21.01.1982
Sameinað þing: 41. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

53. mál, upplýsinga- og tölvumál

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Um leið og ég lýsi yfir fyllsta stuðningi við öll þau meginmarkmið, sem lýst er í þessari till. til þál. og hv. þm. Davíð Aðalsteinsson hefur hér mælt fyrir, langar mig aðeins til að vekja athygli á tvennu. Í fyrsta lagi er kannske ekki alveg nógsamlega skýrt að orði kveðið um það, hvers konar vinnu þessi nefnd eigi að inna af hendi og síðan hvernig með niðurstöður hennar skuli farið. Vera má að það væri skynsamlegt í þeirri nefnd, sem fær þetta til umfjöllunar, að kveða skýrar á um þau efni. En það er þó kannske aukaatriði og minni háttar í þessum efnum.

Hitt er aftur algjört aðalatriði í þessu máli, sem raunar er mjög skýrt og ágætlega sett fram í grg. fyrir till., með hverjum hætti þessi tölvubylting, sem svo er stundum kölluð, mun hafa áhrif á atvinnumarkaðinn hér á allra næstu árum. Það er auðvitað alveg ljóst, þegar litið er til landanna í kringum okkur, að það gífurlega atvinnuleysi sem þar á sér stað og nemur jafnaðarlega um 10% í nágrannalöndum okkar, stafar ekki nema að hluta til af því sem nefnt hefur verið efnahagskreppa. Hinn hluta þessa ástands má beint og óbeint rekja til þeirrar tæknibyltingar sem hér er verið að flytja till. um og reyna að koma svo fyrir að við höfum tök á henni en ekki hún á okkur. Þetta er auðvitað algjört aðalatriði málsins.

Ég minni á það, að fyrir nokkrum mánuðum hélt Alþýðusamband Íslands ráðstefnu um þessi efni. Mjög eðlilega hafa forvígismenn þeirra samtaka fyrir hönd sinna umbjóðenda miklar áhyggjur af því, hvert stefni í þessum efnum. Það er að vísu ekki ákvæði um það í þessari till., en ég vil undirstrika það, að auðvitað er alveg sjálfsagt mál að í þeirri nefnd, sem hér er verið að leggja til að skipuð verði, vegi þáttur launþegasamtakanna þungt, jafnvel svo að hv. allshn. geri það beinlínis að till. sinni að launþegasamtökin eigi beina aðild með nokkrum einstaklingum úr nokkrum þáttum atvinnulífsins að þessari nefnd, vegna þess að það er auðvitað þar sem áhyggjurnar hljóta að vera mestar og áhuginn þess vegna mestur.

Ég tel að hér sé hreyft mjög mikilvægu máli, — máli sem er í raun veigamikil undirrót þess ástands í atvinnumálum sem ríkir allt í kringum okkur. Kannske mætti að þessu tvennu leyti, sem ég hef nefnt hér, skerpa tillögugreinina nokkuð. En það er þó aukaatriði hjá mikilvægi þessa máls.