19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1894 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

165. mál, frestun á fundum Alþingis

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Í tilefni till. þeirrar til þál. um samþykki til frestunar á fundum Alþingis samkv. 23. gr. stjórnarskrárinnar, er hæstv. forsrh. flytur, er rétt að fram komi afstaða Sjálfstfl.

Ég minni á að ég kvaddi mér hljóðs utan dagskrár í Sþ. 8. des. s. l. Þá gagnrýndi ég að ekkert samráð hefði þá verið haft við þm. stjórnarandstöðunnar um þinghald fyrir jól, hvernig jólaleyfi skuldi háttað og hvenær þm. kæmu saman til fundar á nýja árinu. Slík gagnrýni hefur verið ítrekuð af hálfu margra hv. þm. síðan, enda eðlilegt þar sem ríkisstj. hefur brugðið út af viðtekinni þingvenju um að hafa nægjanlega tímanlega samráð við stjórnarandstöðu varðandi þinghald.

Hæstv. forsrh. hefur síðan jafnvel talið að engin ástæða hafi verið til slíks samráðs að þessu sinni. Reynslan hefur sýnt annað, enda mál lítt eða illa undirbúin af hálfu ríkisstj. og því ókleift fyrir nefndir þingsins og þm. almennt að afgreiða viðamikil mál fyrir árslok, eins og t. d. lánsfjárlög. Þótt ráðherrar hafi til skamms tíma haldið því fram, að allt væri í lagi og enginn efnahagsvandi fyrir hendi, þá er nú síðustu dagana eins og þeim ráðherrum sé brugðið. Þeir eru að þessu leyti þó enn innbyrðis ósammála, en láta öðrum þræði í veðri vaka að nauðsyn sé sérstakra og víðtækra efnahagsaðgerða sem séu nú í undirbúningi.

Formaður þingflokks Framsfl., hv. þm. Páll pétursson, lýsti því yfir í hljóðvarpinu í gærmorgun, að efnahagsaðgerðir væru nauðsynlegar en tími hefði ekki unnist til að undirbúa þær þar sem samstaða hefði ekki náðst.

Hinn 8. des. s. l. spurði ég: Er von efnahagsaðgerða, sem krefjast nýrrar löggjafar, og ef svo er hvenær er von þess lagafrv. Þessum fsp. var ekki svarað í umr. 8. des. s. l. eða síðar. Ég vil því enn vitna til þess sem ég sagði þá. Um þetta er spurt nú til þess að vara hæstv. ríkisstj. við að sams konar vinnubrögð verði ekki þoluð nú og beitt var um síðustu áramót, þegar þingi var frestað og það sent heim til þess að ríkisstj. afgreiddi málin með brbl.

Nú hefur komið í ljós að ríkisstj. hefur ekki lagt tillögur fram á Alþingi til lausnar efnahagsvanda okkar, og því er nauðsyn að lýsa því enn á ný yfir fyrir hönd Sjálfstfl., að þm. flokksins eru tilbúnir að sitja þingfundi milli jóla og nýárs og allan janúarmánuð. Ég vek athygli á því, að engin þörf er á flutningi þáltill. um frestun á fundum Alþingis ef alþm. og ríkisstj. eru reiðubúin að hefja þingstörf að nýju 4. jan. n. k. Sýnist tveggja vikna hlé á fundum nægilegt að þessu sinni, þegar slík óvissa ríkir sem nú. Sjómannaverkfall er yfirvofandi og fiskverðsákvörðun í fullkominni óvissu, svo að hætt er við að fiskiskipaflotinn verði bundinn við bryggju fyrir og um n. k. áramót og atvinnurekstur í landinu stöðvist.

Sjálfstfl. er því andvígur þáltill. um samþykki til frestunar á fundum Alþingis, og við munum greiða atkv. gegn till. Jafnframt varar Sjálfstfl. ríkisstj. við að sniðganga og fara á bak við Alþingi með því að beita sömu vinnubrögðum og í fyrra.