18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

1. mál, fjárlög 1982

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka það fram við þessa umr., að ég hef verið fullvissaður um það og eins Vigfús Jónsson, sem hér sat á þingi um hríð í vetur, að þrátt fyrir að frv. til nýrra dýralæknislaga hafi ekki verið lagt fram á Alþingi muni slíkt frv. verða lagt fram áður en þing fer í jólafrí. Ég hef jafnframt verið fullvissaður um það, að þótt á fjárlögum sé ekki að finna framlög til þess að tveir dýralæknar verði í Suður-Þingeyjarsýslu á næsta ári sé fyrir því séð og samkomulag um það innan ríkisstj., að annar dýralæknir verði ráðinn í dýralæknisumdæmið Suður-Þingeyjarsýslu á næsta ári. Ég hef tekið þessi orð trúanleg og það er skýringin á því, að ég hef hvorki hreyft þessu máli í frv.-formi né í formi fsp. á þessu þingi og ég hef ekki heldur flutt brtt. um þetta mál. Ég tel að um innanhéraðsmál og kjördæmismál sé sjálfsagt að hafa sem nánast samráð og samstarf milli þm. úr ólíkum flokkum og er þess vegna mjög þakklátur hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh. fyrir þeirra undirtektir við þetta mál. En ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að þetta kæmi skýrt fram við 3. umr. málsins til að skýra líka hvers vegna þessu máli hefur ekki verið hreyft á þessu þingi, eins og boðað var á s. l. vori. Þetta mál hefur verið tekið upp í hópi okkar þm. Norðurl. e. Þar hefur komið fram að við stöndum allir í þeirri trú, að við þær yfirlýsingar, sem hafa verið gefnar í þessu máli hér á Alþingi, verði staðið, en eingöngu sé um það að ræða að þetta mál hafi nánast fyrir tilviljun ekki komið fram á þinginu, en um það sé full samstaða, og fyrir það er ég þakklátur.