20.01.1982
Neðri deild: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

94. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um þrjá þætti í störfum Alþingis, till. til þál., fsp. og umr. utan dagskrár. Allir hafa þessir þættir vaxið mjög á síðari árum, stundum svo að þrengt hefur um of að löggjafarstarfinu sem er meginverkefni þingsins.

Starfshættir Alþingis hafa tekið miklum breytingum síðan það var endurreist, enda hafa verkefni þingsins og vandamál íslensks þjóðfélags vaxið hröðum skrefum kynslóð eftir kynslóð. Alþingi hefur samt sem áður farið með gát í meiri háttar breytingum á þingsköpum og ekki gripið til þeirra nema svo sem á áratugafresti, eins og sjá má af meginbreytingum 1936, 1947, 1952, 1964, 1972. Ég tel þetta vera viturlega stefnu, enda eru hefðir þingsins dýrmætar þó að þær hljóti að taka breytingum.

Þrátt fyrir þetta tel ég nú að tími sé kominn til að hyggja að ýmsu sem betur mætti fara og þm. hafa mikið rætt sín á milli. Hefur hugmyndum verið komið á framfæri í frumvörpum undanfarin ár, t. d. varðandi nefndir þingsins, sem er mjög mikilsvert mál. Þá er ljóst að veði gerð sú stjórnarskrárbreyting að skipa þinginu aftur í eina málstofu mun það kalla á gagngera endurskoðun þingskapa.

Í þessu frv. eru aðeins tekin til athugunar þrjú atriði, sem mörgum hafa fundist tefja fyrir löggjafarstarfinu. Síðustu hálfa öld hafa þáltill., fsp. og umr. utan dagskrár vaxið mjög að fyrirferð, fylla nú tvo fundardaga af fjórum í viku hverri og dugir varla til. Eru þó ekki mörg ár síðan sameinað þing hafði aðeins einn fundardag í viku og þótti ærið nóg. Er augljóst að þingið þarf að setja skorður við þessari þróun og hefta vöxt þessara þátta hvað tíma snertir svo að bein lagasetning njóti þess forgangs sem hún verður að hafa.

Á Alþingi hefur til skamms tíma ríkt nálega algert málfrelsi. Að vísu hafa þm. aðeins fengið að tala tvisvar í hverri umr., en þeim er sjaldan neitað um athugasemd og stundum tvær til viðbótar. Ræðutími hefur verið ótakmarkaður. Ákvæði þingskapa um takmörkun á umræðum hafa reynst illa, en helstu ráð forseta eru að grípa til næturfunda og láta þm. rausa næturlangt ef þeir óska.

Árið 1972 var stigið stórt skref í þessum efnum er umr. um fsp. voru takmarkaðar við tveggja mínútna ræðutíma annarra en fyrirspyrjanda og ráðh. Þá var rætt um að stíga skrefið til fulls og heimila ekki öðrum að tala um fsp. en þeim sem hana flytur og ráðh. sem svarar. Nú er að fenginni áratugareynslu lagt til að skrefið verði stigið til fulls. Ekki tel ég þó líklegt að heildartími fsp. á fundum þingsins styttist. En fleiri fyrirspurnum ætti að fást svarað fyrr en verið hefur og er það til verulegra bóta.

Till. til þál. hefur fjölgað mjög á síðari árum. Þær, sem snerta stjórnskipan, utanríkis- eða varnarmál, vantraust eða staðfestingu á framkvæmdaáætlunum, eru sérstaks eðlis. Í samþykkt þeirra felst jafnan mikilvæg ákvörðun. Er sjálfsagt að um slík mál verði ávallt tvær umr. og ræðutími verði með sama hætti og um lagafrv., nema hvað rétt er að afgreiða tillögur um traust eða vantraust á ráðh. og ríkisstj. við eina umr. og vísa þeim ekki til nefndar.

Aðrar þáltill. eru annars eðlis. Þær eru ályktanir um hvers konar efni, ýmist yfirlýsingar þingsins, óskir, áskoranir eða fyrirmæli um rannsóknir, athuganir eða undirbúning frv. Þetta eru mál sem ekki verða flutt í frv.-formi, en þingflokkar eða einstakir þm. telja mikilvægt að koma á framfæri og kynna þingi og þjóð. Þessi síðast nefndu mál hafa í raun náð tilgangi sínum þegar þau hafa verið flutt á prentuðu þskj. og mælt hefur verið fyrir þeim. Ættu þm. að una vel við að geta flutt mál sitt á þennan hátt. Þegar meiri hl. nefndar hefur skilað áliti um till. kemur hún að sjálfsögðu til umr. sem lagt er til að hafa með líku sniði og verið hefur um fsp. Hefur reynslan sýnt að alþm. geta sem best rætt mál þótt þeir hafi aðeins 2–3 mínútna ræðutíma.

Öll nútímaþjóðþing þurfa að hafa opna leið til þess, að þm. geti nálega fyrirvaralaust hafið umræðu um aðkallandi málefni sem þola ekki bið og ekki verða afgreidd á viðunandi hátt innan ramma venjulegra þingmála. Er mjög mismunandi hvaða form hefur verið valið fyrir slíkar umr. í hinum mismunandi löndum. Enda þótt umr. utan dagskrár gegni mikilvægu hlutverki er ekki stafur um þær í þingsköpum, heldur eru þær algerlega á valdi forseta. Hefur þeim oft reynst erfitt að hemja ræðutíma og þessar umr. hafa sprengt starfsramma þingsins stundum dögum saman.

Með því að setja í þingsköp þau ákvæði, sem lagt er til í þessu frv., mundu umr. utan dagskrár hljóta formlega viðurkenningu, sem er óhjákvæmilegt fyrr eða síðar. Umr. mundu takmarkaðar við Sþ. og því ekki trufla afgreiðslu lagafrv. Þá mundi sett regla um samþykki forseta, en hann verður að meta hvort málefni sé aðkallandi og þoli bið eða ekki. Einnig yrði sett regla um tilkynningu til ráðherra og loks yrði ræðutími takmarkaður.

Rétt er að líta á þetta frv. sem hugmyndir að ákvæðum um þá þætti í störfum Alþingis sem fjallað er um. Mér er að sjálfsögðu ekki fast í hendi að einstök atriði, t. d. ræðutími, verði nákvæmlega eins og greint er, enda eðlilegt að það verði samkomulagsatriði við afgreiðslu málsins.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.