22.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Sighvatur Björgvinsson:

Gott kvöld góðir hlustendur. Hæstv. forsrh. hefur flutt okkur boðskap sinn. Að hans sögn er nú allt með felldu. Atvinnuástandið er gott, gjaldmiðillinn traustur, kaupmátturinn verndaður. Hvergi ber á skugga, allt slétt og fellt. Hví skyldi þjóðin þá gera sér áhyggjur þegar ekkert er að óttast.?—Þetta er boðskapur hins sléttmála forsrh. okkar. Undir boðskapinn taka samráðh. hans í ríkisstj. hver af öðrum. Í stjórnarráðinu er allt með felldu. Ráðh. líður vel.

Atvinnuástandið er gott, segir hæstv. forsrh. Á liðnum vetri voru milli 100 og 200 manns skráðir atvinnulausir á Akureyri alla vetrarmánuðina. Ekki hafa forsrh. og ríkisstj. búið til nein ný atvinnutækifæri fyrir þetta fólk þegar nýr vetur gengur nú í garð. Skyldi það engan kvíðboga bera? Og hvað segir verkalýðshreyfingin? Helmingur legtrúa á nýloknu þingi Verkamannasambands Íslands krafðist þess, að yfirvinnugreiðslum yrði breytt og beitt til hækkunar á dagvinnulaunum. Hvers vegna? Vegna þess að láglaunafólkið þarf að horfast í augu við atvinnusamdrátt og býr sig undir að þurfa að lifa á dagvinnulaununum einum. Er þessi afstaða í samræmi við sléttmæli forsrh.?

Atvinnulífið stendur traustum fótum, segir hæstv. ráðh. Sjútvrh. heimilar innflutning á hverju nýju skipinu á eftir öðru. Hvað halda menn að þessi nýja togskip þurfi að afla til að útgerð þeirra beri sig? 16 535 tonn á ári. Mestu aflaskipstjórar geta gert sér vonir um röskan helming þess. Hvaðan á mismunurinn að koma? Hver á að borga tapið? Hver borgar tapið af síldveiðum? Það er borgað með erlendri lántöku. Hver borgar tapið af loðnuveiðum? Það er líka borgað með erlendri lántöku. Hver borgar tapið í orkuiðnaði? Það er borgað með erlendum lánum. Er þetta öflugt atvinnulíf? Hvenær kemur að skuldadögunum, hæstv. forsrh.?

Hinn sléttmáli forsrh, vor segir einnig að gjaldmiðillinn á Íslandi sé traustur. Finnst fólki að krónupeningurinn nýi sé ígildi 100 kr. seðils fyrir einu ári? Hefur launafólk sömu tilfinningu þegar það handfjatlar 500 kr. seðil í dag og það hafði fyrir einu ári þegar það handlék tíu 5000 kr. seðla?

Myntbreytingin er mesta svindl í efnahagsmálum sem nokkur ríkisstj. á Íslandi hefur leikið. Ríkisstj. taldi fólki trú um að með henni væri verið að brjóta í blað. Margir trúðu því, að loksins gætu menn farið að bera virðingu fyrir íslensku krónunni. En hvað segir fólk nú? Nýja krónan hefur á 10 mánuðum hrapað um 50 aura í verðgildi. Hvað er orðið af stöðugleikanum? Hvað er orðið af virðingunni? Og verðbólgan, hún er á niðurleið, segir forsrh.

Hvaða áhrif hefur myntbreytingarsvindlið haft á verðlagið í landinu? Hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði nokkrar sögur af því áðan. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir tók undir með formanni Alþfl. og rakti fleiri dæmi þar um. Hversu mýmörg dæmi veit almenningur á Íslandi ekki um að myntbreytingarsvindl ríkisstj. hefur bókstaflega verið notað til að stórhækka vöruverð og þá ekki bara á smávarningi, heldur á dýrum varningi líka. En sú hækkun hefur engin áhrif á opinberar verðbólgumælingar forsrh. Hún hefur bara áhrif á fjárhag launamannsins. Hafa menn veitt athygli í öllum þeim kvörtunum, sem borist hafa að undanförnu frá hinum og þessum atvinnufyrirtækjum, að það er nú einn sem ekki kvartar? Hver er sá? Það er verslunin í landinu. Það heyrist lítið af kvörtunum frá verslunarstéttinni þessa dagana.

Fyrst allt er svona slétt og fellt, eins og forsrh. segir, er þá ekki allt í lagi með afkomu launafólksins? Formaður Alþb., Svavar Gestsson, hélt ræðu áðan og kenndi Alþfl. um að kaupmáttur taxtakaups verkafólks er nú lægri en hann var þegar Alþb. og Alþfl. felldu sameiginlega ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Alþfl. hefur ekki setið í ríkisstj. í þessu landi í tvö ár. Hefði verið farið að tillögum Alþfl. fyrir tveimur og hálfu ári væri í dag meiri kaupmáttur og minni verðbólga en raun ber vitni. Nú í dag vinnur venjulegur hafnarverkamaður ekki 5–6 vikur kauplaust fyrir ríkisstj., heldur í 3 mánuði, miðað við það kaup sem hann ætti að hafa fengið samkv. samningunum frá 1977.

Leiftursóknaröflin gera nú atlögu að ríkisstj., sagði formaður Alþb. Leiftursóknaröflin eru í forustu í ríkisstj. Það var hæstv. forsrh. sem ásamt Geir Hallgrímssyni kynnti fyrstur manna leiftursóknartillögurnar, og það var aðstoðarmaður hans í forsrn. sem samdi þær.

Hvað segir launafólkið sjálft? Í viðtali við Helgarpóstinn s. l. föstudag segist ekkja, sem unnið hefur 11 ár í eldhúsi á Borgarspítalanum, fá 5 139 kr. í laun á mánuði. Ég á ekki bíl, segir hún. Ég fer aldrei út að skemmta mér. Þetta er ekkert annað en vinna og um helgar er maður heima. — Fullorðinn starfsmaður í vöruhúsi hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga segir í viðtali við sama blað: Ég ber úr býtum 5 551 kr. á mánuði fyrir starf mitt. Maður verður að neita sér um ýmislegt, segir hann, svo sem bíó, leikhús og skemmtanir. Það er ekki einu sinni hægt að kaupa sér bækur og blöð þótt ég feginn vildi. — 33 ára gömul iðnverkakona segir í viðtali við sama blað um s. l. helgi að hún hafi af mögrum launum sínum lagt í það stórvirki að ná sér í þak yfir höfuðið. Hún segist hvorki hafa efni á að nota tóbak né vín. Á skemmtanir fer hún aldrei, aldrei á böll, tekur alla eftir og helgidagavinnu sem býðst og skúringar að auki. Veit formaður Alþb. ekki lengur að þetta fólk er til? Hann gerði í sumar leynisamning við lækna. Hann veitti þeim 19–40% kauphækkun. Er fjmrh. Alþb. reiðubúinn að gera læknasamninga við þetta fátæka fólk.

Herra forseti. Alþb. gekk til myndunar núv. ríkisstj. í hálfkæringi, gráglettið yfir því að geta gert Sjálfstfl. grikk. En til hvers hefur sá grikkur leitt? Alþb. hefur hans vegna rofið samstarfið við Alþfl.-menn í verkalýðshreyfingunni sem haldist hafði þar þótt sitthvað gengi oft á milli þessara flokka á hinum pólitíska vettvangi. Sjálfstæðismaður, sem hefur tekjur af eigin atvinnurekstri, atvinnurekandi, trónar nú á varaforsetastóli í Alþýðusambandi Íslands fyrir tilverknað Alþb., og Alþb. hefur fengið íhaldinu oddaaðstöðu í verkalýðshreyfingunni í hverju verkalýðsfélaginu á fætur öðru, nú síðast í Verkamannasambandi Ístands. Alþb. hefur afhent þremur og hálfum íhaldsþingmanni forustu í ríkisstj. og völd eins og væru þeir heill stjórnmálaflokkur. Alþb. og Þjóðviljinn hafa sig alla í frammi um að hampa þessum þremur og hálfa íhaldsþm., uns nú er svo komið að líklegast er talið að þeir hafi í huga sjálfstæða flokksstofnun. Hvert verður fyrsta takmark slíks nýs íhaldsflokks undir forustu Gunnars Thoroddsens og Alberts Guðmundssonar? Að vinna Reykjavíkurborg úr höndum vinstri manna? Hvert verður næsta viðfangsefni slíks flokks? Að ná í næstu þingkosningum undirtökum í stjórnmálalífi landsins með Sjálfstfl. svo íhaldið geti gerst allsráðandi í þessu landi, annaðhvort í hreinni meirihlutastjórn íhaldsflokkanna eða sem forustuafl bæði í stjórn og í stjórnarandstöðu og auk þess með þau lykilvöld í verkalýðshreyfingunni sem Alþb. hefur afhent íhaldinu.

Þetta, góðir hlustendur, er verðið sem Alþb. hefur greitt fyrir ráðherrastólana sina þrjá. Þetta er niðurstaðan af herbragði hinnar nýju kynslóðar forustumanna í Alþb., manna eins og Ólafs Ragnars Grímssonar, Baldurs Óskarssonar og Hjörleifs Guttormssonar, sem ólust upp í Framsfl. og eiga þar rætur sinar, en ekki í þeim jarðvegi sem fyrri leiðtogar flokksins, eins og Lúðvík Jósepsson, eru sprottnir úr.

Ævintýrapólitík Ólafs Ragnars Grímssonar, valdahroki Svavars Gestssonar og undirlægjuháttur Guðmundar J. Guðmundssonar mala nú undir íhaldið og skapa því þá valdaaðstöðu á Íslandi sem það hefur aldrei áður haft. Þetta veit hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen og þetta kann hann allra manna best að notfæra sér. Hann hefur fengið upp í hendurnar möguleika til að ná með þessum hætti hreinum meiri hl. íhaldsaflanna á næstu mánuðum. Hvaða máli skiptir það hann og þau öfl, sem hann er í forsvari fyrir, hvort heldur það gerist fyrir tilverknað eins eða tveggja Sjálfstæðisflokka.

Herra forseti. Þetta er niðurstaðan af ævintýrapólitík hinnar nýju forustu Alþb. Sjáið þið þetta ekki, Alþb. menn, sem mál mitt heyrið — eða er hinn sléttmáli forsrh. búinn að stinga ykkur sama svefnþorninu og hann hefur stungið foringja ykkar? Væri þá ekki ráð að reyna að vakna?

Ég þakka þeim sem hlýddu.