18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

1. mál, fjárlög 1982

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aths. hv. 4. þm. Vestf. sem komu mér upp í stólinn, annars hafði ég ekki hugsað mér að taka hér til máls. En úr því að ég er kominn hingað vil ég lýsa ánægju minni með afgreiðslu hv. fjvn. á framlagi til Hins íslenska biblíufélags og dreg því til baka mína till. sem kemur fram á þskj. 241. Ef virðulegur forseti hefur tekið eftir því sem ég sagði sé ég ekki ástæðu til að hafa lengra mál um það.

Þá vil ég einnig beina athygli manna að annarri brtt., sem ég flyt á sama þskj., 241, við 4. gr., þ. e. 3. brtt. I. liðar, og er styrkur til blaðanna. Ég er ekki í nokkrum vafa um, ef hv. þm. hafa haft tíma til að hugsa um það mál frá því að ég flutti slíka till. s. l. ár, að hún verður samþykkt. Ég tel það sjálfur hreint siðleysi að greiða slíkar upphæðir til blaðanna sem hér eru greiddar og hér um ræðir. Framlagið er nú komið upp í 2 millj. 150 þús. kr. samkv. till. fjvn. eins og fjárlögin eru nú fram sett. Það byrjaði sem saklaus smáupphæð og hefur líklega aldrei átt að verða annað.

Þá vil ég einnig vona að þm. hafi skilning á tilgangi þess uppeldisstarfs sem unnið er að í íþróttahreyfingunni. Ég beini þeirri ósk til þm. almennt, að þeir kynni sér vel till. á þskj. 251, l. lið, brtt. frá Eiði Guðnasyni, sem hann hefur nú talað fyrir, ásamt fleiri flm. sem þar eru skráðir, og er um sérstaka viðurkenningu til sérsambanda og íþróttafélaga samkv. ákvörðun Alþingis að upphæð 1 millj. kr. Það hefði fyrir löngu átt að vera komið inn í fjárlög.

Þá vil ég taka undir brtt. á þsk j. 263, það er líka I. liður þar, frá Guðmundi Karlssyni og varðar byggingu grunnskóla o. fl. í Vestmannaeyjum. Ég þekki nokkuð til þar. Þó að það sé kannske ekki almennt álitið hlutverk Reykjavíkurþm. að flytja tillögur eða mæla með tillögum til fjárveitinga fyrir aðra staði geri ég það samt hér með því að undirstrika með málflutningi mínum þörfina þar á staðnum.

Þá kem ég að þeirri brtt. sem er á þskj. 229 við frv. til fjárl. fyrir árið 1982, frá Árna Gunnarssyni, Albert Guðmundssyni, Guðrúnu Helgadóttur, Halldóri Blöndal og Ólafi Þórðarsyni, við 4. gr. samkv. númeri sem þar er, heiðurslaun listamanna samkv. ákvörðun Alþingis, að a-liðurinn verði: fyrir 301 þús. komi 506 250 kr. Ég skildi ummæli hv. 4. þm. Vestf. þannig,—það getur vel verið að það hafi verið misskilningur hjá mér, — að í sinni stuttu ræðu og aths. við framsetningu á till. frá menntmn. væri hann að tala gegn þeirri till. vegna formgalla. Nú getur vel verið að þm. séu mismunandi vel upplýstir um formsatriðið þingsins. En þrátt fyrir formgalla á framsetningu er það sterk viljayfirlýsing, sem kemur fram hjá viðkomandi aðilum, sem undir þá till. skrifa með fyrirvara, og vilji þm. fer ekki milli mála.

Það kom fram hjá hv. 1. flm. að þessari brtt. okkar, hv. 6. þm. Norðurl. e., að ég hefði nokkrum sinnum mælt fyrir till., bæði í þingflokki, í samtölum við þm. og síðan flutt hana einn á þingi einu sinni. Það var m. a. og jafnvel eingöngu til þess að Alþingi Íslendinga og íslenska þjóðin sýndi Stefáni Íslandi, Stefáni Guðmundssyni, þá virðingu sem honum ber og okkur ber skylda til að sýna honum og hefði átt að vera búið að sýna honum fyrir löngu, en formið leyfði það ekki. Við erum fastir í einhverjum farvegi hefðar sem sagði: Það skulu vera 12 menn sem hljóta heiðurslaun og þá viðurkenningu sem er miklu meira virði en peningarnir sem bak við stóðu. — Ég hef aldrei verið formfastur maður og ég get ekki ímyndað mér að nokkur Íslendingur vilji vera svo formfastur eða láta hv. Alþingi festa sig í því formi, að íslenska þjóðin geti ekki eða hafi ekki efni á eða vilji ekki vegna formsins sýna sínum afreksmönnum þá virðingu sem þeim ber, að við séum það aum þjóð að við höfum ekki efni á að viðurkenna meira en 12 afreksmenn í heiðurslaunaflokki hverju sinni.

Stefán Íslandi bar hróður Íslands vítt um lönd um langan tíma og hefur veitt ónefndum Íslendingum margar ánægjustundir í langan tíma líka, mörg ár. Ég vil segja það vegna þess að ég hafði sjálfur tækifæri til að lifa nokkuð svipuðu lífi og Stefán Íslandi gerði, að vísu á öðru sviði, á sviði íþróttanna, og veit hvað ég er að tala um. Hann bar hróður landsins og fæðingarhéraðs síns vítt um heim. Menn spurðu: Hvaðan er hann af þessu litla landi? Ég vil segja að hann hafi gert íslensku þjóðina miklu stærri vegna þess að hann dró athygli að henni á löngum söngferli úti í hinum stóra heimi með sinni ljúfu rödd. Ég verð að segja að ef við viljum kalla okkur þá menningarþjóð sem við erum alla tíð að státa af að við séum, þá verðum við að geta veitt frægum sonum, sem snúa heim til ættjarðarinnar, þá virðingu á ævikvöldi sem við getum og höfum yfir að ráða. Ég leyfi mér að halda því fram, að íslenska þjóðin mundi fagna því ef till. okkar á þskj. 229 yrði samþykkt. Ég varð var við það, þegar mín till. var felld á sínum tíma, að slíkri tillögu var fagnað, og því legg ég til að við festum okkur ekki í einhverri ákveðinni tölu. Það er hið sama og að segja við íslensku þjóðina: Þú mátt ekki eiga nema 12 afreksmenn því að við höfum ekki efni á að sýna fleiri virðingu. Ég er ekkert fastur í þeim 15 sem við gerum tillögu um. Ég væri reiðubúinn að samþykkja fleiri en 15 af því að ég veit að við eigum fleiri sem eiga skilið þá viðurkenningu sem í því felst að viðkomandi listamenn fái heiðurslaun og viðurkenningu langt út fyrir þá upphæð sem um er að ræða. Ég treysti mér til að benda á liði á fjárlögum nú sem mættu hverfa að mínu mati og kannske fáir meðal íslensku þjóðarinnar söknuðu ef þetta gæti komið í staðinn.