18.12.1981
Neðri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í umr. um þetta mál við 2. umr., sem fram fór hér í gær, var gert ráð fyrir að málið gæti gengið í gegn með fullu samkomulagi hér í hv. Nd. án breytinga. Í umr. um málið, eftir að frsm. nefnda höfðu gert grein fyrir afstöðu sinni til málsins og nefndanna eða nefndarhlutanna, gerðist það hins vegar, að tveir hæstv. ráðh. tóku til máls og með málflutningi sínum komu þeir í veg fyrir að málið næði fram að ganga eins og ráð hafði verið fyrir gert. Annar, sem til máls tók var hæstv. forsrh. og flutti hér nokkuð furðulega ræðu um afkomu greina í sjávarútvegi og afkomu útgerðaraðila. Stangast þau orð hæstv. forsrh. mjög á við þann málflutning sem m. a. hæstv. sjútvrh. viðhafði áður en hann fór til útlanda í byrjun þessa mánaðar.

Hæstv. forsrh. sagði m. a. í ræðu sinni eitthvað á þá leið, að ekki þyrfti að gera ráð fyrir að til mjög verulegra fiskverðshækkana þyrfti að koma til þess að rétta hag allra vinnslugreina í sjávarútvegi. Var þetta mjög í svipuðum anda og hæstv. félmrh. hefur talað þegar hann hefur viðhaft þau ummæli, að til þess að leysa vandamál sjómanna þurfi ekki annað að gera en breyta olíugjaldi og afnema það og ganga þannig til móts við launahækkanakröfur sjómanna. Þegar hann er svo spurður hvernig eigi þá að taka á vanda útgerðarinnar, sem mundi að sjálfsögðu aukast við slíkar ráðstafanir, hefur hæstv. félmrh. aðeins sagt að þann vanda verði að sjálfsögðu síðan að taka til athugunar. M. ö. o.: tillaga hæstv. félmrh. hefur verið fólgin í því að leysa kjaravanda sjómanna með því að búa til sambærilegan vanda hjá útgerðaraðilum og síðan eigi að taka þann vanda sem þannig hefur skapast hjá útgerðaraðilum, til sérstakrar athugunar. Væri þá ekki ráð að spyrja hæstv. félmrh. hvaða tillögur hann hefði fram að færa um þá sérstöku athugun, sem framkvæma ætti á þeim vanda sem hæstv. ríkisstj. hefur þar með skapað útgerðaraðilum í landinu. Það er hins vegar ekkert nýtt að hæstv. ríkisstj. starfi með þessum hætti, að ef hún á að leysa vanda einhvers ákveðins aðila í þjóðfélaginu geri hún það með því að skapa sambærilegt vandamál hjá öðrum með því að flytja vandann til. Menn hafa staðið í þeirri trú, að þarna hafi hæstv. ráðh. greint nokkuð á: annars vegar hæstv. sjútvrh., sem talið hefur nauðsyn til bera að til nokkurrar fiskverðshækkunar komi um n. k. áramót, og hins vegar formann Alþb., hæstv. félmrh., sem hefur viljað fara aðrar leiðir en þá fiskverðshækkunarleið sem hæstv. sjútvrh. hefur rætt um.

Á meðan hæstv. sjútvrh. var erlendis nú í þessum mánuði urðu umr. hér á Alþingi m. a. um ýmsar yfirlýsingar sem hæstv. ráðh. hafði látið frá sér fara. Nýlega var borið á borð hv. þm. hér í þessari deild fréttabréf frá Sambandi ísl. samvinnufélaga sem komið hefur til umr. hér áður á meðan hæstv. sjútvrh. var fjarverandi. Í því fréttabréfi er m. a. greint frá kaupfélagsstjórafundi þar sem segir að mættir hafi verið auk kaupfélagsstjóranna ýmsir forustumenn Sambands ísl. samvinnufélaga og aðrir starfsmenn Sambandsins, eins og þar segir: Ekki er þess sérstaklega getið, að hæstv. sjútvrh. sé ekki talinn í þeim hópi, m. ö. o. að hann gegni ekki embætti sem starfsmaður samvinnuhreyfingarinnar. Hins vegar er frá því sagt, að hann hafi á þessum fundi flutt kaupfélagsstjórum og þeim öðrum aðilum, sem fundinn sátu, boðskap sinn um stöðuna í íslenskum efnahagsmálum, þ, á m. hafi hæstv. sjútvrh. fjallað mjög um fiskverð og fiskverðsákvarðanir og væntanlegar ráðstafanir í framhaldi af því um n. k. áramót. Í þessu umrædda fréttabréfi er frá því sagt, að hæstv. sjútvrh. hafi skýrt frá því, að hann teldi að fiskverð um n. k. áramót mundi hækka um ekki minna en 13–14%.

Ég vil eindregið óska eftir því við hæstv. sjútvrh., sem hefur gefið slíka yfirlýsingu — að því að sagt er í þessu fréttabréfi — fyrir nokkrum vikum á fundi kaupfélagsstjóra á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga, að hann greini Alþingi, sem ætti að fá að vita á undan kaupfélagsstjórum víðs vegar að af landinu, frá því, hvort hér sé rétt frá skýrt, hvort það sé hans mat að fara eigi þá leið í þeim vanda sem við er að fást, að fiskverð hækki um ekki minna en 13–14% um n. k. áramót.

Nú eru allar líkur á því að svo verði, eins og gjarnan er vani við slíkar aðstæður, að fiskverðsákvörðun verði skotið til yfirnefndar þar sem fulltrúi ríkisstj. og þá fyrst og fremst hæstv. sjútvrh. er oddamaður. Líklegt er því að sá oddamaður muni ráða mjög miklu um það, hvert endanlegt fiskverð verður ákveðið. Ég held að fyrst búið er að ræða þessi mál á vettvangi kaupfélagsstjóra og það fyrir nokkrum vikum sé ósköp eðlilegt að Alþingi óski eftir því við hæstv. sjútvrh., að hann greini alþm. frá því, — a. m. k. með sama hætti og kaupfélagsstjórum þó hinir síðarnefndu séu ekki kjörnir til að stjórna landinu, — greini alþm. frá því, hvort hann sem sjútvrh. muni leggja það fyrir fulltrúa sinn í væntanlegri yfirnefnd fiskverðs að starfa þar eftir þeirri skoðun hæstv. ráðh., að fiskverðshækkun verði ekki undir 13–14%. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að þetta liggi fyrir ótvírætt af hálfu hæstv. sjútvrh. hér á Alþingi, en ekki aðeins á kaupfélagsstjórafundum, svo að aðilar að fiskverðsákvörðun geti vitað a. m. k. eitthvað um hvað hæstv. sjútvrh. hefur til þessara mála að leggja.

Annars þarf ekki endilega að vera, herra forseti, að það, sem hæstv. sjútvrh. sagði á þessum fundi með kaupfélagsstjórum landsins, sé sú skoðun sem ríkjandi er í hæstv. ríkisstj., því að þegar er vitað að formaður Alþb., hæstv. félmrh., er á allt annarri skoðun en hæstv. sjútvrh. í þessu efni og hefur einnig, eins og hann, lýst þeirri skoðun sinni opinberlega. Og nú hefur hæstv. forsrh. komið, sjálfur oddviti ríkisstj., og lýst því yfir á Alþingi að ekkert þurfi að gera, væntanlega hvorki að hækka fiskverð um a. m. k. 13–14%, eins og sjútvrh. hefur sagt, né heldur að færa vandann yfir til útgerðarinnar og taka síðan vandamál útgerðarinnar til sérstakrar athugunar, eins og hæstv. félmrh. hefur haldið fram.

Hæstv. forsrh. hefur sem sé komist að sömu niðurstóðu nú í vísdómi sínum og hann komst að 20. dag októbermánaðar s. l., þegar útvarpað var umr. um stefnuræðu forsrh., að það sé enginn vandi í okkar atvinnulífi. Að vísu megi e. t. v. finna einhver fyrirtæki í landinu þar sem við vanda sé að eiga, en það sé í lagi því að önnur fyrirtæki standi vel. Og þegar beitt sé meðaltalsreikningi, þá sé útkoman sú að allt sé blúndulagt, allt sé slétt og fellt, eins og hæstv. forsrh. líkar svo vel. Og er þetta ekki í fyrsta skipti sem í ríkisstj. eru þrjár skoðanir uppi og öllum lýst nokkuð jafnsnemma: skoðun Framsfl., skoðun Alþb. og skoðun hæstv. forsrh. Eini munurinn er sá, eins og ég sagði áðan, að bæði hæstv. félmrh. og hæstv. sjútvrh. telja að við ákveðinn vanda sé að fást, þó að þá greini á um það, hvernig eigi að leysa þann vanda, en hæstv. forsrh. fær ekki séð að vandinn sé neinn og því þurfi ekki til neinna úrlausna að koma.

Ef hæstv. sjútvrh. tæki nú til máls og gerði Alþingi grein fyrir skoðunum sínum á fiskverðsmálum, — sem ég er nú ekki alveg viss um að hann geri því að e. t. v. telur formaður Framsfl. sig eiga minni skyldum að gegna við Alþingi en fundi kaupfélagsstjóra, — en ef hæstv. ráðh. skyldi taka til máls, þá hefði ég einnig svona í framhjáhlaupi ánægju af því að fara þess á leit við hæstv. ráðh., að hann gæfi nokkra skýringu á ummælum sem eftir honum eru höfð á öðrum vettvangi.

Í blaðinu Þjóðólfi, sem mun vera málgagn Framsfl. í Suðurlandskjördæmi, birtist núna nýverið frásögn frá kjördæmisþingi framsóknarmanna í því stóra og virðulega kjördæmi, Suðurlandskjördæmi. Meðal ræðumanna þar var að sjálfsögðu formaður Framsfl., hæstv. sjútvrh. Ekki er þess getið frá þeim fundi, að hann hafi mikið rætt þar um fiskverð. Reyndar hafði hann þegar gert grein fyrir því á fundi kaupfélagsstjóra Sambandsins. Hins vegar ræddi hæstv. sjútvrh. á þessum fundi um efnahagsmál, m. a. um vexti og verðtryggingu. Blaðamaður Þjóðólfs, blaðs framsóknarmanna í Suðurlandskjördæmi, hefur augsýnilega hrifist mjög af málflutningi hæstv. ráðh., því að hann rekur ítarlega efni hinnar yfirgripsmiklu ræðu hæstv. ráðh. Á bls. 5 í þessu merka blaði er m. a. þar komið málum, er hæstv. sjútvrh. í yfirlitsræðu sinni á kjördæmisþingi framsóknarmanna í Suðurlandskjördæmi fjallaði um efnahagsmál í víðara skilningi og víðtækara samhengi. Þar segir blaðamaður svo frá ræðu hæstv. ráðh., með leyfi forseta:

„Sá tími er liðinn, sagði Steingrímur, þegar menn gátu fengið ódýrt fé til uppbyggingar. Ég tel að verðtrygging sparifjár sé rétt stefna.“ Svo segir blaðamaður, með leyfi forseta: „Steingrímur vék einnig að stöðu sjávarútvegsins og annarra atvinnuvega. Sagði hann að fjármagnskostnaður keyrði víða úr hófi.“

Nú leyfi ég mér að spyrja hæstv. sjútvrh, að því, þegar hann greinir okkur hér á eftir frá ummælum sínum á fundi kaupfélagsstjóra nýverið um fiskverð, hvernig menn eigi að skilja þessi ummæli sem frá er greint í blaðinu Þjóðólfi nokkuð jafnsnemma. Það er þarna aðeins ein setning á milli, ekki einn dagur eins og oft hefur viljað verða hjá hæstv. ráðh., heldur ein setning. Annars vegar lýsir hæstv. ráðh. yfir, að sá tími sé nú liðinn þegar menn gátu fengið ódýrt fé til uppbyggingar, og lýsir eindregnu fylgi sínu við verðtryggingu sparifjár, þ. e. verðtryggingu innlánsvaxta, en hefur svo þungar áhyggjur af verðtryggingu útlána og miklum fjármagnskostnaði atvinnuveganna. Hvernig getur það nú gengið upp hjá einum og sama manni að vera mjög fylgjandi háum innlánsvöxtum og verðtryggingu inniána en hafa mjög þungar áhyggjur af verðtryggingu útlánsvaxta og vera andvígur þeim? Að vísu hef ég heyrt einn hæstv. sjútvrh. halda slíkri skoðun fram. Það var hæstv. fyrrv. sjútvrh., Lúðvík Jósepsson, sem komist hafði að sömu niðurstöðu og núv. hæstv. sjútvrh. M. ö. o.: hann var eindregið fylgjandi verðtryggingu innlánsfjár en mjög andvígur verðtryggingu útlána. Og þegar hæstv. þáv. ráðh. var spurður um það, hvernig dæmið ætti að ganga upp, þá sagði hann að bankarnir ættu að sjálfsögðu að greiða mismuninn á verðtryggingu útlána, verðtryggingu innlána og lágum útlánsvöxtum af aflafé sínu, af gróða sínum vegna bankastarfsemi. E. t. v. hefur hæstv. sjútvrh. komist að sömu niðurstöðu, að hinn mikli ágóði í bankakerfinu eigi að fara til þess að jafna þann mun, sem hlýtur að verða á því, ef menn ætla að reka banka með verðtryggingu á innlánsfé en lágum útlánsvöxtum.

Hæstv. sjútvrh., sem hefur nú kvatt sér hljóðs og mun þá væntanlega gera þessari hv. deild grein fyrir skoðunum sínum á þessu máli, mun væntanlega gefa glögga skýringu á því.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mjög ítarlega út í hina merku ræðu hæstv. forsrh. sem hann flutti hér við 2. umr. þessa máls, enda hefur það þegar verið rækilega gert, þó svo hæstv. forsrh. hafi kosið að vera ekki viðstaddur þá umr. Ég vil aðeins láta þess getið, að mér er kunnugt um að flokksbræður hæstv. ráðh., sem hafa hann í miklu afhaldi, hafa gert ráðstafanir til þess að rekstraraðilar í sjávarútvegi fái í hendur þessa tímamótamarkandi ræðu hæstv. forsrh. og hefur hún vakið verðskuldaða athygli í þeim hópi. Þannig reyna flokksbræður hæstv. ráðh. ávallt að standa traustlega við bakið á honum og koma málflutningi hans til skila til réttra aðila, eins og þeirra var von og vísa, og skilst mér að hv. skrifari þessarar deildar standi þar manna fremstur í röðinni. Ég ætla ekki að fara frekar út í þá sálma.

En ég ætla að ræða með örfáum orðum um þá breytingu sem gerð var á 3. gr. þessa frv. við 2. umr. hér í gær. Eins og fram kom í máli mínu við 2. umr. var tvennt sem hafði verið gerð athugasemd við varðandi þessa grein. Í fyrsta lagi var þessi grein, eins og hún kom frá Ed., þannig úr garði gerð að verið var að veita fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs almenna heimild til að veita ríkisábyrgð fyrir lánum til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Einu takmörkin, sem ráðh. voru sett eins og frá greininni var gengið, voru þau, að ábyrgðin yrði að takmarkast við að lánin megi aldrei nema samtals meiru en 70% af heildarinnistæðu í Verðjöfnunarsjóði hverju sinni, þ. e. samanlagðri innistæðu allra deilda Verðjöfnunarsjóðs. Látið var í veðri vaka í skýringum með þessari grein, að hér væri um að ræða ábyrgðarheimild vegna tiltekins láns sem veitt væri til þess að leysa úr tilteknum vandkvæðum, þ. e. verðákvörðun á loðnunni nú í sumar. Greinin, eins og hún var úr garði gerð og eins og hún kom frá hv. Ed., var hins vegar almennt orðuð þannig að fjmrh. — hverjum sem er, hverjum sem því embætti á eftir að gegna — var gefin almenn heimild til þess að veita ríkisábyrgð fyrir lánum til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins ekki aðeins í þetta eina skipti heldur eins og hæstv. fjmrh. og ríkisstj. mundi hafa kosið hverju sinni. Þarna var sem sé verið að gefa hæstv. ríkisstj. almenna heimild til frambúðar — og ekki bara þessari ríkisstj. heldur hverri ríkisstj. sem á eftir henni mun koma — til þess að fjmrh. veiti ríkisábyrgð, veiti ábyrgð ríkissjóðs vegna lántöku til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Þetta þýddi m. ö. o. að verið væri að gefa um það yfirlýsingu af hálfu Alþingis, að Alþingi teldi þau vinnubrögð rétt, að fjmrh. fengi almenna heimild til þess að veita ábyrgð ríkissjóðs fyrir lánum til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins til þess að greiða uppbætur á fiskverð.

Það var gerð athugasemd við þetta í hv. Ed., en þar var talað fyrir daufum eyrum. Þó að óskir kæmu fram frá stjórnarandstæðingum þar um breytingu á þessari almennt orðuðu grein, þá var ekki á það fallist. Í umr. í fjh.- og viðskn. Ed. kom hins vegar í ljós, þegar rætt var við forsvarsmenn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, að þeir höfðu frá upphafi verið andvígir þeirri lántöku sem hér um ræðir. Þeir höfðu — alveg með sama hætti og ég — ekki talið það samrýmast hlutverki Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins að taka erlent lán til þess að greiða uppbætur á fiskverð, sem markaðurinn ekki þyldi að ákvarðað yrði eins hátt og samið hefði verið um. Stjórnarmenn í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins voru sem sé andvígir þessu og höfðu komið fram við hæstv. ríkisstj. mótmælum sínum við þessari ákvörðun, en höfðu orðið að láta í minni pokann, ef svo má segja, fyrir gerðum hlut, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hafði ákveðið að svona skyldi með málið fara, þó svo að stjórnarmenn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins væru andvígir þessari ráðstöfun og teldu hana ekki samrýmast hlutverki Verðjöfnunarsjóðsins eins og það er tilgreint í lögum.

Því var haldið fram af hálfu stjórnarsinna í hv. Ed., að það væri ekkert að óttast þó svo að hæstv. fjmrh. fengi svona almenna heimild, eins og gert var ráð fyrir í greininni að veita honum, þar eð þessi heimild yrði ekki notuð til ríkisábyrgðar nema stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins óskaði eftir að fá ábyrgðina, m. ö. o.: það væri engin hætta á því að hæstv. ríkisstj. veitti ríkisábyrgð fyrir lánum til Verðjöfnunarsjóðsins nema stjórn Verðjöfnunarsjóðsins óskaði eftir slíkri afgreiðslu mála, óskaði eftir lántöku til að greiða uppbætur á fiskverð og ríkisábyrgð fyrir þeirri lántöku. Á fundinum kom það hins vegar fram, sem haldinn var í fjh.- og viðskn., m. a. með Davíð Ólafssyni, formanni sjóðsstjórnarinnar, að stjórn sjóðsins hafði ekki óskað eftir þessari afgreiðslu og verið andvíg henni, en hafði hins vegar orðið að láta undan ríkisstj. og sætta sig við orðinn hlut. M. ö. o.: ljóst var að það skipti ekki máli hvaða skoðun stjórn Verðjöfnunarsjóðsins hafði á slíkum afgreiðslum, hún yrði ávallt að láta í minni pokann ef ríkisstj. þóknaðist að taka þá ákvörðun að þannig skyldi að fiskverðsákvörðunum staðið að Verðjöfnunarsjóður yrði látinn taka lán til þess að borga uppbætur á fiskverðið.

Með þessari yfirlýsingu var allur grundvöllurinn undan almennri ábyrgðarheimild ráðh. hruninn, þar sem upplýst var að varðandi þetta tiltekna atriði hafði hæstv. ríkisstj. tekið ákvörðun gegn mótmælum stjórnar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og ljóst var að slíkri starfsemi yrði haldið áfram ef almennar ábyrgðarheimildir yrðu veittar. Var þá ekkert hald og engin vörn í því, hver vilji stjórnar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins væri. Það lá m. ö. o. alveg ljóst fyrir eftir þennan fund í fjh.- og viðskn. Nd., að hæstv. ríkisstj. var þarna að búa sér til nokkurs konar eilífðarvél fyrir millifærslur af þessu tagi. Hún var ekki að óska eftir því við Alþingi, að Alþingi staðfesti þessa einu aðgerð út af fyrir sig, að taka 42 millj. kr. erlent lán til þess að greiða uppbætur á loðnu með ríkisábyrgð, heldur var hæstv. ríkisstj. í rauninni að óska eftir því við Alþingi, að Alþingi löggilti slíkar starfsaðferðir til frambúðar, hvaða skoðun sem stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins hefði á því. Þegar þetta lá fyrir í fjh.- og viðskn. Nd. brugðust menn þannig við, fyrir tilhlutan og sérstaklega fyrir frumkvæði hv. þm. Alberts Guðmundssonar, að menn neituðu að fallast á þessa tillögu hæstv. ríkisstj. sem hún var með þessum hætti að reyna að lauma inn í frv., en tóku í staðinn þá ákvörðun að breyta greininni þannig að heimildin væri takmörkuð við þessa einu afgreiðslu og við þá fjárhæð sem þar hefði komið fram að nauðsynlegt væri að taka að láni, þ. e. 42 millj. kr. Þetta var meginefni þeirrar brtt. sem borin var fram og samþykkt hér í gær um nýja 3. gr. Og þessi breyting var vissulega til bóta, eins og hv. 1. þm. Vestf. tók fram í ræðu sinni hér í gær, þannig að sú tilraun ríkisstj. að lauma undir röngu yfirskini í gegnum Alþingi löggildingu Alþingis á þeim starfsaðferðum, sem ríkisstj. tók upp varðandi loðnuverðsákvörðunina á þessu hausti, rann út í sandinn. Það hefur verið komið í veg fyrir þá tilraun með breytingu umræddrar greinar. Er það vel og horfir vissulega til heilla.

En það var einnig annað sem kom fram mjög óvænt við 2. umr. málsins á hv. Alþingi í gær. Þá kom fram að fjmrh. lagði allt annan skilning í þá afgreiðslu, sem var verið að gera með þessari grein, en allir aðrir sem að málunum hafa staðið. Í öllum umr. málsins, gegnum þrjár umr. í Ed. og eina umr. í Nd., var málið lagt þannig upp varðandi þessa ríkisábyrgðarheimild, að forsendur fyrir því, að ríkisábyrgðin félli á ríkissjóð, væru þær, að á tveimur árum hækkaði afurðaverð á loðnu um innan við 30%, og öllum fjh.- og viðskn.-mönnum var gert ljóst að harla litlar líkur væru á að verðið mundi hækka um 30% eða meira, þannig að næstum fullvíst væri að ábyrgðin mundi falla á ríkissjóð og koma í hlut ríkissjóðs að greiða þetta 42 millj. kr. lán. Ég leyfði mér að vekja athygli á þessu við 2. umr. málsins, sem ég hélt að væri alkunn staðreynd og enginn drægi í efa. Ég leyfði mér að vekja athygli á því, að út frá því væri gengið af öllum aðilum, að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins mundi aldrei greiða umrætt lán, heldur kæmi á ríkissjóð að greiða það eftir tvö ár, hér væri m. ö. o. um sambærilega afgreiðslu að ræða og þegar ríkissjóður heimilar Framleiðsluráði landbúnaðarins að taka erlend lán með ríkissjóðsábyrgð til þess að greiða viðbótaruppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, vitandi að Framleiðsluráð landbúnaðarins muni ekki geta endurgreitt það lán, geti ekki einu sinni sett tryggingu fyrir ríkisábyrgðinni. Lánið fellur því á ríkissjóð, það kemur í hlut ríkissjóðs að greiða . (HBl: Bændahöllin er góð trygging.) Bændahöllin er ekki trygging sem Framleiðsluráð landbúnaðarins getur sett þar sem eignaraðili að þeirri ágætu byggingu mun vera Stéttarsamband bænda. Menn hafa leitað með logandi ljósi að tryggingu, sem Framleiðsluráð landbúnaðarins gæti sett fyrir ríkisábyrgð, og hafa enga fundið nema ef vera skyldi formaður ráðsins, en ekki er víst að sú trygging yrði tekin til greina.

Ég leyfði mér að vek ja athygli á því, að ljóst væri af því, sem fram hefði komið, að það væri þetta sem hæstv. ríkisstj. stefndi að því að gera, að endurtaka ábyrgðina, sem veitt er Framleiðsluráði, til þess að fela það í ríkisbókhaldinu að þarna sé um að ræða lántökur ríkissjóðs. Þennan leik ætti að endurleika varðandi Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Það væri verið að skrifa hann fyrir láni, sem öllum væri ljóst að hann gæti ekki borgað og ríkissjóður veitti síðan ríkisábyrgð fyrir án nokkurra trygginga, það félli síðan á ríkissjóð og ríkissjóður tæki að sér að greiða.

Þá brá hins vegar svo við, að hæstv. fjmrh. kvaddi sé hljóðs og í hans ræðu komu fram nýjar upplýsingar. Hann lýsti í fyrsta lagi yfir að þessi niðurstaða væri alröng. Enn fremur sagði hann orðrétt, með leyfi forseta: „Ég kannast ekki við að á nokkurn hátt hafi verið samþykkt af ríkisstj. eða mér að þessi útgjöld yrðu færð á ríkissjóð á nokkru stigi þessa máls.“ M. ö. o.: hann kannaðist ekki við að það hefði nokkurn tíma verið samþykkt að útgjöldin vegna lántöku féllu nokkru sinni á ríkissjóð. Þetta var mjög afdráttarlaus yfirlýsing og gekk gersamlega þvert á það sem allir aðrir höfðu verið upplýstir um fram til þessa. Jafnframt lýsti hæstv. fjmrh. því yfir, að þá fyrst yrði lánsupphæðin kræf á hendur ábyrgðaraðila, þ. e. ríkissjóði, að skuldari yrði gerður gjaldþrota. Með leyfi forseta sagði hæstv. fjmrh. orðrétt: „Þá fyrst er upphæðin kræf á hendur ábyrgðaraðila, að skuldari sé gjaldþrota.“ Ég geri ráð fyrir að einhverjar aðrar ráðstafanir mundu koma til áður en Verðjöfnunarsjóður yrði gerður gjaldþrota, sagði hæstv. fjmrh. einnig.

Nú vil ég fyrst vekja athygli á því, að í fyrsta lagi stangast það á við þær upplýsingar, sem áður höfðu verið gefnar, að það hefði aldrei verið samþykkt í ríkisstj. að útgjöldin vegna lántökunnar yrðu á nokkru stigi málsins færð á ríkissjóð. Þvert á móti kemur það fram í þeim plöggum, sem við síðar fengum í fjh.- og viðskn. hv. Nd., að þar er ráð fyrir því gert, að útgjöldin falli alfarið á ríkissjóð á ákveðnu stigi málsins. Hæstv. ráðh. vill auðsjáanlega ekki samþykk ja það. En ég held að það fari ekki á milli mála, að í þeim bréfum sem við höfum hér með höndum er þessi skilningur mjög afdráttarlaus. Ég vil aðeins leyfa mér í þessu sambandi að vitna í fundargerð 88. fundar stjórnar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins sem haldinn var 1. des. árið 1981. Þar stendur orðrétt, með leyfi forseta.:

„Eftir nokkra umræðu var ákveðið að senda fjmrh. skuldabréfið til undirritunar og með því skyldi fylgja svohljóðandi bókun sem allir stjórnarmenn stóðu að.“ Síðan kemur bókunin: „Það er skilningur sjóðsstjórnarinnar, að endurgreiðslukvöð sjóðsins falli endanlega niður þann 1. des. 1983, eins og kveðið er á um í skuldabréfinu. Þetta var forsenda ákvörðunar loðnuverðs og verðjöfnunar í október s. l.

M. ö. o.: í fyrsta lagi var það forsenda ákvörðunar loðnuverðs og verðjöfnunar í október á þessu ári, að umrætt lán félli á ríkissjóð og endanlega niður 1. des. 1983 hafi ekki verið gerðar ráðstafanir af Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins til þess að greiða það fyrir þann tíma. Þetta stangast gersamlega á við yfirlýsingar ráðh. um það, að aldrei hafi verið gert ráð fyrir að þetta lán félli á ríkissjóð á nokkru stigi þess máls, eins og ráðh. sagði orðrétt. Í bókun stjórnar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins kemur hins vegar fram, eins og ég hef leitt rök að, að menn sem stóðu að verðákvörðun loðnu, stóðu í þeirri trú, að a. m. k. 1. des. 1983 félli endurgreiðslukvöð sjóðsins niður og lánin að fullu á ríkissjóð hafi ekki komið til annarrar ráðstöfunar fyrir þann tíma. Þarna fer því eitthvað mikið á milli mála. Þarna stemmir ekki saman skilningur sá sem ríkt hefur í stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og hjá aðilum loðnuverðsákvörðunar allar götur frá því að loðnuverðið var ákveðið í okt. s. l. og þar til fjmrh. gaf yfirlýsingu sína við 2. umr. málsins á Alþingi fyrir einum sólarhring eða svo.

Í öðru lagi lýsti hæstv. ráðh. því yfir, að þá fyrst yrði upphæðin kræf á hendur ábyrgðaraðila, ríkissjóði, að skuldari hefði verið gerður gjaldþrota. Ég leyfi mér að fullyrða að þessi skilningur er einnig nýr. Stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og aðilar að loðnuverðsákvörðun hafa aldrei fyrr af því vitað, að sá væri skilningur hæstv. fjmrh. á málinu, að til þess að ábyrgðin gæti fallið á ríkissjóð yrði Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins að vera úrskurðaður gjaldþrota. Mér finnst harla undarlegt, að þessar upplýsingar skuli fyrst koma fram fyrir tilviljun við 2. umr. málsins í síðari deild, og enn undarlegra finnst mér það þegar allt frá því byrjun desembermánaðar, mig minnir 8. des., hefur legið fyrir að fjmrh. hefur neitað að undirrita skuldabréf vegna lántökunnar og veita ríkisábyrgð samkv. hljóðan þess skuldabréfs, en skuldabréfið hefur verið skrifað og fært samkv. þeim skilningi og þeim loforðum sem stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og aðilar að loðnuverðsákvörðun töldu sig hafa frá hæstv. ríkisstj. í októbermánuði s. l., — að það skuli hafa legið fyrir síðan 8. des., núna í hálfan mánuð, að fjmrh. neiti að ganga frá skuldabréfinu. Það voru nýjar fréttir fyrir Alþingi. Og það er alveg furðulegt með mál eins og þetta, að slíkum upplýsingum skuli rn. og formenn fjh.- og viðsk.- nefnda og stjórnarsinnar í þeim nefndum, sem hljóta að vita þetta, — slíkum upplýsingum skuli þessir aðilar hafa haldið leyndum fyrir Alþingi í gegnum alla meðferð málsins, þangað til mönnum hugkvæmdist eftir ræðu fjmrh. í gær að spyrjast fyrir um hvort það gæti nú verið að einhver slíkur hængur hefði upp komið.

Þá kom í ljós, þegar menn fóru að grennslast betur fyrir um það, að 8. des. s. l. hafði fjmrh. sent stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins minnisatriði til þess að útskýra hvers vegna hann neitaði að ganga frá skuldabréfinu vegna lántökunnar, þannig að síldar- og loðnumjölsverksmiðjurnar hafa ekki getað fengið krónu enn af því sem þær áttu að fá sem uppbætur úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins vegna þessarar lántöku og samkv. samningunum um loðnuverðið frá því í október. Þessi minnisatriði voru send 8. des. s. l. með neitun hæstv. fjmrh. á að ganga frá bréfinu, en hafa verið leynd Alþingi allan þennan tíma og voru ekki upplýst að fyrirlagi og frumkvæði ríkisstj. og fjmrh. sjálfs, heldur þá fyrst þegar menn töldu eftir ræðu hæstv. fjmrh. hér á Alþingi ástæðu til þess að grennslast nánar fyrir um það, hvaða maðkað mjöl hæstv. ráðh. hefði í pokanum í þessum efnum. (Gripið fram í: Er þetta nú ekki of djúpt tekið í árinni?) Nei, þetta er ekki of djúpt tekið í árinni. Betur að svo væri, en það er ekki, því er nú verr.

Í þessum minnisatriðum segir hæstv. ráðh. m. a. að ekki sé heimilt samkv. brbl. að skilningi hæstv. ráðh. að ganga í ábyrgð fyrir lán Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins með þeim hætti sem aðilar að loðnuverðsákvörðun höfðu verið látnir standa í trú um að verða mundi. Fjmrh. skýtur sér á bak við það, að honum sé óheimilt samkv. lögunum að gera þær ráðstafanir sem aðilar að loðnuverðsákvörðunum töldu sig hafa loforð fyrir frá hæstv. ríkisstj. að gerðar yrðu allt frá því í októbermánuði s. l. Þess vegna hefur ekki verið frá málinu gengið enn. Og áður en menn afgreiða málið héðan við þessa umr. hljóta menn að krefjast þess að fá frekari skýringar frá hæstv. fjmrh. á afgreiðslu hans. Vil ég biðja virðulegan forseta að gera ráðstafanir til þess að hæstv. fjmrh. komi í salinn, því að ég hef ákveðna fsp. að bera upp við hann. (Gripið fram í.) Hæstv. fjmrh. er kominn. Það eru tvær spurningar, sem ég vildi fá að leggja fyrir hann.

Í fyrsta lagi hefur það komið í ljós, m. a. með minnisgrein frá hæstv. ráðh., að hann fellst ekki á að skrifa upp á skuldabréf vegna lántöku Verðjöfnunarsjóðsins með þeim skilmálum sem menn hafa staðið í trú um allt frá því í októbermánuði s. l. að þeim hafi verið lofað. Ég tel að það sé ekki hægt að afgreiða þetta mál svo frá þessari deild að ekki liggi fyrir svar hæstv. ráðh. um hvaða breytingar hann vill láta gera á umræddu skuldabréfi til þess að hann fallist á að skrifa upp á það. Hvaða breytingar vill hæstv. fjmrh. láta gera á skuldabréfinu til þess að hann ljái áritun sína? Og hvernig og hvenær mun það liggja fyrir af hans hálfu, að lántakan geti farið fram? Þetta er önnur spurningin sem ég hlýt að beina til hæstv. ráðh.

Þá kem ég að hinni spurningunni sem ég vil til hans beina. Í ræðu hans 16. des. s. l. sagði hann orðrétt að hann gerði ráð fyrir að einhverjar aðrar ráðstafanir yrðu látnar koma til áður en hann krefðist þess, að Verðjöfnunarsjóður yrði gerður gjaldþrota, svo að ábyrgðin félli á ríkissjóð. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðh.: Hvaða aðrar ráðstafanir er hæstv. ráðh. hér að tala um? Það eru fordæmi fyrir því við gengisbreytingar, þegar gengismunur hefur myndast af þeim sökum, að áður en gengismun hafi verið ráðstafað hafi hluti hans verið tekinn til að greiða lántökur Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins með sambærilegum hætti og hér gæti átt sér stað. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Er það þetta, þessar aðrar ráðstafanir sem hann á við að gerðar verði áður en til þess komi að lántakan falli á ábyrgðaraðila, ríkissjóð? Er það það sem hæstv. fjmrh. á við, að áður en til þess komi, að ríkissjóður gangist við ábyrgð sinni, verði gerð gengisbreyting, og áður en gengishagnaði verði ráðstafað til annarra þarfa verði af honum tekið til þess að gera upp umrædda skuld?

Nú hefur hæstv. sjútvrh. látið svo ummælt, að búast megi við að í kjölfar fiskverðsákvörðunar um n. k. áramót þurfi að gera ýmsar ráðstafanir til þess að tryggja hag útgerðar og fiskvinnslu. Hann hefur bæði beint og óbeint rætt um gengisbreytingu eða gengisaðlögun í því sambandi, þannig að flestir þegnar þjóðfélagsins eiga von á því, að a. m. k. þessi hæstv. ráðh. og flokkur hans leggi til að meðal þeirra ráðstafana, sem gripið yrði til eftir áramótin, yrði gengisbreyting. Þá mun gengismunur að sjálfsögðu skapast. Er það tilgangur hæstv. fjmrh. og hugmynd hans, að hluta af þeim gengismun, sem væntanlega skapast ef farið verður að tillögu formanns Framsfl. um efnahagsráðstafanir, verði varið til þess að greiða lánið sem hér er verið að taka til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins?

E. t. v. vill hæstv. sjútvrh. víkja að þeirri spurningu einnig. Hann hefur mætt á fundi fjh.- og viðskn. Nd. Þar gaf hann engar afdráttarlausar yfirlýsingar um þessi efni, en hæstv. ráðh. talaði mjög í þá átt, að ætla mátti að hann horfði mjög á það að ráðstafa af væntanlegum gengismun vegna sennilegrar gengisbreytingar í upphafi næsta árs, — að ráðstafa af honum til þess að greiða þetta lán. Og ég vek aðeins athygli á því, að það voru aðrir fjh.- og viðskn.-menn en ég sem hlustuðu á ráðh. Ég ítreka að hann gaf ekki neina afdráttarlausa yfirlýsingu í þessa átt, síður en svo, heldur talaði um málið mjög á þessum nótum. T. d. vitnaði hæstv. ráðh. í það, að svona afgreiðsla, nákvæmlega svona afgreiðsla hefði áður verið gerð.

Ég á von á því, að þau ummæli hafi komið aðilum að loðnuverðsákvörðunum mjög á óvart, þeir eigi ekki von á að endurgreiðslan á umræddu láni verði með þessum hætti. Þeir hafa verið látnir standa í þeirri trú allt til þessa dags, að ekki kæmi til endurgreiðslu á láninu af hálfu Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, heldur mundi ríkissjóður alfarið taka að sér að endurgreiða lánið. Meira að segja hefur hæstv. sjútvrh. lýst því yfir á fundi fjh.- og viðskn. Nd., að hann telji harla litlar líkur á að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins muni geta greitt þetta lán af eigin rammleik, harla litlar líkur á því að verð á loðnuafurðum hækki svo mjög sem gert er ráð fyrir að það verði að hækka til þess að verðjöfnunarsjóðurinn geti sjálfur greitt þetta lán. Hæstv. fjmrh. hefur lýst þveröfugri skoðun. En þetta er skoðun hæstv. sjútvrh. Þetta er ný frétt fyrir þá aðila sem hafa staðið að þessu máli og talið sig hafa ákvörðun og loforð ríkisstj. í höndunum. Og það er einnig ný frétt fyrir þessa aðila, að hæstv. ráðh. skuli báðir núna, bæði hæstv. sjútvrh. og hæstv. fjmrh., vera farnir að leika sér að þeim hugmyndum að ráðstafa hluta af væntanlegum gengismun vegna gengisbreytingar á næsta ári til þess að greiða þetta lán.

Herra forseti. Aðeins örfá orð að lokum. Hæstv. sjútvrh. hefur beðið um orðið, væntanlega til að svara þeim fsp. sem ég lagði fyrir hann, þ. á m. um stefnu hans í verðtryggingar- og vaxtamálum. Sú stefna að verðtryggja sparifé landsmanna var tekin með setningu laga um stjórn efnahagsmála vorið 1979. Má segja að frá upphaflegri gerð þess frv., sem þá var lagt fram af þáv. hæstv. forsrh., hafi verðtryggingin verið það eina sem eftir stóð þegar frv. hafði hlotið meðferð hér í þinginu. Verðtryggingarstefnan var eitt af mörgum atriðum í stefnuskrá Alþfl. fyrir kosningarnar 1979, nánast einasta atriðið sem náðist fram í umræddum lögum um stjórn efnahagsmála, sem hefur skilað einhverjum árangri, og einasta atriðið í þeim lögum sem tekið var tillit til af stefnumálum Alþfl.

Hæstv. núv. ríkisstj. hefur setið við völd síðan 8. febr. árið 1980. Þau einu afskipti, sem hún hefur haft af verðtryggingarmálum sparifjár, hafa verið þau að fresta tvisvar sinnum að þau kæmust til endanlegra framkvæmda. Það eru einu afskiptin sem hæstv. ríkisstj. hefur af málinu haft. Hún hefur ekki framkvæmt þá lengingu lána og lækkun greiðslubyrðar sem var annað atriðið í verðtryggingarstefnu Alþfl. En hæstv. ríkisstj. má e. t. v. þakka það að hafa ekki afnumið þessa verðtryggingarstefnu þó að hún hafi frestað henni tvívegis.

Hæstv. sjútvrh. lét svo ummælt í sjónvarpi fyrir skemmstu um þessa verðtryggingarstefnu, að hann sagðist hafa glapist til þess að ljá fylgi sitt við verðtryggingarstefnu Alþfl. sem aldrei skyldi verið hafa. Þetta voru yfirlýsingar hæstv. sjútvrh. í sjónvarpinu fyrir nokkrum mánuðum sem flestum eru enn í fersku minni. Nú lýsir hann því yfir, að hann sé eindregið fylgjandi þessari verðtryggingarstefnu. Þannig segir hæstv. ráðh. eitt í dag og annað á morgun. En ég vildi gjarnan fá það fram í eitt skipti fyrir öll frá hæstv. ráðh., ef það er hægt, hver er skoðun hans í verki og á að vera skoðun hans í verki á þessari verðtryggingarstefnu? Mun hann með atkvæði sínu, — það er að sjálfsögu það sem skiptir máli en ekki gagnstæðar yfirlýsingar hæstv. ráðh. eftir því hvort hann er í sjónvarpinu fyrir framan landslýð eða á fundi kaupfélagsstjóra eða Sambands ísl. samvinnufélaga, — mun hann með atkvæði sínu ljá verðtryggingarstefnunni lið áfram eða mun hann sem áhrifaaðili í þessari ríkisstj. fylgja þeirri afstöðu sinni, sem hann lýsti í sjónvarpi frammi fyrir alþjóð fyrir nokkrum mánuðum, að hann hafi glapist til fylgis við þessa stefnu og muni því að sjálfsögðu beita sér fyrir afnámi hennar? Hæstv. sjútvrh. hefur í þessum málum gefið svo margar og svo gagnstæðar yfirlýsingar og með svo stuttu millibili að það er löngu kominn tími til þess að hann geri hreint fyrir sínum dyrum og lýsi yfir hver sé raunverulega hans vilji og hvaða stefnu hann ætti sér að reyna að standa við í þessum málum. Gefst honum væntanlega tækifæri til þess þegar hann stígur í ræðustól hér á eftir.