18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

1. mál, fjárlög 1982

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég hef tvívegis áður á Alþingi rætt nokkuð um málefni landbúnaðar og gert grein fyrir fjárlagafrv. og hvernig það snertir landbúnaðinn. Ég minni á það sem ég sagði hér við 2. umr., að sá þáttur fjárlaga væri enn í meðferð í fjvn. og ríkisstj. fjallaði alveg sérstaklega um þann þátt fjárlagafrv. Það verður að segjast alveg eins og er, að niðurstaðan úr þeirri umfjöllun var skopleg. Þar fengust nánast engar leiðréttingar sem orð var á gerandi.

Ég flutti þess vegna eða flyt þrjár tillögur við einmitt þennan þátt fjárlaganna þar sem þörfin er brýnust til úrbóta og þar sem óréttlætið er allra augljósast. Þessar tillögur eru í fyrsta lagi hækkun á framlagi til tilraunabúsins að Stóra-Ármóti, tilraunabús Búnaðarsambands Suðurlands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Þar hefur þegar verið tekið til höndunum með myndarlegum hætti og enn hefur ekkert fjármagn þangað borist af hendi hins opinbera, hliðstætt því er heitið var og samþykkt hér á s. l. vori þegar lögin um þá stofnun voru samþykkt. Að vísu kemur fram hjá fjvn. hækkun sem svarar launum eins starfsmanns, en það er nánast það eina sem til þeirrar stofnunar barst. Ég geri tillögu um að þar komi hækkun upp í 300 þús. kr.

Þá geri ég líka till. um að búfjárræktarlögin verði virk og þó eru þær tillögur, sem ég legg þar fram, í fullu hófi. Búnaðarfélag Íslands hafði gert í sínum tillögum tillögu um hækkun frá því sem er í fjárlagafrv. sem nam liðlega 3 millj. kr. Ég athugaði hvað fólst í þeim hækkunum og komst m. a. að þeirri niðurstöðu, að þar væri um ný verkefni að ræða. Þess vegna er till. mín allmiklu lægri en hin upphaflega tillaga Búnaðarfélags Íslands, því að hún gerir einvörðungu ráð fyrir því að búfjárræktarlögin í núverandi mynd verði fjármögnuð. Till. mín er upp á 2 millj. kr.

Þriðja till., sem ég flyt, er um hagræðingarféð. Það er um að við ákvæði jarðræktarlaganna, sem voru samþykkt árið 1979 og ég hef hér áður lýst við afgreiðslu lánsfjáráætlunar og við 2. umr. fjárlaga, verði staðið. Þar var því heitið að jarðræktarlögin ættu að halda gildi sínu miðað við árin 1979 og 1980, meðaltal þeirra framlaga sem þá voru veitt til landbúnaðarins samkvæmt jarðræktarlögum. Núna hefur hins vegar komið í ljós að það vantar í fjárlagafrv. tæpar 15 millj. kr., til þess að staðið sé við þetta heit, og þar með kippt aftur nánast öllum loforðum um stuðning við bændur til hagræðingar í landbúnaði og til þess að færa landbúnaðinn að einhverju leyti yfir á nýjar búgreinar. Till., sem ég flyt um þetta, er nákvæmlega eins og lögin ákváðu og heitið var árið 1979.

Það eru, eins og ég hef áður sagt, fjölmörg önnur atriði, nánast við hvern einasta málaflokk sem snertir landbúnaðinn, þar sem um mjög tilfinnanlega skerðingu er að ræða og við mikilvæg loforð er ekki staðið. Nefni ég þar m. a. sem dæmi afleysingarþjónustuna sem menn væntanlega minnast að varð sérstakt samningsatriði og bændur féllust á að fella af búvöruverðinu ákveðinn hluta til þess að njóta þeirra réttinda. Ég hef sleppt því að flytja till. um þennan þátt og reyndar alla aðra í sambandi við landbúnaðinn, en hef einungis tekið þessa þrjá þætti þar sem misréttið er allra augljósast.