19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

165. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Út af ummælum hv. 1. þm. Reykv., að ekki hafi verið haft samráð við stjórnarandstöðu um þá till. sem hér liggur fyrir eða hugsanlega þingfrestun, vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan, að öllum þm. er kunnugt að um margra ára skeið hefur það verið í rauninni föst venja að Alþingi væri frestað frá því nokkru fyrir jól og fram til síðari hluta janúar. Það var því engin sérstök ástæða til að nefna þetta við stjórnarandstöðuna. Hún vissi að það stæði til nú.

Í annan stað var líka vitað að hvaða till. sem ríkisstj. flytti um þingfrestun fram í seinni hluta janúar mundi stjórnarandstaðan verða henni andvíg nú eins og ég held alltaf áður. Ég held að stjórnarandstaða hafi yfirleitt verið andvíg slíkri tillögu.

Hins vegar vil ég út af ummælum hv. 1. þm. Reykv. aðeins geta þess, að þau fjögur ár sem hann var forsrh. flutti hann till. og fékk samþykkta um að Alþingi kæmi saman eftir áramót, árið 1975 27. jan., 1976 26. jan., 1977 24. jan., 1978 23. jan. Í hvert einasta skipti lagði hann til að þinginu yrði frestað ögn lengur en nú er lagt til. Ég held að ég muni það rétt, að á þessum árum hafi landið ekki verið alveg laust við verðbólgu og að efnahagsvandamál hafi verið öðru hverju á döfinni og a. m. k. um hver áramót. Samt sem áður var þessi leið farin.

Hins vegar er skylt að þakka tilboð hv. þm. um að þm. Sjálfstfl. séu tilbúnir til að koma á þing hvenær sem kallað yrði milli jóla og nýárs eða hvenær sem væri. Mun ég að sjálfsögðu hafa það í huga og ríkisstj. mun að sjálfsögðu notfæra sér það góða tilboð ef hún telur að það mundi greiða fyrir lausn mála.