20.01.1982
Neðri deild: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

94. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður kom að því sem að sjálfsögðu er kjarni þessa máls, en það er málfrelsi þm. og hvernig með það skuli fara. Ég er honum algerlega sammála um að þetta er heilagur réttur og verður að fara af hinni mestu gætni í að takmarka málfrelsi. En ég vil leyfa mér að halda fram að þetta frv. sé ekki um að takmarka málfrelsi þm. Það er ljóst að alþm. geta ekki talað nema í 24 klukkutíma á hverjum sólarhring, og við erum komnir að því að þurfa að taka ákvarðanir um að skipta tímanum á milli meðferðar á lagafrv., á fsp., á þáltill. og utandagskrárumræðum. Ég hygg að það sé ekki hægt að mótmæla því, að skiptingin á notkun tímans hefur oft farið úr böndum, ekki síst þegar umr. utan dagskrár hafa tekið heilu dagana. Ég tel því að við séum ekki að hefta málfrelsið, heldur að gera okkur grein fyrir því, hvernig þingið getur best skipað málum og notað þann tíma sem er í sjálfu sér eina takmörkunin á málfrelsinu.

Ég vil í þessu sambandi benda á að hvert einasta þjóðþing, sem sögur fara af, hefur orðið að ganga miklum mun lengra en við gerum hér á Alþingi hvað þetta snertir. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að taka ákvarðanir sem í eðli sínu eru ekki takmarkanir á málfrelsi, heldur ákvarðanir um það, hvernig við ætlum sjálf að nota þann takmarkaða tíma sem fyrir hendi er.