar — hefur skilað mjög slæmum árangri, eins og hér hefur verið rakið. Sá árangur er að atvinnureksturinn er nánast stöðvaður. Fölsk gengisskráning veldur því, að nú verður að grípa til innborgana á innflutningi til þess að koma til móts við íslenskan iðnað. Sjávarútvegurinn, aðalútflutningsatvinnuvegurinn, stendur þannig að eftir örfáa daga er útgerðin búin að lýsa yfir veiðistöðvun. Þannig er staða máta þegar þetta ár er að renna á enda.

Síðan stendur í greinargerð með fjárlagafrv.: „Tekist hefur að rétta fjárhag ríkissjóðs við og lækka skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann verulega.“ Svo kemur viðbótin: „að raungildi“. Þarna er mergurinn málsins. Þeim hefur tekist, með því að kynda undir bál verðbólgunnar, að lækka skuldir ríkissjóðs hjá Seðlabankanum að raungildi. Staðreyndin er sú, að krónutalan hefur hækkað. En stefnuleysi ríkisstj. hefur valdið því, að verðbólgan árið 1980 er nærri 60%. Og þó að framfærsluvísitalan frá upphafi árs til loka teljist 41–42% er verðbólgan töluvert yfir 50%. Það hefur komið fram í þeim skýrslum sem Þjóðhagsstofnun hefur látið frá sér fara.

Í umr. í gær flutti hæstv. fjmrh. næsta furðulega ræðu, eins og ég gat um áðan, og gaf þar furðulega yfirlýsingu varðandi þá ríkisábyrgð sem þetta frv. gerir ráð fyrir að veitt verði í sambandi við verðákvörðun á loðnu á s. l. hausti. Hæstv. fjmrh. sagði, með leyfi forseta, eftir að hafa lesið greinina upp eins og hún var og er í frv., furðuleg í alla staði þegar hún er skoðuð: „Hér er sem sagt einfaldlega opnuð leið til þess að Verðjöfnunarsjóður geti á hverjum tíma tekið lán með ríkisábyrgð. En um er að ræða einfalda ríkisábyrgð, ekki sjálfskuldarábyrgð heldur einfalda ábyrgð, sem felur það í sér, að þá fyrst er upphæðin kræf á hendur ábyrgðaraðila að skuldari sé gjaldþrota.“

Það hefur komið fyrir áður að ríkisábyrgð hafi verið veitt í sambandi við verðákvörðun á sjávarafurðum. En það hvarflaði að sjálfsögðu ekki annað að neinum en að um væri að ræða sjálfskuldarábyrgð ef til ábyrgðar kæmi. Þessi mál voru þá leyst með gengismun, hann var þá látinn ganga alfarið til þeirra sem aflað höfðu þeirra afurða sem gengisbreytingin hafði áhrif á. Hér er áformað að fara inn á alveg nýjar leiðir í þessum málum. Og eins og fram kom í ræðu hv. 1. þm. Vestf. kom í ljós á fundum fjh.- og viðskn. í morgun að hér bar ekki saman þeim aðilum, sem tekið höfðu ákvörðunina á sínum tíma, og því, sem hæstv. fjmrh. sagði á þingfundi í gær.

Í fyrsta lagi gerir greinin ráð fyrir að alfarið sé heimil ríkisábyrgð fyrir lánum til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Eðlilegt er að hér sé um hreint undantekningarákvæði að ræða og sú ábyrgð, sem ríkisstj. gaf á s. l. hausti, sé þess vegna sérstaklega tekin fram í þessari grein. Í framhaldi greinarinnar segir, með leyfi forseta: „Liggi ríkisábyrgð fyrir“-ég veit nú ekki hvar hún á að liggja, en það er sjálfsagt hugsað að ríkisábyrgð verði samþykkt — „er sjóðsstjórn Verðjöfnunarsjóðs heimilt að taka lán í því skyni að gera einstökum deildum sjóðsins kleift að standa við skuldbindingar sínar. Lán þessi mega þó aldrei nema samtals meiru en 70% af heildarinnistæðu í Verðjöfnunarsjóði hverju sinni.“ Hér er gert ráð fyrir að lán sé tekið með ríkisábyrgð til þess að leysa vanda einnar deildar Verðjöfnunarsjóðs, en eignir annarra deilda eiga að standa og vera þar að veði.

Sú málsmeðferð, sem hér er lagt til að samþykki verði, reyndist síðan alls ekki í samræmi við þá yfirlýsingu sem oddamaður yfirnefndarinnar kom með frá hæstv. sjútvrh. Í gögnum, sem dreift var til nefndarmanna, var ljóst í hverju ábyrgðin var fólgin sem hæstv. sjútvrh. hafði gefið oddamanni yfirnefndarinnar að veganesti. Mig furðar að slík tilvik geti komið upp — og furðar það þó ekki — með tilvísun til þeirra vinnubragða sem viðhöfð eru á stjórnarheimilinu. En í því tilfelli, sem slík ábyrgð hafði áður verið gefin, var ekkert um það að villast, í hverju hún var fólgin. Þar var um að ræða samþykkt ríkisstj., textinn, sem samþykktur hafði verið, látinn í hendur þeim aðila, sem þá fjallaði um þessi mál, til þess að fá fram lausn á þessu dæmi.

Það kom svo í ljós, þegar hæstv. sjútvrh. mætti á fundi nefndarinnar í morgun, að ekki bar saman því, sem hæstv. fjmrh. sagði í gær, að því, sem hæstv. sjútvrh. taldi sig hafa sagt þegar hann gaf oddamanni yfirnefndarinnar veganesti á sínum tíma.

Þetta frv. ásamt brtt., sem forsrh. flutti, felur í sér þrjú meginatriði.

Það er í fyrsta lagi ráðstöfun á hluta gengismunar útfluttra sjávarafurða framleiddra fyrir 1. sept. s. l. og sjálfdæmi ríkisstj. til handa um það, hvort gengismunur af einstökum afurðum sé gerður upptækur eða ekki. Hér er farið inn á alveg nýjar brautir í þessum efnum. Þessu hefur verið mótmælt af þeim aðilum sem við þetta eiga að búa. En það er í þessu eins og öllu öðru, á þá aðila er ekki hlustað, heldur fara menn sínu fram og halda að þeir séu þar með að leysa vanda. Það er að vísu verið að leysa vanda einnar viku. Þetta er svipað og með strútinn sem stingur höfðinu í sandinn og heldur að það sjái hann enginn.

Í öðru lagi er heimildin til þess að ábyrgjast lán vegna Verðjöfnunarsjóðs, þ. e. loðnudeildarinnar. Í frv. er engin upphæð, eins og fram hefur komið. Hins vegar er nú ljóst að hér er um að ræða 42 millj. kr. En með hvaða hætti, með hvaða skilmálum ríkisábyrgðin verður veitt liggur ekki ljóst fyrir. Það er vitað, að upp á það skuldabréf, sem þessi deild Verðjöfnunarsjóðs hefur gefið út, hefur hæstv. fjmrh. ekki viljað rita vegna þess að hann hefur ekki viljað fallast á greiðsluskilmála. Hér er í raun og veru um að ræða hreint uppbótakerfi, millifærslu sem síðar hlýtur að sjálfsögðu að þurfa að leggjast á almenning í sköttum til þess að halda uppi fölsku gengi, eins og fram kemur m. a. í fskj. með nál., sem er álit stjórnar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

Í þriðja lagi er hér um að ræða eignaupptöku á endurgreiðslum Seðlabanka Íslands af gengisuppfærslu endurkeyptra afurða- og rekstrarlána. Bróðurparturinn af þessum endurgreiðslum, sem munu nema rúmum 34 millj. kr., á ekki að renna í þær deildir Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins sem í raun eiga þessar endurgreiðslur, heldur eru fyrirmæli í frv. um að allt að 29 millj. kr. skuli greiddar til freðfiskdeildar sjóðsins, án tillits til þess að endurgreidd gengisuppfærsla útfluttra s jávarafurða ætti að skiptast með allt öðrum hætti ef hún væri reiknuð af hverri afurð. Samkv. greinargerð, sem kom frá starfsmanni Verðjöfnunarsjóðs, sýndi það dæmi allt, allt annað. Með þessari brtt. er verið að ganga þvert á þá stefnu sem lá til grundvallar lagasetningu um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og hefur verið stefna stjórnar sjóðsins og stjórnvalda síðan, þ. e. að hver deild sjóðsins sé sjálfstæð og að algert grundvallaratriði sé að verðmæti verði ekki færð milli deilda sjóðsins eins og stefnt er að með þessari tillögu.

Það hlýtur að vekja sérstaka athygli, þegar þessar ráðstafanir eru athugaðar, að hvergi er tekið á vanda fiskiskipa sem verða fyrir stórfelldri byrði af gengisfellingunni vegna gengistryggðra lána og aðfangakostnaðar og síðan hafa orðið enn fyrir stórfelldri byrði af nýrri gengisfellingu sem átt hefur sér stað. Þvert á móti hugleiðir hæstv. forsrh. það hér í gær í ræðu sinni, og tekur undir með hæstv. félmrh., að vel komi til greina að fella niður olíusjóðinn, vel komi til greina að fella niður ákvæðið um greiðslu í stofnfjársjóð. Mér er ekki nokkur leið að skilja að þær ráðstafanir, sem hér er verið að hugleiða, verði til annars en að þyngja enn fyrir útgerðinni. Það liggur að sjálfsögðu ljóst fyrir, að niðurfelling á olíusjóði og niðurfelling á stofnfjársjóðsframlagi gerir það hvort tveggja að verkum, að útgerðin, sem er þó grundvöllurinn að þessu öllu saman, kemur ekki til með að geta borið sig. Og hvað hyggjast menn þá gera? Jú, það var helst á hæstv. félmrh. að skilja í útvarpsviðtali fyrir nokkru, að ef þetta væri gert væri þó a. m. k. ekki til úrlausnar vandi nema hjá einum aðila, þ. e. útgerðinni. Það er auðvitað aðilinn sem allt þetta byggist á. Ef ekki er róið, þá fiskast ekki. Það liggur ljóst fyrir.

Hagsmunir sjómanna eiga ekki upp á pallborðið í þessu frv., það liggur ljóst fyrir. Gjarnan hefur það verið svo, að það hefur verið með einhverjum hætti ráðstafað til sjómanna. T. d. var árið 1975 gengismun að hluta til ráðstafað til þess að lækka skuldir útgerðarinnar vegna þáverandi gengisfellingar og jafnframt komið til móts við sjómenn í þeirra hagsmunabaráttu. Þannig var leitast við að draga úr vanda framtíðarinnar, minnka víxlverkun gengisbreytingar. Nú er þessu öllu saman snúið við, enda þurfti að grípa til nýrrar gengisbreytingar nokkrum vikum síðar.

Það er ljóst að góðæri hefur ríkt í sjávarútvegi að undanförnu. Áætlað er að verðmæti sjávarvöruframleiðslunnar 1981 verði 5.4 milljarðar og hafi aukist um 2.6% að magni til frá því í fyrra. Útlit er fyrir enn eitt metárið í þorskveiðum. Það er athyglisvert, að þorskveiði hefur aukist hér töluvert á undanförnum árum. Árið 1978 veiddust um 320 þús. tonn, árið 1980 var talan 428 þús. tonn og gert ráð fyrir á árinu 1981 um 450 þús. tonnum. Þorskveiðin í ár verður því 130 þús. tonnum meiri en hún var 1978. Samt hefur þjóðarframleiðslan sáralítið aukist síðan og segir það sína sögu um stjórnarfarið í landinu.

Verðhækkanir á sjávarafurðum hafa orðið verulegar í ár á erlendum mörkuðum t. d. á saltfiski og skreið. Þótt nokkur stöðnun hafi verið á verði frystra afurða og verðlækkunar gætt á mjöli og lýsi er talið að verðmæti vöruframleiðslunnar hafi aukist vegna verðhækkana erlendis um 3% frá því í fyrra. Stórfelld hækkun á gengi Bandaríkjadollars á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði ætti einnig að öðru jöfnu að skila sjávarútveginum drjúgum tekjuauka svo og þjóðarbúinu í heild.

Því miður hefur gefið á í íslenskum sjávarútvegi að undanförnu þrátt fyrir slíkt góðæri og hagstæð ytri skilyrði. Að mati Þjóðhagsstofnunar voru rekstrarskilyrði fiskveiðiflotans eftir síðustu fiskverðshækkun þau, að 12.4% halli var talinn vera á stærri togurunum, 4.1% halli á minni togurunum og 0.9% á bátunum sem ekki stunda loðnuveiðar, þ. e. 3.1% meðalhalli á rekstri fiskveiðiflotans, auk loðnubáta sem augljóslega eru verr staddir en önnur útgerð. Þá er talið að tap á frystingunni nemi 4% af tekjum. Þrátt fyrir þessa staðreynd er rætt um að fella niður olíugjaldið, rætt um að fella niður stofnfjársjóðsgjaldið og gera útgerðinni þar með miklu erfiðara fyrir.

Það er dæmigert fyrir skammsýni og óraunsæi og ranga stefnu stjórnvalda í efnahags- og atvinnumálum að undanfarin þrjú ár hefur Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins verið gerður gjaldþrota. Í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. kemur þetta glöggt fram í skýrslu þeirri sem starfsmaður Verðjöfnunarsjóðs lagði fram á fundum nefndarinnar. S. l. þrjú ár hafa verið greiddar inn í sjóðinn 17.3 millj. kr. en úr honum 239 millj. kr. Þessi þróun hefur átt sér stað þótt ekki hafi verið um verulegt verðfall að ræða á þessu tímabili og oft og tíðum mjög hátt og gott verð á sjávarafurðum, eins og ég vék að áðan. Í fyrra var t. d. gott verð á loðnuafurðum, en þá var ekki greitt neitt af því í Verðjöfnunarsjóðinn. Sama er að segja um saltfiskinn í ár og enn fremur í fyrra. Þetta eru dæmi um það, að hátt verð á afurðum okkar hefur ekki nýst til að efla Verðjöfnunarsjóðinn og þaðan af síður sú hagstæða þróun sem hefur verið á gengi dollarans að undanförnu. Þannig hefur verið látið vaða á súðum að þessu leyti með framangreindum afleiðingum.

Ég geri ráð fyrir að á milli 2. og 3. umr. þessa máls komi fjh.- og viðskn. saman til þess að fjalla um þá grein sem ég gerði að umræðuefni áðan, 3. gr. frv., um ríkisábyrgðina. Það liggur í augum uppi að sú grein verður að vera í samræmi við þá yfirlýsingu, sem hæstv. sjútvrh. gaf, og þá leiðbeiningu, sem hann gaf oddamanni yfirnefndarinnar. Það er ekki möguleiki á að greinin, eins og hún er í dag, samræmist þeirri yfirlýsingu. Þar verður að koma til breyting. Í fyrsta lagi tel ég ekki rétt að hér verði gefin almenn heimild til ríkisábyrgðar fyrir Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Ég tel að þessi heimild verði að vera einskorðuð við þá yfirlýsingu sem hæstv. sjútvrh. gaf og oddamaður nefndarinnar upplýsti á fundi hennar þegar verðákvörðunin átti sér stað. Það liggur nú ljóst fyrir, að um var að ræða 42 millj. kr. og tekið fram að sú ríkisábyrgð verði veitt þeirri deild sem lánið tekur.

Ég tel enn fremur að hér verði að vera skýrt að um sjálfskuldarábyrgð sé að ræða. Að tala um einfalda ábyrgð, þegar verið er að ræða um ábyrgð fyrir Verðjöfnunarsjóð, er að mínum dómi að tala út í loftið. Það er að sjálfsögðu hægt að hafa tiltekinn frest og verði um verðhækkun að ræða á ákveðnum tíma renni sú verðhækkun til þess að greiða þá ábyrgð sem ríkissjóður hefur gengið í. Mér er tjáð að í því skuldabréfi, sem legið hefur hjá hæstv. fjmrh., sé talað um að verði hækkun á næstu tveimur árum umfram 30% skuli af því renna fjármagn til endurgreiðslu á láninu. Það hlýtur að sjálfsögðu að verða matsatriði. Mér sýnist að slíkt sé út af fyrir sig eðlilegt, en ef um það verður ekki að ræða, að þau skilyrði séu uppfyllt, liggur í augum uppi, að ríkissjóður lætur ekki gera Verðjöfnunarsjóð gjaldþrota. Ég á eftir að sjá þann fjmrh. sem sendir tilkynningu til yfirvalda og óskar eftir gjaldþrotaskiptum á verðjöfnunarsjóði til þess að hann geti samvisku sinnar vegna greitt þá upphæð sem ríkissjóður hefur gengið í ábyrgð fyrir.

Ég tel og veit reyndar að formaður fjh.- og viðskn. muni á milli umr. nú gera sitt til þess að ná fram því sem hér þarf að taka skýrt fram, hver ábyrgðin sé. Samkvæmt þeim gögnum, sem fyrir lágu á nefndarfundi í morgun, var að mínum dómi fullkomlega skýrt hver ábyrgðin var sem þarna var gefin. Það liggur ljóst fyrir að mínum dómi að við það verður að standa.