18.12.1981
Efri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

96. mál, tímabundið vörugjald

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal gjarnan svara hv. þm. Lárusi Jónssyni um þessi málefni. Eins og ég skýrði frá við 1. umr. fjárlagafrv. höfðum við fyrirvara þegar fjárlagafrv. var samþykkt í ríkisstj. varðandi þessa sérstöku skatta, skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og launaskatt, og einnig gerðum við að umræðuefni að æskilegt væri að lækka aðstöðugjald af iðnaði þannig að það væri það sama og er á sjávarútvegi, þyrfti þá að lækka úr 1% niður í 0.65%. Ég hef ekki breytt um skoðun á þessu á þessum tíma og tel að þetta væri æskilegt. Hvort samkomulag næst um það nú skal ég ekki um segja, en ég hef ekki breytt um skoðun á því, að þetta væri æskilegt að gera.

Ég hef ekki frekari svör varðandi þetta mál nú, en vil aðeins endurtaka það sem mína skoðun, að þessa skatta alla þarf að endurskoða.