18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

1. mál, fjárlög 1982

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni að bera fram till. um hækkun á framlagi til Vinnueftirlits ríkisins sem er stofnun sem er til komin vegna samninga aðila vinnumarkaðarins um að gera gerbyltingu á sviði aðbúnaðarmála verkafólks. Hins vegar höfum við flm. fengið það staðfest, að það er skoðun þeirra, er að fjárlagafrv. standa, að gjaldskrá Vinnueftirlitsins muni sniðin að verðlagsbreytingu á árinu 1982 og þá miðað við desemberverðlag sem grunnviðmiðun og jafnframt að í grg. frv. er prentvilla, en þar segir í kaflanum um Vinnueftirlit ríkisins:

„Í fjárlögum fyrir árið 1981 var ákveðið að grunnheimildir Vinnueftirlits ríkisins skyldu vera 18 talsins. Í þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir því að 2 stöðugildi eftirlitsmanna bætist við hjá stofnuninni og verði grunnheimildir þar með 20 talsins.“ Í stað tölunnar 18 á að vera 20, en nú starfa einmitt 20 starfsmenn við stofnunina. Starfsmönnum mun því samkv. frv. fjölga um tvo á árinu og verða 22. Í ljósi þessa höfum við ákveðið að draga till. okkar til baka og treystum því, að svo verði haldið á málum sem ég greindi frá.