26.10.1981
Efri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, 42. mál, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingar á gengi íslenskrar krónu hinn 26. ágúst 1981 0. fl., er frv. til staðfestingar á brbl. sem út voru gefin 28. ágúst s. l.

Til þess að greiða fyrir örðugri ákvörðun fiskverðs, sem gilti frá 1. jan. þessa árs til 31. maí, samþykkti ríkisstj. að beita sér fyrir ráðstófunum til þess að gera frystideild Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins kleift að standa við greiðsluskuldbindingar vegna viðmiðunarverðs 5% yfir markaðsverði. Í þessari samþykkt fólst þó ekki skuldbinding af hálfu ríkissjóðs um að leggja fram óafturkræft framlag í þessu skyni. Á sama hátt ákvað ríkisstj. að beita sér fyrir ráðstöfunum til þess að gera frystideild Verðjöfnunarsjóðs kleift að standa við greiðsluskuldbindingar vegna sumar- og haustvertíðar.

Til þess að gera Verðjöfnunarsjóði unnt að standa við skuldbindingar sínar voru sett brbl. í tengslum við gengisbreytingu krónunnar 26. ágúst. Í þessum lögum var kveðið svo á að gengismun, 2.286%, skuli draga frá gjaldeyrisskilum vegna framleiðslu sjávarafurða fyrir 1. sept. 1981 sem afgreidd eru á nýju gengi krónunnar. Þessi gengismunur rann óskiptur í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins.

Þá var Verðjöfnunarsjóði veitt heimild til lántöku til þess að standa við skuldbindingar sinar, en fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs var veitt samkv. lögunum heimild til veitingar slíkra ábyrgða fyrir lánum að hámarki 70% af innistæðu sjóðsins.

15. okt. ákvað ríkisstj. með vísun til brbl. að innheimta ekki gengismun af framleiðslu frystra fiskafurða nema af hörpudiski og humar. Jafnframt ákvað ríkisstj. að endurgreiða framleiðendum framangreindra fiskafurða það fé sem þá þegar hafði verið innheimt samkv. 1. gr. brbl.

Nú standa sakir þannig að frystideild Verðjöfnunarsjóðs skortir 26 millj. kr. til þess að standa við skuldbindingar sínar. Til þess að treysta stöðu sjóðsins flytur ríkisstj.brtt. á þskj. 46 við þetta frv. um staðfestingu brbl. Brtt. felur í sér að við frv. bætist ný grein um endurgreiðslu Seðlabanka Íslands á gengisuppfærslu afurðalána og rekstrarlána sem bankinn hefur endurkeypt. Kveðið er á um að 26 millj. kr. af þessari upphæð, sem nemur samtals um 36.7 millj. kr., skuli renna til frystideildar sjóðsins, en afgangur skuli skiptast hlutfallslega milli annarra deilda.

Á síðustu árum hafa ríkisstjórnir nokkrum sinnum gripið til hliðstæðra ráðstafana til að rétta hag Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Hafa ríkisstjórnir ýmist lagt fram fé úr ríkissjóði til styrktar einstökum deildum eða, eins og nú er gert, notað gengismun vegna gengisbreytingar til aðstoðar sjóðnum.

Ég legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.