18.12.1981
Neðri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil strax í upphafi míns máls létta áhyggjum af hv. 2. þm. Suðurl. um að fyrirætlanir séu uppi um að fresta framkvæmdum við Sultartangastíflu. Staðhæfingar í þá átt eru úr lausu lofti gripnar. Eitt morgunblaðanna, Morgunblaðið, sem setur upp frétt á baksíðu í morgun undir fyrirsögninni: „Framkvæmdaleyfi ekki veitt“ — gefur með þessu í skyn það sem hefur orðið tilefni fsp. hv. þm. og hefur vakið upp spurningar sem ekkert er óeðlilegt að fram komi, en hins vegar er nokkuð ljóst hver tilgangur þessa málgagns er með því að setja sitt mál upp undir þessari fyrirsögn.

Ég tel að þessu máli sé best svarað með því, að ég vitni — með leyfi hæstv. forseta — til þess bréfs sem ég ritaði Landsvirkjun 16. des. 1981 varðandi Sultartangastíflu, þar sem orðrétt segir, og les ég bréfið í heild:

„Vísað er til bréfs Landsvirkjunar, dags. 20. 10. 1981, þar sem óskað er eftir leyfi iðnrh. til að hefja framkvæmdir við Sultartangastíflu. Í greinargerð Landsvirkjunar með áðurnefndu bréfi segir m. a., að þörf sé orkuaukandi aðgerða þegar á árinu 1982 verði farið í stóriðju á borð við einn ofn á Grundartanga. Er þá gert ráð fyrir að sá ofn komist í rekstur á árinu 1983. Með hliðsjón af þessu svo og af öryggissjónarmiðum hefur Landsvirkjun lagt til að framkvæmdir við Sultartangastíflu hefjist vorið 1982, þannig að hún verði fullgerð eigi síðar en 1983.

Í greinargerð Landsvirkjunar segir jafnframt orðrétt: „Komi hins vegar á daginn að orkuspá reynist lægri en áætlað var eða engin ákvörðun verði tekin um nýjan stórnotanda mætti endurskoða þessa tímasetningu og e. t. v. fresta stíflunni samkv. þeirri endurskoðun.“

Ráðuneytið telur rétt að fram komi, að á fundi stjórnar Íslenska járnblendifélagsins hf. 26. nóv. s. l. var fjallað um byggingu þriðja ofnsins á Grundartanga. Niðurstaðan varð sú, að ekki væri rétt að taka ákvörðun um byggingu þriðja ofnsins að svo stöddu, en byggingartíma frá því að ákvörðun er tekin má áætla a. m. k. 11/2 ár. Því eru horfur á að ekki komi til nýr umtalsverður stórnotandi í orkukerfinu fyrr en þá á seinni hluta ársins 1984. Samkv. spá Landsvirkjunar er hins vegar áætlað að umframorkuvinnslugeta á árinu 1983 verði 306 gwst. og á árinu 1984 175 gwst. án nýrrar stóriðju og miðað við vatnsárferði sem samsvarar fremur þurru ári þrátt fyrir að ekki komi til nýjar orkuaukandi aðgerðir.

Ráðuneytið telur nauðsynlegt að tryggja sem best rekstraröryggi og raforkuframboð í landskerfinu á næstu árum og óskar eftir mati Landsvirkjunar á orkuþörf á árunum 1982–1984 í ljósi ofangreindra viðhorfa. Að því fengnu mun rn. taka afstöðu til beiðni Landsvirkjunar varðandi framkvæmdir við Sultartangastíflu.“

Undir þetta rita fyrir hönd ráðh. Páll Flygenring og Kristmundur Halldórsson.

Þetta er erindi rn., þar sem sérstök áhersla er lögð á öryggisþætti í sambandi við raforkuframleiðsluna og hvergi látið að því liggja, að til frestunar framkvæmda við Sultartangastíflu komi á næsta ári. Því til áréttingar, að slíkar tillögur eru ekki uppi af hálfu iðnrn., er rétt að vitna til fjárhagsáætlunar Landsvirkjunar fyrir næsta ár og þess sem fram kemur varðandi Landsvirkjun í þeirri fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem hér er til umr. Í erindi Landsvirkjunar er gert ráð fyrir og það á framreiknuðu verði, að vegna Hrauneyjafossvirkjunar verði áætlaðar 153 millj. kr. á næsta ári, vegna ármótastíflu, þ. e. Sultartangastíflu, sem hér er kölluð ármótastífla, 133.9 millj. kr. og vegna Kvíslaveitu og Þórisvatnsmiðlunar 74.2 millj. kr. Aðrar framkvæmdir eru upp á 27.4 millj. kr. Samtals til framkvæmda 388.7 millj. kr. Auk þess er svo rannsóknar- og vaxtakostnaður, sem bætist við þessa upphæð. Þetta er sú áætlun sem iðnrn. lagði til og framsendi fjárlaga- og hagsýslustofnun á s. l. sumir og hefur ekki gert neina tillögu um að breytt verði og er hér í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Það ætti að létta áhyggjum af hv. þm. sem hafa farið að draga ályktanir af fyrirsögnum á útsiðum Morgunblaðsins í dag í sambandi við þetta mál.

Það má svo bæta því við, að margar tilraunir eru uppi hafðar af hálfu stjórnarandstöðu þessa daga — og ekkert undan því að kvarta — til að sá frækornum úlfúðar á hv. Alþingi í sambandi við eitt og annað í þeim umr. sem fram fara hér. Sem dæmi um það get ég nefnt það, að ég hafði ekki fyrr sent þetta erindi en hringt var í mig frá viðkomandi málgagni og spurt um hvort til stæði að fresta framkvæmdum við Sultartangastíflu. Ég svaraði þeirri spurningu afdráttarlaust neitandi, en blaðið sá ekki ástæðu til að koma því svari á framfæri, heldur bjó til þá frétt sem birt er á útsíðu Morgunblaðsins í dag.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, með tilliti til þingstarfa hér að eyða frekara orðum að þessu máli. Ég vænti að það sé hv. þm. ljóst. Ég vil aðeins leggja áherslu á að í sambandi við orkumál okkar og orkuframkvæmdir þurfum við að hafa auga í senn á öryggisþætti í raforkukerfi okkar og að sjálfsögðu á fjárhagsþáttum einnig og við hljótum að leitast við að stilla framkvæmdir þannig af að við verðum ekki með framkvæmdir í gangi sem ekki falla með eðlilegum hætti að þessum sjónarmiðum. Er nauðsynlegt að menn átti sig á hvert verið er að fara í sambandi við orkuframleiðslu hverju sinni. Vegna þess að fjárhagsþættir koma inn í svona mynd get ég nefnt það sem dæmi, að spurningin um tveggja eða þriggja ára framkvæmdatíma við Sultartangastíflu getur verið spurning um 30 millj. kr. í vaxtakostnað. Slík atriði í sambandi við framkvæmdir hljóta menn að vega og meta.

En það er sem sagt ástæðulaus ótti þeirra sem horfa á hinn félagslega þátt mála, eins og ég skil vel að hv. fyrirspyrjandi hefur ríkulega í huga, að ætla að ekki verði hafist handa við Sultartangastíflu. Ég geri ráð fyrir að það verði í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir, nema eitthvað sérstakt komi fram af hálfu Landsvirkjunar sem gefi tilefni til annars.