20.01.1982
Neðri deild: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

125. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er hreyft merku máli og ekki óeðlilegt að mönnum sé nokkuð heitt í hamsi þegar þeir ræða um þann mikla mismun sem er á upphitunarkostnaði landsmanna. Miðað við allar aðstæður var því hv. 6. landsk. þm. mjög hógvær í málflutningi að þessu sinni.

Ég vil aftur á móti biðjast undan því að sitja uppi með það, að ekkert sé gert í því að jafna orkuverð. Vissulega var náð stórum áfanga í að gera það mögulegt að orkuverð yrði jafnað þegar Vesturlínan var lögð. Jafnframt var gerð tilraun til þess, eins og hv. 6. landsk. þm. veit, að breyta stjórnaraðild Landsvirkjunar á þann veg, að von væri um að uppbygging þess gjaldskrárkerfis, sem hún notar, væri í meiri takt við þann veruleika að Íslendingar þyrftu að hafa jafnan rétt á við það sem best gerist í orkukaupum til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Það er og verður grundvallaratriði að mínu viti að það fáist viðurkennt að sú raforka, sem seld er og seld verður í landinu til upphitunar íbúðarhúsnæðis, eigi að vera á lægsta hugsanlegu verði miðað við hagkvæmustu virkjunarkosti landsins, en ekki að hagkvæmustu virkjunarkostir þessa lands verði notaðir til að framleiða rafmagn fyrir erlenda stóriðju.

Ég gat þess, að hér væri hreyft merku máli. Og mér er ljóst að náist sá jöfnuður, sem hér er verið að leita eftir, ekki í gegnum sölukerfi á raforku, þá verður að leita annarra leiða, m. a. þeirrar að fara í gegnum skattakerfið, barnabætur og almannatryggingar. Á sínum tíma hreyfði ég þessu máli í þáltill. En þó að markmiðið sé nokkuð augljóst að ná jöfnuði, þá er málið í framkvæmd kannske ekki eins einfalt og gerð er grein fyrir hér í l. gr. Í flestum kjördæmum á Íslandi er ástandið t. d. þannig, að þar á sér stað upphitun með olíu, rafmagni og jarðhita eftir hinum ýmsu svæðum. Þau svæði, þar sem ástandið er hvað jafnast, sennilega á verri veginn, eru Vestfirðir og Austfirðir. Ef við aftur á móti horfum á önnur kjördæmi, eins og t. d. Vesturland, þá væru það stór hlunnindi fyrir Borgarnes, svo að við tökum dæmi um þorp, að hafa sérstaka skattvísitölu sem væri byggð á Borgarfjarðarsýslu sem heild, miðað við að þar eru stór svæði sem sitja uppi með raforkuhitun eða þá olíuhitun. Einnig má horfa á Snæfellsnesið í þessu sambandi. Og það liggur við, ef þessi leið yrði farin, að það þurfi að miða við hvern einstakan notanda, því að jafnvel hér á Reykjavíkursvæðinu eru til einstaklingar sem kynda upp með olíu. En hvað um það, þeirri hugsun, sem hér er sett fram, að náist ekki jöfnuður í gegnum orkukerfið verði að leita þeirra leiða sem hér er stungið upp á, er ég í grundvallaratriðum sammála og tel að þjóðarheildin og Alþingi geti með engu móti skotið sér undan þeirri ábyrgð að jafna þetta.

Hitt er svo annað mál, að jafnframt því sem ég lít á mig sem fulltrúa dreifbýlisins get ég ekki skorast undan því að hafa borið ábyrgð á botnlausu óréttlæti gagnvart Reykjavík á vissu sviði. Það nær náttúrlega ekki nokkurri átt að við sitjum uppi með svo kolvitlaust vísitölukerfi að eitthvert mesta þjóðþrifafyrirtæki í þessu landi, Hitaveita Reykjavíkur, þurfi e. t. v. að fara að kynda með olíu. Slíkt er að sjálfsögðu alveg fráleitt. Og mér þætti vænt um það, ef hörðustu hugsjónamenn þess vísitölukerfis, sem við búum við, vildu nú einnig skoða það mál, hvort ekki væri eðlilegt í þeirri stöðu, sem orkumálin eru, að til jöfnunar yrði það einnig viðurkennt, að Hitaveita Reykjavíkur þyrfti á gjaldskrárhækkunum að halda til þess að hún gæti staðið eðlilega að sínum framkvæmdum.

Þessu vil ég koma á framfæri jafnframt því sem ég fagna því, að þetta frv. er komið fram, en vil þó bæta því við, að ég tel að það megi alls ekki slaka á því að stefna að meiri jöfnuði í gegnum innlenda orkugjafa beint, og eru ýmsar leiðir þar til. Það er hugsanlegt að smærri raforkukaupendur, sem selja svo aftur raforku, eins og t. d. Orkubúið, Rafmagnsveitur ríkisins og fleiri aðilar, fái raforku til upphitunar íbúðarhúsnæðis á lægra verði en aðra raforku. Þetta er mál sem hlýtur að brenna á Sunnlendingum öðrum mönnum fremur, því að hvernig í dauðanum er hægt að verja það, að rafmagnsnotendur á bökkum Bolafljóts sitji uppi með þá gjaldskrá sem þeir sitja uppi með í dag í gegnum Rafmagnsveitur ríkisins? Það er ekki verjandi. Það er í sjálfu sér þjóðarskömm og minnir mest á nýlendustefnu hvernig þessi mál standa.