21.01.1982
Sameinað þing: 41. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

53. mál, upplýsinga- og tölvumál

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Á þskj. 56 er að finna till. til þál. um stöðu, þróunarhorfur og stefnumótun í upplýsinga- og tölvumálum. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir þessari till., en flm. ásamt frummælanda eru eftirtaldir hv. þm.: Guðmundur G. Þórarinsson, Páll Pétursson, Þórarinn Sigurjónsson, Hákon Hákonarson, Halldór Ásgrímsson og Alexander Stefánsson. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fram fari athugun á stöðu og þróunarhorfum í upplýsinga- og tölvumálum og á hvern hátt unnt er að stjórna þeirri þróun.

Alþingi felur ríkisstj. að skipa nefnd er kanni almenna stöðu þessara mála, þróunarhorfur og bendi á valkosti varðandi stefnumótun og opinbera ákvarðanatöku á fyrrgreindu sviði.

Nefndin geri tillögur um með hvaða hætti íslenskt þjóðfélag geti best numið og hagnýtt sér hina nýju tækni til alhliða framfara, svo sem að því er varðar atvinnumál, félagsmál, fræðslumál, mál varðandi almennar upplýsingar og aðra þá þætti er varða samfélagið. Nefndin skal við störf sín hafa hliðsjón af þeirri vinnu og þeim skýrslum sem þegar kann að vera lokið hérlendis og erlendis. Nefndin skal hafa lokið störfum og birt niðurstöður fyrir árslok 1982.“

Við flm. þessarar till. erum þeirrar skoðunar, að þessum málum þurfi að sinna í miklu ríkari mæli en gert hefur verið til þessa. Því varð úr að láta umfjöllun hér á Alþingi bera að með þessum hætti, þ. e. í formi þáltill.

Eins og kunnugt er hefur notkun tölvutækninnar rutt sér til rúms hérlendis á síðustu örfáum árum, og víða sjáum við þess merki, að tölvuvædd meðhöndlun upplýsinga og tölvustýrð tækni muni breyta þjóðfélagsgerðinni til muna. Rætt er um að svo markverðar og stórstígar breytingar séu í vændum að líkja megi við byltingu.

Ég hygg að enginn maður mótmæli því, að okkar þjóðfélag, eins og raunar flest önnur vestræn ríki, sé illa í stakk búið að takast á við þann vanda sem fyrirsjáanlega mun fylgja því sem kalla mætti upplýsinga- og tölvubyltingu. Margs konar tækni til að afla, vinna úr og miðla upplýsingum hefur rutt sér til rúms á s. l. árum. Vöxtur þessarar. tækni hefur verið miklu meiri en flestir hafa áttað sig á. Möguleikar á framleiðslu ódýrra eininga í því tilliti hafa stóraukist. Hér er að sjálfsögðu átt við örtölvurnar svonefndu.

Miðað við þá þróun, sem á undan er gengin, virðist augljóst að alls kyns tölvur, tölvuvædd og tölvustýrð heimilistæki verði almenningseign innan fárra ára. Fyrirtækin í landinu taka þessa tækni sem óðast í sína þjónustu, enda er áhuginn allverulegur. Eins og um aðrar tækniframfarir er útilokað að sjá fyrir endann á þróun tölvutækninnar, enda er almennt talið að um sé að ræða þróun sem er rétt í þann mund að komast á flugstig. Fram undan gætu því verið mun örari breytingar en orðið hafa til þessa.

Í ljósi þeirra áhrifa, sem nú þegar hafa átt sér stað, er ekki óeðlilegt að ætla að það, sem í vændum er, geti valdið djúpstæðum breytingum og verulegri röskun á okkar þjóðfélagsgerð. Í þessu sambandi er mjög brýnt að áhrifaaðilar sem og allur almenningur séu meðvitandi um eðli þeirrar þróunar sem hér er vikið að, en standi ekki álengdar og bíði þess sem verða vill. Það er skylda okkar að hafa hönd í bagga með þeirri þróun svo sem kostur er, í þeim tilgangi að tryggja alhliða uppbyggingu okkar litla samfélags. Sú þróun, sem ég hef gert hér að umtalsefni, getur nefnilega átt sér skuggahliðar. Ef ekki eru hafðar í frammi í tæka tíð aðgerðir til að koma í veg fyrir hvers kyns röskun, sem af henni kann að leiða, eru erfiðleikar vísir af ýmsum toga.

Félagsleg vandamál eins og atvinnuleysi hafa í mörgum tilfellum verið fylgifiskar umræddrar tækni þar sem hún hefur verið innleidd erlendis. Fyrirsjáanlegt er að þar mun atvinnuleysi af hennar völdum aukast allverulega á komandi árum. Enn sem komið er er mjög óvíða fyrir hendi yfirsýn yfir þær breytingar sem fylgja munu í kjölfari tölvutækninnar. Þá yfirsýn skortir jafnframt hér á landi. Í ljósi þess er nauðsynlegt að gerð verði heildarúttekt á þeim möguleikum, tækifærum og hættum sem hinar öru breytingar munu vafalaust hafa í för með sér.

Margir þeirra, sem fjallað hafa um þær þjóðfélagsbreytingar sem tölvutæknin mun valda, fullyrða að ný þjóðfélagsgerð, hið svokallaða upplýsingaþjóðfélag, muni hasla sér völl. Þessar hugmyndir virðast alls ekki út í hött ef tekið er mið af þeim möguleikum sem tölvutæknin býður upp á og verða hagnýttir, ef að líkum lætur, á komandi árum. Í þessu sambandi má t. d. geta þeirra möguleika sem tölvur og flest fjarskiptatækni býður upp á varðandi hagnýtingu á símakerfinu til þess að framkvæma vinnu annars staðar en í húsnæði fyrirtækja eða stofnana. Þannig má t. a. m. vinna mörg skrifstofustörf á heimilum fólks eða á hverfabundnum vinnustöðum, sem tengdir eru þeim, sem unnið er fyrir, gegnum símakerfið.

Hér verður ekki farið út í notkun og hagnýtingu tölvutækninnar á hinum ýmsu sviðum, slíkt yrði allt of langt mál. Sumt af því er þó þekkt hérlendis en annað ekki. Örfá atriði er drepið á í grg. og vísa ég til þeirra. Ég hygg að flestir séu sammála um að skjótra aðgerða sé þörf ef þjóðfélagið á ekki að gjalda tilviljanakenndrar uppbyggingar. Eitt hið fyrsta, sem gera þarf, er að almenningur eigi þess kost að fá sem gleggsta hugmynd um tæknina og hið nýja þjóðfélag sem knýr dyra. Almenn og víðsýn fræðsla um þessi mál er óumflýjanleg. Sú kennsla, sem nú þegar fer fram, er takmörkuð og tæknileg í eðli sínu. Hún er snauð af umfjöllun um áhrif tækninnar á þjóðfélagið, um ýmsa almenna möguleika sem tæknin býður upp á.

Herra forseti. Ég hef kosið að stikla á stóru í framsögu fyrir þessu máli. Svo sem ég hef vikið að og getið er í grg. með till. er að dómi okkar flm. ljóst að eigi að koma í veg fyrir sumpart tilviljanakennda, sumpart of dýra þróun í upplýsinga- og tölvumálum hér á landi í næstu framtíð þarf að vinna að stefnumótun, samræmingu, stöðlun og almennri víðsýnni fræðslu. Með því móti verðum við húsbændur hinnar nýju tækni en ekki þjónar.

Ég leyfi mér að vona að þingheimur líti svo á að samþykkt þessarar till., sem gerir ráð fyrir heildarúttekt á stöðu og þróunarhorfum á umræddu sviði, sé spor í rétta átt. Ég vil svo að loknum þessum hluta umr. mælast til þess að till. verði vísað til allshn.