20.01.1982
Neðri deild: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

125. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Hér er um mál að ræða sem oft hefur verið til umr. á hv. Alþingi og er ekki að undra þó að mönnum blöskri sá mismunur og það óréttlæti sem talsverður hluti landsmanna verður við að búa á þessu sviði. Sem betur fer hefur þetta farið batnandi að því leyti til, að það er svo komið að yfir 85% af þjóðinni búa sennilega við hitaveitu til upphitunar. Stefnir þar í rétta átt að sjálfsögðu.

Ég hef alltaf haldið því fram og held því fram enn, að það sé rétt stefna að gera ráðstafanir til þess að nýta innlenda orku til upphitunar húsa og raunar til ýmissar starfsemi. Ég hef alltaf haft þá skoðun og byggi það að nokkru leyti á viðtölum við ráðamenn í orkumálum þessa lands, að verðlagning frá Landsvirkjun sé vitlaus. Landsvirkjun hljóti að geta hagað sínum verðskrám þannig að verð á raforku í heildsölu frá henni til húshitunar sé lækkað. Ég tel sjálfsagt að halda þessari kröfu fram og hef ég komið þeirri skoðun til nefndar þeirrar sem nú er að störfum og væntanlega fer að ljúka sínum störfum í sambandi við ráðstafanir til jöfnunar húshitunar í landinu. Ég tel að þarna sé ein lausnin.

Ég held því einnig fram, að það væri vissulega minni mismunur á orkuverði til húshitunar ef sú sjálfsagða leiðrétting væri gerð á því vísitölukerfi sem við búum við, að orkan væri tekin út úr vísitölunni. Þá væri löngu búið að leiðrétta orkuverðið hér í Reykjavík og þá væri e. t. v. það dæmi, sem við þurfum að leysa: frekari jöfnun, auðveldara viðfangs. Ég hef sjálfur mánaðarlega dæmi fyrir framan mig. Ég borga 6–8 sinnum hærri orkureikning fyrir rafhitun á íbúðarhúsi mínu vestur í Ólafsvík heldur en ég greiði í hitaveitukostnað við íbúð hér vestur á Melum. Þetta er svo augljóst mál í allra augum að það er undravert að það skuli vera stífla í svona sjálfsagðri aðgerð, að taka orkuna út úr vísitölukerfinu og leiðrétta þannig verðið. Og það er það furðulega, sem allir hafa sjálfsagt tekið eftir, að það hefur ekki heyrst ein einasta rödd af Reykjavíkursvæðinu eða þéttbýlissvæðinu hér sem hefði á móti því að greiða hærra hitaveituverð en greitt er nú, þvert á móti. Það harma allir að það sé ekki hægt. En þá hefðum við minna vandamál við að stríða til að jafna hitakostnað.

Hins vegar get ég ekki látið hjá liða að taka fram að ég er ekki á sömu skoðun og hv. síðasti ræðumaður; 5. þm. Vestf., að ég geti sérstaklega mælt með þessu frv. Mér finnst þetta frv. vitlaust, ég segi það alveg eins og er. Ég skil ekki í að menn skuli láta sér detta í hug að þarna sé einföld lausn á ferðinni. Þetta er einmitt það sem ég hélt að menn, sem hafa komið nálægt stjórnsýslu á undanförnum árum og áratugum, hefðu rekið sig á. Það er vonlaust að ætla að fara að koma fram leiðréttingu í gegnum skattakerfi á svona flókinn hátt. Hvernig dettur mönnum í hug að ráðast í það verkefni að koma fram þessu réttlætismáli fyrir þegna landsins, en skilja eftir í leiðinni gamla fólkið, alla lífeyrisþega og fatlað fólk í landinu, lágtekjufólkið, sem er stór hluti af þjóðinni, og þar sem betur fer við núgildandi skattalög ekki að borga tekjuskatt, en þarf að búa kannske að stórum hluta við þetta mikla óréttlæti sem allir eru sammála um, þennan mikla mismun á orkuverði? Hvernig ætla menn að réttlæta það að stíga þetta skref svona? Það finnst mér alveg fráleitt. Ég er algerlega andvígur því. En mér finnst að við þurfum að standa að því að fylgja fram vonandi skynsamlegum tillögum frá þeirri nefnd sem núna er væntanlega alveg um það bil að ljúka störfum og leggja fram tillögur um orkujöfnun. Við þurfum að fylgja einhuga fram því sjálfsagða máli að taka orkuna út úr vísitölunni og minnka þannig um leið þetta óréttlæti, að vísu á kostnað þéttbýlisins að því leyti til, að það þarf kannske að hækka hitaveituverðið hér í Reykjavík um 40–50% í einu stökki, miðað við þá kröfu sem borgaryfirvöld undir forustu Alþb. leggja fram opinberlega. Þetta er spor sem verður að stíga. Sem betur fer er búið að jafna almennt orkuverð miklu meira en menn kannske gera sér grein fyrir. Mismunurinn á almennu orkuverði í dag, á verði Rafmagnsveitu Reykjavíkur og verði RARIK, er einhvers staðar í kringum 20%. Þar hefur því gengið nokkuð saman á undanförnum árum og er það vel.

Ég skal ekki tefja meira tímann hér, en ég verð að segja það að mér finnst furðulegt að halda því fram, eins og kom fram í máli hv. 6. landsk. þm., að lykillinn að lausn vinnudeilna á Vestfjörðum væri að samþykkja svona frv. Ég trúi því ekki, að forustumenn verkalýðsins á Vestfjörðum hafi þá skoðun að samþykkt á slíku frv. mundi leysa vinnudeilu á Vestfjörðum, vegna þess að það leysir ekki nema að hluta til óréttlæti á því svæði frekar en öðrum. Hins vegar fylgi ég heils hugar öllum aðgerðum sem verða til þess að ná þarna fram réttlæti, þ. e. að jafna orkuverðið í landinu. Ég hef barist fyrir því hér á Alþingi og sagt það oftar en einu sinni í þessum ræðustól, að þetta er mál sem verður að nást fram. Og ég bind miklar vonir við að sú nefnd, sem er að fjúka störfum á þessu sviði, komi með skynsamlegar tillögur sem ríkisstj. hlýtur að vera knúin til að koma í framkvæmd. Ég skal vinna heils hugar að því að svo verði gert.