22.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er oft haft á orði, að ríkisstj. hafi átt óvenjumiklu fylgi að fagna þegar hún hóf göngu sína 8. febr. 1980. Þá hafði samningaþóf milli þingflokka staðið yfir um tveggja mánaða skeið án nokkurs árangurs að afloknum þingkosningum. Myndun núv. ríkisstj. reyndist vera eini möguleikinn sem þá var fyrir hendi til þingræðisstjórnar með stuðningi meiri hl. Alþingis.

Frá öndverðu hefur ríkisstj. lagt kapp á að leysa þau mörgu vandamál, sem hún tók í arf, svo og önnur brýn viðfangsefni sem jafnan kalla að frá degi til dags. Sjálfsagt eru skoðanir manna skiptar um hvernig til hefur tekist, eins og ævinlega verður. En beri menn saman áform þau og markmið, sem greint er frá í stjórnarsáttmálanum, og árangur þann, er náðst hefur, hljóta þeir að sjá að nokkuð hefur áunnist.

Það var öllum hugsandi mönnum ljóst þegar í upphafi, að baráttan við ört vaxandi óðaverðbólgu hlaut að vera hörð, en jafnframt óumflýjanleg. Það var deginum ljósara, að fullnaðarsigur í því höfuðmáli ynnist ekki í einni orrustu, heldur yrði að skipta þeirri glímu í nokkrar lotur þar til viðunandi takmarki yrði náð.

Nú bendir allt til þess, að settu marki um hjöðnum verðbólgu á þessu ári í 40% takist að ná ef ekkert óvænt kemur fyrir. Mér er það vissulega gleðiefni. En óðar en líður verður ríkisstj. að marka annan raunhæfan áfanga, ný verðlagsmarkmið í sömu átt á næsta ári, því að enn er löng leið fyrir höndum að því verðbólgustigi sem mælist í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.

Því hefur aldrei verið andmælt, þvert á móti oft á það bent, að þessi átök hlytu að hafa í för með sér óþægindi fyrir einstaklingana og álögur á þjóðina alla meðan þau stæðu yfir. En til nokkurs er að vinna því að verðbólgan er áhrifaríkasta kjaraskerðingaraðferð sem til er, eins og lærður maður hefur nýlega sagt. Hún bitnar harðast á þeim sem minnst mega sin. Lækkun verðbólgu er í sjálfu sér kjarabót. Af völdum verðbólgu hafa einstaklingarnir og þjóðarbúið allt hlotið þungar búsifjar á liðnum áratug og stórtjón. Það er því mál til komið að eitthvað fari að rofa til í þeim efnum svo að landsmenn geti um frjálst höfuð strokið og treyst öryggi sitt og efnahag til frambúðar.

Stjórnarandstæðingar margir viðurkenna að vísu að ríkisstj. hafi nokkrum árangri náð í efnahagsmálum, en þeir segja: Það byggist á óhóflegri skattheimtu í botnlausa ríkishít. Tekna hefur verið aflað til að standa undir vaxandi gjöldum, bæta þeir við. — Að sjálfsögðu er ákaflega mikilvægt, að gæta aðhalds í ríkisbúskapnum og leggja áherslu á jafnvægi í ríkisfjármálunum, en viðureign við óðaverðbólgu hlýtur alltaf að minna fremur á darraðardans, en dans á rósum. Á hinn bóginn verður auðvitað að taka mið af því, að hófs sé gætt í allri skattheimtu svo sem unnt er við ríkjandi aðstæður. Hafa verður hugfast að meginverkefni ríkisstj. er að treysta íslenskt efnahags- og atvinnulíf'svo að það geti haldið áfram án tafa og áfalla og veitt fólki næga og örugga atvinnu. Það verður að segjast eins og er, að aðalatvinnuvegir okkar standa ekki á nægjanlega traustum grunni, enda hefur sjaldnast svo verið í sögu þjóðarinnar.

Sjávarútvegurinn hefur alla tíð barist í bökkum þó að hann hafi lengst af verið okkar aðaltekjulind og auðsuppspretta. Aflabrögð eru misjöfn og útgerðarkostnaður, einkum hinna stærstu og fullkomnustu fiskiskipa, hefur verið gífurlega mikill. Svipað má segja um fiskvinnsluna. Hver man þá tíð að allar veigamestu greinar hennar hafi gengið nógu vel allar í senn? Þar hafa sannarlega skipst á skin og skúrir. Og hraðfrystihúsin, sem eru undirstaða og burðarás atvinnulífsins við sjávarsíðuna allt í kringum landið, oft og iðulega hafa forsvarsmenn þeirra orðið að horfa kvíðafullir til næsta dags, jafnvel árum saman, þó að fæstir telji kaup fiskvinnslufólksins of hátt. Svona hefur þetta verið þó að sæmilega hafi árað. Það þekkja menn af reynslunni.

Af sama sjónarhóli mætti fjalla um aðra atvinnuvegi landsmanna, svo sem landbúnað, iðju og iðnað og ýmsar þjónustugreinar.

Stjórnendur landsins, hverjir sem þeir eru, hljóta að leggja höfuðkapp á að hinar veigamestu atvinnugreinar landsmanna geti blómgast og borið sig sæmilega svo að þær fái haldið uppi batnandi lífskjörum og farsæld alls almennings í landinu.

Einni röksemd er öðru hverju skotið á loft til marks um illt og rangsnúið stjórnarfar í landinu. Það er hinn svonefndi fólksflótti til annarra landa. En sannleikurinn er sá, að það fyrirbrigði er einkenni velferðarríkis fremur en örbirgðar í sögu okkar, ef frá eru taldir margir þeir sem fluttu frá Íslandi til Vesturheims fyrir 100 árum eða svo á flótta frá harðæri og bjargarskorti. En þá var líka öldin önnur hér á landi.

Í þessu sambandi má líka minna á sögu frá löngu liðnum tíma. Hinn kunni áróðursmaður, Eiríkur rauði, fann Grænland og gaf því nafn og kvað menn mundi fýsa þangað að fara ef landið ætti nafn gott. Honum varð að von sinni. Sumarið 985 lögðu 25 skip af stað til Grænlands af Borgarfirði og Breiðafirði, en 14 komust út, sum þeirra sneru aftur, en sum týndust. Þetta var þó á þeim árum þegar Ísland var viði vaxið milli fjalls og fjöru, landkostir góðir og gnótt allra fanga, að því er merkustu menn íslenskrar sögu greina frá.

Sannleikurinn er sá, að Íslendingar hafa frá fyrstu tíð verið haldnir útþrá og ævintýralöngun. En heimþrá er einnig rík í fari þeirra, sem betur fer, og þeir viðurkenna margir með Einari Benediktssyni, að „sé eyjunni borin sú fjöður, sem flaug, skal hún fljúga endur til móðurstranda“.

Í aldargömlu Alþingishúsi standa þm. nú einu sinni enn á vegamótum í upphafi þings. Horft er um öxl og dómar látnir falla um liðna atburði og áform, en jafnframt reynt að skyggnast örlítið fram á veginn og marka stefnuna. Á borðum þm. má sjá fjárlagafrv., fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982 svo og þjóðhagsáætlun fyrir komandi ár. Margvíslegan fróðleik er þar að finna og mörg verkefni bíða fram undan. Þar er vissulega vikið að ýmsum mikilvægum málum sem snerta kjördæmi mitt, Vesturlandskjördæmi, og íbúa þess, hag þeirra og heill. Þar er fjallað um ýmis viðfangsefni, sem unnið er að í ráðuneyti dóms- og kirkjumála, svo og málefni, sem snerta samstarf Norðurlandaþjóðanna. Um öll þessi efni mætti ræða langt mál, enda daglega um þau fjallað meira og minna. Loks má af frumvörpum þessum og heimildum fræðast um býsna margt sem snertir hag og heill alþjóðar og alls landsins, um sóknarhug þjóðarinnar fram á við til bjartara og betra lífs, um stórverkefni á sviði iðnaðar og orkumála, samgöngumála og hvers konar umbóta í byggðum landsins. Sumum finnst þó sóknin of hæg, aðrir segja að boginn sé spenntur til hins ýtrasta. Meginmáli skiptir að sú ríkisstj., sem heldur um stýrisvöllinn nú um sinn, verður að setja þjóðarhag öllu ofar og koma skútunni út úr ölduróti verðbólgu og brims á kyrrari sjó. Til þess að vel megi takast er gott að heita á liðsinni og skilning manna um land allt, á traust þess fjölmenna hóps sem fagnaði stjórninni í byrjun og enn er reiðubúinn að veita henni stuðning til allra góðra verka í þágu lands og þjóðar. — Lifið heil.