26.10.1981
Efri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir ítarlega ræðu sem hann flutti. Eins og ég gerði ráð fyrir reyndi hann að setja málin skýrt og skilmerkilega fram eins og hann sér þau, og var þar margt sem vissulega var til upplýsingar. Við hér í deildinni erum honum að sjálfsögðu þakklát fyrir. En því miður held ég að raunveruleikinn sé dálítið annar en sá sem hæstv. ráðh. sér fyrir sér, og marka ég það ekki síst af þeirri ferð sem ég greindi frá hér áðan og við fórum allir þm. Norðurl. v. í okkar kjördæmi um síðustu helgi.

Það fer ekkert á milli mála að þar eru fyrirtæki í sjávarútvegi öll mjög að ganga á eigur sínar. Þeim er að vísu haldið gangandi og í opinberum reikningum eru verðbreytingafærslur svokallaðar þannig að reikningarnir koma kannske ekki út með ýkjamiklum halla og ekki heldur þau bráðabirgðauppgjör sem nú hafa verið gerð, ýmist til 8 eða 9 mánaða, á þessu ári. En þegar raunveruleikinn er skoðaður eru verðbreytingafærslurnar auðvitað ekki nokkur eignaaukning í þessari atvinnugrein. Fyrirtækin eru þar öll rekin með gífurlegum halla. Það er að vísu svo, að þau hafa gengið enn þá. Við erum með sjávarútvegsfyrirtæki, sem betur fer, um landið víðast, þó sum hafi þegar stöðvast. En hvernig ganga þau? Þannig að þau skerða eignir sínar, rýra eignir sínar kannske um 10, kannske um 20, kannske um 25% á ári hverju. T. d. er halli Útgerðarfélags Skagfirðinga þannig að ég sé ekki betur en svona hálfur togari a. m. k. tapist hreinlega á hverju ári. Þessar tölur verða lagðar á borðið. Þetta eru staðreyndirnar. Þetta er raunveruleikinn.

Það eru enginn 3% halli á minni togurunum, nema þá þessar verðbreytingafærslur séu teknar sem tekjur. Það hlýtur að vera gert í þessum reikningum. Þetta er fásinna. Þetta er algerlega út í bláinn. Þessi fyrirtæki eru rekin með óskaplegum halla. Hagur þessara fyrirtækja var yfirleitt góður, mjög góður, árið 1977. Hann hafði batnað 1976, 1977 og fram á árið 1978. Það var að vísu stundum reikningslegur halli, það er alveg rétt. Lengst af var hægt að sýna fram á reikningslegan halla hjá útgerðinni. En þegar afskriftir voru reiknaðar í gamla daga, þegar vextir voru kannske helmingur af verðbólgustiginu, var hægt að græða þó að menn sýndu reikningslegan halla. Menn græddu á því að eiga skip og reka. Menn græddu á því að setja peninga í grjót. En það er ekki lengur þannig nú vegna þess að núna eru lán fullverðtryggð eða gengistryggð. Um raunverulegan halla er því að ræða.

Staðreyndin er sú, sem ég veit að t. d. hv. þm. Stefán Guðmundsson getur staðfest, að þessi fyrirtæki eru að ganga á eigur sínar og það í mjög stórum stíl og aldrei meira en á árinu í ár. Það byrjar verulega að halla undan fæti á árinu 1979, síðan jókst það 1980 og keyrir nú um þverbak. Þessi fyrirtæki mundu með þessu sama áframhaldi öll vera orðin gjaldþrota eftir 2–3 ár, kannske fyrr, ættu ekki einn einasta eyri. Það er alveg ljóst alls staðar þar sem ég þekki til. Þess vegna er það, hæstv. sjútvrh., að þær upplýsingar, sem hér hafa verið gefnar, standast því miður ekki, hvorki í þínu kjördæmi né mínu. Það vita allir menn að þessir reikningar standast ekki. Tapið er miklu meira. Ég sagði að 10–20% af eignum fyrirtækisins gufuðu upp á hverju ári, og ég stend við það, alls staðar þar sem ég þekki til.

Niðurstaða þess að halda áfram þessum skottulækningum eða hvað við eigum að kalla það verður auðvitað aðeins ein, þ. e. að fyrirtæki einstaklinganna og félaga þeirra, kannske er um almenningshlutafélög að ræða þar sem fólkið í þessum byggðarlögum, nær því hver einasti maður, hefur lagt verulegt fé af mörkum, verða öll úr sögunni með sama áframhaldi. Hvað tekur þá við? Ekki lifum við án útgerðar. Það tekur við það sem aðalráðamenn í ríkisstj. vilja: þjóðnýting. Það verður auðvitað að reka togaraflotann og frystihúsin. Þarna er auðvitað mjög skynsamlega að unnið af hálfu Alþb.-manna. Þeir vilja að öll fyrirtækin fari á hausinn, hvort heldur þau eru í eigu einstaklinga eða félaga þeirra, hvort sem það eru almenningshlutafélög, samvinnufélög eða annað. Þetta er yfirlýst stefna. (ÓRG: Þetta er alrangt hjá hv. þm.) Þetta er sósíalismi. Ert þú ekki sósíalisti? (ORG: Jú, jú.) Þetta er yfirlýst stefna sósíalista um allan heim. Það er ekkert við því að segja. Mennirnir mega hafa þessa stefnu, en við, sem höfum allt aðra skoðun. — (Gripið fram í.) Það er nú búið að sýna sig allrækilega víða um veröld. Kannske er hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson enginn sósíalisti. Kannske veit hann ekkert hvar hann er í pólitík. En ég veit hvað sósíalismi er, það vita allir aðrir en hann, og hvernig hann er í framkvæmd. Við höfum séð það í allmarga áratugi. — En við skulum ekki fara lengra út í þá sálma. Við skulum horfa okkur nær.

Fram hjá því verður ekki gengið, að verið er að skerða hag atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi, svo til hvers einasta. Það eru undantekningar, ég veit það, þar sem sérstaklega stendur á. En þá erum við líka að reka kannske algerlega afskrifuð skip og fá engan gróða. Þeir ættu að græða verulega, þeir menn sem hafa þegar brotist í því að borga niður sín framleiðslutæki. Því miður eru þetta nú staðreyndirnar.

Hæstv. ráðh. talaði um að það yrði færsla fjármagns í Stofnfjársjóð. Jú, það er verið að færa fjárframlög á milli sjóða sýknt og heilagt. Þetta er auðvitað engin lækning. Þá er fé tekið úr einhverjum öðrum sjóði. Þessar millifærslur gagna kannske einhvern tíma. Það er a. m. k. hægt að dylja raunveruleikann með þessum millifærslum. Menn þekktu millifærsluleiðina hér fyrr á árum. Hún var reynd um alllangt skeið og nýjar skattlagningar til að færa fé frá borgurunum til atvinnufyrirtækjanna, þangað til ekki var hægt að ganga þessa braut lengur. Þetta er nákvæmlega eins nú. Hún verður ekki gengin lengur. Það er búið að ofgera þannig að allir eru farnir að sjá í gegnum svikavefinn og fyrirtækin eru að fara á hausinn. Allt kerfið ruglar verðmyndunina með þeim hætti og alla aðstöðu í atvinnufyrirtækjunum. Þar sem framleiðslan er óhagstæðust er mestu spreðað til þess að hún verði enn óhagstæðari og framleiðsluafköst þjóðfélagsins í heild verði stöðugt minni. Þetta vita t. d. menn eins og hæstv. viðskrh., þó að hann fái ekki rönd við reist og láti kommúnista ráða ferðinni.

Það var mjög ánægjulegt að heyra hæstv. ráðh. lýsa því yfir, að ekki yrði við það unað að frystingin verði rekin með svo miklum halla til frambúðar. Auðvitað verður hún ekki rekin með svona miklum halla til frambúðar. Það gerir hæstv. sjútvrh. sér auðvitað ljóst. Þess vegna er mjög gott að við skulum fá þá yfirlýsingu, ekki bara við hér í deildinni, heldur þjóðin öll, af hans munni hér, að við það verði ekki unað. Ég vona að hann standi við þau orð. En frystingin er kannske ekki verr stödd en útgerðin. Það er alger blekking, eins og ég sagði áðan, að minni togararnir séu aðeins reknir með 3% halla. Það er miklu, miklu meiri halli. Ég vona að hv. þm. Stefán Guðmundsson geti staðfest það. Hann þekkir togaraútgerð betur en aðrir sem hér eru inni nú.

Hæstv. ráðh. sagði að gengismunurinn væri tekinn af atvinnuveginum sjálfum og settur í Verðjöfnunarsjóð. Þetta er alveg rétt. Það er verið að færa hann á milli. Það er verið að taka peninga sem ekki eru raunar til því að þeirra hefur ekki verið aflað. Þeir hafa verið fengnir að láni „hist og her“. Hæstv. ráðh. veit ósköp vel, eins og við öll, að það eru til dæmi um að sjávarútvegsfyrirtæki, m. a. s. í hans kjördæmi, séu fjármögnuð svo til 100% af þjóðinni. Ríkið á þessi fyrirtæki þegar. Opinberir sjóðir eiga þessi fyrirtæki. Þess vegna er hægt um heimatökin þegar kommúnistar láta höggið riða endanlega. Það þarf ekki annað en ganga inn í fyrirtækin og byrja að reka þau. Það er alveg rétt, ríkið á fyrirtæki á Vestfjörðum. Það hefur fjármagnað það nálægt 100%. Svo tapar það áfram og þá verður fjármagnið orðið 110 eða 120 eða 130% . Þá er auðvitað ósköp auðvelt og einfalt að þjóðnýta fyrirtækin.

En það er aftur í sambandi við skuldbreytingarnar. Ef ég man rétt ætlaði hæstv. sjútvrh. að beita sér fyrir því fyrir um það bil ári, að um verulegar skuldbreytingar yrði að ræða við útgerð og fiskvinnslu. Örfá fyrirtæki hafa fengið slíka fyrirgreiðslu, hvort sem það hefur nú verið nægilegt og hvort sem það hefur hjálpað þeim eða ekki. Oftast er það svo hjá þessum opinberu sjóðum að það er aðeins bjargað til bráðabirgða, sérstaklega þar sem er uppálagt að ekki sé látið fjármagn til þess að bæta reksturinn, heldur bara til þess að fleyta óhagstæðum rekstri áfram, aldrei að taka skrefið fullt og koma fyrirtækinu á réttan kjöl, þannig að það geti kannske verið með 10–20% hagstæðari rekstur en ella, kannske með tiltölulega litlum vélakosti. Því er hafnað. Það er venjan um sjóðina, og þess vegna rýrna lífskjörin á Íslandi fyrst og fremst, vegna ofstjórnarinnar og óstjórnarinnar sem alltaf fylgir í kjölfar ofstjórnar. Þar er vandinn, sem mannkynssagan öll getur sannað okkur, og þannig er þetta nú á Íslandi í því ofstjórnarbrjálæði sem hér ríkir.

En þá er komið að rúsínunni í pylsuendanum, sjálfum Ólafi Ragnari Grímssyni, hv. þm., sem spurði hvort ég eða Sjálfstfl. mundi vilja fella gengið. (ÓRG: Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu.) Já, já, Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu. Það er nú Sjálfstfl. aðallega. Það fer lítið fyrir hinum, sem betur fer, nú orðið. — Ég get svarað þessu ósköp einfaldlega: Nei. Ég er á því að Sjálfstfl. vilji alls ekki fella gengið umfram það sem orðið er. Hins vegar hljóta auðvitað allir menn að viðurkenna að gengið er fallið. Ég skal ekki nefna hver prósentan er. Það veit hver einasti maður að gengið er kolfallið. Það er hægt að svindla og blekk ja á hverjum tíma, en það er verið að fella gengið á hverjum einasta degi, — ef ekki vísvitandi, þá a. m. k. eins og strúturinn með hausinn í sandinum. En þá verður að fara að draga þennan haus upp úr sandinum einhvern tíma. Nú veit hver einasti maður, aðrir en ráðh. kannske og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., að gengi íslensku krónunnar er kolfallið og fellur á hverjum degi, og það getur auðvitað engin ríkisstj. til langframa starfað við þær aðstæður. Hún getur starfað í nokkra mánuði, kannske í eitt eða tvö ár, meðan verið er að eyða eignum fyrirtækjanna, haft millifærslurnar það miklar að öruggt sé að Útgerðarfélag Skagfirðinga tapi hálfum togara á ári eða rúmlega það, að hraðfrystihúsin í Skagafirði tapi 200 millj, á ári eða kannske rúmlega það. Um allt land er það auðvitað nákvæmlega eins. Það er hægt að halda þessu gangandi einhvern svolítinn tíma með blekkingunum og með því að stela náðarfé í þennan og hinn um leið. En gengi íslensku krónunnar er fallið. Við viljum ekki fella það frekar. Við viljum segja: Hingað og ekki lengra. — Og við óskum þess, að að því komi fyrr en síðarr að það verði farið að stjórna þessu landi.