20.01.1982
Neðri deild: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

125. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Á þinginu fyrir jólin fór fram mikil umr. í tengslum við gerð fjárlagafrv. og afgreiðslu þess um það misrétti sem skapast hefur milli þegnanna í þessu þjóðfélagi með tilliti til orkuverðs eftir því hvar á landinu þeir búa. Þá var m. a. greint frá niðurstöðum athugana sem gerðar hafa verið að tilhlutan Fjórðungssambands Vestfirðinga og hefur verið frá skýrt í blöðum, þar sem fram kemur m. a. samanburður á útgjöldum vegna olíukaupa til húshitunar annars vegar á Ísafirði og hins vegar við kaup á tilsvarandi orku frá Hitaveitu Reykjavíkur. Í þessum samanburði kemur fram að venjuleg launþegafjölskylda vestur á Ísafirði þarf að vinna 14–15 vinnuvikum lengri tíma fyrir samsvarandi orku en hún mundi þurfa að gera ef hún starfaði við sömu atvinnustarfsemi í Reykjavík og hefði þar sömu tekjur. Þessi samanburður gefur mjög glögga mynd af þeim gríðarlega mun sem þarna er á milli fólks í landinu eftir því hvar það býr. Mér er ekki kunnugt um að nokkur einn þáttur annar skapi jafnmikið misrétti milli fólks í landinu og orkuverðið. Aðeins sá samanburður, sem hér hefur verið greint frá, hlýtur að hafa það í för með sér, ef þetta verður varanlegt ástand, að mjög miklir tilflutningar verði á fólki frá þeim landssvæðum, þar sem orkuverð er hæst, og til landssvæða þar sem verð orkunnar er hagkvæmast.

Það segir sig auðvitað sjálft, að á sama tíma og kaupmáttur fer rýrnandi, eins og átt hefur sér stað á undanförnum árum og mánuðum, þykir fólki nokkuð hart í lagt ef það á einu tilteknu horni landsins þarf að verja allt að 14–15 vinnuvikum lengri tíma til að vinna fyrir þessum eina þætti í framfærslukostnaði heldur en ef það væri búsett á öðrum stað. sjálfsagt væri hægt að ætlast til þess, að fólk gæti staðið undir slíkum mismun, ef hér væri aðeins um skammvinna ráðstöfun að ræða, ef fólk gæti horft fram til þess, að líklegt væri að þessi mismunur á orkuverði jafnaðist í næstu framtíð. Svo er þó alls ekki, m. a. vegna sérstakra aðstæðna sem eru fyrir hendi í ýmsum landshlutum, þar sem ekki er von til þess, a. m. k. ekki miðað við þær upplýsingar sem menn búa yfir nú, að hægt sé að fá ódýra innlenda orkugjafa eins og t. d. á suðvesturhorni landsins. Því er nokkuð ljóst að þó svo að leitað sé allra ráða til þess að draga úr orkukostnaði, m. a. með fjarvarmaveitum og öðru slíku, þá mun aldrei nást jöfnuður í orkukostnaði milli þessara landssvæða.

Það fer einnig saman, að þau landssvæði, þar sem verð á orku er hagkvæmast, eru jafnframt þau svæði landsins sem mestur aðflutningur fólks hefur verið til af öðrum ástæðum, en þau svæði á landinu, þar sem orku- og upphitunarkostnaður er hæstur, eru jafnframt þau landssvæði sem byggðarlega séð hafa átt í vök að verjast. Sú þróun, sem hófst með hækkun olíuverðs á alþjóðlegum markaði árið 1974 — og sá mismunur hefur stóraukist síðan, eru orðin alvarleg ógnun við jafnvægi byggðar í landinu, og ef svo heldur fram sem horfir benda allar líkur til þess, að af þessum sökum geti orðið um að ræða einhverja mestu byggðaröskun í landinu.

Við verðum í þessu sambandi að hafa sérstaklega í huga að það fer einnig saman, einkum og sér í lagi þegar erfiðleikar eru á sviði atvinnumála, að á þeim svæðum, þar sem dýrast er að lifa að þessu leyti, er jafnframt oft að finna þá staði þar sem skortur er hvað mestur á vinnuafli, eins og t. d. á flestum stöðum á Vestfjörðum. Þar er ríkjandi mikil fólksekla, þar er miklu meira framboð á atvinnu heldur en handa því fólki sem fyrir er á þessum stöðum, svo að það er nauðsynlegt, ef við ætlum að halda nokkuð góðu jafnvægi í okkar atvinnumálum, að reyna a. m. k. að stuðla að því, að fólkinu þarna geti frekar fjölgað en fækkað svo að ekki þurfi að flytja inn vinnukraft erlendis frá, eins og mörg dæmi eru um frá síðari árum.

Á sama tíma gerist það hins vegar, að atvinnuerfiðleikar eru talsverðir á þeim svæðum sem aðalaðflutningarnir hafa verið til á undanförnum árum, eins og á Reykjavíkursvæðinu. Af þeim ástæðum einum saman er það ekki þjóðhagslega æskilegt, að með stefnu í húshitunar- og orkumálum sé beinlínis ýtt undir meiri byggðaröskun en átt hefur sér stað á undanförnum árum.

Þessar fréttir eru ekki nýjar, hvorki fyrir Alþingi né aðra þjóðfélagsþegna. Menn vita þetta, það hefur verið mikið um þetta fjallað í fjölmiðlum. En ég efast um að jafnvel alþm. geri sér fulla grein fyrir því, hversu alvarlegur þessi vandi er, sérstaklega fyrir eldra fólk og annað láglaunafólk. Ég þekki sjálfur nokkur dæmi þess, að gamalt fólk, sem á ekki mikið fyrir sig að leggja — og þá sérstaklega fólk sem hefur sinnt láglaunastörfum og nýtur ekki fullra lífeyrisréttinda, á um þessar mundir mjög erfitt með að framfleyta sér á ýmsum stöðum á landinu eingöngu vegna hins mikla húshitunarkostnaðar. Ég þekki jafnvel dæmi þess, að gömul hjón hafi orðið að segja upp áskrift að dagblöðum og sjónvarpsviðtæki aðeins til þess að geta haft í sig og á eftir að þessi mikla orkuverðshækkun varð. Það er ekki gaman að þurfa að standa frammi fyrir slíku fólki, vitandi að öllum almenningi á Íslandi liður nokkuð vel og gerir margfalda: kröfur á við það sem þetta gamla fólk gerir, og þurfa að svara spurningum á þá lund, hvernig á því standi að þetta gamla fólk geti ekki einu sinni veitt sér það, sem við vildum kalla algjörar frumþarfir, vegna þess að þorrinn af tekjum þess fer í það eitt að halda hita í húsnæðinu sem það býr í.

Alþingi hefur oft áður fjallað um þennan vanda. Það var samdóma álit þingflokka að við þessu þyrfti að bregðast, og þess vegna tókst á sínum tíma samstaða um það hér í þinginu að leggja á sérstakt gjald til að afla tekna til að jafna orkuverðið. Þetta gjald, orkujöfnunargjald, nemur nú 11/2% í söluskatti. Söluskattur er sem sé 11/2 stigi hærri en hann ella þyrfti að vera. Sú viðbót var lögð á með samkomulagi allra flokka þingsins og nefnist orkujöfnunargjald. Var til þess ætlast, að tekjurnar af orkujöfnunargjaldinu yrðu notaðar til þess að jafna þennan mikla lífskjaramun. En einhvern veginn vill víst fara svo hér á hinu háa Alþingi, að enda þótt til slíkra ráðstafana sé gripið í góðum hug upphaflega verði þróunin í þá átt, að það gleymist með árunum, til hvers teknanna var upphaflega aflað, og áður en menn vita af er farið að ráðstafa þessum sérstöku tekjustofnum til allt annars.

Annað dæmi um slíkt var þegar tekna var aflað til þess að aðstoða fólk í Vestmannaeyjum eftir náttúruhamfarirnar sem þar áttu sér stað þegar eldur braust út í Heimaey. Þá var samkomulag um það milli allra flokka þingsins að leggja á sérstök söluskattsstig, viðlagagjald, til þess að afla tekna til að greiða bætur fólkinu sem átti um sárt að binda eftir náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum. En áður en langt um leið hafði sá tilgangur tekjuöflunarinnar gersamlega gleymst og þeir, sem þá réðu málum í landinu, þáv. ríkisstj., seildust með hverju árinu lengra og lengra ofan í þennan sjóð til almennra útgjalda fyrir ríkissjóð uns svo var komið að umræddum viðlagasjóðsstigum var alfarið breytt yfir í almenna tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Sama niðurstaða er að verða af þessu svokallaða orkujöfnunargjaldi, þessu 11/2 söluskattsstigi sem samkomulag varð um hér í þinginu að afla með sérstökum hætti til þess að jafna mismuninn á orkuverði milli landshluta. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að þessi sérstaka tekjuöflun muni skila inn um 190 millj. kr. eða 19 milljörðum gkr. Hins vegar gerir ríkisstj. í fjárlagafrv. sínu ekki ráð fyrir að verja nema um 35 millj. kr. af þessu fé til að jafna orkuverð í landinu. Með góðum vilja mætti segja að örlitlu viðbótarfjármagni væri varið til aðgerða sem hægt væri að halda fram að flýttu því að orkuverð jafnaðist í landinu. En það er þó alla vega ljóst, að það er ekki nema lítið brot, ekki nema óverulegur hluti, milli fjórðungs og þriðjungs af orkujöfnunargjaldinu, sem notað er í því skyni sem til var ættast þegar samkomulag varð um það milli flokka þingsins að leggja þetta gjald á.

Þetta er eitt dæmið af mörgum um hvað það þýðir lítið, þegar sérstök vandamál koma upp af þessu tagi, þó að allir þingflokkar vilji taka höndum saman um að bregðast við þeim með þeirri lausn að afla tekna með sérstökum hætti til þess að leysa viðkomandi vandamál. Slíkar lausnir duga ákaflega skammt. Þær endast kannske tvö í mesta lagi þrjú ár. Áður en varir er upphaflega hugmyndin gleymd, hefur upphaflegi tilgangurinn verið lagður til hliðar og ríkisvaldið fer að nota þessa sérstöku tekjustofna til almennra þarfa ríkissjóðs.

Eins og frá málum hefur verið gengið af Alþingi ætti það ekki að vera neitt vandamál að jafna orkuverð í landinu. Alþingi hefur gengið frá lagasetningu þar um sem ætti að gera það að verkum að nokkurt jafnvægi ríkti um orkuverð. Sá mikli mismunur, sem kemur fram í umræddum samanburði á upphitunarkostnaði, sem Fjórðungssamband Vestfirðinga gerði og ég nefndi hér áðan, ætti ekki að vera fyrir hendi. Alþingi hefur þegar afgreitt lagaákvæði sem tryggja eiga að slíkur mismunur geti ekki átt sér stað. En hann er engu að síður staðreynd vegna þess að þeir fjármunir, sem Alþingi áformaði að færu í að jafna þennan mismun, eru ekki lengur fyrir hendi. Bróðurparturinn af fjármununum er notaður í allt annað en það sem Alþingi ætlaðist til. Vandinn hefur skapast á ný þó að Alþingi hafi fyrir aðeins nokkru árum leyst vandamálið með fullnægjandi hætti. Þetta sýnir okkur auðvitað það eitt, að lítill von er til að ráðstafanir af því tagi sem gerðar voru með álagningu orku jöfnunargjaldsins, með slíkri sérstakri tekjuöflun til ákveðinna þarfa, geti enst. Það verður því að leita nýrra leiða.

Auðvitað væri hægt að hugsa sér — í þeirri stöðu sem við stöndum nú — að flytja t. d. till. um að orkujöfnunargjaldið yrði hækkað úr 11/2%-stigi í 2%-stig eða eitthvað slíkt og það fjármagn, sem þannig fengist til viðbótar því sem fæst af 11/2 söluskattsstigi nú sem kallast orkujöfnunargjald, yrði notað til þess að jafna orkuverð. En ég er hræddur um að reynslan sýni okkúr að slík lausn yrði til mjög skamms tíma, ekki mundi líða langur tími áður en ríkissjóður væri einnig búinn að hirða þá viðbót til almennra þarfa og fólkið, sem átti að liðsinna, stæði í sömu sporum og áður. Einmitt af þessum sökum verður að reyna að leita nýrra leiða til þess að jafna þennan mikla mismun. Ég legg enn og aftur áherslu á það, að verði það ekki gert mun hann einn út af fyrir sig stuðla að meiri byggðaröskun á næstu fáum árum en dæmi eru til um að nokkur einn þáttur í lífskjörum fólks í landinu hafi valdið.

Í frv. því á þskj. 128, sem auk mín flytja hv. þm. Karvel Pálmason, Sverrir Hermannsson, Magnús H. Magnússon, Árni Gunnarsson og Matthías Bjarnason, er gerð till. um aðgerð sem vissulega mundi ekki leysa þetta mál til neinnar fullnustu, en væri þó áfangi á þeirri leið.

Á s. l. vetri voru nokkrar breytingar gerðar hér á Alþingi á tiltölulega nýlegum lögum um tekju- og eignarskatt. M. a. var sú breyting gerð á þeim lögum, að einstaklingum var heimilað að draga frá tekjum sínum helming af greiddri húsaleigu. Þetta var gert til þess að greiða nokkuð fjárhagslega fyrir þeim einstaklingum sem þurfa að leigja sér íbúðarhúsnæði og þurfa oft og tíðum að gjalda fyrir slíkt leiguhúsnæði mjög hátt verð. Það hafði lengi verið að vefjast fyrir mönnum, m. a. hér á Alþingi, hvernig ætti að ganga til móts við hagsmuni leigjenda. Höfðu oft verið fluttar um það till. hér á þingi að bregðast við vandamálum leigutaka með þeim hætti sem gert var í fyrra, þ. e. að heimila þeim, sem leigja sér íbúðarhúsnæði, að draga hluta af leiguútgjöldunum frá skatti. Skattfróðir menn voru ávallt á móti slíkum úrbótum, og það varð m. a. til þess, að slíkar till. fengust aldrei samþykktar á Alþingi. Hins vegar urðu breytingar á þessu í fyrra. Alþm. létu þá til skarar skríða og ákváðu, hvað svo sem sérfræðingarnir hefðu til málanna að leggja, að ganga til móts við hagsmunamál þeirra, sem leigja sér íbúðarhúsnæði til eigin þarfa, og veita þeim heimild til þess að draga helming af leiguútgjöldum sínum frá tekjum.

Það, sem lagt er til í þessu frv. sem við flytjum og er hér til umr. nú, er að reyna að veita svipaða úrlausn því fólki sem mjög hátt orkuverð þarf að gjalda. Við gerum ráð fyrir því, að við E-lið 1. mgr. 30 gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt bætist nýr tölul., frádráttarliður er verði 4. tölul. og orðist eins og segir í 1. gr. frv.: „Orkukostnaður vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota að frádregnum orkustyrk skv. lögum nr. 13/1977.“ Þetta þýðir að sjálfsögðu það, að þeir, sem hæst orkuverð gjalda, fá mestan frádrátt, þeir, sem lægst orkuverð gjalda, fá hins vegar minnstan frádrátt. Þannig er reynt að jafna nokkuð þá mismunun sem þarna á sér stað. Þetta er alveg sambærileg aðgerð og gerð var á s. l. vetri, þegar Alþingi heimilaði með lagabreytingu leigutökum að draga hluta af greiddri húsaleigu frá tekjuskatti.

Þá er lagt til að lögin komi til framkvæmda þegar við álagningu skatta á árinu 1982 vegna tekna ársins 1981. Þeirri grein þarf að sjálfsögðu að breyta þar sem framtalsgögn eru nú tilbúin til útsendingar og verið að senda þau út, eftir því sem best er vitað. Það þyrfti því að breyta greininni á þann veg, að ef Alþingi samþykkir breytinguna, sem gerð er í 1. gr., þá komi hún til framkvæmda við álagningu skatta á næsta ári, á árinu 1983.

Herra forseti. Ég tel ástæðulaust að fara fleiri orðum um þetta frv. Það er mjög einfalt og skýrir sig sjálft. Ég vil aðeins bæta því við að lokum, að eins og öllum er ljóst er hér um að ræða frádráttarlið sem atvinnufyrirtækjum úti á landsbyggðinni t. d. er heimilt að nota, en einstaklingum ekki. Auðvitað er það rétt sem menn halda fram, að það eru ekki bara einstaklingarnir sem verða að sæta mismunun í sambandi við orkuverð, atvinnufyrirtæki þurfa þess líka. En sá er þó munur á, að ef atvinnufyrirtæki á í hlut er því heimilt að draga orkukostnaðinn sem og aðra kostnaðarliði frá tekjum sínum til skatts. Sé hins vegar um heimili að ræða, um einstaklinga á sama stað sem þurfa að búa við sömu mismunun í orkuverði og atvinnufyrirtækin, þá er slík heimild ekki veitt. Ef frv. þetta yrði samþykkt yrði afnumin sú mismunun. Þá yrðu einstaklingarnir settir við sama borð og atvinnufyrirtækin, þeim væri heimilt að draga þennan kostnaðarþátt frá tekjum sínum með sama hætti og atvinnufyrirtækjum í landinu er nú heimilt að gera.

Okkur flm. er það alveg ljóst, eins og ég sagði áðan, að jafnvel þó að frv. þetta verði samþykkt er ekki þar með fundin nein endanleg lausn á þeim vanda sem við er að fást varðandi mikla mismunun á orkuverði í landinu. Þær úrbætur sem frv. gerir ráð fyrir, gagnast t. d. þeim einum sem skatta þurfa að borga. Það fólk, sem ekki þarf að gjalda skatt vegna lágra tekna, eins og t. d. það gamla fólk sem ég minntist á áðan, hefur að sjálfsögðu mjög takmarkað gagn af auknum skattfrádrætti vegna orkukostnaðar. Vandi þess hóps er því alls ekki leystur með þessu frv. Það þarf að taka á honum með öðrum hætti, t. d. í gegnum tryggingalöggjöfina. En þó svo að það mál sé ekki leyst í frv. teljum við flm. þess engu að síður að með því, ef samþykkt yrði, væri umtalsverð leiðrétting gerð á kjörum fólksins í landinu sem mundi geta eytt að verulegu leyti þeim mikla lífskjaramun sem nú á sér stað á milli íbúa eftir því hvar á landinu þeir búa, — mismunun sem ella gæti orðið til þess, að hér á Íslandi hæfust einhverjir þeir mestu þjóðflutningar, ef svo má segja, sem við höfum upplifað, og hafa þó mörg og ljót dæmi slíks gerst í tíð núlifandi kynslóðar.

Herra forseti. Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta frv. nema sérstakt tilefni gefist til, en legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.