18.12.1981
Neðri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

Umræður utan dagskrár

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég er ánægður með að hæstv. iðnrh. hefur dregið mjög úr áhrifum Morgunblaðsfréttarinnar, dregið úr skilningi Morgunblaðsins á þessu bréfi. Satt að segja er mjög erfitt að skilja bréfið öðruvísi en þannig, að það komi til greina stöðvun á framkvæmdum um óákveðinn tíma. En nú vita allir að þessi stíflugarður eykur mjög rekstraröryggi orkuvera á Þjórsársvæðinu og útilokar alvarlegar rekstrartruflanir Búrfellsvirkjunar, sem því miður hafa komið fyrir, þannig að þessi framkvæmd er í öllum áætlunum allra aðila talin vera sjálfsögð og sjálfsagt að hún væri númer eitt. Þar að auki held ég að rn. geti ekki stöðvað þetta vegna þess að ég held að lögin um Landsvirkjun taki af öll tvímæli. Þar stendur, — ég skal vera mjög fljótur, herra forseti:

„Landsvirkjun er jafnframt heimilt að gera þær ráðstafanir á vatnasvæðum ofan virkjana sinna í Tungnaá og milli þeirra og Búrfellsvirkjunar sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur þessara virkjana á hverjum tíma.“ Síðan segir um rn.: „Getur ráðh. krafist þeirra breytinga á fyrirhugaðri tilhögun mannvirkjanna sem nauðsynlegar kunna að þykja vegna almenningshagsmuna.“

Er nokkur leið að túlka þetta ákvæði þannig, að það beri að stöðva Sultartangastífluna vegna almenningshagsmuna? Ég held að það séu allir sammála um að stíflan við Sultartanga er nauðsynlegasta framkvæmd í raforkumálum vegna almenningshagsmuna.

Ég er sem sagt ánægður með að hæstv. iðnrh. hefur mjög reynt að draga úr því sem í þessu bréfi stendur.