19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

1. mál, fjárlög 1982

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Vegna þeirra umr., sem hafa orðið um þennan lið, vil ég taka fram, að ég tel óhjákvæmilegt að Skipaútgerð ríkisins geti endurnýjað sinn skipakost, a. m. k. meðan hún er til, og jafnframt upplýsa, vegna þess sem fram er komið, að útboð var gert á þessum skipum og það eina tilboð, sem barst frá innlendum aðilum, var helmingi hærra en það sem fyrir liggur að taka. Jafnframt vil ég að nokkru taka undir þá gagnrýni, sem komið hefur fram hjá tveimur ef ekki þrem þm., að það eru meira en lítið vafasöm vinnubrögð að leggja það fyrir fjh.- og viðskn., sem hún síðan ýtir út af sínu borði, og smeygja því inn í fjárlög. Þetta eru slæm vinnubrögð og eiga ekki að tíðkast af fjmrh. Engu að síður segi ég já.