18.12.1981
Neðri deild: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég er í sjálfu sér tilbúinn til þess að vinna í þessu máli áður en þing kemur saman. Hitt er svo annað mál, að mér er ekki kunnugt um að það sé venjan að nefndir starfi meðan þing er ekki starfandi. Ég held að það sé aðeins utanrmn. sem hefur þann hátt á samkv. lögum. En ég vil aðeins taka það fram, að það hefur farið fram mjög ítarleg vinna í þessu máli á sameiginlegum fundum nefndanna, og ég á ekki von á því, að ástæða verði til þess að endurtaka þá fundi. Ég vil því mega vænta þess, að það felist í því samkomulagi, sem hefur verið gert, að við þurfum ekki að fara í mjög ítarlega athugun á málinu upp á nýtt.

Það hefur verið mörkuð ákveðin stefna um það, að ekki verði farið í frekari erlendar lántökur. Ég tel mjög mikilvægt að halda við það og mun fyrir mitt leyti leggja áherslu á að sá rammi, sem hefur verið markaður á þessum sameiginlegu fundum og kemur fram í þeim breytingum sem hv. Ed. hefur gert, verði haldinn.