17.12.1981
Neðri deild: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

145. mál, málefni fatlaðra

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Málefni fatlaðra hafa æ meir komist í sviðsljósið á undanförnum árum og menn æ betur gert sér grein fyrir því, að þau mál þarfnast miklu meiri athygli í þjóðfélaginu heldur en verið hefur raunin á undanförnum árum. Frumkvæði í þessum efnum hefur fyrst og fremst komið frá einstaklingum, komið frá áhugamannahópum, sem ýmist eru fatlaðir eða þurfa að umgangast fatlaða, og hefur margt mjög vel verið gert af þeirra hálfu í þessum málum undanfarin ár. Mönnum hefur þó smám saman vaxið skilningur á því, að það sé nauðsynlegt að gera skipulegra átak en gert hefur verið hingað til og þar þurfi forganga ríkisins til að koma. Ég vil því fagna því, að þetta frv. til l. um málefni fatlaðra skuli hafa verið lagt hér fram á hv. Alþingi. Í rauninni væri ástæða til þess að ræða þetta frv. ítarlega hér við 1. umr., en aðstaða hér í þinghaldinu, eins og hæstv. félmrh. rakti í sinni ræðu áðan, gerir það ekki mögulegt. Það er samkomulag um að koma þessu máli til nefndar svo að nefndin geti þegar tekið til starfa og leitað umsagna þannig að meiri líkur séu á en ella að frv. geti fengið afgreiðslu á þessu þingi. Ég vil þó gera nokkrar athugasemdir við frv.

Ég fagna þeim markmiðum, sem sett eru í 1. gr. frv., að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lifi og hasla sér völl í samfélaginu þar sem þeim vegni best, enn fremur að tryggja heildarsamtökum fatlaðra og félögum þeirra áhrif á ákvarðanatöku um málefni sín, svo sem með því að leita umsagnar heildarsamtaka fatlaðra eða sérstakra félaga þeirra eða styrktarfélaga fatlaðra, sem hlut eiga að máli hverju sinni, við gerð og framkvæmd áætlana, laga og reglugerða er þau varða. Ég vil enn fremur lýsa ánægju minni með það sem fram kemur í grg. með frv., þar sem því er lýst sem öðru megineinkenni frv., að nú sé í fyrsta sinn komið á heildarskipulagningu félagslegrar þjónustu hins opinbera við fatlað fólk án tillits til þess hver fötlunin er. Ég held að mjög mikilvægt atriði sé að ekki sé gerður munur á þjónustu og réttindum fatlaðra eftir því hver fötlunin er, en á því hefur bryddað í okkar þjóðfélagi hingað til. Og ástæðan er að sjálfsögðu fyrst og fremst sú, að aðstandendur eða þeir, sem hafa tekið að sér að vinna fyrir hina einstöku hópa fatlaðra, hafa verið mismunandi duglegir eins og gengur, og því hefur árangur af starfi fyrir hina mismunandi hópa verið mjög misjafn.

Ég vil sérstaklega fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. félmrh. hér áðan að hann telji að þetta frv. sé lagt fram og samið í þeim anda, að hin frjálsu samtök einstaklinganna í þjóðfélaginu eigi að fá að njóta sín til fulls og frumkvæði þeirra í þessum málum eigi að njóta sín á sama hátt og verið hefur. Ég held að þetta sé mikilvægt, ekki síst með tilliti til forsögunnar í þessum málaflokki, þar sem hin frjálsu félög einstaklinga hafa lyft grettistaki á ýmsum sviðum í þessum efnum og því sjálfsagt og nauðsynlegt að þjóðfélagið nýti sér þann kraft, sem í þessum samtökum býr, og þann mikla áhuga, sem þar ríkir til að leggja þessum málum lið.

Það, sem ég vil hins vegar sérstaklega gera athugasemdir við í frv. og gagnrýna, er fjármögnunarþáttur þess, þ. e. sá kafli sem fjallar um Framkvæmdasjóð fatlaðra. Þar er gert ráð fyrir, að stofnaður sé sérstakur sjóður er nefnist framkvæmdasjóður fatlaðra og skuli hann vera í vörslu félmrn. og sá sjóður yfirtaki Framkvæmdasjóð þroskaheftra og öryrkja samkv. lögum sem um málefni þroskaheftra gilda, og enn fremur að sjóður þessi taki við því hlutverki sem Erfðafjársjóður hefur haft til þessa. Þetta er gott og blessað, ágætt, að slíkur sjóður sé stofnaður, og eðlilegt að Framkvæmdasjóður þroskaheftra og öryrkja renni inn í þennan sjóð, vegna þess að þessi lög taka yfir það svið sem núgildandi lög um aðstoð við þroskahefta ná yfir. Hins vegar er alls ekki nægilega tryggilega frá því gengið í þessu frv., hverjar raunverulegar tekjur sjóðsins eigi að vera, og við höfum upplifað það hvað eftir annað, síðast nú fyrir tveimur dögum, að slík ákvæði í lögum eru ákaflega marklítil ef viðkomandi ríkisstjórnir hafa ekki áhuga á að halda ákvæði laganna að því er tekjuöflunina snertir.

Í núgildandi lögum um aðstoð við þroskahefta segir að ríkissjóður skuli árlega leggja þeim sjóði til a. m. k. 1000 millj. kr. eða 1 milljarð. Síðan segir: „Skal sú fjárhæð hækka í hlutfalli við verðlagsvísitölu miðað við árið 1979 að grunni.“ Meðalvísitala byggingarkostnaðar árið 1979 var 318 og er eðlilegt að miða við þá vísitölu þegar fjallað er um grunninn sem byggja á ofan á þegar þessi upphæð er hækkuð sem í lögum um aðstoð við þroskahefta segir. Ef þessu væri fylgt ætti sú upphæð, sem nú ætti að vera í fjárlögum, að vera 31.8 millj. kr., vegna þess að vitað er að fjárlagafrv. miðast við að byggingarvísitala eigi að vera 1011 á árinu 1982. Það, sem hins vegar hæstv. ríkisstj. gerir, er að hún tekur meðaltal byggingarvísitölu áranna 1979 og 1980, tekur þessar tvær meðalvísitölur, deilir í með tveimur og leggur þar með grunninn sem byggt er ofan á. Þannig er fengin sú tala sem fjárlagafrv. er hækkað upp í, 28 millj. 140 þús. kr. Þetta er að sjálfsögðu algerlega óleyfilegt samkv. skýrum ákvæðum laga um Framkvæmdasjóð þroskaheftra og öryrkja, því að þar er ekki talað um meðalvísitölu ársins 1980, heldur verðlagsvísitölu miðað við árið 1979 að grunni, eins og segir ákveðið í þessum lögum. Sú upphæð, sem þarna á að vera raunverulega, ætti þess vegna að vera 31.8 millj. kr. og við nokkrir hv. þm. fluttum nú við 2. umr. fjárlaga um það brtt. sem var felld af hæstv. stjórnarliðum, af hæstv. ráðh. m. a. og öðrum stjórnarliðum.

Sama gildir um Erfðafjársjóðinn. Það eru alveg skýr ákvæði um það í lögum, að erfðafjárskattur svokallaður eigi að renna í Erfðafjársjóð og Erfðafjársjóður eigi að fjármagna stofnanir sem þar eru tilgreindar, sem í reynd hafa fyrst og fremst verið endurhæfingarstofnanir. Og það hefur verið Endurhæfingarráð sem hefur veitt fjármagn úr þeim sjóði. Hins vegar hefur það gerst núna æ ofan í æ undir forustu núv. hæstv. ríkisstj., að þetta fjármagn hefur verið skert. Og ég bæti við það sem ég sagði áðan varðandi Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra, að þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur verulega skert það fjármagn sem lögum samkvæmt ætti að renna í þann sjóð. Það hefur verið regla hjá hæstv. ríkisstj. síðan þessi sjóður var stofnaður. Erfðafjárskatturinn á að gefa í tekjur samkv. fjárlagafrv. 13 millj. kr. Hins vegar er í frv. til lánsfjárlaga ákvæði um það, að erfðafjárskatturinn eigi ekki að renna allur í Erfðafjársjóð, heldur einungis 9 millj. kr., sem væntanlega mun þó hækka upp í 9 millj. 832 þús. kr. samkv. þeirri brtt. sem flutt var við fjárlagafrv. Þetta ættu að vera 13 millj. Afganginn tekur ríkissjóður sjálfur í sína eyðsluhít. Þetta finnst mér vera gagnrýnisvert. Ég tel, að það ætti að ganga mun tryggilegar frá því, og vil beina því til hv. nefndar, sem þetta mál fær til meðferðar, að reynt verði að ganga tryggilegar frá því en raun ber vitni um, að hér sé um raunverulegar tekjur að ræða, að hæstv. ríkisstj., hver sem hún er á hverjum tíma, geti ekki gengið í þessa sjóði eins og hún gerir í raun með því að taka hluta af þeim til eigin nota, til venjulegrar eyðslu ríkisins.

Ég sagði það við fjárlagaumr., þegar ég mælti fyrir þessari brtt., að mér fyndist það heldur kaldar kveðjur á ári fatlaðra, sem Alþb., hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. senda með því að flytja sérstakar tillögur um, leggja sérstaka lykkju á leið sína og flytja tillögur um að það fjármagn, sem verja eigi til stofnana í þágu fatlaðra, skuli skert eins og gert hefur verið. Sannleikurinn er sá, að verkefnin æpa alls staðar á okkur í þessum efnum. Það liggja fyrir nauðsynlegar beiðnir um margvíslegar stofnanir í þágu fatlaðra, sem er brýn nauðsyn að hefjast handa við. Þess vegna er það ósæmilegt, vil ég segja, að hæstv. ríkisstj. skuli hrifsa til sín hluta af þessu fjármagni andstætt því sem gildir í lögum. Ég tel því að þetta þurfi sérstakrar athugunar við. Ég bendi á til viðbótar að í rauninni er hér ekki um neina nýja tekjustofna að ræða frá því sem ætlað er nú til Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra eða í Erfðafjársjóð, heldur ívið lakari hlutur, sem þarna er á ferðinni, en þó er í gildandi lögum. Engu að síður eru aukin verkefni ætluð þessum sjóði nú miðað við þetta frv. Það er bæði fjölþættari þjónusta, sem þetta fjármagn á að standa undir, og fleiri stofnanir, eins og hæstv. félmrh. gat um í sinni ræðu.

Ég vildi sérstaklega gera þessar athugasemdir við þetta frv. á þessu stigi. En ég ítreka það, að ég tel sjálfsagt og nauðsynlegt að greiða fyrir því, að frv. komist nú til nefndar og það verði afgreitt á þessu Alþingi. Ég fagna því, að þetta frv. skuli nú komið fram, svo að hv. Alþingi geti nú næstu vikur unnið í því og vonandi samþykkt það áður en þingi lýkur að vori. Og ég vonast til að sú afgreiðsla verði til blessunar fyrir hið fjölmarga fatlaða fólk í landinu, en brýna þörf ber til að bæta aðstöðu þess.