18.12.1981
Neðri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka það fram, að því var lýst yfir við 2. umr. þessa máls hér í deildinni, að hæstv. viðskrh. væri talsmaður ríkisstj. í þessu máli þar sem hann hefði mælt fyrir frv. í deildinni. Að vísu gaf hæstv. forsrh. út þau brbl. sem hér eru til umr., og að vísu er það rétt, að þetta mál snertir hæstv. sjútvrh. En þar sem svo mjög var um það talað í gær, að hæstv. viðskrh. væri talsmaður ríkisstj. í þessu máli og aðrir ráðh. mættu eiginlega ekki leggja þar orð í belg af því að hann hefði talað fyrir málinu, má furðu gegna að hann virðist vera víðs fjarri í dag. Það veldur kannske að einhverjir aðrir ráðh. hafa tekið yfir þetta hlutverk viðskrh. án þess að þess hafi verið getið. Annars skal ég svo sem ekki finna að því.

Ég vil hins vegar láta í ljós undrun mína yfir því, að hæstv. forsrh. skuli kominn í salinn. Það hefur verið svo um venjur hér á Alþingi á liðnum árum, að einstakir ráðherrar hafa reynt að gera stjórnarandstöðunni það til geðs að vera við umr. um mál sem þeir sjálfir bera ábyrgð á, einkanlega ef um það er beðið. Nú stóð svo á í gær að hæstv. forsrh. taldi sig ekki geta verið viðstaddan umr. hér í Nd. þar sem hann þyrfti að vera viðstaddur umr. í Ed. á sama tíma. Stjórnarandstaðan sýndi þá nærfærni og kurteisi að sætta sig við það og taka tillit til þess, að hæstv. forsrh. var upptekinn. Á hinn bóginn er engu slíku til að dreifa það sem af er þessum fundi. Verður varla hjá því komist að líta svo á að hæstv. forsrh. telji aukaatriði hvort hann sjái ástæðu til að verða við beiðnum þm., svara fsp. þeirra og aths. og útskýra innlegg sitt til þeirra mála sem hann sjálfur ber ábyrgð á. Til þess að mönnum sé enn betur ljóst en ella hvers vegna við leggjum svo mikið upp úr því, að hæstv. forsrh. sé við, vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa upp inngang þann sem er fyrir þeim brbl. sem nú eru til umr. hér í deild, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

Forsrh. hefur tjáð mér, að brýna nauðsyn beri til að ákveða nú þegar ráðstafanir til þess að bæta stöðu Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og gera honum kleift að þjóna markmiðum sínum og gæta hagsmuna þeirra, sem hlut eiga að máli. Fyrir því eru hér með sett brbl. samkv. 28. gr. stjórnarskrárinnar á þessa leið“ — eins og síðar segir.

Nú hafa mál þróast með þeim hætti hér í deildinni, að varla verður undir það tekið að brbl. og það, sem fylgt hefur í kjölfar þeirra, verði sérstaklega til þess að treysta stöðu Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og bæta stöðu hans til frambúðar. Það kom raunar berlega fram í ummælum hæstv. sjútvrh. áðan þegar hann var að reyna að segja okkur það annars vegar, að ekki kæmi til þess að ríkissjóður greiddi það lán, sem hér er til umr., nema Verðjöfnunarsjóðurinn yrði „fallit“, en sagði á hinn bóginn að vitaskuld mundi ríkissjóður greiða þetta ef deildin væri ekki í aðstöðu til að gera það. Það má vera að ég hafi eitthvað misskilið það. En hafi ég misskilið það misskildi ég a. m. k. ekki ummæli hæstv. fjmrh. í gær. Ég er ekki með þau ummæli orðrétt og les þau ekki yfir kvölds og morgna, enda væri það vondur kristindómur. Hæstv. fjmrh. hefur raunar sagt ýmislegt geðþekkara en þetta um ævina. Hér stendur: Ég vil lýsa því yfir hér, að þetta er rangt og ég kannast ekki við að á nokkurn hátt hafi verið samþykkt af ríkisstj. eða mér að þessi útgjöld yrðu færð á ríkissjóð á nokkru stigi þessa máls. — Þetta eru ummæli hæstv. fjmrh. Nú er það hann sem metur þær tryggingar sem Verðjöfnunarsjóðurinn setur fyrir ríkisábyrgðinni, og væri þá fróðlegt að fá nánar að vita um þá skilmála, ef ég hef skilið þetta mál rangt. Ég vil enn bæta hér við, með leyfi hæstv. forseta. Fjmrh. segir enn fremur: Hér er sem sagt einfaldlega opnuð leið til þess, að Verðjöfnunarsjóður geti á hverjum tíma tekið lán með ríkisábyrgð, en um er að ræða einfalda ríkisábyrgð, ekki sjálfskuldarábyrgð, heldur einfalda ábyrgð, sem felur það í sér, að þá fyrst er upphæðin kræf á hendur ábyrgðaraðila að skuldari sé gjaldþrota. Ég geri ráð fyrir að einhverjar aðrar ráðstafanir mundu nú koma til áður en Verðjöfnunarsjóður yrði gerður gjaldþrota. Það er alveg ljóst að hér er eingöngu um að ræða ríkisábyrgðarheimild, en ekki að ríkissjóður sé að taka á sig þennan kostnað eða gefa neina skuldbindingu í þessa átt.

Ég skil þessi ummæli hæstv. fjmrh. á þá lund, að hann ætlist til þess að Verðjöfnunarsjóðurinn í heild, allar deildir hans, leggi fram tryggingar fyrir greiðslunni á sínum tíma þar sem hæstv. fjmrh. talar allan tímann um Verðjöfnunarsjóðinn, en talar hins vegar ekki í þessu samhengi um loðnudeildina. Nú má vel vera að þetta sé misskilningur hjá mér, en hann er þá til kominn vegna þess að hæstv. fjmrh., sem annars er mjög skýrmæltur og hefur getið sér orð einmitt fyrir það, talar fullruglingslega í þessu máli. Það sýnir að hann er ekki í góðum félagsskap. Hann var ekki svona torskilinn á þeim tíma sem við umgengumst mest. Ég vil þess vegna óska eftir því, að hæstv. fjmrh. geri alveg skýrt hér við 3. umr. málsins hvernig hann hyggst halda á þessu máli.

Ég vil enn fremur í þessu sambandi minna á að m. a. sjómenn hafa lýst yfir miklum áhyggjum vegna stöðu Verðjöfnunarsjóðsins, eins og segir í ályktun Farmanna- og fiskimannasambandsins, en í bréfi þess segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Sambandsstjórn telur, að með lántökuheimild þessari sé farið inn á braut, sem ekki einasta gengur þvert á efni og markmið laga um sjóðinn, heldur sé jafnframt verið að halda uppi fölsku gengi með því að skuldbinda sjávarútveginn og þar með sjómenn inn í óvissu framtíðarinnar.“

Við vitum að sjómenn eru búnir að boða til allsherjarverkfalls á jóladag. Auðvitað er mjög þýðingarmikið, til að reyna að greiða fyrir því að samningar takist um áramót til þess að vertíðarflotinn komist út, að frá þessum málum sé tryggilega gengið og skilmerkilega, þannig að menn viti að hverju þeir ganga, og koma þannig í veg fyrir hvers konar tortryggni.

Í tengslum við þessi mál er nauðsynlegt að taka sjávarútvegsmálin í heild enn einu sinni til rækilegrar umræðu, ekki síst vegna þeirrar ræðu sem hæstv. forsrh. flutti hér í gær, — ræðu sem valdið hefur miklum úlfaþyt um allt land, svo að menn hafa í rauninni ekki skilið hvar þessi maður hefur verið staddur undanfarið, hvað hann hafi verið að gera og hvort hann í raun og veru taki embætti sitt sem forsrh. alvarlega, eins og hann leyfði sér að komast hér að orði um helsta útflutningsatvinnuveginn. Það var svo, að þegar maður hafði hlustað á hæstv. forsrh. gat ekki hjá því farið að rifjaðist upp gömul vísa úr Norður-Þingeyjarsýslu:

Misskilur heimur mig,

misskil ég einnig hann,

sig skilið síst hann fær,

sjálfan skil ég mig ei.

Furða er því ei þótt okkar

hvorugur skilji skaparann.

Þannig held ég að hið sama megi segja í orðastað hæstv. forsrh., að hugsanagangur hans virðist á stundum vera í anda þessa norður-þingeyska skálds sem satt að segja var stundum raunamætt á lífsleiðinni.

Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við Kristján Ragnarsson formann Landssambands ísl. útvegsmanna vegna þeirra ummæla sem hæstv. forsrh. hafði hér við 2. umr. málsins um útvegsmál, en þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef aldrei fyrr orðið var við jafnákveðin viðbrögð hjá útvegsmönnum og undanfarna daga vegna ummæla ráðh. Svavars Gestssonar og Gunnars Thoroddsens um góða afkomu útgerðarinnar. Svo virðist að þeir miði við gamlar upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun um afkomu útgerðar,“ sagði Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands ísl. útvegsmanna, þegar Morgunblaðið bar undir hann ummæli dr. Gunnars Thoroddsens forsrh. á Alþingi í fyrradag, en þá sagði forsrh. að útgerðin í heild stæði nú betur rekstrarlega en s. l. 10 ár og að útgerðarmenn og sjómenn væru að reka á eftir sjálfum sér með rekstrarstöðvun um áramót.

Kristján Ragnarsson sagði að svo virtist sem þeir Gunnar Thoroddsen og Svavar Gestsson miðuðu við niðurstöður Þjóðhagsstofnunar um afkomu útgerðar eftir síðustu fiskverðshækkun, sem gerð var áður en áhrif kauphækkana frá 1. nóv. og 1. des. væru talin með og áður en olía hækkaði um 7% og áður en áhrif gengisbreytingarinnar hefði verið metin vegna erlendra aðfanga og gengistryggðra lána. Í þessu mati Þjóðhagsstofnunar væri gert ráð fyrir verulegri aflaaukningu, sem ekki hefði orðið í raun. Enn fremur væri miðað við framreikninga á kostnaði útgerðarinnar frá árinu 1979, sem ekki hefðu staðist.

„Nú er Þjóðhagsstofnun að meta útgerðarkostnað miðað við reikninga frá árinu 1980 og versnar þá afkomumyndin verulega. Það er því ljóst að útgerðin þarf sömu fiskverðshækkun og ekki minni en sjómenn og að stofnfjársjóður og olíugjald haldist óbreytt,“ sagði Kristján.

„Mjög alvarlegt er, að þeir, sem stjórna landinu, fylgist ekki betur með afkomu undirstöðuatvinnuvegs þjóðarinnar en raun ber vitni.“ — Ég endurtek, herra forseti, ummæli formanns Landssambands ísl. útvegsmanna. Hann segir hér, með leyfi hæstv. forseta: „Mjög alvarlegt er, að þeir, sem stjórna landinu, fylgist ekki betur með afkomu undirstöðuatvinnuvegs þjóðarinnar en raun ber vitni. Ég tel stöðu útgerðarinnar vera verri nú en í langan tíma, og endurspeglast það hjá viðskiptaaðilum útgerðarinnar og í vanskilum útgerðarinnar við Fiskveiðasjóð og Byggðasjóð,“ sagði Kristján enn fremur.

Um þá yfirlýsingu forsrh. að útgerðarmenn og sjómenn væru að reka á eftir sjálfum sér með rekstrarstöðvun um áramót sagði Kristján:

„Um þessa yfirlýsingu er fátt að segja, því að hún getur ekki hafa verið meint eins og eftir honum er haft. Forsrh. er ljóst að í yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins sitja fulltrúar veiða og vinnslu og formaður nefndarinnar er fulltrúi ríkisstj. og hvorugur aðili getur ákveðið fiskverð nema með samþykki formanns nefndarinnar. Ég ætla ekki forsrh. að vera svo ókunnugur þessum málum að hann viti ekki að ríkisstj. ákveður gengi krónunnar og ekki er hægt að mæta hækkun innlends kostnaðar fyrirtækja í sjávarútvegi um 50% á ári, þegar gengi krónunnar breytist að meðaltali um 20%, eins og gerst hefur á þessu ári.“

Nú er alveg óþarfi að leiða stjórnarandstöðuna til vitnis um hvort þessi síðustu ummæli formanns Landssambands ísl. útvegsmanna séu rétt eða ekki. Hæstv. sjútvrh. hefur sjálfur við umr. hér á Alþingi, m. a. um fiskverðsákvörðun, tekið af skarið í þeim efnum og viðurkennt að útflutningsatvinnuvegirnir þurfa einnig á tekjuaukningu að halda ef kostnaðarhækkanirnar hér innanlands hlaupa fram úr tekjuaukningunni á útflutningsmörkuðunum, og skiptir þá auðvitað engu máli hvort sú tekjuaukning er orðin til vegna hækkaðs markaðsverðs eða vegna hækkaðs gjaldmiðils af einum eða öðrum sökum. — Hæstv. sjútvrh. sagði hér í ræðu í lok októbermánaðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef áður lýst þeirri sannfæringu minni, að enn megi draga úr fjármagnskostnaði útflutningsatvinnuveganna svo að ekki þurfi að mæta erfiðleikum þeirra í verðbólgunni að öllu leyti með gengisbreytingu. Ég hygg að hv. þm. skilji það mætavel, að í 40% verðbólgu verður ætíð að breyta gengi annað slagið. Það er einlæg von mín, að ekki þurfi að gera það á næstunni. En rekstrargrundvöll atvinnuveganna verður að tryggja og því er verið að kanna allar leiðir til þess.“

Svo mörg voru þau orð hæstv. sjútvrh. Nú hefur það komið á daginn að verðbólgan í ár er ekki 40%. Verðbólgan liggur einhvers staðar í kringum 50%. Ég hygg að ef tekin væri hækkun útgerðarkostnaðar sé hún enn þá hærri, ég skal ekki fullyrða, en kannske 55 eða 60%. Ég veit ekki hvort hæstv. sjútvrh. hefur aðrar hugmyndir um það en ég, en á það er auðvitað að líta að inn í útgerðarkostnaðinn kemur núna, eins og hann hefur sjálfur lagt mikla áherslu á, mjög aukinn fjármagnskostnaður, háir dráttarvextir og það sem hæstv. sjútvrh. hefur kallað „okur bankanna“, sem er alls konar fjármagnskostnaður. Nú spyr ég hæstv. sjútvrh. að gefnu tilefni, af því að hann talaði einmitt um það áðan og rifjaði upp þau ummæli sem hann hafði áður yfir hér í deildinni, að sér þætti bankarnir taka of mikið fyrir sína þjónustu þannig að þar myndaðist óeðlilega mikill gróði, og ég vil rifja það jafnframt upp að þegar hæstv. sjútvrh. talaði ítarlegast um þessi mál í síðasta mánuði baðst hann afsökunar á því, að hann skyldi þurfa að nota svo stórt orð sem okur í þessu sambandi: Hefur hæstv. sjútvrh. tekið upp viðræður um það við hæstv. viðskrh. að lækka þennan bankakostnað? Eru uppi viðræður milli viðskrn. — bankaráðuneytisins — og sjútvrn. um það, með hvaða hætti sé hægt að minnka kostnaðinn við útgerðarlánin? — Hæstv. sjútvrh. vill ekki svara þessu úr sæti sínu. Ég veit ekki hvort ætti að spyrja hæstv. forsrh. að því. Ætli það fari fram nokkrar viðræður um það með vitund forsrn. að það eigi að lækka fjármagnskostnaðinn hjá útgerðinni? Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. var að hrista höfuðið yfir sjálfum sér eða hvort það átti að vera svar við spurningunni, en eitthvað hristi hann höfuðið. Ætli hann viti nokkuð um það — eða eigum við heldur að segja að það þýði ekkert að spyrja þessa ríkisstj. hér í deildinni um hvernig hún ætli að snúast við vandanum. Ég sé að hæstv. sjútvrh. er svo önnum kafinn við að tala við varamann sinn að hann má ekki vera að því að hlusta á þær spurningar sem ég ber fram. En látum það vera. Hann getur þá lesið þær seinna.

Ég vil líka spyrja hæstv. sjútvrh. um annað, vegna þess að hann er minnisgóður maður: Síðast þegar þessi mál bar hér á góma og hann var viðstaddur hér í hv. deild talaði hann um að það ætti að koma rekstrarstöðu útflutningsatvinnuveganna á núllið fyrir áramót. Ég sé ekki ástæðu til að rifja upp aftur núna við 3. umr. það sem hæstv. forsrh. sagði um núllið á gamlárskvöld í fyrra, sem var ágætt áramótaskaup í þann tíð. Ég hef raunar ekki athugað hvort hann hafi fengið greiðslur í samræmi við taxta leikarafélagsins fyrir það frá sjónvarpinu. En það væri gaman að fá hjá sjútvrh. eitthvað um það. Hefur hann fylgt því eftir innan ríkisstj. að gerðar verði ráðstafanir til að koma hraðfrystiiðnaðinum á núllið, að koma togaraútgerðinni á núllið nú fyrir áramótin, og með því staðið við þau ummæli sín frá því fyrr á þessu þingi að vinna að því að koma útflutningsatvinnuvegunum á heilbrigðan grundvöll — eða hefur þetta mál ekki komið til umræðu í ríkisstj.? Er kannske bara talað um þetta af Jóni Ormi við Ólaf Ragnar Grímsson eða eitthvað slíkt? Hvar er þetta mál statt? Hvað átti t. d. hæstv. sjútvrh. við þegar hann fór að tala um það enn einu sinni áðan að það verði að gera eitthvað í fjármagnskostnaðinum? Hvað átti hann við með því? Var það aðeins til að sýna góðan vilja, eins og ég man eftir um börnin þegar ég var að kenna? — Ég ætlaði að læra heima, en ég gleymdi því. — Hvað hefur verið gert í þessu máli? Við þessu fást engin svör.

Það lítur svo út sem þessir ráðh. líti svo á að það sé einkamál þeirra hvernig atvinnuvegirnir ganga hér í landinu, hvernig landinu er stjórnað. Þeir hafa auðvitað hendur til þess hér um hríð að veltast í þessum sólum, setja hönd undir kinn og sitja fast í stólum sínum. En það kemur að skuldadögunum. Það kemur að því að menn spyrja: Hvað á að gera út af þessum mikla fjármagnskostnaði? Ég veit að hæstv. forsrh. þykist vera rausnarlegur, af því að allt gengur svo vel og út af þessu smáræði, þessu litla tilleggi ríkisins til Fiskveiðasjóðs sem á að ganga upp í fjármagnskostnaðinn, nákvæmlega 25 millj. 960 þús. kr. Hvað ætli togararnir séu margir? Í kringum 100? Það eru eitthvað innan við 300 þús. kr. sem koma í hlut. Hvað segir það upp í vanskilaskuldirnar í Fiskveiðasjóði og vanskilaskuldirnar í Byggðasjóði? Hvað segir sjálfur sjútvrh. um það, hvernig reikningarnir hafa verið hjá Þjóðhagsstofnun og hvernig þeir hafa komið út í raun hjá togurunum? Hann talar hér um það úrtak sem gert var og hann segir í því sambandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég ætla ekki að lesa hvern einasta lið, því að satt að segja er hér mjög mikil nálægð, ef ég má orða það svo, eða mjög líkir liðir, eins og aflahluti, launatengd gjöld, veiðarfæri, olíur-olíukostnaður aðeins meiri, 3.9 millj. á móti 3.1, sem er ekki óeðlilegt út af fyrir sig — mörg þessi skip eru af stærri gerðinni af minni togurunum. En langsamlega mesti munurinn kemur fram á liðnum vextir. Vextir eru hjá Þjóðhagsstofnun áætlaðir 1 millj. 383 þús., en vextir í þessu 19 skipa úrtaki eru taldir vera 3 millj. 311 þús. Þarna er langsamlega stærsti munurinn sem veldur því, að tap hjá Þjóðhagsstofnun er í krónum talið 956 þús., en í þessu 19 skipa úrtaki 3 millj. 271 þús. Þessi munur liggur fyrst og fremst í fjármagnskostnaðinum. Það er einnig gegnumgangandi í þessari skýrslu, að fjármagnskostnaðurinn er yfirgnæfandi. Fjármagnskostnaðurinn er í einu tilfelli að vísu mjög lágur, aðeins um 3% — eða vaxtakostnaður réttara sagt, en er í mörgum tilfellum upp í 30 og jafnvel 40% — svo að ég tali ekki um alveg sérstök tilfelli sem mér sýnast varla vera marktæk, þar sem vaxtakostnaður er jafnvel yfir þetta. Í sumum tilfellum er um að ræða að skip hefur verið mikið frá veiðum vegna bilana og aflaverðmætið þess vegna orðið lítið.“

Þetta er það sem hæstv. sjútvrh. segir á einum stað um þessi mál. Nú efast ég ekki um að m. a. hæstv. forsrh. hafi kynnt sér þessa skýrslu. Ég var a. m. k. viðstaddur einu sinni þegar rætt var um vandamál útgerðarfyrirtækis úti á landi, og ég man ekki betur en hæstv. forsrh. hafi þar mjög virðulega og hátíðlega sagt þeim mönnum, sem til hans komu, að þeir mundu fá úrlausn sinna mála. Svo fór samt, að þetta fólk varð að bíða atvinnulaust í margar vikur áður en svar kom frá rn., og það er enn einu sinni búið að segja þessum sjómönnum upp vinnunni. Þannig eru nú efndirnar á þeim bæ. Svo er enginn vandi að koma hér upp í pontuna og segja á eftir að allt gangi vel, tala fallega og þar fram eftir götunum, vera eins og klipptur út úr þjóðsögunum, en horfa algerlega fram hjá því, sem er kjarni þessa máls, að hjá ríkisstj. hefur legið skýrsla um að fjármagnskostnaðurinn sé verulega vanreiknaður og það um ekki neitt smáræði, og láta eins og þessi skýrsla sé ekki til. Það er einmitt þetta sem að er fundið. Það er að vita betur. Hæstv. ríkisstj. veit betur. Hún launar menn til að skrifa skýrslur, gera yfirlit, gera úrtök og fær útgerðarmenn um allt land til að senda sér ítarlegar upplýsingar og svara fsp., en gerir svo ekkert með upplýsingarnar þegar þær koma. Það er þetta sem við kunnum ekki að meta, og þetta er ástæðan fyrir því, að nú er svo komið að Byggðasjóður hefur orðið að sitja dag eftir dag á fundum á þessu hausti til að afgreiða hallærislán. Þetta er ástæðan fyrir því, að nú er svo komið að heiðarlegir, gegnir athafnamenn um allt land verða að fara í sultargöngur til Reykjavíkur til sín miklu minni manna af því að ríkisstj. stendur ekki við það sem hún á að gera og er að leika sér að lífi og fjármunum fólksins í landinu. Þetta er kjarni málsins. Og svo er alltaf sama tuggan. Eigum við að heyra hvað hæstv. sjútvrh. sagði um þessi efni 4. nóv. s. l., og eigum við að rifja upp hvort eitthvað hafi komið fram áðan í hans ræðu sem sýndi að hann hefði hugsað um þessi mál síðan? Þá sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú spyrja menn að sjálfsögðu hvað beri að gera til þess að lagfæra þennan grundvöll. Ég vil segja það í fyrsta lagi, að það á að lækka fjármagnskostnaðinn alveg tvímælalaust. Í öðru lagi á að lækka ýmis gjöld á útflutningsatvinnuvegunum, m. a. skatta og launatengd gjöld. Það á að taka á þeim málum af mikilli festu og alvöru. Og í þriðja lagi er alveg ljóst að nái þessar aðgerðir ekki að treysta grundvöll atvinnuveganna verður að laga gengi að þeim kostnaðarhækkunum sem þarna eru umfram.“

Hvað ætli hæstv. forsrh. hefði kallað þessi síðustu ummæli ef hv. 1. þm. Vestf. hefði látið sér þau um munn fara, að það yrði að laga gengi að þeim kostnaðarhækkunum sem þarna væru umfram? Ætli hann mundi þá tala um seðlaprentun? Ætli hann mundi þá tala um að það ætti að kaupa nýja prentvél fyrir Seðlabankann? Það þarf ekki að spyrja um það, hvað hann mundi segja um þau efni. Við vitum það af hans fyrri ummælum.

En þessi ummæli sjútvrh. um að laga rekstrargrundvöllinn eru í rauninni alveg sömu ummælin og staðgengill hans, viðskrh., hafði hér yfir í fyrradag. Þá talaði hann um að það yrði að vera eðlilegur rekstrargrundvöllur fyrir útgerðina. Þá spurði ég hæstv. viðskrh. hvort hann teldi það eðlilegan rekstrargrundvöll þegar duglegir ungir skipstjórar, sem ættu skip sín skuldlítið eða skuldlaust, hefðu lágan útgerðarkostnað, hefðu engan möguleika á að endurnýja sín skip. Hvað skyldi hæstv. sjútvrh. segja um það? Skyldi honum finnast eðlilegt að nú hefur verið tekið fyrir þá þróun, sem verið hefur í sjávarútvegi fram að þessu, að útgerðarmannastéttin hefur endurnýjast með því að ungu aflaskipstjórarnir hafa komið í staðinn fyrir gömlu útgerðarmennina og ungu aflamennirnir hafa keypt sér ný og glæsileg skip, stundum í samvinnu við aðra, stundum einir, og smátt og smátt orðið vel stæðir menn og burðarásar í sínu héraði? Geta menn þetta í dag? Getum við sagt við ungan skipstjóra, sem aflar 800 tonn á 35 tonna bát, að hann hafi tök á að endurnýja sinn bát? Nei, vitaskuld hefur hann ekki tök á því. Og af hverju ekki? Af því að fjármagnskostnaðurinn er of mikill.

Nú viðurkennir hæstv. sjútvrh. þetta, því að hann er góður reikningsmaður og skilur þetta dæmi þegar hann sér það fyrir framan sig. Hann viðurkennir þetta og hann skilur þetta og hann vill bæta úr þessu. En samt sem áður gerist ekki neitt. Af hverju ekki? Vegna þess að hann er að vinna með mönnum sem láta sig þetta engu skipta? Vegna þess að valdamesti maðurinn í ríkisstj., formaður Alþb., grætur það þurrum tárum þótt öll skip flotans fari úr einkaeign, vegna þess að formaður Alþb. er þeirrar gerðar að hann getur ekki hugsað sér að einstaklingurinn nái að dafna í þessu þjóðfélagi og vegna þess að sá maður, sem á nú að heita höfuðið á ríkisstjórnarskepnunni, er að hugsa um annað og veit ekki hvað fram fer, þó að hann sé að upplagi góður og hafi fyrr meir gert margt gott. Upp á síðkastið finnst mér stundum eins og hann sé í álögum, ekki get ég að því gert, og þekki hann naumast fyrir sama manninn. Þau ummæli, sem hann hefur oft látið sér um munn fara í seinni tíð í hinu háa Alþingi, eru með öfugum formerkjum við það sem hann sagði hér áður meir. Þess vegna er það auðvitað harður kostur fyrir okkur sjálfstæðismenn að eiga allt okkar traust undir Framsókn og geta ekki búist við góðum verkum frá öðrum í þessari ríkisstj. en framsóknarmönnum, sjálfum erfðafjandanum. En svona er komið.

Ég get ekki að því gert, en eftir ummæli m. a. hæstv. forsrh. hefur sá grunur læðst að mér að hann ætli sér að nota þetta smáræði, þessar 26 millj. tæpar, sem eru framlag ríkissjóðs í Fiskveiðasjóð, ekki einu sinni, heldur oft. Ég hef einhvern veginn grun um það. Nú vitum við allir að þetta er þannig hugsað af hæstv. sjútvrh., að þessir peningar eigi, þó í litlu sé, að koma nokkuð til móts við þann mikla fjármagnskostnað sem er á skuttogurunum. Ég geri ráð fyrir að hann ætli sér ekki að láta þetta fjármagn renna til að greiða upp stofnfjárskuldir bátaflotans, loðnubátanna eða vertíðarbátanna. En frá sjónarmiði hæstv. sjútvrh. eru þessir peningar hugsaðir sem svo, að þeir séu nokkurs konar uppbót fyrir vanrækslusyndir ríkisstj., það eigi að hjálpa togurunum vegna þess hallarekstrar sem verið hefur á þessu ári og á undanförnum misserum. Það er þó að sýna lit. En á hinn bóginn er ég sannfærður um að bæði hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh., því að þeir sjást nú mjög saman í seinni tíð hugsi sér að þessir peningar verði skálkaskjól fyrir því að stofnfjársjóðsframlagið falli niður. Ég er sannfærður um að sá bakþanki blundar þarna einhvers staðar, að það eigi að nota þetta sem skálkaskjól til að draga úr stofnfjársjóðsframlaginu. Væri nauðsynlegt að fá um það skýr svör við afgreiðslu þessa máls frá hæstv. sjútvrh., hvort hann geti á það fallist undir nokkrum kringumstæðum að það verði niður fellt.

Ég held, herra forseti, að nauðsynlegt sé fyrir matarhlé að rifja það upp orðrétt, sem ég raunar gat um áðan lítillega, sem hæstv. sjútvrh. sagði fyrir hálfum öðrum mánuði, með leyfi hæstv. forseta:

„Mér sýnist vera sjálfsagt markmið að koma rekstrargrundvelli atvinnuveganna upp fyrir núllið fyrir næstu áramót. Það verða ætíð einhverjar sveiflur á rekstrargrundvelli atvinnuveganna, og við getum aldrei afstýrt að þeir falli niður fyrir núllið annað slagið. En það er von mín að þær athuganir, sem nú eru í gangi, geri okkur kleift að koma rekstrargrundvelli atvinnuveganna upp fyrir núllið um næstu áramót. Þá vil ég sérstaklega taka fram að ég á við frystinguna ekki síst sem slíka.“

Nú hlýt ég að spyrja hæstv. sjútvrh.: Gerir hann sér enn þá vonir um að koma frystingunni upp fyrir núllið fyrir áramótin? Er hann enn jafnbjartsýnn á það og hann var að frystingin komist upp fyrir núllið fyrir áramótin? Hæstv. sjútvrh. gerir hvorki að játa því né neita. Eru einhverjar ráðstafanir í undirbúningi eða hefur ríkisstj. eitthvað í jólapokanum sínum, sem á að opna á aðfangadagskvöld og sýna þjóðinni, um að frystingin komist upp fyrir núllið fyrir áramótin? Það er nú ekki að sjá á hæstv. ráðh. að þeir séu verulega bjartsýnir á það. Þeir eru ekki verulega bjartsýnir. Það er rétt, að í nóvembermánuði var kannske hægt að friða kaupfélagsstjórana með þessu og slá þessu föstu í þingtíðindum. En síðan koma áramótin. Það er ekki eins og í Deleríum búbónis að hægt sé að fresta jólunum og áramótunum. Áramótin koma, nema hæstv. sjútvrh. hafi ekki meint þessi áramót, heldur næstu áramót eða þar næstu áramót. — Og á að lækka launaskattinn? Um þessi mál fást auðvitað lítill svör og það er eðlilegt. Við erum daginn út og daginn inn í þinginu að fjalla um mál sem í sjálfu sér eru kannske óhjákvæmileg, en af hverju eru þessi mál lögð fyrir þingið? Hvers vegna erum við núna að tala um að lána og lána og lána og éta upp og éta upp og éta upp það sem búið var að safna? Er það vegna þess að við höfum átt við eitthvert sérstakt harðæri að búa? (Forseti: Á hv. þm. eftir langt af ræðu sinni?) Það getur dregist. Það getur teygst úr lopanum. (Forseti: Þá verð ég að biðja hann svo vel að gera að gera hlé á henni.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að enn hefur það borið við, að ráðh. er skotið inn á milli í umr. um önnur mál, án þess að stjórnarandstöðunni gefist svigrúm til að láta einnig í ljós sína skoðun um málið. Þar á ég að sjálfsögðu við 1. dagskrármálið, lánsfjárlagafrv. Ég hafði satt að segja búist við því, að sú gagnrýni, sem fram hefur komið á þvílíka málsmeðferð, mundi valda því, að ekki yrði aftur horfið að því ráði. En látum svo vera.

Ég vil aðeins ítreka það sem ég spurði um hér áðan, sem var í raun og veru kjarni þess sem ég sagði, og það er þetta: Hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir við umr. hér í deild, — og þar sem ég sé að hann er viðstaddur er nú kannske rétt að varpa þeirri spurningu til hans sem ég vildi gjarnan ítreka svona í lokin, þetta er 3. umr. og það er ekki á það að treysta að maður geti endurnýjað fsp. við 4. umr. málsins. — Það eru orðnir einir þrír ráðherrar í fyrirsvari fyrir þetta mál. Nú sé ég að hæstv. dómsmrh. er sestur þarna. Kannske hann eigi að taka við málinu á lokastigi og maður eigi að beina máli sínu til hans? En það má auðvitað segja að tilgangslaust sé að hafa umr. um mál og gefa þm. kost á því að varpa fram einstökum fsp., það er borin von að fá einstaka ráðh. til að svara því sem um er spurt. Ef eina leiðin til þess að fá svör út úr ráðh. er sú að taka til máls utan dagskrár, þá fer maður nú varla að sjá til hvers þrjár umr. eru um mál. Það er kannske nóg að sé ein umr. í stjórnarráðinu um málin.

Herra forseti. Ég óska eftir því að fá að gera hlé á ræðu minni þar til hæstv. sjútvrh. kemur í salinn. (Gripið fram í: Haltu nú heldur áfram.) Ég ætla ekki að gera það. Ég óska eftir því. Það er búið að leggja hér fram á Alþingi till. frá hæstv. forsrh. um að taka löggjafarvaldið úr höndum Alþingis nú um jólin rétt eins og í fyrra, og það er nauðsynlegt í því samhengi og vegna þeirra ummæla, sem hæstv. sjútvrh. hefur haft um þessi mál og ég hef áður vitnað til, að gera lokatilraun til þess að fá hann til að svara fyrirspurn.

Ég hélt að það væri samkomulag um það í þinginu að reyna að koma þessu máli frá fyrir jólaleyfi. Ég man að vísu eftir því, að hæstv. forseti flutti einu sinni fimm tíma ræðu hér í þessum stól. Ég veit ekki hvort ástæða er til að endurtaka þau ósköp. (Forseti: Ég neita.) Ég sé að þarna er kominn sá ráðh. sem mælti fyrir þessu máli í deildinni. Það er kannske freistandi þá, til þess að sýna lipurð og elskulegheit, að beina fsp. til hans í staðinn.

Svo stendur á, eins og ég gerði ítarlega grein fyrir fyrir hádegi, að hæstv. viðskrh. og einnig hæstv. sjútvrh. hafa látið í ljós þá skoðun hér í þingsalnum, að eðlilegt sé að útflutningsatvinnuvegirnir beri sig. Hann hefur sérstaklega tekið það fram, að vonir hans standi til þess að hægt sé að koma öllum greinum þeirra — og hann tekur sérstaklega fram hraðfrystiiðnaðinum — í núllið og helst upp fyrir núllið fyrir áramótin. Nú er spurning mín, hvort einhverjar ráðstafanir þar að lútandi hafi komið til meðferðar í ríkisstj., hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér, að hæstv. sjútvrh. hafi tekið það mál upp innan ríkisstj. að lækka fjármagnskostnaðinn á útflutningsatvinnuvegunum, og hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér, að hæstv. sjútvrh. hafi tekið það upp innan ríkisstj. að lækka skatta á sjávarútveginum. Enn fremur langar mig til þess að spyrja hvort fram hafi farið viðræður um það milli sjútvrn. og viðskrn. að lækka lánsfjárkostnaðinn.

Hæstv. sjútvrh. baðst að vísu afsökunar á orðalaginu, en hann kallaði stimpilgjöld og lánsfjárgreiðslur til bankanna okur í ræðu hér í þinginu 4. nóv. og hafði þá mörg orð um það, að nauðsynlegt væri að lækka þennan kostnað, þessi byrði væri of þung á útflutningsatvinnuvegunum en gróði bankanna óhæfilega mikill. Nú er það spurning mín, hvort innan ríkisstj. hafi komið til orða að lækka fjármagnskostnaðinn á útflutningsatvinnuvegunum, hvaða leiðir hafi verið hugsaðar í því efni og hvort við því sé að búast, að opinberum gjöldum, svo sem launaskatti, verði létt af útflutningsatvinnuvegunum í tengslum við efnahagsráðstafanir meðan þing situr heima í jólaleyfi.