26.10.1981
Efri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður. Hér hafa fleiri en einn og fleiri en tveir ræðumanna skorað á mig að gera grein fyrir einu og öðru. (Gripið fram í.) Jú, jú, ég skal gera þetta í mjög stuttu máli.

Að því er varðar það, hvort ég teldi hagkvæmara að lækka afurðalán sjávarútvegsins — sem ég hreinlega gleymdi áðan, það var spurning frá sjútvrh. — þá tel ég það ekki vera neina lækningu. Það er millifærsluleið, uppbótaleið sem er verið að fara inn á ef sjávarútvegurinn greiðir ekki raunvexti fyrir sitt fjármagn.

Svo vill raunar til, að það mun hafa verið ég sem fyrst stakk upp á því í blaðagrein á sumrinu 1978 að teknir yrðu upp gengistryggðir reikningar, sem Íslendingar vildu leggja inn á fjármuni sína, og sjávarútvegurinn fengi það fé til þess að fjármagna framleiðslu sína. Þessi hugmynd er komin frá mér, hvort sem hún er góð eða ill, fyrri liður þessarar till. Annar liður var tekinn upp af stjórn Ólafs Jóhannessonar um áramótin 1978–1979 — víst fljótlega eftir að hans stjórn var mynduð — þ. e. að gengistryggja afurðalán sjávarútvegsins. Hins vegar voru þá ekki opnaðir neinir gengisreikningar sem Íslendingar gætu lagt sitt fé inn á. Síðar hafa svo komið verðtryggðu reikningarnir.

Þetta var auðvitað liður í allsherjaraðgerðum í efnahagsmálum. Þetta er einn af þrettán liðum sem ég lagði til, og að skýra þá stefnu í heild, eins og hæstv. viðskrh. óskaði eftir, er kannske til of mikils ætlast í örstuttri athugasemd. En þær hugmyndir mínar setti ég raunar fram í blaðagreinum oftar en einu sinni. Ef hæstv. ráðh. nennti að lesa þá grein, hún birtist í Morgunblaðinu 7. okt. 1979, þar sem þetta var í heild sett fram, og breyta eftir því, sem þar er sagt, í einu og öllu, þá mætti, held ég, mjög fljótlega bjarga þessum málum við.

Að því er blessaða leiftursóknina varðar, þá hafði ég ekki á hana beint önnur áhrif en þau sem ég skal greina. Ég var þá norður í landi í mínu kjördæmi, en kom hins vegar í bæinn til að ganga endanlega frá þessu plaggi. Og af því að hv. þm. Pálmi Jónsson, hæstv. landbrh., var hér nefndur, þá sátum við hlið við hlið og greiddum báðir atkv. með leiftursókninni. Og hæstv. núv. forsrh. kynnti hana sérstaklega. Þess vegna kemur það nú úr hörðustu átt ef þessir menn ætla að fara að afneita eigin hugarfóstri. En ég hafði þau áhrif á leiftursóknina, plaggið sem fyrir lá, að ég fékk strikaðar út tvær málsgreinar. Önnur var um það, að ríkissjóð yrði ætíð að reka með greiðsluafgangi þegar verðbólgutímar væru. Ég tel það sem sagt alrangt. Það er stefna Margrétar Thatcher sem þar var á ferðinni. Hin var sú að taka alræðisvaldið af Seðlabankanum, hafa meira frjálsræði í peningamálum. Það var líka aðferð Margrétar Thatcher, Ólafs Jóhannessonar, Ólafs Ragnars Grímssonar og Tómasar Árnasonar að koma frjálsræði á. (Gripið fram í.) Margrét Thatcher fór alveg eins að og Ólafur Jóhannesson. Hún byrjar á því að hækka söluskatt úr 8% í 15% í Bretlandi — hélt að það mundi vera ráð til að skera verðbólgu niður — og hækka orkuskatt upp úr öllu valdi þegar olíuverðið hækkaði. Hún fór nákvæmlega eins að og Ólafur Jóhannesson og kommarnir. Ég hef aldrei aðhyllst stefnu Margrétar Thatcher, hún er kolvitlaus, ekki Margrét, held ég, heldur stefnan, enda munu helstu hagfræðingar vera farnir að sjá að þetta er tóm vitleysa allt saman. Ríkisvaldið hefur nefnilega tekið allt of mikið af borgurunum í hinum vestræna heimi og það verður að fara að skila því til baka. Og það er það sem Reagan er að reyna að gera núna í Bandaríkjunum.

Eins og ég sagði áðan eru helstu hagfræðingar nú að gera sér grein fyrir því, að þetta sé alvittaus stefna og það verði aldrei ráðið við verðbólgu með þeim hætti. Það á sem sagt að gera allt þveröfugt við það sem hæstv. ríkisstj. á Íslandi gerir nú í efnahags-, atvinnu- og peningamálum. Ef allt væri gert þveröfugt, þá held ég að allt mundi læknast mjög fljótlega. Það má hafa þetta nokkurn veginn sem vegvísi: að gera alltaf þveröfugt við það sem þeir eru að reyna. Í staðinn fyrir að íþyngja mönnum með sköttum sýknt og heilagt á að lækka þá, ekki síst óbeinu skattana, þ. e. lækka söluskatta, tímabundið vörugjald og aðra skatta í áföngum þannig að fólk viti að vöruverð muni lækka fremur en hækka — eða a. m. k. draga úr hækkununum. Og raunar hafa verið gerðir á þessu mjög ítarlegir útreikningar, sem hafa reyndar verið ræddir opinberlega á viðskiptaþingi t. d. og fara að verða aðgengilegir mönnum, og ég held að menn muni sannfærast um, þegar þeir kynna sér þessi mál, að rangt er stefnt, og breyti þar til.

Sjálfstfl. markaði sína stefnu, þótt í litlu væri, á s. l. vetri í umr. og afgreiðslu á nýárs- eða gamlárskvöldslögunum, þegar við vildum lækka nokkuð söluskatta og aðra skatta til þess að byrja að fikra okkur niður. Það mátti kalla það niðurtalningu og það var raunhæf niðurtalning. Hefðu okkar brtt. þá verið samþykktar hefði verðbólgan, ef ég man rétt, orðið 5% minni 1. júní sem síðan hefði haft margfeldnisáhrif niður á við, alveg eins og hækkanirnar hafa margfeldnisáhrif upp á við. Þá væri verðbólgan ábyggilega komin niður fyrir 40% þótt hún sé vafalaust ekki minni en 50%, kannske 60% núna ef rétt væri reiknað.

Ég vil aðeins nefna það, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði um stóriðjustefnu að það væri hægt að komast hjá henni vegna snilldarbragða Alþb., þetta væri mín stefna. Ég er auðvitað mjög montinn af því, ef það er mín stefna sem nú er að sigra því að nú þorir enginn flokkur lengur að berjast á móti stóriðjustefnunni. (ÓRG: Erlendri stóriðjustefnu.) Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagðist vilja styðja það að atvinnufyrirtækin yrðu í höndum samvinnufélaga, sveitarfélaga og verkalýðsfélaga. Félagslegur rekstur, sagði hann, hann hefði ekki lagt til eða hans flokkur að það yrði ríkisrekstur, enda ágætt frv. hjá Framsókn sem þeir hefðu sjálfsagt stutt, eins og hann komst að orði. Ég veit að þeir eru kannske klókir, kommarnir, þegar þeir eru að koma sósíalismanum á. Þeir eru það í öllum löndum. Þeir eru kallaðir nöfnum eins og hv. þm. hér nefndi. En athyglisverðast við allar þessar umr. er samt það sem fram kom hjá honum, að þeir Alþb.-menn hefðu haft miklu meiri áhrif í núv. ríkisstj. en fyrri vinstri stjórnum og þetta væri sem sagt langversta vinstri stjórnin. Það vissi ég fyrir. Þetta er langversta vinstri stjórnin.