22.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Vist væri það ánægjulegt ef taka mætti allt gilt sem síðasti ræðumaður sagði: Allt í lagi, slétt og fellt, tæpast skýhnoðrar við sjóndeildarhringinn. — Það er ekki amalegt að geta varpað þannig öllum áhyggjum af sér. En því miður, stefnuræða forsrh. einkenndist af sjálfshóli, sjálfsánægju og sjálfsblekkingu.

Hælst var um að full atvinna væri tryggð. En atvinnuleysi, hvað sem öðrum löndum liður, hefur ekki þekkst hér á landi í hálfan annan áratug, síðan gjaldeyristekjur okkar minnkuðu um nær helming, og stóð þá stutt, þótt brottflutningur úr landi teljist óneitanlega að hluta til dulbúið atvinnuleysi. Frammistaða ríkisstj. í atvinnumálum er því ekkert afrek.

Síðasti ræðumaður minntist ekkert á það, að allur síldarflotinn var bundinn í höfn meira en viku nú á hávertíðinni, að tvívegis lá við stöðvun loðnuflotans, að bolfiskverð, sem gilda á frá 1. oki. til áramóta, hefur ekki verið ákveðið enn. — Og hvernig var síldar- og loðnuverðið ákveðið og hvaða ráðagerðir eru um almenna fiskverðsákvörðun?

Þegar fiskverð á erlendum mörkuðum er í hámarki tæmist sjóður hverrar fiskvinnslugreinar á fætur annarri í verðjöfnunarsjóði og til stórfelldra skulda er stofnað: Milljón nýrra kr. í síldina, 46 millj. kr. lántaka í loðnudeildina, 24 millj. vantar í frystideildina frá því fyrr á árinu. Frysting er rekin með 6.7% tapi nú fyrir fiskverðshækkun sem verður um 9% ef sjómenn eiga að fá sömu hækkun og launþegar í landi eftir að hafa þolað skerðingu við loðnu- og síldarverðsákvörðun. Uppvíst er að samkeppnisiðnaður er rekinn með 8–10% halla.

Menn kunna að yppta öxlum og láta sér fátt um finnast, eins og ráðherrarnir, er helstu útflutningsgreinar okkar eru reknar með slíkum halla. En slíkar staðreyndir bera ekki vitni um atvinnuöryggi, heldur hættu á atvinnuleysi og fullkomið kæruleysi stjórnvalda. Þótt stjórnvöld virðist heyrnarlaus og skilningssljó leggja menn við hlustirnar þegar fréttir berast um stöðvun togara og frystihúsa á Raufarhöfn, Keflavík og viðar. Fyrirmyndarfrystihús á Suðureyri er selt, rekstri Skjaldar á Patreksfirði hætt, rekstri SÍS á Akureyri lokað um miðjan dag til að aðvara fólkið um yfirvofandi uppsagnir og rekstur fjölmargra saumastofa og iðnaðarfyrirtækja víða um land hefur þegar stöðvast. 27 frystihús eru í sérstakri athugun vegna hættu á stöðvun og rekstur 19 togara skrásettra 1977–1980 sýnist vonlaus að óbreyttum skilyrðum. Slíkar fréttir sýna að atvinnufyrirtækin standa á brauðfótum og eru rekin með tapi vegna þess fyrst og fremst hvaða skilyrði þeim eru búin af hálfu stjórnvalda. Fólkið, sem býr við þetta öryggisleysi, veit hvað klukkan slær þótt stjórnvöld geri sér þess ekki grein.

Forsrh. var áðan að hrósa sér af stöðugu gengi íslensku krónunnar. Í stefnuræðu sinni í fyrra áfelldist hann forvera sína í ríkisstj. með þessum orðum: „Í lok síðasta árs“ þ. e. 1979 — „var verðhækkunum innan lands og stöðnun fiskverðs á Bandaríkjamarkaði ekki mætt með nauðsynlegri aðlögun gengis“ — og hrósar sér síðan af að hafa, m. a. með miklu gengissigi undanfarnar vikur, kippt hlutunum í lag. Þetta var í fyrra.

Nú hrósar ríkisstj. sér af stöðugu gengi, en boðar um leið nýja gengisfellingu ef miða á gengisskráningu við „að rekstrargrundvöllur útflutningsatvinnuveganna og þeirra atvinnugreina, sem eiga í samkeppni við innflutning, verði tryggður“, eins og við heyrðum forsrh. segja áðan. Það er vissulega með eindæmum að forsrh. skuli með góðum fyrirvara boða gengisfellingu og gefa spákaupmennsku byr undir báða vængi.

Það er raunar ekkert leyndarmál að af hálfu ríkisstj. eru ákvörðunaraðilar að síldar- og loðnuverði fengnir til að sætta sig við verðákvörðun, sem felur í sér hallarekstur, með því fyrirheiti að gengið verði fellt áður en framleiðslan fer úr landi í nóv. og des. Og það sama er reynt við almenna fiskverðsákvörðun. Sem dæmi má nefna að loðnumjölsframleiðendur telja hallann vera 14% í rekstri til viðbótar 42 millj. kr. lántöku sem ríkissjóður skuldbindur sig. til að greiða eftir tvö ár ef mjölverð í dollurum hefur ekki hækkað þá um 30%. Jafnvel ráðh. hafa í flimtingum að gengið verði fellt fljótlega í nóv. eða des., eftir landsfund Sjálfstfl. Önnur ástæða til þess að draga gengisfellinguna á langinn er að áhrifa hennar gætir ekki við útreikning kaupgjaldsvísitölu 1. des. n. k. og um áramótin til að velta verðhækkunum fram yfir þau.

Þá erum við komin að sýndarmennsku ríkisstj. í baráttu gegn verðbólgu. Eftir nákvæmlega engan árangur á fyrsta starfsári, í fyrra, hreykja menn sér af að koma verðbólgunni úr 60% í 40% frá byrjun til loka þessa árs. Í þeim efnum getur ríkisstj. fyrst og fremst þakkað Reagan Bandaríkjaforseta hækkun á gengi dollarsins sem fróðir menn tel ja að dregið hafi úr verðhækkunum hér er nemi 10–15%. Að öðru leyti getur ríkisstj. aðeins hrósað sér af 7% kaupskerðingu 1. mars s. l., sem ég heyrði nú ekki að forsrh. minntist á, falsi á vísitölu með tilfærslum á niðurgreiðslum og verðhækkunum fyrir og eftir útreikningsdag vísitölu og frestunum á óhjákvæmilegum verðhækkunarþörfum opinberra fyrirtækja og einkafyrirtækja.

Sautján ára gömul úrelt framfærsluvísitala er ekki góður mælikvarði á verðbólguvöxtinn. Í fyrra sagði forsrh. að ný vísitala yrði tilbúin um síðustu áramót. Nú er ekki minnst á hana lengur. Sú gamla vísitala þjónar víst betur í blekkingarleiknum. En við höfum annan mælikvarða á verðbólguvöxtinn. Í grg. fjárlagafrv. segir að útgjöld ríkisins hafi aukist yfir 60% fyrstu 9 mánuði þessa árs miðað við sama tíma í fyrra. Ætli heimilin í landinu hefðu ekki þurft á svipaðri hækkun að halda og fjmrh. Peningabudda fólksins er besti mælikvarðinn á verðbólguna. Ég hygg það samdóma álit manna, að eftir myntbreytinguna endist 100 nýkr. seðill eða 10 þús gkr. ekki lengur en 5000 kr. seðill áður. Í stað þess að myntbreytingin gat verið öflugt tæki í baráttu gegn verðbólgu, ef stjórnvöld hefðu þekkt sinn vitjunartíma og gert viðeigandi ráðstafanir, hefur myntbreytingin því miður jafnvel reynst skálkaskjól áframhaldandi verðbólguvexti.

Í stjórnarsáttmála er markmiðið að koma verðbólgunni niður á sama stig og í viðskiptalöndum þegar á árinu 1982. Í stefnuræðu í fyrra var sagt: í lok ársins 1982. Í stefnuræðu nú: svo fljótt sem kostur er. Vitað er að ætlunin var að segja í stefnuræðu: að koma verðbólgu niður í 25%, — en Alþb.-ráðh. strikuðu það út, enda verður verðbólgan meira en tvöfalt það ef ekkert er að gert. Ríkisstj. er komin á undanhald í verðbólgumálum og trúir ekki lengur á eigin markmið og árangur eigin aðgerða.

Ríkisstj. hrósar sér af jafnvægi í ríkisfjármálum og peningamálum þegar slíku jafnvægi er ekki til að dreifa. Það er lítill vandi að hrósa sér af greiðsluafgangi hjá ríkissjóði þegar skattaálögur eru auknar og útgjöldum er velt yfir í lánsfjáráætlun. Það er ekki nóg að hrósa sér af því, að skuld við Seðlabankann lækki í hlutfalli við þjóðarframleiðslu, ef ríkissjóður eykur erlendar lántökur um hærri upphæð. Gísli Blöndal fyrrv. hagsýslustjóri hefur bent á í grein í Fjármálatíðindum að rétt mynd af afkomu ríkissjóðs og þensluáhrifum ríkisfjármála fáist ekki nema taka slíkar lántökur með í reikninginn. Ef greiðslustaða samkv. fjárlagafrv. 1982 er leiðrétt á þessum forsendum sýnist við fljótlega athugun verða nær 300 millj. kr. greiðsluhalli á ríkissjóði á næsta ári í stað greiðsluafgangs. Það eru fyrst og fremst erlendar lántökur ríkissjóðs sem snúa dæminu við, en þær eiga víst að aukast um 90% á næsta ári.

Innlánsaukning í lánastofnunum á einnig rætur sínar að rekja m. a. til innflutnings erlends fjármagns. Það stoðar lítið að binda innlánsfé bankanna til að draga úr þenslu og verðbólgu innanlands ef jafnóðum er flutt inn erlent fjármagn, ef opinberum fyrirtækjum eins og Landsvirkjun, Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Reykjavíkur og fleiri fyrirtækjum er bannað að hækka taxta sína og bent á að taka milljarða gkr. að láni erlendis sem viðskiptamenn þeirra verða auðvitað að greiða fyrr en seinna að viðbættum vöxtum um leið og þjónustu þessara fyrirtækja er stefnt í voða. Með þessu er e. t. v. hægt að draga úr vexti verðbólgu í bili, en það hefnir sin fljótt með þeirri afleiðingu að verðhækkanir og verðbólguvöxtur verður enn meiri fljótlega.

Fyrir stuttu heimilaði ríkisstj. Framkvæmdasjóði að taka erlent lán til að greiða úr fjárþörf og hallarekstri atvinnufyrirtækja víðs vegar um land. Ætli það auki ekki peningaþensluna og verki þannig eins og olía á verðbólgubálið? Sjálfsblekkingin er svo alger að fé er bundið hjá innlendum lánastofnunum og viðskiptavinum vísað á erlendar lánastofnanir. Það er að vissu marki verið að flytja bankastarfsemina út úr landinu eins og gerst hefur í heildversluninni áður vegna óraunhæfra verslunarhafta. Þó er innlend bankastarfsemi og innlend verslun forsenda sjálfstæðis okkar. Með þessari stjórnarstefnu er verið að flytja okkur öld aftur í tímann. Ríkisstj, lifir í raun á aukningu erlendra lána, og greiðslubyrði afborgana og vaxta á næsta ári verður meiri en þessi greiðslubyrði hefur nokkru sinni verið áður, eða um 18%, í stað þess að ríkisstj. hét því í stjórnarsáttmála að fara ekki fram úr 15% greiðslubyrði í afborgunum og vaxtagreiðslum erlendra lána.

Forsrh. sagði að vextir hefðu tvívegis verið lækkaðir á þessu ári. En sannleikurinn er sá, að víxilvextir eru prósentustigi hærri en þegar núv. stjórn tók við. Og þar sem vextir af vaxtaaukalánum hafa lækkað hafa vextir af skuldabréfum hækkað, en verðtryggð lán hafa aukist og eru yfirgnæfandi hluti lánamarkaðarins, hins almenna hluta.

Alþb. lofaði vaxtalækkun, en fjármagnskostnaður hefur aldrei hækkað meira en á valdatíma þess.

Alþb. lofaði að tryggja kaupmátt launa en frá því að það komst til valda í sept. 1978 og til nóv. n. k. rýrnar kaupmáttur kauptaxta um 9% þótt þjóðartekjur á mann séu þær sömu og 20–30% kauphækkun þyrfti í raun til að efna loforðið um „samningana í gildi“. Ef launþegasamtökin gerðu jafnvirði 100 þús. kr. mánaðarlauna að kröfu sinni í dag, eins og þau gerðu á ASÍ-þingi 1976, þyrftu mánaðarlaun nú að vera 6632 kr. Það þýðir kröfu um 37% hækkun á grunnkaupi í dagvinnu. Samkv. þessu eru bæði minni hluti og meiri hluti Verkamannasambandsins með hóflega kröfugerð miðað við það sem formaður þess, Guðmundur J. Guðmundsson, og núverandi forseti ASÍ, Ásmundur Stefánsson, kröfðust 1976.

En hver er stefna Alþb. í kaupgjaldsmálum? Ég spyr fulltrúa þess í umr. hér í kvöld og raunar alla ráðh.: Standa þeir með meiri hluta eða minni hluta Verkamannasambandsins? Telja þeir kröfugerð ASÍ og BSRB sanngjarna?

Skiptar skoðanir um kröfugerðina innan Verkamannasambandsins sýna annars vegar hráskinnsleik kommúnista í kjaramálum og hins vegar að fínu Alþb.- ráðherrarnir eru nú í verulegri hættu að missa völd sín innan verkalýðshreyfingarinnar. Reynslan sýnir að Alþb.- ráðherrar eru tilbúnir að beita launþegum fyrir vagn sinn og fórna hagsmunum þeirra, ef því er að skipta, til að kaupa sér völd og ráðherrastóla að því marki að þeir geti haldið áfram að blekkja launþega, rýra kjör þeirra og misnota valdaaðstöðu sína í verkalýðshreyfingunni. En launþegar sýna nú þess merki, að ráðherrar Alþb. hafi ekki ráð þeirra í hendi sér, og þá fara Alþb.- ráðh. að ókyrrast, jafnvel í ráðherrastólum.

Samstarfsmenn Alþb. í ríkisstj. hafa verið þeim ótrúlega leiðitamir og andvaralausir. Alþb. er markvisst að gera einstaklinga, fjölskyldur, heimili, atvinnufyrirtæki og sveitarfélög háð náðarbrauði úr hendi valdhafanna. Einum er „reddað“ í dag, öðrum á morgun, enn aðrir detta upp fyrir að vilja valdhafanna. Í bili er stungið upp í SÍS til að hafa framsóknarmenn góða. Og þótt Sambandshraðfrystihúsið stöðvist í Keflavík er SÍS lánað 100% í hraðfrystihús á Patreksfirði og gert kleift að kaupa annað á Suðureyri og steypustöð á Ísafirði þar sem kaupfélagið hefur rambað á barmi gjaldþrots. Þótt SÍS-verksmiðjum á Akureyri liggi við stöðvun kaupir KEA hvert fyrirtækið á fætur öðru. En þetta er framsóknarmönnum skammgóður vermir því að til lengdar lifa samvinnufélögin ekki ef atvinnufyrirtækjum almennt eru búin þau skilyrði sem núv. ríkisstj. telur sér sæma.

Samstarfsmenn kommúnista í ríkisstj. voru þeim einnig svo leiðitamir og fíknir í valdastólana að þeir skrifuðu undir leynisamning og veittu kommúnistum neitunarvald í öllum meiri háttar málum. Alþb. ber það nú fyrir sig til að þvælast fyrir og stöðva svo sjálfsagðar framkvæmdir sem byggingu eldsneytisgeyma og flugstöðvar á Keflavikurflugvelli.

Geta má nærri að engin skilyrði eru til þess, meðan núv. ríkisstj. situr, að við Íslendingar tökum virkari þátt í ákvörðunum er varða öryggi og varnir okkar sjálfra, eins og nauðsyn ber til á viðsjárverðum tímum, enda er lítið fjallað um þessi mikilvægu utanríkis- og öryggismál í stefnuræðu forsrh. Þau eru feimnismál í núv. ríkisstj.

Ríkisstj. hefur notið góðæris, viðskiptakjör farið heldur batnandi og fiskafli verið í hámarki. Frá útfærslu efnahagslögsögunnar í 200 sjómílur hefur þorskafli tvöfaldast. En þótt við höfum haft úr meiri verðmætum að vinna er hagvöxtur nú að stöðvast. Ekki er búist við að fiskstofnar umhverfis landið þoli öllu meiri veiði, og þótt unnt sé að auka framleiðni með bættum tækjabúnaði, eins og tölvuvæðingu, verðum við að sækja í vaxandi mæli einnig á önnur atvinnumið en fiskimiðin umhverfis landið. Auk gróðurs jarðar verðum við að nýta orkulindir okkar, virkja fossa og hitann í iðrum jarðar. En ríkisstj. hefur enga ákvörðun tekið í þeim efnum. Í meira en þrjú ár hefur iðnrh. verið að hugsa, en ekkert gert. Eina afrek ráðh. var að reyna að tefja Hrauneyjafossvirkjun um eitt ár, og blasti alvarleg rafmagnsskömmtun við í vetur ef þau áform hefðu tekist.

En þótt nauðsynlegt sé að nýta orkulindir okkar til að auka hagvöxt verðum við að koma orkunni í verð, nýta hana. Það er ekki þörf á nýrri virkjun, jafnvel allan þennan áratug, ef enginn er kaupandi orkunnar, ef orkufrekur iðnaður kemst ekki í gagnið. Þótt sagt sé að iðnrh. hafi 43 starfshópa í kringum sig er eins og þeir flækist hver fyrir öðrum og rugli ráðh. og ríkisstj. í ríminu svo að engin ákvörðun er tekin um orkufrekan iðnað. Síðustu þrjú árin hafa farið til lítils í þessum efnum. Afleiðingin er sú, að nú þegar Hrauneyjafossvirkjun er komin í gagnið renna 8 millj. dollara eða yfir 60 millj. nýkr. í hafið á hverju ári næstu árin vegna þess að enginn kaupandi er að orkunni.

Það er ástæða til að spyrja hver stefna ríkisstj. í orkumálum og stóriðjumálum sé. Gerir ríkisstj. sér grein fyrir því, að sá alvarlegi dráttur, sem hefur orðið á ákvörðun í virkjunarmálum, veldur því, að sérþekking sú, sem safnast hefur saman við virkjunarframkvæmdir í Þjórsá í hálfan annan áratug, er að tvístrast og dreifast og þar með getum við misst þessa sérþekkingu niður?

Okkur Íslendingum er brýn nauðsyn að marka stórhuga atvinnumálastefnu er byggist á orkuframkvæmdum og iðnaði, jafnframt stefnumótun í sjávarútvegi og landbúnaði, verslun og samgöngum.

Við leysum ekki vandamál stöðnunar og verðbólgu með úrræðum sósíalista, auknum ríkisumsvifum, skattaálögum, höftum, boðum og bönnum. Leið sósíalista er fullreynd í Póllandi og austan tjalds. Við Íslendingar kjósum ekki slíka hörmung yfir okkur. Við verðum aftur á móti að draga úr ríkisumsvifum og skattheimtu, nýta frumkvæði, framtak og hugvit einstaklinganna og búa atvinnuvegunum almenn skilyrði til að bæta lífskjör í landinu og félagslegt öryggi allra landsins barna. Við vinnum okkur þá fyrst út úr vanda verðbólgu og skertra lífskjara ef við höfum skilning á því að hvetja menn til aukinnar verðmætasköpunar en letja ekki. — Ég þakka þeim sem á hlýddu.