22.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Góðir tilheyrendur. Hv. þm. Karvel Pálmason, sem talaði hér síðast, nefndi það að sjálfsögðu ekki í ræðu sinni, að sú kjaraskerðing, sem við hefur verið að glíma undanfarin misseri, á rætur sínar að rekja til kauplækkunarkröfu Alþfl. í svokallaðri vinstri stjórn sem sat hér 1978–1979. Skerðingin, sem svokölluð Ólafslög höfðu í för með sér á kaupi, varð samtals í kringum 15%. Það er þessi vandi, það eru þessi kjör sem launamenn á Íslandi núna takast á við. Hafa menn gleymt því, hafa launamenn í landinu gleymt því, að Kjartan Jóhannsson, formaður Alþfl., gerði kröfur um það ítrekað, hvað eftir annað, í tíð þáv. ríkisstj. og í stjórnarmyndunarviðræðunum 1979—1980, að hið lága kaup í landinu yrði að lækka enn þá frekar en þá var orðið? Kjartan Jóhannsson og Alþfl. gengu fremst fram í því að heimta lækkun þess lága kaups sem hann var að tala um áðan. Þessu hafa launamenn í landinu ekki gleymt. Launamenn í landinu hafa ekki heldur gleymt því að Alþfl. hljóp frá fjölmörgum félagslegum verkefnum í þáv. ríkisstj. haustið 1979, m. a. í húsnæðismálum og á fleiri sviðum. Afstaða Alþfl. var þá og er enn pólitískur harmleikur.

Formaður Sjálfstfl. flutti hér í kvöld sömu ræðuna og alltaf við útvarpsumr. frá því að núv. ríkisstj. var mynduð. Honum er vorkunn. Hann verður auðvitað að reyna að sannfæra sjálfan sig um að ríkisstj. sé ómöguleg, en illa gengur honum að sannfæra aðra. Ræða hans gekk eins og áður út á það, að ríkisstj. væri að sigla allt í kaf í atvinnu- og efnahagsmálum. Hann minntist ekki á það, að á meðan skoðanasystir hans ræður fyrir leiftursókninni í Bretlandi eru 12% verkfærra manna atvinnulausir. Á Íslandi er talan 0.2% á sama tíma, og verulegur skortur er á vinnuafli víðs vegar á landinu. Um 700 útlendingar hafa fengið atvinnuleyfi hér á þessu ári, þar af um 200 í fiskvinnu.

Formaður Alþfl, gerir lítið úr félagslegum aðgerðum ríkisstj. Efnislega er í raun enginn munur á ræðuhöldum hans og íhaldsins. Það kemur ekki á óvart. Hitt sætir tíðindum, að Alþfl. skuli nú snúast jafnöndverður gegn félagslegum aðgerðum og íhaldið. Alþfl. reyndi þó forðum að leggja áherslu á félagslegar umbætur, en sú tíð virðist liðin.

En athyglisverðast var það, að formenn stjórnarandstöðuflokkanna höfðu ekkert til málanna að leggja annað en svartagallsraus og hrakspár. Þeir höfðu engar tillögur fram að færa, engar ábendingar um það, hvernig ætti að tryggja kaupmátt launanna, engar ábendingar um það, hvernig ætti að ná verðbólgunni niður, enda má segja að ráð slíkra manna séu gagnslítil. Reynslan af flokkum þeirra er ekki svo góð að ráðgjöf þeirra sé trúverðug eftir það sem á undan er gengið.

Það er reyndar skoðun flestallra landsmanna, að eina ríkisstj., sem kostur sé á við núverandi aðstæður, sé sú ríkisstj. sem nú situr,-stjórnarandstöðuflokkarnir geti ekki einu sinni haft stjórn á eigin innanhússvandræðum, þess vegna sé ekki til þeirra að leita um úrræði andspænis erfiðum verkefnum. Þessir flokkar eru nákvæmlega jafnúrræðalausir og eftir síðustu kosningar þegar þeir dæmdu sjálfa sig úr leik til þátttöku í stjórnarsamstarfi, annar með sífelldum sprengjuhótunum, hinn með kröfunni um leiftursókn gegn lífskjörum.

Engin orð áttu flokksformennirnir, þeir félagar Kjartan og Geir, að heldur til verkalýðshreyfingarinnar í landinu í þeirri baráttu sem er að hefjast á þeim vígstöðvum. Og þeir gleymdu því, þessir menn, í ræðum sínum að geta þess, að kröfugerð Alþýðusambands Íslands, sem afgreidd var fyrr í þessari viku, var samþykkt með samhljóða atkv. í hinni stóru og víðtæku samninganefnd alþýðusamtakanna. En kannske var þetta ekki gleymska. Kannske vildu formennirnir ekki muna eftir staðreyndum sem kollvarpa hrakspám þeirra og tilraunum þeirra til að grafa undan trú þjóðarinnar á getu hennar sjálfrar til að ráða fram úr erfiðum verkefnum. Áróður þeirra um að allt sé hér í kaldakoli er í raun áróður fyrir landflótta og uppgjöf.

Samkomulag núv. stjórnaraðila byggist á því grundvallaratriði að verja ávinning verkalýðshreyfingarinnar frá síðustu áratugum, beinist að því að treysta efnahagslegar og atvinnulegar forsendur sjálfstæðis þjóðarinnar og því að skapa möguleika á að tryggja og bæta lífskjörin til langframa. Samkomulag stjórnaraðilanna miðar einnig að því, að unnið verði að því með markvissum hætti að draga úr verðbólgunni, vitandi það tvennt, að vaxandi verðbólga getur stofnað efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í hættu og kemur verst við þá sem lægst hafa launin og minnstar tekjurnar.

Ríkisstj. einsetti sér að finna þá pólitísku leið sem færust er til þess að treysta lífskjörin um leið og dregur úr verðbólgu. Þetta hefur tekist vel á yfirstandandi ári. Þannig er verðbólgan nú talin um 40% í stað 70–80% eins og spáð var að óbreyttu. Þannig er kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann heldur betri en á s. l. ári og jafnhár því sem hann hefur hæstur verið áður.

Ég tel, góðir tilheyrendur, að traust almennings á ríkisstj. stafi af því, að hún hefur staðið við yfirlýsingar sínar í efnahagsmálum. Það er ólíkt því sem menn hafa kynnst áður, t. d. frá ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, sem lýsti yfir í árslok 1974 og aftur í árslok 1975 að verðbólgan árið eftir ætti að vera komin niður í 1 5%. Útkoman varð margfalt hærri tala. Það er traust og heilindi sem máli skipta í stjórnmálum á þeim tíma sem við lifum nú á, traust samráð og samvinna milli ríkisstj. og verkalýðshreyfingar, því að engin ríkisstj. í þessu landi getur starfað og náð árangri gegn verkalýðssamtökunum. Slíkur er styrkur verkalýðssamtakanna. Það hafa þeir stjórnmálaleiðtogar fengið að reyna sem gerðu tilraunir til þess að brjóta verkalýðshreyfinguna á bak aftur. Á slíkum stundum hefur verkalýðshreyfingin á Íslandi sýnt baráttuhæfni, sveigjanleika, festu og raunsæi. Þetta kom vel fram í skæruverkföllunum 1942, og þetta kom vel fram í útskipunarbanninu 1978. Þegar baráttan er hörð veltur á mestu að meta allar aðstæður rétt. Þá þarf að haga vali á aðferðum og leiðum þannig að árangurinn verði sem allra bestur, ekki aðeins í bráð, heldur í lengd. Raunsæi hefur jafnan einkennt íslensku verkalýðshreyfinguna og svo þarf enn að verða.

Leiftursóknaröflin snúast nú gegn ríkisstj. og reyna allt sem þau geta til þess að lítillækka verkalýðshreyfinguna í landinu og forustumenn hennar. Tilgangur þeirra er hins vegar allt of augljós. Hann er sá að brjóta verkalýðshreyfinguna á bak aftur, stuðla að kollsteypu gengislækkana, vaxandi verðbólgu og jafnvel atvinnuleysi og undirbúa jarðveg fyrir íhaldsstjórn. Þessi ljóti leikur er endurtekning frá árunum 1958 og 1974, þegar vinstri stjórnunum var komið frá, en síðan settust afturhaldsöflin að völdum með milliflokkunum, fyrst Alþfl., síðan Framsfl. Ég skora á launamenn að rifja nú upp fyrir sér hvernig þessar íhalds- og miðflokkastjórnir skipulögðu kjararán, atvinnuleysi og landflótta. Verum minnug þess, að ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Þeir eru margir svikulir og geta áður en varir ráðist aftan að hagsmunum launafólks. Menn verða að minnast þess, hvernig fór um baráttuhæfni verkalýðssamtakanna eftir að ríkisstjórnir íhaldsins og miðflokkanna voru myndaðar 1958 og 1974.

Verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur nú sett fram kröfur sínar. Hún vill ná samningi til tveggja ára með minnkandi verðbólgu og stigandi kaupmætti.

Alþb. telur óhjákvæmilegt að gerðar verði ráðstafanir til þess að tryggja og bæta kaupmátt launa til langframa með margvíslegum aðgerðum. Alþb. mun leggja allt kapp á að tryggja þessa stefnu jafnframt því sem áfram verði unnið að því að koma verðbólgunni niður. Við teljum að eina færa leiðin til þess nú sé samráð milli núv. ríkisstj. og verkalýðshreyfingar. Enginn annar kostur er á dagskrá eins og sakir standa. Nú þarf að sameinast um leið, sem í senn treystir lífskjörin og stuðlar að minni verðbólgu. Þar leggjum við áherslu á þrjú meginatriði:

Í fyrsta lagi leggjum við á það áherslu, að það eigi sér stað í landinu aukin framleiðsla og framleiðni á grundvelli íslenskrar atvinnustefnu.

Í öðru lagi leggjum við á það áherslu, að gert verði skipulegt átak til sparnaðar í hagkerfinu, bæði í milliliðum og í opinberum búskap ríkis og sveitarfélaga.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að menn geri sér það vel ljóst að því aðeins verða kjör láglaunafólks og miðlungstekjumanna bætt að þeir, sem best eru settir, gefi eftir af sinni aðstöðu. Það er útilokað að allir fái allt, og þeir eru margir sem hafa miklar tekjur og mikla fjármuni hér á landi. Það þarf að gera ráðstafanir til þess m. a. í gegnum skattakerfið að flytja féfrá þessum aðilum til þeirra sem minna hafa handa á milli.

Á grundvelli þessara þriggja stefnuatriða, sem ég hef hér nefnt: aukinnar framleiðslu, sparnaðar, jafnréttissjónarmiða og breyttrar tekjuskiptingar — á að vera unnt að skapa forsendur fyrir trygga, varanlega og jafna aukningu kaupmáttar á þeim tíma, sem um verður samið í næstu kjarasamningum, og jafnframt minnkandi verðbólgu. Hér hefur verið bent á færa leið til að ná árangri. Á þessum forsendum þarf að skapa víðtæka þjóðarsamstöðu um úrlausn þeirra verkefna sem nú liggja fyrir. Fyrir þeirri stefnu þarf ríkisstj. að beita sér. Alþb. er reiðubúið að leggja fram sína krafta sem fyrr. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.