17.12.1981
Neðri deild: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

83. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Jósef H. Þorgeirsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 52 14. ágúst 1959, um kosningar til Alþingis. Nefndin hefur athugað þetta mál á nokkrum fundum sínum og fengið í hendur álit frá Hagstofu Íslands, Ólafi W. Stefánssyni í dómsmrn. og Gunnari G. Schram prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Einnig hefur nefndin fengið á sinn fund Jón G. Tómasson borgarlögmann og formann Sambands ísl. sveitarfélaga, Gunnar G. Schram prófessor og Ólaf W. Stefánsson.

Niðurstaðan af þessum athugunum hefur orðið sú, að nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt. Nefndin vill engu að siður geta þess, að hún telur að orðalag í niðurlagi 1. gr. frv., en þar segir: „nema gild ástæða sé til annars“ — þurfi skýringar við. Skýringin er sú, að frv. gerir ráð fyrir að námsmenn á Norðurlöndum haldi sínu lögheimili, en komi það fyrir, að foreldrar námsmanns, sem hefur hafið nám á Norðurlöndum en hefur áður verið heimilisfastur hjá foreldrum sínum, flytja meðan á námi hans stendur, þá sé eðlilegt að lögheimili námsmannsins flytjist með lögheimili foreldranna.

Enn fremur telur nefndin að það þurfi að vera skýrt, sem talað er um í 3. gr. frv., að strax eigi að tilkynna yfirkjörstjórn og sveitarstjórn þess umdæmis sem aðili er heimilisfastur í, ef kjörskrá hefur verið breytt varðandi þennan mann. Nefndin vill að litið sé svo á að þessi tilkynning verði að fara fram með sannanlegum hætti.

Nefndin er sammála um þetta álit, en Garðar Sigurðsson, 4. þm. Suðurl., ritar undir nál. með fyrirvara. Það hefur reyndar fallið niður í því áliti, sem dreift hefur verið, að geta þess, en fyrirvari þm. varðar það ákvæði í frv. að kosningar til Alþingis skuli fara fram á laugardögum.