19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

1. mál, fjárlög 1982

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins út af þessum umr. segja það, að auðvitað er afskaplega óviðeigandi og lítilsvirðandi fyrir þessa stofnun þegar dengt er inn á síðustu stundu alls konar tillögum um meiri og minni heimildir fyrir lánveitingum erlendis og ekkert þak er sett á þessi lán. Þetta er alveg skýrgreiningarlaust. En þetta er auðvitað í samræmi við annað á þessu háa Alþingi. Ég heyrði ekki betur en hæstv. félmrh. hafi áðan greitt atkv. á móti till. af því að hann sagði að hann ætlaði að ná í peningana samt, hvað sem Alþingi gerði. Ég veit miklu fleiri dæmi þess, að Alþingi hafi synjað um fjárveitingar, síðan kemur ríkisstj. og veitir samt fé til þess sem synjað var um. Af hverju er þetta? Það er vegna þess að fjármálastjórnin er veik. Það er af því að fjmrh. stendur sig illa. Og það er af því að fjvn. sem slík er ekki jafnröggsöm og hún var meðan hreinskiptnir menn stjórnuðu henni. Ég nefni Pétur Ottesen sem dæmi.