26.10.1981
Efri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson skuli vera byrjaður að flytja þá sömu ræðu sem hann hefur flutt hér síðan núv. ríkisstj. var mynduð. Hann hefur boðað það hér nánast í hverjum mánuði síðan ríkisstj. var mynduð, að það væri allt í kaldakoli, það væri allt á hausnum og önnur eins óstjórn hefði aldrei verið hér í landinu. Það er ósköp skiljanlegt að hv. þm. gangi erfiðlega að átta sig á veruleikanum. En ég vona að á þessu þingi hugleiði hann það að safna efni í aðra ræðu en þá sem hann er búinn að flytja síðan núv. ríkisstj. var mynduð.

Hins vegar var það ekki erindi mitt hingað upp í stólinn að flytja fram þessa frómu ósk um fjölbreyttari ræðuhöld af hálfu hv. þm., því að hann er fjölhæfur og greindur maður og getur örugglega flutt aðrar ræður en þá sem hann er búinn að flytja hér alloft, heldur var erindi mitt hingað að spyrja hv. þm. hvort það bæri að skilja þessa ræðu hans nú sem kröfu um gengisfellingu. Hv. þm. vill telja sig ábyrgan aðila í efnahagsmálum en fór eins og köttur í kringum þann heita graut hér í ræðustólnum. Mér finnst nauðsynlegt að hann fái tækifæri til að svara því skýrt og skorinort, hvort hann er að flytja hér ósk og kröfu um gengisfellingu. Er það stefna Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu að nú eigi að fella gengið? Það væri mjög æskilegt að það kæmi mjög skýrt og greinilega fram, hvort þetta er stefna og krafa Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu.