22.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Í upphafi þessa árs var gerð myntbreyting. Margir bundu við hana miklar vonir. Við Alþfl.-menn töluðum fyrir henni sem einum lið í heildarendurskipulagningu efnahagslífsins. Þegar fyrirsjáanlegt var að ekkert slíkt mundi fylgja vöruðum við hins vegar við því, að hún yrði framkvæmd ein og sér eins og raunin varð.

Vonirnar, sem bundnar voru við myntbreytinguna, eru nú brostnar. Ríkisstj. hefur einungis haft áhuga á vísitöluvörunum. Margt annað, einkum smáhlutir, hækkaði í verði við myntbreytinguna sjálfa. Ríkisstj. gerði ekkert til að líta eftir þeim málum. Ég veit að flestir hlustenda kunna dæmi um þetta. Ég skal því bara nefna eitt, um smáhlut sem kostaði 18 kr. fyrir myntskiptin, en kostaði 2 kr. eftir breytinguna. Hann hefði átt að kosta 18 aura. Í gömlum krónum fór þessi smáhlutur úr 18 kr. í 200 kr. Þessar hækkanir finnum við í buddunni hvað sem vísitalan segir.

Margir bundu vonir við þessa ríkisstj. þegar hún hóf feril sinn. Þær vonir hafa líka brostið. Þessi ríkisstj. hefur reynst alveg sérstök íhaldsstjórn. Þetta er sérlega athyglisvert af því að Alþb. telur sig ráða öllu í ríkisstj. og er ákaflega ánægt með hlutskipti sitt. Þessi ríkisstj. er dæmigerð íhaldsstjórn sem engu vill breyta, sem minnst og helst ekkert vill gera og lætur sér nægja að vera ánægð með sjálfa sig. Þannig eru íhaldsstjórnir. Með þessu hefur Alþb. sannað með áþreifanlegum og eftirminnilegum hætti að það er íhaldsflokkur. Gasprið um róttækni er bara til að sýnast.

Við hlustuðum áðan á áferðarsnotra lýsingu hæstv. forsrh. á því, hve ástand mála væri gott á landi hér að hans mati. Þetta var glansmynd. En ráðherrarnir tala lítið um þann búhnykk sem þjóðarbúinu hefur hlotnast á þessu ári fyrir tilstilli Bandaríkjaforsetans Reagans. Sannleikurinn er sá, að stórfelld hækkun Bandaríkjadollars miðað við Evrópumyntir er einstök búbót fyrir þjóðarbúið. Þar á ofan hækkuðu útflutningsafurðir okkar í verði. Það er hörmulegt til þess að vita, að þessi einstaklega góðu ytri skilyrði, þessi sannkallaða himnasending skuli ekki hafa nýst okkur til að ná hér upp stórkostlegum árangri í efnahagsmálum.

Á bak við þá glansmynd, sem ríkisstj. dregur upp í talna- og prósentuleik sínum, býr kaldur raunveruleikinn. Ríkisstjórnina varðar ekki um fólkið í landinu, hún heldur bara áfram talnaleiknum og glansmyndagerðinni. En ég skal nefna dæmi um raunveruleikann.

Maður vinnur við flöskuþvott hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Hann hefur í dagvinnulaun 4914 kr. á mánuði. Hann segir að þau skrimti hjónin af því að konan vinnur tíka og þannig komist samanlagðar tekjur þeirra að frádregnum sköttum í 6500 kr. á mánuði. Starfsbróðir hans á sams konar kaupi er ókvæntur. Hann segist bjargast á því að búa í fríu húsnæði. — Ég er ógift og bý hjá móður minni, segir iðnverkakona í sælgætisgerð í blaðaviðtali nýlega, en samt er aldrei afgangur. Skyldi nokkurn undra það, því að mánaðarlaun hennar eftir 33 ára starf í sama fyrirtæki eru 4984 kr. Þetta eru staðreyndir úr íslensku þjóðfélagi.

Seinustu misserin höfum við öðlast sérstaka búbót. Samt er það svo að þúsundir manna búa við þessi lágu laun. Í Iðju eru t. d. 3000 félagsmenn. Stærsti hluti þeirra er í 8. og 9. launaflokki. Konan í sælgætisgerðinni, sem ég gat um áðan, með 4984 kr. í mánaðarlaun, er einmitt í 9. launaflokki.

Ég skal nefna annað dæmi um raunveruleikann á bak við glansmynd ríkisstj. Ung hjón með þrjú börn réðust í að eignast íbúð. Þau vinna bæði utan heimilisins. Þau verða að skjótast úr vinnunni til að fá ný lán fyrir hverja afborgun af eldri lánum. Seinast þegar ég sá veðbókar vottorð þeirra voru þau komin í 10. veðrétt.

Þetta er ekkert einsdæmi. Ekkert af þessu fólki er braskarar eða kerfisspilarar. Þetta er venjulegt launafólk á Íslandi. Það á ekki annarra kosta völ. Húsnæðismálalánin eru um 20% af íbúðarverðinu. Lífeyrissjóðslán bætast við hjá sumum. Oftast verður fólk að mæta 40–60% af íbúðaverðinu og stundum yfir 70% með skammtímalánum og með óheyrilegu vinnuálagi. Þetta kerfi brýtur niður heimili, fjölskyldulíf og lífsþrótt margs ungs fólks.

Ég ætla að nefna enn eitt dæmi um raunveruleikann á bak við glansmynd ríkisstj. Móðir iðnverkakonu hafði legið á sjúkrahúsi fárveik, gat ekki matast og hafði súrefnisgjöf. Hún hresstist svo að úr þessu rættist, en varð áfram rúmliggjandi, enda á tíræðisaldri. Þá kom boðskapurinn frá sjúkrahúsinu, ekki fyrir illmennsku sakir, sjúkrahúsið átti fárra kosta völ, en boðskapurinn var þessi: Nú tekur þú móður þína heim til þín. — Varðar okkur ekki um að þá varð iðnverkakonan að hætta í vinnu sinni, og á hverju áttu þær að lifa, mæðgurnar?

Hæstv. forsrh., hæstv. ríkisstj. Við viljum ekki svona þ;jóðfélag. Það er sama hvað þið málið glansmyndina fínum dráttum. Við viljum ekki þann raunveruleika sem birtist í því, að þúsundir fólks hafi einungis 4500–5000 kr. í mánaðarlaun. Við viljum ekki að ungt fólk þurfi að slíta sér út og sendast í sífellu milli bankastjóra til þess að geta komið sér fyrir. Við viljum ekki að fólk sé hrakið úr vinnu sinni af því að það er ekki pláss fyrir aldraða móður eða aldraðan föður á hjúkrunarheimilum.

Við skulum láta vera að greiða niður kindakjöt ofan í útlendinga. Við skulum láta vera að festa fé í stækkun skipastólsins. Þessa fjármuni á að nota í annað.

Við viljum atvinnustefnu sem skapar ný arðbær atvinnutækifæri í orkufrekum iðnaði. Í yfir 20 mánuði hefur ríkisstj. ekki getað tekið ákvörðun um virkjanir og stóriðju. Sérhver dráttur þýðir að við töpum tilsvarandi framleiðsluverðmætum. Sérhver dráttur er tap í beinhörðum peningum fyrir hvert og eitt okkar.

Um allt þetta: nýja stefnu í sjávarútvegi, í landbúnaði, í orkufrekum iðnaði, í virkjunarmálum — höfum við Alþfl.-menn flutt tillögur hér á Alþingi. Við höfum beitt okkur fyrir úrbótum í málefnum aldraðra og lagt fram tillögur um lánamál húsbyggjenda og íbúðarkaupenda. Við teljum að nota eigi árangur raunvaxta- og verðtryggingarstefnunnar, sem birtist í auknum sparnaði, til þess að auka langtímalán til íbúðarkaupa og bygginga.

Kjör hinna verst settu verður að bæta. Launataxta hinna lægst launuðu verður að hækka sérstaklega. Ef það hrekkur ekki verður samfélagið að koma til móts við þetta fólk með skattalækkunum og afkomutryggingu eins og við Alþfl.-menn höfum flutt tillögur um hér á Alþingi við umfjöllun skattalaga.

Lítum á fáein atriði til viðbótar:

Ríkisstj. talar mikið um gott atvinnuástand. Ég skal nefna dæmi úr raunveruleikanum. Í fyrradag bættust 40 á skrá atvinnulausra í Keflavík. Og í gær sagði síðan Hraðfrystihús Keflavíkur upp öllu starfsfólki sínu.

Ríkisstj. hrósar sér af rekstrarafgangi á fjárlögum. Fjmrh. viðurkennir þó í blaðagrein nýlega að þessi tala fáist með bókhaldskúnstum, tilflutningi milli A- og B-hluta fjárlaga.

Ríkisstj. hrósar sér af árangri í verðbólgumálum og fer með talnaflóð um kaupmátt. Ég spyr þig, hlustandi góður: Endast peningarnir í buddunni þinni betur nú en áður? Það má telja mönnum trú um ýmislegt með tölum. Vísitölu má falsa, en buddan er hinn sanni mælikvarði. Við skulum ekki láta reiknikúnstirnar dæma. Dæmið sjálf út frá buddunni ykkar, þar er sannleikurinn. Ég spyr: Endast peningarnir betur?

Ég skal ekki draga úr því að það séu erfiðir tímar fram undan. Okkur Alþfl.-mönnum hefur líka alltaf verið ljóst að það kostar átak og þrautseigju að komast úr núverandi verðbólgufari. Núv. ríkisstj. hefur þó aukið enn á þá erfiðleika sem biða okkar síðar. Þrátt fyrir góðæri hefur öllum sjóðum verið eytt. Þrátt fyrir góðæri er erlendum skuldum hlaðið upp í ógnvekjandi mæli. Á slíku hafa þjóðir glatað sjálfstæði sínu. Og í gær skrifaði ríkisstj. upp á 42 millj. kr. víxil sem fellur á skattgreiðendur haustið 1983.

Það er auðvelt að ávísa á framtíðina, en það er ekki að stjórna. Hið sanna hlutverk raunverulegra stjórnmála er að byggja upp fyrir framtíðina og nýta þá kosti, sem landið býr yfir, til að treysta lífsöryggi og lífskjör. Um slíka stefnumótun verður þjóðin að sameinast. Slíkri stefnumörkun berjumst við Alþfl.- menn fyrir. — Góðar stundir.