18.12.1981
Efri deild: 30. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég skal verða mjög stuttorður.

Um þetta mál urðu mjög miklar umr. í Nd. og það virðist ekki liggja nægilega ljóst fyrir hvernig þau fyrirheit hafi verið sem gefin voru við ákvörðun á loðnuverði, — þær ákvarðanir, sem teknar voru varðandi loðnuverðið af Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, og þau loforð, sem ríkisstj. gaf í þessu sambandi. Náttúrlega er ákaflega slæmt að svona skuli takast til. En ég ætla að vona að sá texti, sem hér liggur fyrir, veiti ríkisstj. svigrúm til að standa við þetta mál með eðlilegum hætti.