19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

1. mál, fjárlög 1982

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég skal ekki að þessu sinni gera rekstur Skipaútgerðar ríkisins að umtalsefni og hversu þeirri útgerð er miskunnarlaust beitt til að koma einkaframtakinu á kné, en það er ástæða til að gera það við annað tækifæri. Á hinn bóginn vil ég vekja athygli á því, að hér er farið fram á erlendar lántökur til að kaupa skip handa Skipaútgerðinni, sem smíða skuli erlendis, á sama tíma og íslenskar skipasmíðastöðvar eiga mjög undir högg að sækja og ríkisstj. hefur ekkert gert til að koma á fót raðsmíði fiskiskipa og ekkert komið til móts við kröfur útgerðarmanna um að með einhverjum hætti verði létt þeim ofurþunga sem hvílir á útgerðarmönnum vegna hás fjármagnskostnaðar í sambandi við nýbyggingu fiskiskipa. Afleiðingin er orðin sú; að endurnýjun á fiskiskipaflotanum er útilokuð fyrir venjulega útgerðarmenn, hversu duglegir og aflasælir sem þeir eru. Ég vil enn fremur minna á það, að meðan hv. 1. þm. Reykv. var forsrh. hafði verkalýðshreyfingin uppi tilburði og vilja til að fara fram á að íslenskir iðnaðarmenn væru látnir sitja fyrir verkefnum, og er einnig hægt að rifja það upp síðar ef henta þykir og ef þessi ummæli mín valda því ekki, að hv. 7. þm. Reykv. ranki við sér. Að þessum orðum sögðum segi ég nei.