17.12.1981
Neðri deild: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

145. mál, málefni fatlaðra

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þó að ástæða væri til að ræða þetta mál allítarlega skal ég við þessa umr. reyna að stytta mál mitt eins og kostur er.

Í grg. með frv., sem hér er til umr., kemur fram að ég hafi sem nm. í stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra tekið þátt í lokavinnslu frumvarpsdraganna um málefni fatlaðra. Af því mætti draga þá ályktun, að ég væri sæmilega sátt við þetta frv., eins og það hér liggur fyrir, og mundi því styðja það og veita því brautargengi. Ég vil strax láta það koma fram í upphafi míns máls, að eins og frv. hefur verið lagt fyrir Alþingi hefur við endanlega gerð þess verið kippt stoðunum undan því — þeim stoðum að hægt sé að vænta árangurs í framkvæmd verði frv. þetta samþykki í óbreyttri mynd. Þær stoðir eru vitaskuld fjármagnshlið þessa frv., sem er forsenda þess, að Alþingi geti staðið við þær skuldbindingar sem felast í þessu frv.

Hæstv. ráðh. talar um að hér séu bráðabirgðatölur varðandi Framkvæmdasjóðinn, endanleg tala muni taka mið af gildistímanum, en ég tel að líta verði ekki síður á fjárhagsskuldbindingar þær, sem þetta frv. felur í sér, og aukin verkefni. Ég vil undirstrika, að í endanlegri mynd sá ég ekki þetta frv. áður en það var lagt fyrir Alþingi. Sú breyting, sem þetta frv. hefur tekið frá síðustu frv.-drögum sem stjórnarnefnd málefna þroskaheftra fjallaði um, er svo veigamikil að mín afstaða við meðferð frv. nú á Alþingi mun fyrst og fremst mótast af því, að þetta frv. verði byggt á raunhæfum tölum í fjármögnun til þeirra framkvæmda, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og á nýjan leik fái þetta frv. trygga fjárhagslega stoð. Ég segi: á nýjan leik, því að í síðustu frv.-drögunum, sem fjallað var um hjá stjórnarnefnd málefna þroskaheftra og ég vænti einnig hjá hagsmunasamtökum fatlaðra, byggði frv. á, það kom skýrt fram í frv.-drögunum, að ætlaðar voru 50 millj. kr. tekjur sem renna áttu í Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra, auk þess sem fram kom að renna ættu til sjóðsins óskertar tekjur Erfðafjársjóðs. Í núverandi mynd kemur svo fram að einungis eiga að renna til sjóðsins 27 millj., eins og frv. er hér lagt fyrir okkur. En ég undirstrika að ráðh. hefur talað um að þetta væru bráðabirgðatölur, og ég vona að þessar tölur taki miklum breytingum við endanlega gerð þessa frv. Það var einnig talað um að tekjur Erfðafjársjóðs rynnu óskertar, en nú er einungis talað um tekjur Erfðafjársjóðs. Allir vita að nauðsynlegt er að hafa orðalagið „óskertar tekjur Erfðafjársjóðs“, því að sjóðurinn er oftast skertur í meðförum fjárlaga á Alþingi.

Ég tel það mjög ámælisvert, að þeir, sem um þessi frv.-drög hafa fjallað, bæði stjórnarnefnd málefna þroskaheftra og hagsmunasamtök öryrkja og fleiri aðilar, sem um málið hafa fjallað, hafa hreinlega verið blekktir hvað fjármagn til sjóðsins varðar, eins og fram kemur í frv. Það segir sig sjálft, að afstaða þeirra, sem um þetta mál hafa fjallað, hefur tekið verulegt mið af þeim tekjum sem ætla mátti að rynnu til sjóðsins. Það er undirstaða þess að vænta megi árangurs af þeim breytingum sem lagðar eru til í þessu frv. Ég undirstrika því enn og aftur að stuðningur minn við þetta frv. er fyrst og fremst undir því kominn að tekjur til sjóðsins verði stórlega auknar og staðið verði við það loforð sem hlaut að felast í þeim frv.-drögum sem hagsmunaaðilar fjölluðu um, 50 millj. kr. framlag til sjóðsins auk óskertra tekna Erfðafjársjóðs.

Í grg. með þessu frv. kemur einmitt óbeint fram að þetta sé marklaust plagg nema fjárhagsgrundvöllur þess verði tryggður, en þar segir, með leyfi forseta, 35. gr., þar sem fjallað er um tekjur sjóðsins:

„Hér eru taldar upp þær tekjur, sem gert er ráð fyrir að framkvæmdasjóðurinn fái. Stærsti tekjuliðurinn verður tvímælalaust framlag ríkissjóðs og er ekki vafi á því að framkvæmdir samkv. lögunum, ef frv. verður að lögum, muni að verulegu leyti vera undir því komnar hversu mikið fjármagn ríkið veitir sjóðnum,“ segir í þessari grg. Þetta er einmitt kjarni þessa máls og kemur fram í grg. frv.

Ef hæstv. ríkisstj. ætlar sér í raun að leggja grunn að því með þessu frv., að stigið verði skref fram á við í málefnum öryrkja, er varla hægt að sjá að sú sé meiningin nema á pappírnum þegar ekki eiga að renna aðrar tekjur til málefna fatlaðra en nú er gert ráð fyrir í lögum um aðstoð við þroskahefta, en með þessu frv. eru lögð aukin verkefni og þar með skuldbindingar á Framkvæmdasjóðinn án þess að tryggja honum auknar tekjur. Sjóðurinn á að yfirtaka öll verkefni Erfðafjársjóðs og fá tekjur hans á móti. Þaðan virðist ekki eiga að koma viðbót við fjármagnið, auk þess sem aðrir þættir þessa frv., bæði í stofnkostnaði og öðru, leggja auknar skuldbindingar á sjóðinn sem hann að óbreyttu fjármagni getur ekki staðið við. Kjarninn er því sá, að í þessu frv. felast auknar framkvæmdir og viðfangsefni í þágu fatlaðra, en hvergi er gert ráð fyrir auknum tekjum til þess að hægt sé að standa við skuldbindingar þessa frv.

Ég get fullvissað hv. alþm. um og ég tel mig hafa töluverða reynslu af málefnum öryrkja, ekki síst þroskaheftra, til þess að fullvissa alþm. um að öryrkjar hafa fengið meira en nóg af dauðum lagabókstaf og fögrum fyrirheitum sem ekki hefur verið staðið við vegna þess að fjármagn vantar. Það er nægilegt að taka hér eitt dæmi, en það er uppbygging sérkennslunnar í landinu.

Í grunnskólalögunum frá 1974 og reglugerð þar að lútandi var lagður grundvöllur að markvissri uppbyggingu sérkennslunnar í landinu, bæði innan hins almenna grunnskóla og utan hans. Í skýrslu menntmrh. til Alþingis 1978 um framkvæmd grunnskólalaganna kemur fram, að áætlanir, sem voru gerðar, miðuðu við 10 ára framkvæmdaáætlun til að koma sérkennslumálum í sæmilegt horf. Á þeim tíma, 1978, þegar fjögur ár voru liðin af þessari framkvæmdaáætlun, hafði svo óverulegu fjármagni verið varið í sérkennslumálefni að lítið sem ekkert hafði verið framkvæmt. Svo var komið 1978, að 500–600 millj. gkr. á verðlagi 1978 þurfti að veita árlega fram til 1984 til að áætlanir menntmrn. stæðust, en það ár var einungis varið á fjárlögum til þessa verkefnis um eða innan við 100 millj. gkr. Hér er því ljóslifandi dæmi um fögur fyrirheit í reglugerð og lögum, sem ekki var staðið við af hálfu Alþingis.

Á þeim tíma, 1978, lagði ég því fram frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja, sem standa átti undir þessum verkefnum ásamt því að fjármagna ýmis önnur verkefni í endurhæfingarmálum öryrkja. Framkvæmdasjóður þessi var síðan felldur inn í lög um aðstoð við þroskahefta, sem þá lá fyrir Alþingi. Í lögum um aðstoð við þroskahefta var lagður grunnur að stórfelldum breytingum í framfaraátt í þágu þroskaheftra hér á landi. Ekki var þó í frv., þegar það var lagt fyrir Alþingi, gert ráð fyrir neinum fjármunum í því skyni að standa undir verkefnum sem fram komu í því frv. Niðurstaða Alþingis varð þó sú að fella frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja, sem þá var til umr. á Alþingi, inn í það frv: Átti sá sjóður að standa undir fjármögnun þess auk sérkennslunnar og veita einnig fjármagn til endurhæfingarmála öryrkja. Það er ljóst, að frá því að þessi sjóður komst á laggirnar vorið 1979 hafa orðið umtalsverðar breytingar í uppbyggingu á stofnunum og allri þjónustu við þroskahefta og öryrkja því að þegar upp er staðið er það endanlega fjármagnið sem ræður því, hvað sem fögrum fyrirheitum í lagabókstaf liður, hvort hægt sé að standa við þær skuldbindingar sem lagabókstafurinn kveður á um.

Ég tel nauðsynlegt að undirstrika og rökstyðja enn frekar en hér hefur komið fram í máli mínu nauðsyn þess, að tekjur þessa frv., sem við fjöllum um hér, um málefni fattaðra verði stórlega hækkaðar í meðförum Alþingis. Á fjárlögum fyrir árið 1982 var gert ráð fyrir 26 millj. rúmum, en í meðferð Alþingis hefur sú upphæð verið hækkuð í um 28 millj. Áður en Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra kom til og lögin um aðstoð við þroskahefta var mjög lítill þjónusta við þroskahefta úti á landsbyggðinni. Sú takmarkaða þjónusta, sem fyrir hendi var, var mestmegnis hér á stór-Reykjavíkursvæðinu og nokkur á Akureyri, enda runnu sáralitlar upphæðir til þjónustu við þroskahefta bæði á fjárl. og eins í Styrktarsjóð vangefinna. Samkv. lögum um aðstoð við þroskahefta er landinu nú skipt í átta starfssvæði hvað málefni þroskaheftra varðar. Á hverju svæði starfar fimm manna svæðisstjórn sem gerir áætlanir um þjónustuþörf og framkvæmdir á hverju svæði fyrir sig. Gefur þó auga leið, að á mörgum svæðanna, þar sem enginn eða mjög takmörkuð þjónusta hefur verið fyrir hendi, er fjármagnsþörfin geysilega mikil, en í lögunum er kveðið nákvæmlega á um, hvaða þjónusta skuli veitt á hverju svæði, og hefur Alþingi þar með tekið á sig ákveðnar fjárhagslegar skuldbindingar.

Til að rökstyðja enn frekar nauðsyn þess, að leiðrétting fáist á tekjum sjóðsins sem ráð er fyrir gert í þessu frv. um málefni fatlaðra, er rétt að fram komi hér á hv. Alþingi upplýsingar um þær fjárhagsbeiðnir sem stjórnarnefnd sjóðsins hafa borist fyrir árið 1982. Ég ætlaði mér að gera grein fyrir þessum fjárhagsbeiðnum á hverju svæði og rökstyðja nauðsyn þeirra, en ég vil láta mér nægja, þar sem tími er naumur orðinn nú fyrir jólahlé, að gera aðeins grein fyrir heildartölunni sem er rúmar 70 millj. kr., en til ráðstöfunar í sjóðnum eru nú samkv. fjárl. um 28 millj. kr. Ég nefni hér töluna 70 millj. kr., en sú fjármagnsbeiðni hefur sjóðnum borist fyrir árið 1982, en enn þá vantar þó áætlanir varðandi Norðurland vestra og sumpart fyrir Austurland. Hér er því um mikla framkvæmdaþörf og skuldbindingar að ræða, sem sjóðurinn hefur samkv. lögum um aðstoð við þroskahefta, en framkvæmdaþörf á næsta ári hljóðar upp á, eins og ég segi, rumar 70 millj., en ráðstöfunarfé er um 28 millj. Nú er ætlunin að leggja enn auknar skuldbindingar á sjóðinn án þess að til komi nokkurt fjármagn umfram það sem sjóðurinn hefur í dag. Breytist þessi upphæð ekki verulega í meðförum Alþingis standa öryrkjar enn einu sinni frammi fyrir því, að verið er að samþykkja fögur fyrirheit þeim til handa sem lítil trygging er fyrir að við verði staðið því að að sama skapi er ekki gert ráð fyrir auknum fjárveitingum.

Samkv. 7. gr. frv. koma fram þau viðbótarverkefni, að sjóðurinn á að fjármagna núna sumarbúðir fyrir fatlaða í öllum landshlutum. Í upptalningu stofnana fyrir þroskahefta er einnig talað um atvinnuleit. Er alls ófyrirséð hvaða stofnkostnað atvinnuleit í öllum landshlutum muni hafa í för með sér. Í 27. gr. koma fram einnig viðbótarverkefni á sjóðinn. Með því ákvæði á að veita styrk úr Framkvæmdasjóðnum til að stækka verndaða vinnustaði og bæta tækjabúnað. Einnig á að veita fé úr sjóðnum til að breyta almennum vinnustöðum og bæta tækjabúnað sem tryggt geti fötluðum vinnu á almennum vinnumarkaði. Sjá allir í hendi sér að ef veita á fé úr sjóðnum til að breyta almennum vinnustöðum og bæta tækjabúnað til að tryggja fötluðum vinnu á almennum vinnumarkaði er hér um að ræða ákvæði sem alls er ófyrirséð hvaða áhrif muni hafa á skuldbindingar og fjármagn úr sjóðnum.

Í 34. gr. kemur einnig fram, að heimilt er að greiða úr sjóðnum vegna framleiðslustarfsemi fatlaðra í heimahúsum, og er vísað þar til 19. gr., þar sem talað er um að veita styrk eða lán til verkfæra- og tækjakaupa og aðra fyrirgreiðslu í sambandi við heimavinnu eða sjálfstæða starfsemi að endurhæfingu lokinni. Auk þess yfirtekur sjóðurinn skuldbindingar Erfðafjársjóðs varðandi uppbyggingu endurhæfingarstöðva og verndaðra vinnustaða fyrir öryrkja. Er ekki að sjá að sjóðurinn fái neitt viðbótarfjármagn í þessu skyni umfram það sem Erfðafjársjóður hefur nú. Er það athyglisvert í þessu sambandi sem fram kemur í grg. á bls. 26 í frv., en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Í 35. gr. frv. er fjallað um tekjur Framkvæmdasjóðs. Þar eru nýmæli“ — ég undirstrika nýmæli — „frá gildandi lögum um aðstoð við þroskahefta, sem felur það í sér að til viðbótar við ríkisframlagið, frjáls framlög og vaxtatekjur renni til sjóðsins óskertar tekjur Erfðafjársjóðs.“ Er það í samræmi við fyrri frv.-drög, sem hagsmunasamtök fatlaðra fjölluðu um, að í frvgr. sjálfri stóð: óskertar tekjur Erfðafjársjóðs. Nú hefur orðið „óskertar“ verið tekið úr frvgr. sjálfri og eftir stendur einungis: tekjur Erfðafjársjóðs, en í grg., sem ég las upp, á bls. 26 í þessu frv. er svo talað um „óskertar tekjur Erfðafjársjóðs“. Því er nauðsynlegt að fá fram við þess umr. túlkun heilbr.- og trmrh. á þessu ákvæði. Er um að ræða að óskertar tekjur Erfðafjársjóðs eigi að renna til Framkvæmdasjóðsins, eins og fram kemur í grg. frv., og ef svo er, af hverju hefur orðið „óskertar“ verið fellt út úr frv. við lokafrágang þess áður en það var lagt fyrir Alþingi?

Herra forseti. Ég taldi brýnt að eyða nokkrum tíma í ræðu minni í að rökstyðja og undirstrika rækilega hvað brýnt það er að fjármögnun til sjóðsins taki breytingum í meðförum Alþingis og verði hækkuð verulega. Ég vil ítreka, að afstaða mín til endanlegrar afgreiðslu þessa frv. mun byggjast á því, hvaða meðferð fjármögnunarþáttur þessa lagafrv. fær í meðförum Alþingis.

Ég hef ýmsar aðrar aths. fram að færa við þetta frv. sem ég skal ekki fara nákvæmlega út í að tíunda hér, enda á ég sæti í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar. Almennt vil ég segja um þetta frv., að ljóst er að fyrst og fremst er verið að steypa saman í einn lagabálk lögunum um aðstoð við þroskahefta og lögunum um endurhæfingu. Heppilegra hefði hugsanlega verið að fá meiri reynslu á lögin um aðstoð við þroskahefta og þá skipulagsbreytingu, sem þar átti sér stað, áður en tekin væri ákvörðun um að gera þau víðtækari og láta þau ná til allra öryrkja. Ljóst var þó, að lögin um endurhæfingu þurftu gagngerðrar endurskoðunar við og hefði mátt lagfæra þau og sniða af þeim agnúa og taka mið af fenginni reynslu í því efni. Ég vil — með leyfi forseta — vitna í bréf sem stjórnarnefnd málefna þroskaheftra sendi heilbr.- og trmrn. 5. febr. 1981, en þar kemur fram afstaða stjórnarnefndar til þeirrar fyrirhuguðu breytingar að steypa í eina löggjöf lögum um aðstoð við þroskahefta og lögum um endurhæfingu. Bréf þetta er undirritað af öllum nefndarmönnum í stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra, en í henni eiga sæti fulltrúi frá heilbr.- og trmrn., menntmrn. og félmrn., auk fulltrúa frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp. Með leyfi forseta segir svo í þessu bréfi:

„Ljóst er, að þessi frumvarpsdrög fela það einkum í sér að felld eru saman lög um aðstoð við þroskahefta og í annan stað lögin um endurhæfingu. Glögglega kemur fram, að frv.-drögin eru að verulegu leyti byggð á nýsettum lögum um aðstoð við þroskahefta og er uppistaða að skipulagningu á þjónustu við öryrkja sótt í þau lög. Þegar litið er til þess, að með hinni nýsettu löggjöf um aðstoð við þroskahefta var komið á mjög breyttu skipulagi í allri þjónustu og aðstoð við þroskahefta, sem ekki hafði verið reynt áður, gefur það auga leið að allnokkurn tíma tekur að fá reynslu af slíkri löggjöf til að meta það fyllilega, hvort hún nái því markmiði sem að var stefnt, og þá að meta það, hvort betur mætti fara. Á þessu rúma ári, sem liðið er síðan lögin tóku gildi,“ segir í bréfinu, „er varla að vænta að fullkomin reynsla sé fengin af þessari víðtæku skipulagsbreytingu, sem þá átti sér stað. Telur stjórnarnefndin því, að ef samræma á aðra löggjöf því skipulagi hefði verið æskilegra að meiri reynsla hefði fengist á lögin um aðstoð við þroskahefta þannig að sú samræming, sem nú er fyrirhuguð, gæti markast af nægri þekkingu, yfirsýn og reynslu af slíkri löggjöf.“

Í aths., sem stjórnarnefndin sendi síðan frá sér um frv., kom fram fjöldi aths. um frv. og tillit var tekið til margra þeirra við endanlega gerð frv. og því ber að fagna. Frv. hefur þó tekið nokkrum breytingum í endanlegri gerð, sem ekki komu fram í þeim frv.-drögum sem stjórnarnefndin fjallaði um, fyrir utan þá breytingu sem ég hef rakið um fjármögnunina. Ég vil því geta helstu aths. sem ég hef fram að færa utan fjármögnunarinnar.

Varðandi 19. gr., sem kveður á um ýmsar styrkveitingar til fatlaðra, svo sem að þeir, sem séu í endurhæfingu, fái styrk ef þeir geti ekki framfært sig og skyldulið sitt meðan á endurhæfingu stendur, teldi ég réttara að slíkt ákvæði heyrði undir almannatryggingalögin. Styrkveitingar, sem fram koma vegna greiðslu námskostnaðar, sem lífeyrisdeild Tryggingastofnunar á að sjá um, teldi ég eðlilegra að féllu undir lög um framhaldsskóla eða fullorðinsfræðslu. Í þessari grein er einnig ákvæði um styrk eða lán til verkfæra- og tækjakaupa og aðra fyrirgreiðslu í sambandi við heimavinnu eða sjálfstæða starfsemi að endurhæfingu lokinni. Öll þessi þrjú ákvæði um styrkveitingar, sem fram koma í þessari frvgr., tel ég að séu allt of opin ákvæði sem erfið muni reynast í framkvæmd. Inn í þetta ákvæði vantar alla skilgreiningu á skilyrðum sem uppfylla þarf til að njóta styrkja samkv. þessari grein, t. d.: Við hvað er miðað þegar talað eru um endurhæfingu? Hver á styrkupphæðin að vera? Á hún að ákveðast í reglugerð eða hver tekur ákvörðun um styrkfjárhæðir og fyrirkomulag lánveitinga samkv. 2. og 3. tölul. þessarar greinar?

Í 10. gr. kemur fram að fatlað barn á aldrinum 0–18 ára, sem dvelur í heimahúsi eða sem nýtur takmarkaðrar þjónustu, eigi rétt á aðstoð eftir því sem við verði komið. Skýringin, sem fram kemur í grg. á bls. 33 um aldurinn, er nokkuð furðuleg. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ekki er talið eðlilegt að miða við hærri aldur en 18 ára varðandi þessar greiðslur þar sem réttur til örorkulífeyris byrjar frá og með aldrinum 18 ára samkv. almannatryggingalögunum.“

Hér er talað um að réttur til örorkulífeyris miðist við 18 ára aldur, en í 12 gr. laga um almannatryggingar kemur fram að rétt til örorkulífeyris eiga menn frá 16 ára aldri. Hér skýtur nokkuð skökku við og þarfnast þetta sérstakrar skoðunar í nefnd og skýringar við þessa umr. frá hæstv. heilbrmrh.

Aths., sem fram koma við 34. gr., vildi ég einnig gjarnan fá skýringu á hjá hæstv. ráðh. Á bls. 40 í umsögn um greinina kemur fram, að heimilt sé að verja fé sjóðsins til rekstrarkostnaðar, og nefnt að fyrst og fremst sé um að ræða verkefni varðandi sérkennslu og endurhæfingu sem ríki eða sveitarfélögum beri sannanlega ekki að greiða. Af orðalaginu má skilja að ýmislegt fleira geti fallið undir greiðslur úr sjóðnum sem féllu undir rekstrarkostnað. Ég tel því að nauðsynlegt sé að fram komi við þessa umr. túlkun ráðh. á því, sem fram kemur í grg. um 34. gr., þegar talað er um að heimilt sé að verja fé sjóðsins til rekstrarkostnaðar.

Í síðustu mgr. 38. gr. kemur fram hvernig og hverjir skuli vinna framkvæmdaáætlanir og starfsáætlanir vegna fjárveitingu úr sjóðnum. Í greininni kemur fram, að fyrsta stigið sé að svæðisstjórnin safni upplýsingum um þörf fyrir þjónustu vegna fatlaðra samkv. lögum þessum. Svæðisstjórnin sendir svo upplýsingar til viðkomandi ráðuneyta ásamt framkvæmdaáætlun til þriggja ára. Síðan sendir rn. þessar áætlanir til stjórnarnefndar ásamt umsögnum um þær. Þessu er ég sammála. Ég tel að sé eðlileg aðferð vegna áætlana um framkvæmdir. Síðan segir að félmrn. vinni starfsáætlanir í samræmi við þessar áætlanir og sannanlega þörf og fjárveitingu hverju sinni. Ég er þessu ósammála, að það sé félmrn. sem vinna eigi starfsáætlanir í samræmi við sannanlega þörf og fjárveitingar hverju sinni. Ég tel að það eigi að vera stjórnarnefndin sem hefur það hlutverk samkv. 3. gr. frv. að gæta þess, að ráðstafanir varðandi alla þjónustu opinberra aðila verði samræmdar, auk þess sem það er hlutverk hennar samkv. 36. gr. að ráðstafa fé sjóðsins og eins og segir í þeirri grein: að fengnum tillögum svæðisstjórna og umsögnum viðkomandi ráðuneyta, enda var það svo í frv.- drögunum, sem stjórnarnefndin fjallaði um, að þá var í 38. gr. gert ráð fyrir að stjórnarnefndin ynni þessar starfs- og framkvæmdaáætlanir og samræmdi tillögur frá ráðuneytunum þremur miðað við sannanlega þörf og fjárveitingu hverju sinni. Ég vil benda hæstv. félmrh. á að í umsögnum um þessa grein í grg. á bls. 40 kemur þetta einnig mjög skýrt fram. Þar segir að svæðisstjórnir sendi sínar framkvæmdaáætlanir til ráðuneytanna þriggja, félmrn., menntmrn. og heilbrrn., að því búnu hefji rn. vinnslu á þessum upplýsingum og athugun á þessum áætlunum og sendi niðurstöðu vinnu sinnar til stjórnarnefndar, sem síðan vinni starfsáætlanir, eins og segir í lagagr. sjálfri, í samræmi við sannanlega þörf og fjárveitingu hverju sinni. Ég tel því einsýnt að í stað félmrn. í síðustu mgr. 38. gr. eigi að koma stjórnarnefnd, enda eðlilegt að stjórnarnefndin fjalli um áætlanir frá þessum þremur ráðuneytum og geri starfsáætlanir í samræmi við þær, enda hlutverk hennar að samræma alla þjónustu við öryrkja. Þegar stjórnarnefndin hefur síðan gert sínar tillögur um úthlutun úr sjóðnum í samræmi við tillögur svæðisstjórna og umsagnir ráðuneytanna ættu þær að þurfa að hljóta staðfestingu viðkomandi ráðherra. Um það er ákvæði í 26. gr. laga um aðstoð við þroskahefta að leita skuli staðfestingar viðkomandi ráðh. á úthlutuninni, en ég get ekki séð að það ákvæði sé í þessu lagafrv. Ég tel að það vanti.

Ég tel nauðsynlegt að benda á eitt atriði til viðbótar í þessu frv. áður en það fer til nefndar. Það er auðvitað mikilvægt að menn geri sér fullkomna grein fyrir því, til hverra þessi lög eiga að ná og hvernig meta beri hverjir það eru sem aðstoðar eiga að njóta samkv. þessu lagafrv. Í 2. mgr. frv. er talað um að orðið „fatlaður“ í þessum lögum merki þá sem eru andlega eða líkamlega heftir og geta ekki lifað venjulegu lífi án sérstaks stuðnings. Hvernig ber að túlka þetta ákvæði? Nær það t. d. til allra fatlaðra? Nær það t. d. til allra aldraðra sem eru andlega eða líkamlega heftir og geta ekki lifað venjulegu lífi án sérstaks stuðnings? (Félmrh.: Í hvaða grein er hv. þm. að vitna?) Ég er að vitna í 2. gr.

Í grg. um 2. gr. þessa frv., þegar reynt er að skýra hugtakið „fatlaður“, kemur m. a. fram eftirfarandi skýring: „Skerðing (disability) sem er fólgin í hvers konar færnisskerðingu eða færnissviptingu vegna meins til að fást við viðfangsefnið á þann veg og innan þeirra marka sem mönnum er eiginlegt og ætlandi.“ — Þessi skýring ásamt orðanna hljóðan í lagagr. sjálfri, 2. gr., gæti þýtt að aldraðir sem eru andlega eða líkamlega heftir og geta ekki lifað venjulegu lífi án sérstaks stuðnings, eigi að njóta þeirrar aðstoðar sem þetta frv. kveður á um. Því verður það að vera skýrt hvort svo á að vera eða ekki.

Ef við lítum svo á að svo muni vera, þá er umfang þessa frv. mun meira en kannske margur ætlar. Lítum t. d. í því sambandi á 9. gr. frv., en þar segir, með leyfi forseta:

„Fötluðum, sem af óviðráðanlegum ástæðum að mati svæðisstjórna njóta ekki kennslu eða þjálfunar utan heimilis, skal séð fyrir ókeypis kennslu og þjálfun við sitt hæfi.“

Gæti þessi grein t. d. þýtt að allir aldraðir, sem ekki komast á stofnanir, en þurfa þess með, eigi rétt á sjúkraþjálfun og endurhæfingu t. d. í heimahúsum ef þeir fá ekki nauðsynlega meðferð á stofnunum? Mundi þetta þýða að aldraðir, sem eru andlega eða líkamlega heftir og geta ekki lifað venjulegu lífi, eins og fram kemur í 2. gr. frv., ættu að njóta styrks samkv. 19. gr., sem kveður á um styrk ef fjárhagsaðstæður þeirra, sem fatlaðir eru, séu með þeim hætti að þeir geti ekki framfært sig og skyldulið sitt meðan endurhæfing fer fram? Ef lítið er svo á, að túlkun á 2. gr. frv. nái til aldraðra, mundi þetta þá þýða að Framkvæmdasjóður fatlaðra ætti að fjármagna t. d. hjúkrunarheimili fyrir aldraða samkv. 7. gr.? Svo mætti endalaust spyrja, ef menn leggja misjafna merkingu í skilgreiningu á orðinu „fatlaður,“ sem fram kemur í 2. gr., ef ekki liggur skýrt fyrir skilgreining löggjafans á þessari grein. Því þarf að koma mjög nákvæm skilgreining og túlkun, á þessu til að forðast allan misskilning og misjafna túlkun, verði frv. þetta að lögum.

Herra forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Ég taldi nauðsynlegt að fjalla nokkuð ítarlega um þetta frv. nú við 1. umr. um þetta mál, þar sem ég hef verulegar aths. við ýmsar frvgr. Ekki síst er það fjármögnunin sem ég hef eytt hér nokkrum tíma í að fjalla um, en ég mun leggja höfuðáherslu á við meðferð þessa frv. hér á hv. Alþingi að stórlega verði aukið fjármagn til Framkvæmdasjóðsins. Það er forsenda þess, að Alþingi geti staðið við þær skuldbindingar sem það tekur á sig með samþykkt þessa frv.