26.10.1981
Efri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég gat ekki betur heyrt en hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson afneitaði gengisfellingu en vildi hins vegar að gengið félli. (EKJ: Nei, nei, alls ekki meira en orðið er.) Ég skal ekki auka löngu máli í þetta sinn í þær umr. sem eru orðnar býsna almennar, um efnahagsmál, en það eru þó nokkur atriði sem stjórnarandstæðingar verða að viðurkenna í sambandi við efnahagsmál, hvort sem þeim líkar betur eða verr, nokkur jákvæð atriði í sambandi við efnahagsmál sem ekki þarf að deila um.

Það þarf t. d. ekki að deila um það, að þjóðarframleiðslan á Íslandi hefur ekki minnkað. Það þarf ekki að deila um það, hvað sem menn deila um atvinnulífið að öðru leyti og atvinnuvegina og stöðu þeirra. (LJ: Hvað vex aflinn mikið á ári, hæstv. ráðh.?) Það þarf ekki að deila um það, að innlán í innlánsstofnanir í landinu hafa aukist verulega á þessu ári. (Gripið fram í: Hverjum er það að þakka?) Það er m. a. að þakka því, að ég og hv. þm. og fleiri góðir menn stóðu að því að setja góð lög á árinu 1979 sem hafa haft þessi áhrif. (EgJ: En erlendu lántökurnar, ráðh.?) VIII ekki hv. þm. bíða, ég er á leiðinni með þetta allt saman. — Um þetta þarf ekki að deila. Við höfum misst sparnaðinn niður á seinasta áratug úr 40% af þjóðarframleiðslu niður í 21.5 og innlán í innlánsstofnanir hafa síðan 1979 verið að vaxa úr 21.5 upp í 26,5% á þessu ári, svo að þetta er staðreynd sem við verðum að viðurkenna, hvort sem við erum í stjórn eða í stjórnarandstöðu, og þetta er jákvætt í efnahagsmálum hvað sem öðru líður. Og því er spáð, að innlán í innlánsstofnanir muni aukast upp í 29% á næsta ári.

Þá er einnig ástæða til þess að vekja athygli á nokkrum tímamótum sem hafa orðið í peningamálum á þessu sumri. Seðlabankinn lýsti því yfir, að í ágústmánuði hefði verið um raunvexti að ræða í öllum flokkum bundinna innlána. Þetta geta menn lesið um í ritum, sem Seðlabankinn gefur út, þannig að það er ekki áróður af hálfu ríkisstj. að halda þessu fram. Þetta er jákvætt atriði í efnahagsmálum. Hins vegar hefur þetta sínar erfiðu hliðar, þar sem er atvinnulífið sem þarf að greiða háa vexti, það er alveg rétt.

Ef við litum á gjaldeyrisstöðuna, þá hefur hún batnað um 500 millj. kr. eða 50 milljarða gkr. á einu ári og raunar á minna en einu ári. Þetta er auðvitað jákvætt atriði í efnahagsmá!unum sem ekki þarf að deila um. Viðskiptajöfnuðurinn hefur batnað úr því að vera 2.5% neikvæður af þjóðarframleiðslu á síðasta ári í það að vera neikvæður um 0.5% á þessu ári, að því er spáð er, og til viðbótar er því spáð, að hann muni verða í jafnvægi á næsta ári. Þetta eru allt saman jákvæðar hliðar í sambandi við efnahagsmálin.

Þá er það verðbólgan. Menn hafa löngum deilt um það, hvað verðbólgan sé mikil, og hafa verið haldnar margar ræður um það á hverjum tíma hvert verðbólgustigið væri. Það þarf ekki að deila um það, hver verðbólgan var í ágústmánuði, að ég ætla, því að það var ekki aðeins ríkisstj. sem hélt því fram, að verðbólgustigið væri þá um 40%, heldur hélt sjálfur Seðlabankinn þessu sama fram með þeim aðferðum sem hann notar til þess að reikna út verðbólgustigið. Seðlabankinn gaf út þá yfirlýsingu í sept., að verðbólgustigið í ágústmánuði hefði verið 40.2%, og reiknaði eftir þeim aðferðum sem hann hefur notað undanfarna áratugi.

Að lokum vil ég svo benda á fjárfestinguna sem slíka. Það má segja að rétt sé stefnt, miðað við hina miklu verðbólgu sem við búum við og höfum búið við, að því leyti til að fjárfesting er minnkandi miðað við þjóðarframleiðslu. Hún var milli 26 og 27% á seinasta ári, en verður á þessu ári líklega í kringum 25% og á næsta ári að öllum líkindum tæplega 24%. Þetta eru allt saman staðreyndir sem menn þurfa í raun og veru ekki að deila um, hvort sem menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. (LJ: Þetta er þúsund ára ríkið.) Það þarf ekkert þúsund ára ríki, þetta eru staðreyndir sem ég veit að hv. þm. í stjórnarandstöðunni munu ekki vefengja. Ef þeir vilja vefengja þessar staðreyndir verða þeir að gera það með rökum, benda á rök því til stuðnings.

Hv. þm. Egill Jónsson talaði um erlendu lánin. Það er alveg rétt hjá honum, að erlendu lánin eru mikil og hafa verið mikil. Greiðslubyrði erlendra lána hefur vaxið, það er rétt og það er sjálfsagt að viðurkenna að það er eitt af okkar vandamálum. Hins vegar eru ákveðnar ástæður fyrir þessu, ýmsar. Ég vil nefna tvær. Í fyrsta lagi að við höfum á undanförnum allra seinustu árum tekið mikið af erlendum lánum til þess að fjárfesta í orkuframkvæmdum. Má nefna t. d. hitaveituframkvæmdir sem hafa verið stórvirkar, eins og kunnugt er, og árangur hefur orðið gífurlega mikill. Það má nefna það sem nokkurn mælikvarða í því efni, að þegar olíustyrkur var settur á árið 1974, eftir fyrri olíukreppuna, voru greiddir út nærri 95 þús. olíustyrkir í landinu. Þessi tala er komin niður undir 30 þús., og það er vegna þess fyrst og fremst hversu miðað hefur framkvæmdum við uppbyggingu hitaveitna í landinu. Enn fremur hefur rafmagn verið tekið til þessara nota að nokkru leyti eins og kunnugt er: Enginn mótmælir því, að það sé rétt stefna að taka erlend lán til þessarar uppbyggingar. Því mótmælir enginn. Það þarf að greiða vexti af þessum lánum, það er rétt, og það þarf að borga þau til baka.

Annað atriði, sem skiptir verulegu máli í sambandi við greiðslubyrði erlendra lána, er að á s. l. tveimur árum, ekki síst á s. l. ári, hækkuðu vextir á alþjóðamörkuðum mjög verulega. Þetta hefur haft þau áhrif að greiðslubyrði vaxta og afborgana af erlendum lánum hefur vaxið. Og það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. Við hörmum það ekkert síður í ríkisstj. heldur en þeir í stjórnarandstöðunni og í sjálfu sér engin ástæða til að draga fjöður yfir það. En það, sem er kannske alvarlegast í þessu og ég kom inn á í ræðu minni í útvarpsumr. um stefnuræðu forsrh., er það, að á sama tíma sem fjárfestingin gengur heldur saman hlutfallslega hjá okkur erum við að auka erlendar lántökur. Þetta er íhugunarefni og stafar auðvitað fyrst og fremst af því, að það er ekki nægilega mikill sparnaður í landinu. Þó að hann hafi vaxið talsvert verulega og sé á uppleið er hann ekki nægilega mikill. Þess vegna held ég að það sé alveg rétt stefna sem sett er sem meginstefnumark í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj., að það þurfi að stuðla að því að auka sparnaðinn í landinu til þess að hægt sé að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir með innlendu lánsfé í vaxandi mæli.

Að lokum vil ég minnast nokkrum orðum á það málefni sem hér er til umr., þ. e. stöðu atvinnuveganna.

Staða atvinnuveganna er verulega misjöfn, jafnvel í greinum eins og sjávarútvegi, eins og hæstv. sjútvrh. kom inn á í ræðu sinni áðan. Það er rétt, að staða frystingarinnar er erfið. Staða útgerðarinnar er í sumum greinum einnig erfið, sérstaklega þó togaraútgerðar. (Gripið fram í: En iðnaðar?) Ég tala bara um eitt í einu, hv. þm., ég kem að iðnaðinum á eftir. Hins vegar verða menn að gæta að því, að það hafa orðið miklar breytingar í okkar efnahagskerfi og atvinnulífi með raunvaxtastefnunni. Ég held að hægt sé að sýna fram á það með réttum rökum, að raunveruleg afkoma útgerðarinnar er sennilega betri, þegar á heildina er litið, en hún var fyrir svona 10 árum. Eigi að síður er hagur útgerðarinnar verri. Það stafar af því, að áður fyrr, meðan hægt var að taka lán með lágum vöxtum, fleyttu útgerðir sér áfram með því að selja skip sín og kaupa ný. Þetta er ekki hægt lengur og það eykur á erfiðleika útgerðarinnar. Þess vegna þarf að styrkja undirstöðuna. Ég get vel tekið undir það, að það eru vissir erfiðleikar sem ríkisstj. hefur verið að fást við á undanförnum vikum í sambandi við ýmsar greinar sjávarútvegsins sem þarf að lagfæra. Ég get tekið undir það. Og það má gagnrýna það. En ríkisstj. vinnur að þessum málum. Nú er hæstv. sjútvrh. að vinna að því að koma á fiskverði.

Menn ræða síðan um stefnuna. Ríkisstj. er að undirbúa sinar ákvarðanir í þessum efnum. Sumar eru þegar teknar, aðrar verða teknar á næstunni. Og þá kemur spurningin um stefnuna. Ríkisstj. hefur viljað gæta aðhalds í gengismálum. Hún vill gæta aðhalds í gengismálum, en það er talsvert erfitt á sama tíma sem innlendur tilkostnaður hækkar. Það er rétt. Ríkisstj. hefur sett fram sína stefnu í þjóðhagsáætlun, í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og einnig í fjárlagafrv. og í stefnuræðu hæstv. forsrh. En stjórnarandstaðan hefur í raun og veru ekki sett fram neina stefnu. Hver eru úrræði hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar í þessu máli? Ég tel það gott og gilt að ríkisstj. sé gagnrýnd fyrir ýmsa hluti. Það er sjálfsagt. Til þess er stjórnarandstaðan. En það er ekki hægt að taka mark á slíkri gagnrýni nema settar séu fram tillögur um lausn þeirra mála sem verið er að gagnrýna að séu ekki leyst. (Gripið fram i.) Það er mergurinn málsins, —það bólaði ekkert á þeim í ræðum hv. þm. hér áðan,— og það er krafa, sem við stuðningsmenn ríkisstj. gerum til stjórnarandstöðunnar, að hún setji fram tillögur um lausn mála. Við þolum það að ríkisstj. sé gagnrýnd fyrir sín verk, það er sjálfsagt, en við gerum kröfu til að stjórnarandstaðan leggi fram till. um hvernig á að leysa vandamál í vissum greinum sjávarútvegsins og útflutningsiðnaðarins.