18.12.1981
Neðri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

Umræður utan dagskrár

Sigurður Óskarsson:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár hér í Nd. Alþingis, er frétt sem birtist í einu morgunblaðanna nú í morgun þess efnis, að rn. hæstv. iðnrh. hafi synjað Landsvirkjun um framkvæmdaleyfi fyrir Sultartangastíflu. Í frétt þessari segir m. a. svo, með leyfi forseta:

„Landsvirkjun ritaði iðnrn. bréf þann 20. okt. s. l. þar sem óskað var eftir framkvæmdaleyfi vegna Sultartangastíflu og um s. l. helgi var verkið boðið út. Svar iðnrn. til Landsvirkjunar barst hins vegar ekki fyrr en með bréfi dags. 16. des. Þar segir t. d. að ekki séu horfur á að nýr umtalsverður stórnotandi í orkukerfinu komi til, fyrr en þá á seinni hluta ársins 1984, m. a. vegna þess að frestað hefur verið byggingu þriðja ofnsins á Grundartanga um sinn. Þá segir í bréfinu að rn. muni ekki taka afstöðu til framkvæmda við Sultatanga fyrr en álitsgerð Landsvirkjunar liggi fyrir.“

Fsp. mín til hæstv. iðnrh. er, hvort þessi frétt hafi við rök að styðjast, og sé svo, hvaða ósköp hafi á gengið varðandi orkusölumál í þessu landi og með þeim afleiðingum að ekki einungis er vafamál um framhald stórvirkjana í landinu, heldur einnig vafamál hvort fram skuli haldið eðlilegum öryggisframkvæmdum við þær virkjanir sem fyrir eru. Slík framkvæmd er Sultartangastífla. Hún er öryggisframkvæmd sem á næstu árum á að tryggja rekstur Búrfellsvirkjunar að vetrarlagi og forða frá þeim stóráföllum sem þar geta orðið við tilteknar aðstæður.

Annað atriði og ekki síður alvarlegt tengist þessu máli, þessum frestunarhugmyndum sem greinilega liggja hér að baki. Það er hin félagslega hlið. Hæstv. iðnrh. hefur margsinnis gefið um það yfirlýsingar, að vinna á Þjórsár og Tungnaársvæðinu, a. m. k. næsta sumar, verði veruleg vegna framkvæmda við Sultartangastíflu. Sé sú frétt, sem ég vitna í hér að framan, rétt er verið að blekkja það virkjanafólk sem hefur trúað því sem hæstv. iðnrh. hefur sagt um þessi mál. Það er út í hött að benda á vatnsöflunarframkvæmdir við Þórisvatni og aðrar vatnsöflunarframkvæmdir sem lausn á atvinnuvandamálum þessa fólks. Þær framkvæmdir eru ekki mannaflafrekar og þær eru mun árstíðabundnari en sú vinna sem fyrirhuguð var við Sultartanga.

Það er einnig rangt ef því kann að verða haldið fram í svari við þessari fsp. að bygging Sultartangastíflu sé einvörðungu eða að afgerandi hluta tengd við aukna orkusölu. Öllum, sem eitthvað vilja um þessi mál vita, er fullljóst að Sultartangastífla er fyrst og fremst nauðsynleg nú til að tryggja öryggi Búrfellsvirkjunar vegna ísmyndunar og tryggja lágmarksvatnsneyslu úr miðlun Þórisvatns. Ákvörðun iðnrn. nú um að tengja þessa framkvæmd aukinni orkunotkun á orkuveitusvæði Landsvirkjunar kemur því vægast sagt óþægilega á óvart og vekur jafnframt upp spurningar hversu öryggismál Þjórsár- og Tungnaárveitanna eru hátt metin í hv. iðnrn.