18.12.1981
Neðri deild: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki taka langan tíma frá hv. deild í þessu máli, þar sem stefnt er að því að ljúka þessari umr. nú sem fyrst, en ég vil þó við þessa umr. kynna samþykkt sem gerð var á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í gær. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í frv. því að lánsfjárlögum, sem nú liggur fyrir Alþingi, er ekki gert ráð fyrir því, að Rafmagnsveita Reykjavíkur fái heimild til að taka lán á næsta ári. Mikil þörf er á því að Rafmagnsveitan fái heimild til lántöku þar sem litlar líkur eru á því, að fjárþörf Rafmagnsveitu Reykjavíkur fáist leyst með því að hækka gjaldskrá. Borgarstjórn Reykjavíkur skorar því á Alþingi og ríkisstj. að Rafmagnsveitu Reykjavíkur verði heimiluð umbeðin lántaka. Að öðrum kosti mun Rafmagnsveita Reykjavíkur komast í alvarleg fjárþrot, sem m. a. gætu haft það í för með sér, að ekki yrði unnt að leggja rafmagn í nýbyggðahverfi.“

Ég hef hér í höndum ítarlega greinargerð frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur til rökstuðnings þessari lánsbeiðni. Ég ætla ekki að gera hana nánar að umtalsefni hér eða lesa hana, en ég vænti þess að hv. nefnd, sem mál þetta fær til umfjöllunar hér í deildinni, taki þessa beiðni til alvarlegrar athugunar og taki mið af þeirri samþykkt borgarstjórnar sem ég hef hér gert grein fyrir og allir flokkar stóðu að í borgarstjórn í gærkvöld.