26.10.1981
Efri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja það, að hér hafa orðið miklar umr. Ég fagna því máli, sem hér er á dagskrá, og vona vissulega að það komi að gagni. En ég verð að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með hv. þm. Eyjólf Konráð og er honum ekki sammála um það sem hann sagði í þessum ræðustól, að það væri og yrði engin bót að fá þau lán sem Byggðasjóður kæmi væntanlega til með að veita. (EKJ: Það var misskilningur, ekki frambúðarlausn.) Já, það er kjarni málsins. (EKJ: Það er frekar að það dugi í nokkrar vikur.) Nei, þú sagðir það ekki. Ég skrifaði þetta hjá mér vegna þess að við höfum verið samflota núna undanfarna daga, eins og kom fram í ræðu hans, og þess vegna áttaði ég mig ekki alveg á því, hvað hefur komið fyrir hann eftir að ég skildi við hann. (EKJ: Annaðhvort hef ég mismælt mig eða þú misskilið mig. Auðvitað er hægt að bjarga þessu í nokkrar vikur með lánum.) Já, það er málið. Og það er einmitt það sem er verið að reyna að gera. Það er kjarni málsins.

Nú er unnið að því á vegum sjútvrn. að finna sæmilega færa leið út úr þessum vanda. Ég vona að verið sé að reyna að finna þá leið sem treystir allbærilega undirstöður þessarar atvinnugreinar. Því segi ég það enn og aftur, að það er alveg fráleitt að segja að þessi bráðabirgðaráðstöfun — sem er vissulega ekkert annað en bráðabirgðaráðstöfun, það skal ég taka fram — komi ekki að gagni.

Menn verða að átta sig á því, og mér finnst það hafa komið einkennilega lítið fram í þessum umr. hér og mjög sjaldan sem það kemur fram í umr. manna um þau vandamál sem í þessari atvinnugrein eru, mér finnst menn hlaupa alveg yfir það sem mér finnst vera kannske meginkjarni þessa máls, það kom sáralítið fram í umr. um sjávarútvegsmál sem fram fóru á vegum Rannsóknarráðs ríkisins nú fyrir nokkrum dögum, að þessi atvinnugrein, sjávarútvegurinn, hefur verið að ganga í gegnum visst þróunar — og erfiðleikaskeið. Þetta er að mínu mati kjarni málsins. Þessi grein — þar á ég bæði við útgerðina og fiskvinnsluna — það hefur verið ætlast til þess, að hún kæmist í gegnum þetta skeið án aðstoðar. Og það hafa vissulega þeir menn orðið að gera sem í þessu hafa staðíð. Þeir hafa barist í þessu og þannig hefur það gengið. Þetta er vitaskuld kjarni málsins. Ég er hræddur um að víða hefði verið búið að heyrast hljóð úr horni um aðstoð. En menn verða vitaskuld að horfa á þetta allt saman og hafa fullan skilning á mikilvægi þessarar undirstöðuatvinnugreinar. Hún verður að njóta fullkomins skilnings þeirra sem með þessi mál fara.

Það er líka staðreynd, að útgerð og fiskvinnslu hefur tekist illa að halda sínum hlut af þjóðarkökunni. Átökin við verðbólguna skipta hér vitaskuld einnig mjög miklu máli, og sá árangur, sem sannanlega hefur náðst, hefur vissulega kostað fórnir. Víða hefur hrikt verulega í þessari undirstöðuatvinnugrein. Það er ekki heldur minnst á raunvaxtastefnuna. Hverjum dettur þó annað í hug en að viðurkenna að þar sé ein orsök vandans? Á þetta verða menn líka að horfa.

Um þetta meðaltal allt sem nú er talað um, hvort sem það er 3% eða eitthvað annað, verð ég að segja það, að því miður gefur það kolranga mynd af vandanum.

Það hefur verið rætt hér nokkuð um vanda bæði útgerðar og vinnslu við Skagafjörð. Ég ætla ekki að fara inn á það mál hér þó að málið sé mér vissulega skylt. Ég get tekið undir það sem hv. þm. Eyjólfur Konráð sagði, að ég held að það sé ekki nema aðeins spegilmynd af málunum eins og þau eru í dag. Það þýðir ekkert annað en að viðurkenna þann vanda sem þarna er við að fást.

Menn segja að frystingin sé rekin með 6.7% halla. Ég ætla ekkert að dæma um það. Það er meðaltal enn og aftur sem hér er um að tala. Hér kemur ýmislegt til og kemur þá einmitt inn á það sem ég gat um í upphafi máls míns, sem er stjórnun þessara mála, veiða og vinnslu, og það þróunartímabil, sem ég kalla svo, sem við höfum verið að ganga í gegnum. En hér veldur trúlega mestu um — ég held að hæstv. sjútvrh. hafi minnst á það — verðfall á Bandaríkjamarkaði og einnig hitt, að við vitum að mikið var um það s. l. sumar að ekki var hægt að vinna fisk í þær pakkningar, sem heppilegastar voru á þeim tímum, vegna þess hversu mikið hráefni barst að landi. Þetta verða menn að viðurkenna. Einnig greip hér inn í oft og tíðum mjög óhagkvæm samsetning aflans sjálfs. Þetta held ég að sé kjarni þessarar umr. Það eru raunverulega þessi vandamál sem við stöndum hér fyrst og fremst frammi fyrir. Við eigum orðið okkar 200 mílna landhelgi og við ráðum því sjálfir, hvernig við nýtum hana.

Ég ætla nú ekki að svara hv. þm. Ólafl Ragnari Grímssyni, enda er hann ekki hér í salnum, þar sem hann sagði, að Alþb. hefði beitt sér fyrir uppbyggingu togaraflotans. Ég ætla ekki að fara að fjölyrða um það mál hér, ég geymi mér það, mér gefst örugglega tími til þess síðar í vetur að ræða það mál. En aðeins þetta: Staðreyndin í því máli er sú, að það var fólkið sjálft sem átti allt frumkvæðið í þeim málum. Hins vegar er því ekki að neita, að þar gengu menn á eftir margir hverjir.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. Hér hafa menn sem svo oft áður hlaupist undan því að ræða vandann og fjallað um allt aðra hluti og nánast óskylda. Hér er alls ekki reynt að kryfja vandann til mergjar og komast að kjarna málsins. En vitaskuld verður að reyna að greina sjúkdóminn áður en menn skrifa lyfseðilinn. Ég vona að það sé einmitt það sem sjútvrh. er nú að gera í þessu máli.