26.10.1981
Efri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal verða við ósk hv. 5. landsk. þm. og fara nokkrum orðum um erfiðleika í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Ég verð hins vegar að taka undir það, sem kom fram hjá síðasta hv. þm., að mér þykir orðbragðið dálítið furðulegt.

Það er að sjálfsögðu eðlilegt að ég ræði almennt um mál eins og stöðu fiskvinnslunnar. Hins vegar gerði forsrh. grein fyrir því frv., sem hér er lagt fram, eins og þurfti. Ég vil þó minna á að utan dagskrár í Sþ. urðu ítarlegar umr. einmitt um þetta mál. Ég skal því reyna að stytta mitt mál. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. hafi verið þar.

Því er ekki að neita, að sumar greinar fiskvinnslunnar standa mjög erfiðlega. Sérstaklega er það frystingin og að vísu síldar- og loðnuvinnsla. Það tvennt síðast nefnda ætla ég ekki að ræða að ráði nú. Það hefur verið mjög til umræðu. Af alveg sérstökum ástæðum er staða þessara greina mjög erfið, þ. e. vegna mikils verðfalls á heimsmarkaði á bæði loðnuafurðum og síldarafurðum, en þó alveg sérstaklega loðnuafurðum. Stafar það að hluta af þeirri röskun sem orðið hefur á milli ýmissa gjaldmiðla. En þau mál eru leyst og mun ég ekki ræða það hér nú.

Hins vegar er samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar einnig mjög mikill munur á afkomu annars vegar saltfisksverkunar og skreiðarverkunar og hins vegar frystingar. Saltfisks- og skreiðarverkun telur Þjóðhagsstofnun að sé rekin með góðum hagnaði eftir því sem gengur hjá okkur. Ég sé nú ekki ástæðu til að nefna prósentutölur, en þetta er um og yfir 10%. Hins vegar telur Þjóðhagsstofnun að frystingin sé rekin með mínus 6.7%. Það er að sjálfsögðu ákaflega alvarlegt. Þetta stafar af ýmsum ástæðum. Þetta stafar m. a. af þeirri ástæðu, að verulegt verðfall hefur orðið á blokk framleiddri fyrir Bandaríkjamarkað, einhvers staðar í kringum 8% að meðaltali, breytilegt eftir tegundum.

Sömuleiðis hefur að sjálfsögðu, miðað við þá röskun sem orðið hefur á milli gjaldmiðla, orðið mjög mikið verðfall á framleiðslu frystihúsanna fyrir Evrópumarkað. Í fyrra var lögð á það mikil áhersla að auka framleiðslu á Evrópumarkað, ekki síst á Bretland, og ég held að segja megi að frystingin hafi brugðist nokkuð vel við því. Sú framleiðsla var aukin verulega. Hins vegar virðist hafa gengið hægar að breyta því aftur, sem kannske er ekki óeðlilegt. Mikið er framleitt áður en flutt er út þannig að miklar birgðir hjá frystingunni á Bretlandsmarkað höfðu safnast saman í upphafi þessa árs áður en mönnum varð fyllilega ljóst að svo mikil röskun yrði á milli dollarans og pundsins sem raun ber vitni.

Ég ætla að nefna í þessu sambandi dæmi. Framleiðsla Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna mun hafa orðið 10% meiri á 8 fyrstu mánuðum þessa árs á Bretlandsmarkað en í fyrra á sama tíma. Að mati Þjóðhagsstofnunar nemur þessi samsetning framleiðslunnar um 4% í afkomu frystihúsanna, hvorki meira né minna.

Nú er náttúrlega aldrei hægt að gera þá kröfu, að framleiðslan sé eins og réttast er á hverju augnabliki með tilliti til hagkvæmni, og ég hef nefnt ástæður fyrir því, að tekið hefur lengri tíma en æskilegt væri að breyta framleiðslusamsetningunni. Engu að síður verð ég að lýsa þeirri skoðun minni, að þarna þarf að gæta betur að. Ég hygg að treysta verði sölusamtökunum, sem eru öflug á þessu sviði að sjálfsögðu, til að hafa um það forustu. Þetta er ein af meginástæðunum fyrir mjög slakri afkomu frystingarinnar.

Um aðrar greinar sjávarútvegsins er það að segja, að útgerð báta er talin vera nokkuð góð. Vertíðin var góð. Útgerð minni togara er talin vera með tæplega 3% halla. Er það út af fyrir sig miklu minna en verið hefur flest ár síðasta áratug. T. d. var hún á árunum 1974, 1975, 1976 yfirleitt rekin með 10% halla. Engu að síður er það umhugsunarvert út af fyrir sig að útgerð smærri togaranna er með halla. Það veldur miklu í því sambandi að afkoma smærri togaranna er ákaflega mismunandi. Það sýnir sig að þeir togarar í þessum hópi, sem eru eldri og með góða eiginfjárhagsstöðu hafa langtum betri afkomu en þeir togarar sem eru yngri, sérstaklega þeir sem eru skráðir eftir 1976–1977. Hjá slíkum togurum er fjármagnskostnaðurinn orðinn gífurlegur og hefur vaxið svo mjög á milli ára að verulegum áhyggjum hlýtur að valda. Skýringin á þessu er e. t. v. fyrst og fremst sú, að á fyrri árum tíðkaðist sú millifærsla, ef við getum kallað það svo, við nánast hverja gengisfellingu, að verulegur gengishagnaður var tekinn frá vinnslunni, færður yfir í Stofnfjársjóð fiskiskipa og notaður til að greiða niður stofnkostnað fiskiskipa. Gengisfelling um 10% kom því yfirleitt aðeins fram sem 6% gagnvart fiskiskipunum að þessu leyti.

Svo að ég noti orð hv. þm., þarna hefur kannske verið um eitthvert kák að ræða, eða hvað hann kallaði það, eða einhverja bráðabirgðabjörgun. Ég er nú ekki þeirrar skoðunar. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta hafi verið réttlætanlegt vegna þess að gengisfellingar lenda með miklum þunga á skipunum sem eru með allt sitt í erlendum lánum. Þannig var sem sagt framkvæmd aftur og aftur mjög mikil millifærsla.

Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að ég tel að aldrei verði rekstrargrundvöllur hinna nýrri skipa bættur svo að viðunandi sé nema einhver slík millifærsla komi til. Í okkar verðbólgu og í okkar gengissigi eða gengisþrepum eða fellingum eða hvað við viljum kalla það lendir slíkt með gífurlegum þunga á þessum skipum sem eru með allt sitt lánsfé í erlendum gjaldeyri og því miður mörg hver með ákaflega lítið eigið fé. Út af fyrir sig má bæta því við, að þau fáu skip, sem nýlega hafa verið keypt og eru með mikið eigið fjármagn koma allt öðruvísi út úr þessari fjármagnsþróun, standa miklu, miklu betur, þó að hins vegar megi segja að eigendur fái ekki mikinn arð af eigin fé nema í eignaaukningu.

Ég vil bæta því við, að ég er með í athugun ákveðnar hugmyndir um færslu fjármagns í Stofnfjársjóð sem gæti orðið til þess að bæta eiginfjárstöðu þessara skipa. Er það nú til meðferðar bæði hjá ríkisstj., hjá Fiskveiðasjóði og hagsmunaaðilum. Vona ég að árangurinn komi fljótlega í ljós.

Ég veit ekki hvort ég þarf að hafa mál mitt um stöðu sjávarútvegsins miklu lengra því um þetta voru fluttar margar og ítarlegar ræður í Sþ. fyrir tiltölulega fáum dögum. En ég vil þó segja það að lokum, að að sjálfsögðu verður ekki við það unað að frystingin sé rekin með miklu tapi til langframa. Það fær ekki staðist.

Því er ekki að neita, að undanfarna mánuði, eins og mér er tjáð að ætíð hafi verið gert, hefur verið litið á afkomu vinnslunnar í heild þegar ráðstafanir hafa verið ákveðnar eða a. m. k. ætíð tekið mjög mikið tillit til hennar. Hins vegar hefur mismunur á afkomu einstakra greina, þ. e. saltfisks og skreiðar annars vegar og frystingar hins vegar, sjaldan eða aldrei verið eins mikill og hann er nú. Verður erfiðara að byggja ráðstafanir á afkomu heildarinnar af því að hagnaðurinn, sem einstök hús hafa af saltfisksverkun og skreiðarverkun, er mjög breytilegur um landið. Víða fyrir norðan er t. d. ákaflega lítil saltfisksverkun og hús þar njóta þess vegna ekki þeirrar hagkvæmni sem er í saltfisks- og skreiðarverkun. Þetta þarf ég ekki að skýra fyrir hv. þm. Ég held að honum hljóti að vera þetta ljóst.

Þetta hefur orðið til þess að afkoma fiskvinnslufyrirtækja sem slíkra hefur breyst ákaflega mikið um landið. Fiskvinnslufyrirtæki suðvestanlands, sem eru með mikla saltfiskverkun og skreiðarverkun, hafa mörg hver nokkuð góða afkomu. Fiskvinnslufyrirtæki, sem eru með nánast enga saltfisksverkun og litla skreiðarverkun, eru aftur á móti með mjög lélega afkomu. Þá vaknar spurningin:

Hvernig á að lagfæra afkomu slíkra einstakra greina? Vissulega er þessi grein mjög mikilvæg, og því var spurning hv. síðasta ræðumanns eðlileg. Vill hv. þm. lagfæra hana með gengisfellingu einni saman? Gengi hefur vitanlega verið breytt á árinu, eins og hlýtur að vera þegar verðbólga er mikil. En á að mæta svona erfiðleikum einstakra greina með gengisfellingu einni saman? Gengisfelling til að mæta t. d. loðnuerfiðleikunum hefði ekki verið nein smásmíði, líklega í kringum 30%, og ég held að engum hafi dottið í hug að mæta þeim vanda með gengisfellingu.

Ég hef talið skynsamlegt að leita allra annarra leiða til að bæta afkomu frystingarinnar áður en gripið er til þess að breyta gengi, og ég vona að menn geti verið sammála um það. Vissulega er það rétt, að það, sem er verið að gera með þessu frv. og brtt., eru liðir í þá átt.

Hæstv. forsrh. minntist á það áðan að iðulega hefði gengishagnaður verið færður yfir í verðjöfnunardeildir. Ég get nefnt nýjustu dæmin. 30. des. 1976 lagði ríkissjóður 90 millj. kr. í deild fyrir lýsi og mjöl. 29. júní 1977 voru lagðar rúmlega 83 millj. kr. til freðfiskdeildar. Þetta var hvort tveggja vegna framleiðslu á árinu 1976. Þarna var m. ö. o. ekki gripið til gengisfellingar, a. m. k. ekki að fullu, til að mæta erfiðleikum þessara greina. Menn kusu leiðir sem hv. þm. kallar hér einhvers konar kák — eða hvaða orð hann notaði. Menn kusu að reyna að mæta erfiðleikum einstakra greina með slíkri færslu. Síðan var gengið fellt 6. febr. 1978 um 13%. Þá var ákveðið, í 5. mgr. 2. gr. laga nr. 2 frá 9. febr. 1978, að þessar greiðslur, sem höfðu komið úr ríkissjóði eða ríkissjóður hafði útvegað, skyldu endurgreiddar af gengismun sem myndaðist vegna gengisfellingarinnar. Sú endurgreiðsla nam með vöxtum 226.7 millj. kr. Þá var sem sagt farið í millifærslur, gengishagnaður tekinn frá öðrum greinum og færður yfir í lýsi og mjöl og freðfiskdeild. Síðan var gengið fellt 1. sept. 1978 um 15%. Þá var einnig vitað um mikla greiðsluerfiðleika freðfiskdeildar Verðjöfnunarsjóðs vegna framleiðsluáranna 1977—1978. Erfiðleikum freðfiskframleiðslunnar hafði ekki verið mætt með gengisfellingum að fullu a. m. k., og þá var ákveðið með brbl. frá 5. sept. það ár, um ráðstafanir vegna þeirrar gengisbreytingar, að ríkissjóði skyldi endurgreitt það fé sem ríkissjóður hafði veitt ábyrgð fyrir gagnvart frystideild Verðjöfnunarsjóðs. Að vísu kom aldrei til þess að ríkissjóður þyrfti að greiða það fé, því að þessi gengishagnaður kom það fljótt inn að hann rann beint inn í Verðjöfnunarsjóð. Þarna hef ég nefnt tvö mjög nýleg dæmi þar sem um slíka tilfærslu er að ræða og gengismunur er tekinn af atvinnuveginum — ég bið menn að taka eftir því — og færður inn í tvær deildir Verðjöfnunarsjóðs. Í þessu tilfelli, sem hér er um að ræða og brbl. eru um, er að þessu leyti líki á komið. Sem sagt er um tilfærslu að ræða vegna staðbundinna erfiðleika.

Í fyrsta lagi gera brbl. ráð fyrir að taka gengishagnað atvinnuvegarins, að sjálfsögðu ekki alla gengisuppfærsluna því nú eru lán gengisbundin og ekki um að ræða að taka þau 52%, sem renna til Seðlabankans, og láta renna í verðjöfnunardeildir viðkomandi greina. Þetta var gert ekki síst með það í huga að saltfisksverkun og skreiðarverkun standa mjög vel og því að allra mati talið rétt að láta hagnað þessara greina renna í verðjöfnunardeildir þeirra til að styrkja Verðjöfnunarsjóð. Þegar voru ákveðnar ýmsar undantekningar þar sem greinarnar standa mjög illa, eins og t. d. rækjufrysting o. fl. Hins vegar var ekki ákveðið að undanþiggja freðfiskdeildina á því stigi málsins þó að greinin stæði illa vegna þess að þá voru í gangi viðræður við Seðlabankann um ráðstöfun á gengisuppfærslu hans. Síðan náðist samkomulag við bankastjórn Seðlabankans um að taka einnig gengisuppfærslu Seðlabankans og færa þá nokkuð á milli. Um það fjallar sú brtt. sem hér hefur verið lögð fram.

Samtals, eins og kom fram hjá hæstv. forsrh., nemur gengisuppfærsla Seðlabankans af sjávarútvegi um 36.7 millj. kr. Af því munu 26 millj. fara í freðfiskdeildina og þá til að greiða að fullu þá skuld sem þar er orðin. Það er hliðstætt við það sem gert var 1978, nema nú er þessi hagnaður tekinn af Seðlabankanum, en ekki af atvinnuveginum. Um leið var ákveðið að undanþiggja freðfiskvinnsluna því að greiða í þessa deild, enda staða hennar slík að það er að öllu leyti eðlilegt. Jafnframt er orðin sú breyting á dollaranum að hann hefur sigið. Forsendur fyrir því að láta freðfiskframleiðsluna greiða í sina deild má segja að hafi breyst. Ég fæ ekki annað séð en að þetta sé alveg rökrétt framhald af því sem ákveðið var í sambandi við gengisfellinguna að öðru leyti en því, að æskilegt var að láta þessa hluti fylgjast að. En það var ekki unnt vegna ýmissa útreikninga og viðræðna sem urðu að fara fram um gengisuppfærslu Seðlabankans.

Ég get getið þess til viðbótar, að gengisuppfærsla vegna iðnaðar nemur um 4.7 milljörðum kr. og vegna landbúnaðar 60 þús. Ég hygg að bankastjórar Seðlabankans hafi gert ráð fyrir að leggja til við bankaráð að sú gengisuppfærsla verði einnig greidd til baka þannig að þá sé ekki um neina millifærslu að ræða frá iðnaði til sjávarútvegs, heldur um að ræða millifærslu frá saltfiski og skreið til frystingar, en eins og ég segi hefur verið þannig millifært ítrekað á undanförnum árum.

Að sjálfsögðu er þetta ekki nóg til að bæta afkomu frystingarinnar eins og þarf og er ýmislegt fleira í athugun. Ég vil þó geta þess, að Seðlabankinn hefur þegar samþykkt að breyta afurðalánum í dollurum hjá þeim, sem skilað hafa inn öðrum gjaldeyri, í afurðalán í þeim gjaldeyri sem inn er skilað. Þarna er um að ræða eitthvað um 33 millj. kr. sem Seðlabankinn greiðir með þessu móti, og af því mun frystingin í heild njóta um 23–24 millj. Þetta er að sjálfsögðu einnig töluvert mikils virði.

Í umr. í Sþ. var nokkuð rætt um stöðu Seðlabankans og stöðu bankakerfisins. Þar lýstu ýmsir, m. a. hv. 1. þm. Vestf., þeirri skoðun sinni, að ekki væri eðlilegt að staða bankanna batnaði um meira en sem næmi, eins og hann orðaði það, verðbólgu á milli ára eða gjaldeyrisstaða um gengisbreytingu á milli ára. Ég get vel fallist á að þetta sé eðlileg viðmiðun. Staðreyndin er sú, að gjaldeyrisstaðan hefur sem betur fer mjög batnað á undanförnum árum. Hún er nú orðin um 2.15% af þjóðartekjum og hefur ekki nema þrisvar áður frá 1960 orðið meiri en það. Þetta er mjög jákvætt. Einnig hefur eiginfjárstaða Seðlabankans batnað mjög verulega. Hún hefur ekki verið svo góð, ef ég man rétt, allt frá árinu 1972.

Bankakerfið þarf vitanlega að vera sterki. M. a. þarf það að vera sterki til að geta veitt útflutningsatvinnuvegunum, vil ég sérstaklega segja, hagkvæm lánakjör. Væri fróðlegt að heyra skoðun hv. þm. á því, hvort hann telur réttlætanlegt að veita útflutningsatvinnuvegunum t. d. hagkvæmari kjör á afurðalánum en almennt gerist. Þarna getum við sagt að sé um vissa tilfærslu að ræða frá þeim, sem borga hærri vexti og búa við lakari kjör, til þeirra sem njóta þá betri kjara. Ég vildi gjarnan heyra hvað hv. þm. segir um það. Allt slíkt, sem við getum gert til að draga úr kostnaði atvinnuveganna, dregur vitanlega úr þörfinni fyrir gengisbreytingu í okkar verðbólgu, og finnst mér það mjög vera til athugunar.

Ég vona að ég hafi skýrt stöðu vinnslu og veiða og farið nokkrum viðbótarorðum einnig um þá brtt. sem hv. þm. fór fram á að skýrð yrði. Ef hann hefur einhverjar frekari spurningar skal ég reyna að leysa úr þeim.