19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

1. mál, fjárlög 1982

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Við nafnakall, sem farið hefur fram við atkvgr. um brtt. við 6. gr. fjárlaga, hafa ýmsir þm. gert grein fyrir atkv. sínu. Áður en lengra er haldið langar mig til að vekja athygli á því, að ég held að það teljist til undantekninga ef fordæmi eru til fyrir því að heimild til erlendrar lántöku sé samþykkt í fjárlögum. Ég vísa til 40. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem skýrt er tekið fram með hvaða hætti aflað skal heimilda til lántöku. Ég held að sú venja hafi ríkt, að í fjárlögum hafi verið gert ráð fyrir innlendri lántöku ríkissjóðs, en ævinlega hafi erlend lántaka verið samþykkt með venjulegum lögum. Ég vil koma þessu á framfæri fyrir þá sem framkvæma eiga þau fjárlög sem hér munu verða samþykkt.